23.7.2008

Kastljós á lögreglumál.

Þáttur í Kastljósi 23. júlí 2008.

Landsamband lögreglumanna hefur að undanförnu fullyrt að lögreglan sé undirmönnuð og ekki nógu sýnileg sem sé þvert á þá stefnu sem mörkuð hefur verið. Þá hefur mikið borið á gagnrýni á embætti ríkislögreglustjóra, það sé að stækka á kostnað annarrar löggæslu auk þess sem efnahagsbrotadeild embættisins hefur sætt mikilli gagnrýni ekki síst í kjölfar Baugsmálsins. Björn Bjarnason er sestur hjá Sigmari.

Sigmar Guðmundsson: Það eru fyrst og fremst löggæslumál sem við ætlum að ræða hér í kvöld en ef tími vinnst til þá ætlum við líka að tala um evru og jafnvel sitt hvað fleira. Björn þú þekkir þessa umræðu í kringum lögreglumennina, þeir vilja meina að löggæslan sé ekki nógu sýnileg og er það ekki rétt hjá þeim?

Björn Bjarnason: Ég vil hafa mjög sýnilega löggæslu og við erum alveg sammála um það ég og Landssamband lögreglumanna að efla löggæsluna og það hefur verið unnið mjög mikið starf á því sviði á undanförnum árum og ég er ákaflega stoltur af framgöngu íslensku lögreglunnar og hve öflug hún er. En auðvitað þarf hún að eflast í takt við breytingar í þjóðfélaginu og eitt af því sem við erum að gera núna eftir að við höfum komið á nýskipan lögreglumála frá 1. janúar 2007 er að fara í endurskoðun á lögreglulögunum og skipa lögreglunni með skýrari og skarpari hætti heldur en gert hefur verið, til þess að hún sé vonandi bæði öflugri og sýnilegri. Það er mitt markmið og ég vona að ég muni eiga mjög gott samstarf við Landssamband lögreglumanna um það.

Sigmar: Já, en finnst þér samt ekki að það vanti sýnileikann núna, bara svo við leggjum mat á þessa umræðu sem verið hefur.

Björn Bjarnason: Sýnileiki er  mjög afstætt hugtak þegar er verið að tala um löggæslu. Hvað er sýnileiki lögreglu? Er það að lögreglumenn séu gangandi á götum úti eða er það að lögreglumenn séu viðbragðsfljótir þegar þarf á þeim að halda og þeir komi að og bregðist skjótt við þegar mikið er í húfi. Ég get nefnt dæmi eins og þegar jarðskjálftinn varð í lok maí að þá innan klukkustundar höfðum við kallað út 300 björgunarsveitarmenn, 30 lögreglumenn voru komnir héðan af höfuðborgarsvæðinu á Suðurland, líka hópur manna frá sérsveitinni. Þetta er sýnileg löggæsla sem skiptir gífurlega miklu máli á þessum stað og þessum tíma. Þannig að ég tel að við höfum möguleika á því að hafa hér sýnilega löggæslu þegar á þarf að halda. Oft þegar verið er að ræða um þetta núna er verið að ræða,-  hvað ætli það 700 metrar frá Klapparstíg að Aðalstræti og það eru atburðir sem gerast þar frá eitt aðfaranótt sunnudags fram til klukkan 4 um morguninn -  og það er verið að tala um að það eigi að mæla sýnileika lögreglu eftir því hvað margir lögreglumenn eru á sveimi á þessum stað á þessum tíma. Ég held að við þurfum, ef við erum að tala um þetta atriði sérstakleg,  þá þurfum við að ræða sérstaklega um þennan þátt í borgarlífinu. Ef það eru útihátíðir skipulagðar, segjum þjóðhátíð í Vestmannaeyjum, Landsmót hestamanna, Írskir dagar á Akranesi að þá skipuleggja menn slík mannamót með því að undirbúaþau  vel með lögreglu, björgunarsveitarmönnum og heilbrigðisstarfsmönnum til þess að það sé haldið utan um hópinn. Eigum við að nálgast þennan 700 metra blett [á þennan hátt]?

Sigmar: Er það leið að skilgreina þetta eins og þetta sé bara einhver stór útihátíð allar helgar?

Björn Bjarnason: Ja, það hefur verið sagt við mig af þeim, sem eru að líta á þetta, hvort þetta sé ekki bara stór útihátíð um hverja helgi sem þarf að nálgast og skipuleggja með allt öðrum hætti og velta fyrir sér. Þá er líka spurning sem borgaryfirvöld og allir þurfa að velta fyrir sér hvort staðið skuli þannig að málum að það sé þessi útihátíð um hverja helgi í Reykjavík og menn séu að skipuleggja mál þannig í höfuðborginni að það sé æskilegt. Og á sama tíma sjáum við að það eru fleiri og fleiri sem eru að fjárfesta í hótelum í miðborginni, fleiri og fleiri sem eru að fjárfesta í annars konar starfsemi til að fólk njóti sín þar betur en verið hefur. Þannig að þetta finnst mér mikið álitaefni.

Sigmar: En er það ekki áhyggjuefni Björn vegna þess að þú hefur sjálfur og ert að tala um núna að það þurfi að styrkja sýnilega löggæslu og það er í raun og veru markmiðið og stefnan. Á sama tíma er það að gerast að menn fást ekki til starfa vegna þess að launakjör eru bág og léleg og eldsneytiskostnaður er að fara þannig með embættin að það þarf að draga úr ýmissi þjónustu, ég meina þetta er náttúrulega svolítið djúpstæður vandi er það ekki?

 

Björn Bjarnason: Kjaramál eru náttúrulega viðfangsefni í kjarasamningum og það verður samið við lögreglumenn í haust þannig að vonandi tekst nú að vinna sig út úr því. Varðandi rekstrarvandann út af eldsneytiskostnaðinum þá er það viðfangsefni sem lögreglan stendur frammi fyrir, Landhelgisgæslan stendur frammi fyrir, Hafrannsóknastofnun stendur frammi fyrir, Vegagerðin stendur frammi fyrir, allar þessar ríkisstofnanir og við hvert og eitt stöndum frammi fyrir með okkar bíla. Spurningin er sú ætlum við að minnka notkun farartækjanna eða ætlum við að láta meiri peninga í þessar stofnanir. Ætlum við sem einstaklingar að verja meira fé í okkar bílakostnað. Það verður að móta almenna stefnu af hálfu ríkisins í þessu og þessar stofnanir allar, bæði löggæslustofnanir og aðrar verða að laga sig að þeirri stefnu. Og ég vænti þess að þingið og þeir sem fara með fjárveitingavaldið að þeir móti þá stefnu þannig að við vitum hvernig á ...

Sigmar: Muntu þrýsta á að það fari meiri peningur í þessa ... vegna þess að þú hefur náttúrulega eitthvað ...

Björn Bjarnason: Ég hef þegar vakið athygli á þessu varðandi þær stofnanir sem mig varðar bæði lögregluna og Landhelgisgæsluna. Landhelgisgæslan er líka mjög háð sveiflum í gengi vegna þess að við leigjum þrjár þyrlur og til þess þarf að líta. Við höfum vakið athygli á þessu já.

Sigmar: Sveitarfélögin í kringum okkur og Reykvíkingar líka eru farnir að huga að öðrum leiðum, það er farið að ráða einhver öryggisþjónustufyrirtæki. Það er komin einhver svona sérstök hverfagæsla og miðborgarþjónar, þetta eru menn sem hafa engar valdheimildir en svona einhvern veginn má alveg draga þá ályktun að þetta séu viðbrögð við því að löggæslan sé ekki nógu áberandi er það ekki?

Björn Bjarnason: Ég held að þegar við gerðum samninginn, og ég stóð að því með lögreglunni og yfirvöldum að semja við Seltjarnarnesbæ og tók þátt í þeim viðræðum og áttaði mig á því hvernig að því var staðið, þá var það gert sem tilraunaverkefni af hálfu Seltjarnarnessbæjar. Nú kemur Jónmundur Guðmarsson fram, bæjarstjóri, og segir: Þessi tilraun hefur heppnast svo vel að það hafa ekki orðið nein innbrot hér á Seltjarnarnesi síðan við gerðum þennan samning við Securitas. Þannig að þeim hefur tekist að tryggja öryggi borgaranna betur. Ég hef öryggiskerfi heima hjá mér og lít þannig á að það sé ekkert falskt öryggi. Ég hef keypt það til þess að verja mínar eignir. Þarna er viðbótarþjónusta af hálfu sveitarfélagsins og mér finnst engin ástæða?

Sigmar: En heldurðu að hún sé ekki til komin vegna þess að hin þjónustan er ekki nógu öflug?

Björn Bjarnason: Ekki taldi ég það þegar ég var að ræða við Jónmund um þetta á sínum tíma. Nú segja hin sveitarfélögin af því að það hefur gengið vel á Seltjarnarnes, þá ætlum við að skoða þetta. Lítum á tölur af því tölfræðin er náttúrulega það sem við þurfum líka að styðjast við. Ef við skoðum innbrot, fjölda innbrota á höfuðborgarsvæðinu frá janúar, 1. janúar til 1. júlí 2007 og berum hann saman við innbrotafjölda á þessu ári á sama tíma þá hefur innbrotum fækkað um 180 sem sýnir og að annað hvort eru færri þjófar eða það hefur tekist að halda þeim betur í skefjum. Lítum á fjölda lögreglumanna á bak við hvern íbúa og það hefur verið talað um í Hafnarfirði og Garðabæ að það vanti lögreglumenn og það hafi verið betra áður. Þá voru tæplega þúsund íbúar á bak við hvern lögregluþjón, nú eru tæplega 600 íbúar á bak við hvern lögregluþjón. Þannig að ef  tölfræðin er skoðuð og allt þetta er skoðað þá kemur ekki í ljós að það hafi orðið einhver breyting til hins verra. Þannig að ég veit ekki á hverju ég á að byggja. Ég veit ekki á hverju sveitarstjórnarmenn byggja þegar þeir taka sínar ákvarðanir en þegar ég er að meta þetta að þá sé ég þessar tölur.  En þar með er ekki sagt,  að ég sé ekki hlynntur því að efla lögregluna. Það hefur nú verið mitt markmið í mörg ár.

Sigmar: Já, en hvað með hérna ríkislögreglustjórann, þú þekkir nú þá miklu gagnrýni sem það embætti hefur orðið fyrir. Má ekki alveg segja að hún sé að einhverju leyti réttmæt ef við til dæmis hugsum bara út frá Baugsmálinu sem hefur verið mikið í umræðunni þegar lagt er af stað með óskaplega miklar ákærur, málið er rannsakað, þetta er 6 ára ferli og niðurstaðan verður eins og við þekkjum ekkert sérstaklega mikil svona miðað við það sem lagt var upp með?

Björn Bjarnason: Ja, hvað finnst þér ef  menn eru grunaðir um eitthvað, hvað finnst þér að refsingin eigi að vera þung til þess að menn telji að það [að ákæra]  sé algjörlega árangurslaust.

Sigmar: En ef við tölum bara um þetta sem hlutfall af eða ég veit ekki hvort það á að nota orðið hlutfall en ef við skoðum bara upphaflegu ákærurnar og það sem að síðan var sakfellt fyrir, þetta er ekkert mikið Björn?

Björn Bjarnason: Nei, auðvitað má fjalla um það hvort ákæran hafi verið of breið, hvort það hafi átt að þrengja ákæruna meira og hafa hana þannig kannski markvissari til þess að beina athygli dómaranna að einhverjum meginatriðum. Það er ákveðin tækni við það að semja ákærur, sem ég þekki ekki. En ef maður les fræðibækur þá er greinilegt, að, sumir telja að það verði að ákæra fyrir allt sem við sjáum og teljum að þurfi að taka á. Aðrir segja takiði bara höfuðatriðin og ákærið fyrir þau. Þannig að þetta er ansi?.

Sigmar: En segir þetta okkur ekki eitthvað það að það hafi eitthvað verið að í þessu máli hjá embættinu?

Björn Bjarnason: Ég veit  ekki hvort það segir okkur endilega nokkuð um það. Það segir okkur að það er lagt fyrir dómara og dómarar komast að ákveðinni niðurstöðu og málinu er lokið með þeim hætti. Það segir ekki, ákæruvaldið á ekki alltaf að hafa rétt fyrir sér - sem betur fer. Ef  það ætti að hafa rétt fyrir sér í öllum tilvikum þá þyrftum við í sjálfu sér enga dómstóla. Það verður að leggja sitt mál fyrir dómara. Varðandi efnahagsbrotadeildina þá vil ég vekja athygli þína á því að nú hefur verið samþykkt frumvarp um ný sakamálalög. Það eru ný sakamálalög sem eru að taka gildi núna. Samkvæmt þeim lögum er ákæruvaldinu gjörbreytt. Nýskipan ákæruvaldsins er að koma til framkvæmda og það er styrkt ákæruvaldið og tengslin við efnahagsbrotadeildina verða önnur samkvæmt þeim lögum heldur en verið hefur. Þannig að þarna hefur verið tekið á ef  menn telja að þetta hafi verið brotalöm að þá er Alþingi þegar búið að taka á þessu og nú þegar erum við farnir af stað að undirbúa ...

Sigmar: En svona almennt séð núna til dæmis flokksmenn í Samfylkingunni þeir hafa verið einna harðastir í gagnrýni sinni á þetta embætti, Lúðvík Bergvinsson vill nú hreinlega skoða hvort það eigi ekki bara hreinlega að leggja það niður?

Björn Bjarnason: Já, mér finnst það voðalega einkennileg afstaða og ég er nú alls ekki sammála því. Fyrst og fremst stjórnsýsluhlutverk embættisins er sérstakt. Síðan eru þar greiningardeild og sérsveitin sem er miðlæg þjónustusveit við öll lögregluumdæmi í landinu. Greiningardeildin gaf nýlega út hættumat í fyrsta sinn, fyrsta sinn sem við birtum hættumat um það hvernig menn líta á stöðuna hér og hvað eigi að leggja áherslu á. Svona hættumat hefur verið birt í Svíþjóð, sænski kollegi minn skrifaði núna grein og sagði í ljósi þess að skipulögð glæpastarfsemi er að aukast í Svíþjóð þá ætla ég að koma á laggirnar sérstakri lögreglusveit 200 manna sem hefur allt landið undir til þess að vinna gegn skipulagðri glæpastarfsemi og hún verður miðlæg. Þannig að þróunin í þessum málum er þannig að líka þótt menn séu kannski á móti miðlægri stjórn í löggæslu af einhverjum prinsipástæðum, ég tel að þetta sé einhver hugmyndafræði sem Lúðvík byggir á. Ef  menn eru á móti því í prinsippinu,  að það sé miðlæg löggæsla, þá er umhverfið og hin skipulagða glæpastarfsemi þannig, að í mörgum löndum sjá menn nauðsyn þess að hafa sveitir sem geta farið um landið allt. Sérsveitin er að nokkru leyti slík sveit og fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er líka sveit sem lætur víða að sér kveða eins og við sáum í Fáskrúðsfirði í fyrra.

Sigmar: Hvað finnst þér um það Björn þegar að þinn samflokksmaður og þingmaður Árni Johnsen kemur fram með þeim hætti sem hann gerir í grein og segir að það sé svona einhver samtrygging og samsæri í gangi í lögreglukerfinu og dómskerfinu þegar kemur að ákveðnum málum?

Björn Bjarnason: Já, Árni Johnsen hefur náttúrulega sína sýn á þessi mál og ég get ekki sett mig í spor hans og ég held að þú getir það ekki heldur. Og ef  hann með sína sýn á málið telur að það sé eitthvað samsæri, þá á hann náttúrulega að leggja fram gögn um það til þess að sýna okkur fram á það. Ég hef ekki þá sýn að þessir menn starfi í einhverjum samsærisanda gegn einstaklingum. Það er ekki mín sýn og ég tel að við höfum þá?

Sigmar: Hlustarðu eftir því sem Árni er að segja þegar hann talar svona?

Björn Bjarnason: Þá öryggisventla. Þú tókst hann nú hérna í viðtal og ég horfði á ykkar samtal og ég lokaði ekki eyrunum, ég hlustaði á samtalið. En ég er ekki sammála því sem hann sagði.

Sigmar: Nei, hérna evran, þú hefur verið mikið að ræða þau mál og leggur það til að það sé hægt að skoða það að minnsta kosti hvort það eigi að taka upp evru á grundvelli EES-samningsins. Er það leið sem að þú vilt fara sjálfur?

Björn Bjarnason: Það sem ég hef sagt, Sigmar, er það, að það er ekkert í stjórnarskrá Evrópusambandsins sem bannar Evrópusambandinu að semja við þriðju ríki um samstarf í gjaldeyrismálum og þar með um evruna, upptöku hennar eða eitthvað annað. Þetta er það sem ég hef verið að segja, af því menn hafa sagt, annað hvort  evra og aðild eða ef við viljum ekki aðild að þá verðum við að hafa það sem úti frýs, þegar kemur að gjaldeyrissamstarfi við Evrópusambandið.

Sigmar: Svo vantar pólitíska viljann. En vilt þú beita þér fyrir því að sú leið verði farin að skoða það hvort það sé pólitískur vilji innan þessara aðildarríkja sem þar eru?

Björn Bjarnason: Mér finnst  í þessu máli, sem við stöndum frammi fyrir, gjaldmiðilsmálinu, og[miðað við] þessar umræður sem eru í okkar gjaldmiðilsmálum og alla stöðuna, þá finnst mér,  að það eigi ekki að loka neinum leiðum fyrirfram og það eigi að velta fyrir sér öllum kostum. Og ég er sannfærður um það að ef  menn undirbúa sig vel, leggja málið vel fyrir og hafa góð rök, ég er ekki hagfræðingur þannig að ég kann ekki þau rök, en ef  menn leggja góð rök og fara og ræða við Evrópusambandið þá er ég ekki í neinum vafa um, að menn munu ekki skella á okkur hurðunum. Þeir munu ræða það, svo er spurningin höfum við nægan sannfæringarkraft eða hvað viljum við.

Sigmar: En ég er líka að reyna að fá þig til þess að segja okkur hvað þú vilt gera sjálfur?

Björn Bjarnason: Ja, ég segi, ég tel að það eigi að skoða þennan möguleika eins og alla aðra. Það eigi ekki að útiloka eina leið, ef hún er lögmæt og heimilar okkur að fara hana, ef við teljum að það séu rök fyrir að fara hana,  sem ég segi, að ég þekki það ekki nógu vel, af því að ég er ekki hagfræðnguri og ekki neinn sérfræðingur á þessu sviði. Ég er hins vegar, tel mig innan gæsalappa, sérfræðing í málefnum Íslands og Evrópusambandsins og það sem ég er að segja, að sem slíkur sérfræðingur get ég sagt, það er ekki fyrirfram búið að loka neinum dyrum. Við getum farið með þetta mál inn í virkið í Brüssel og það er ekki hægt að segja við okkur: Heyrðu, við höfum ekki leyfi til að ræða við ykkur.

Sigmar: Örstutt í lokin vegna þess að ég veit að þú vilt ekki tala efnislega um mál Paul Ramsesar sem er til meðferðar hjá þér og þínu ráðuneyti en hvenær kemur niðurstaða í það?

Björn Bjarnason: Það sem við erum með til meðferðar er lítið brot. Við erum bara með það til meðferðar, hvort hann hafi með réttmætum hætti verið sendur úr landi. Við erum ekki með efnislegu kröfuna.

Sigmar: Nei, nei hvort það eigi að taka mál hans fyrir hér.

Björn Bjarnason: Já, við erum bara með brottvísunina. Ég tel að það komi í ágúst niðurstaða frá okkur.

Sigmar: Takk fyrir komuna.