7.8.2008

Lögbundin stjórnsýsla og nektardans.

 

Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi vinstri/grænna, lætur að því liggja í grein í Fréttablaðinu 6. ágúst, að það hafi ráðist af geðþótta mínum og þvingunum gagnvart lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, að dóms- og kirkjumálaráðuneytið komst að þeirri rökstuddu niðurstöðu  hinn 15. maí sl., að umsagnir embættis lögreglustjórans um rekstrarleyfi vegna veitingastaðarins Goldfingers í Kópavogi væru haldnar þeim efnisannmörkum, að ógilda bæri ákvörðun sýslumannsins í Kópavogi frá október 2007 um rekstrarleyfið og sýslumanni bæri að leita eftir nýrri umsögn lögreglustjórans áður en hann tæki veitingu umrædds leyfis til meðferðar á ný.

Úrskurð ráðuneytisins um þetta efni má lesa á vefsíðu þess, en þar var hann birtur með fréttatilkynningu 23. maí, 2008.  Ráðuneytið tók málið til úrskurðar á grundvelli stjórnsýslukæru frá lögmanni Goldfingers. Að kenna málsmeðferð ráðuneytisins og niðurstöðu þess við þvingun á lögreglustjórann,  lýsir bæði vanþekkingu og óvild.

Samkvæmt lögunum skal sá, sem veitir leyfi til að reka veitingastað, í þessu tilviki sýslumaðurinn í Kópavogi, leita umsagna sveitarstjórnar, heilbrigðisnefndar, slökkviliðs, vinnueftirlits,byggingarfulltrúaog lögreglu sem m.a. kveður á um nauðsyn til dyravörslu.

Óheimilt er að gefa út rekstrarleyfi ef einhver framangreindra aðila leggst gegn útgáfu leyfisins og skal rekstrarleyfi jafnframt bundið þeim skilyrðum sem fram kunna að koma í umsögnunum.

Ef banna ber veitingastöðum alfarið að bjóða gestum sínum nektardans,  þarf að taka af skarið um slíkt bann í lögum. Það hefur ekki verið gert. Núgildandi lög um þetta efni voru sett vorið 2007. Af umræðum um lagafrumvarpið má ráða, að þingmenn gerðu sér vel ljóst, að í lögunum segði, að sá, sem veitti rekstrarleyfi gæti heimilað að fram færi nektardans í atvinnuskyni á veitingastað, að fengnum jákvæðum umsögnum umsagnaraðila. Á slíkum stöðum væri sýnendum hins vegar óheimilt að fara um á meðal áhorfenda og jafnframt væru hvers konar einkasýningar bannaðar.

Svandís Svavarsdóttir situr í borgarstjórn Reykjavíkur og kemur því að umsögn um það, hvort heimila skuli nektardans í atvinnuskyni. Umsögnin verður að vera jákvæð til að leyfið sé veitt. Svandís verður eins og allir opinberir sýslunarmenn að fara að lögum við ákvörðun sína.