16.7.2008

Ekki lokað vegna ófærðar

Morgunblaðið 16. júlí, 2008.

Nokkrar umræður hafa orðið um hvort unnt sé að semja um evrumál við Evrópusambandið (ESB) án aðildarviðræðna.

Meginniðurstaða mín er, að 111. gr. 3 töluliður sáttmála Evrópusambandsins (Treaty of the European Community TEC) heimili ráðherraráði ESB að fengnum meðmælum framkvæmdastjórnarinnar og eftir samráð við evrópska seðlabankann að semja við þriðja ríki um það, sem í greininni er nefnt „monetary regime or foreign-exchange regime matters“, þ.e. peninga- og gjaldeyrismál. Samningar samkvæmt þessum tölulið binda stofnanir ESB, evrópska seðlabankann og aðildarríki ESB. Samningana þarf ekki að bera undir þjóðþing aðildarríkja ESB til fullgildingar.

Á þessum grunni hefur ESB samið um evruaðild við San Marínó, Páfagarð, Mónakó og Andorra. Vissulega á annað við um þessi ríki en Ísland, þegar kemur að stjórnmálaröksemdum fyrir slíkum samningum. Sömu lagarök gilda hins vegar um samningsheimild ESB og ef samið yrði við Ísland. Lögheimildin breytist ekki, þótt stjórnmálarökin breytist.

Stjórnmálarök af Íslands hálfu er meðal annars að finna í inngangi að EES-samningnum en þar segir til dæmis að aðildarríki samningsins hafi að markmiði að stuðla að samræmdri þróun á evrópska efnahagssvæðinu og þau séu sannfærð um nauðsyn þess að draga með samningi sínum úr efnahagslegu misræmi milli svæða.

Ramminn um þá skoðun, að unnt sé að semja um peninga- og gjaldeyrismál sérstaklega við ESB, er skýr og einfaldur.

Morgunblaðið kemst að þeirri niðurstöðu í forystugrein 15. júlí, að þessi leið sé ófær. Of hættusamt geti verið að raska þannig ró Brusselvaldsins. Slíkum sjónarmiðum hefur hvað eftir annað verið hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslum í aðildarríkjum ESB. Þar eins og hér vilja menn að sjálfsögðu, að lögheimildir og skýrir þjóðarhagsmunir ráði, þegar rætt er við valdhafa í Brussel. Hér skiptir mestu að vinna málstað Íslands pólitísks stuðnings og til þess þarf að sjálfsögðu pólitískan vilja.