14.7.2008

Evran er ekki lengur ESB-gulrót.

Þjóðmál haust 2007.

Í umræðum um tengsl Íslands og Evrópu-sambandsins (ESB) hefur því sjónarmiði verið hreyft, að engir augljósir hagsmunir knýi á um aðild Íslands að sambandinu — EES-samningurinn tryggi stöðu Íslands á þann veg, að í raun verði það ekki gert betur með ESB-aðild.

Um langt skeið hafa talsmenn ESB-aðild-ar haldið fram þeirri skoðun, að utan ESB séu Íslendingar í raun eins og hver annar leiguliði gagnvart valdamönnum í Brussel. Þeir verði að sitja og standa samkvæmt einhliða fyrirmælum frá Brussel. Er gefið til kynna, að allt að 80% af öllum bindandi ákvörðunum fyrir ESB-ríkin sé stungið ofan í kokið á Íslendingum, sem fái ekki rönd við reist. Það sé því lýðræðisleg nauðsyn fyrir Íslendinga og í anda þjóðlegrar reisnar íslenska ríkisins, að Ísland gangi í Evrópusambandið.

Í skýrslu Evrópunefndar Um tengsl Íslands og Evrópusambandsins, sem kom út í mars 2007, er slegið á þessa röksemd fyrir aðild Íslands að ESB. Þar eru birtar tölur, sem sýna, hve fráleitt er, að Íslendingar verði að sætta sig við 80% af allri reglu- og lagasetningu ESB. Sé miðað við allar tilskipanir, reglugerðir og ákvarðanir ESB, jafnt þær sem falla undir innri markaðinn og þær, sem falla undir önnur svið, sem EES-samningurinn nær ekki til, þá hafa um 6,5% af heildarfjölda ESB-gerða á tímabilinu 1994–2004 verið tekin í EES-samninginn.

Í skýrslunni er einnig bent á, að Íslending-ar nýti sér alls ekki til hlítar öll þau tækifæri, sem þeir hafi til áhrifa á laga- og reglusmíði á vettvangi ESB. Þeir hafi ekki skipulagt þátttöku sína í sérfræðinganefndum ESB nægilega vel og virki ekki leiðir til pólitískra áhrifa.

Evrópunefndin var sammála um, að æskilegt væri að samskipti Íslands og Evrópusambandsins yrðu aukin á ýmsum sviðum. Minnt var á, að Íslendingar tækju þegar virkan þátt í tæplega 200 nefndum og sérfræðingahópum framkvæmdastjórnar ESB en full ástæða væri til að efla þá þátttöku og nýta með því enn frekar þau tækifæri, sem gæfust til að hafa áhrif á stefnumótun sambandsins í þessum efnum.

Í stuttu máli taldi nefndin nauðsynlegt, að Ísland legði áherslu á aukna þátttöku stjórnmálamanna og embættismanna í hagsmunagæslu tengdri Evrópusamstarfi, með það að markmiði að auka áhrif Íslands á mótun og töku ákvarðana á þessum vett-vangi. Lagði nefndin fram tillögur í mörg-um liðum, hvernig hún teldi best að þessu staðið.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Geirs H. Haarde, sem mynduð var 23. maí 2007 er kafli undir fyrirsögninni: Opinská umræða um Evrópumál.Þar segir:

„Ríki Evrópusambandsins eru mikilvæg-asta markaðssvæði Íslands. Samningur-inn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) hefur reynst þjóðinni vel og hann er ein af grunnstoðum öflugs efnahagslífs þjóðarinnar. Skýrsla Evrópunefndar verði grundvöllur nánari athugunar á því hvernig hagsmunum Íslendinga verði í framtíðinni best borgið gagnvart Evrópusambandinu. Komið verði á fót föstum samráðsvettvangi stjórnmála-flokka á Alþingi sem fylgist með þróun mála í Evrópu og leggi mat á breytingar út frá hagsmunum Íslendinga. Nefndin hafi samráð við innlenda sérfræðinga og hagsmunaaðila eftir þörfum.“

Á liðnum sumarmánuðum frá því að ríkisstjórnin var mynduð hefur ekki verið skýrt frá því, hvernig unnið verði að framkvæmd þessa ákvæðis í stefnuyfirlýs-ingunni. Verði farið að tillögum Evrópu-nefndar, munu þess sjást víða merki í störfum ríkisstjórnar og alþingis.

Nefndin lagði til dæmis til, að kjörin yrði Evrópunefnd á alþingi og yrði hlutverk hennar að fylgjast með tengslum Íslands og Evrópusambandsins, einkum framkvæmd EES-samningsins en einnig lagaþróun á vettvangi Schengen-samstarfsins. Þá taldi nefndin, að alþingi ætti að eiga fulltrúa í sendiráði Íslands í Brussel. Hann ætti að fylgjast með framvindu mála í samskiptum þings Evrópusambandsins og fram-kvæmdastjórnar og miðla upplýsingum til Evrópunefndar þingsins og fastanefnda þess.

Bjarni Benediktsson alþingismaður, sem nú er formaður utanríkisnefndar alþingis, vakti athygli mína sem formanns Evrópu-nefndar á umræðum á norska stórþinginu um meðferð Evrópumála og er vikið að þeim í skýrslu Evrópunefndar. Utanríkis-nefnd alþingis gegnir miklu hlutverki við núverandi skipan mála, þegar um Evrópumálin er fjallað á alþingi, og hlýtur nefndin að koma að öllum ákvörðunum um nýskipan þeirra.

Bæði innan ríkisstjórnar og meðal for-ystumanna á alþingi er áhugi á því, að farnar verði nýjar leiðir í samskiptum Íslands og Evrópusambandsins á grundvelli EES-samningsins. Skýrsla Evrópunefndar ætti að hafa tekið málið af umræðu- og rannsóknarstigi og búið það undir næsta stig: framkvæmdastigið.

 

*

Eftir að röksemdir um nauðsyn ESB-aðildar Íslands vegna áhrifaskorts á grundvelli EES-samningsins hafa veikst, beinist athygli þeirra, sem vilja Ísland inn í Evrópusambandið að evrunni. Hafa orðið miklar umræður um, hvort íslenska krónan sé að verða alþjóðlegri fjármálastarfsemi íslenskra fyrirtækja fjötur um fót. Í skýrslu Evrópunefndar er þeirri skoðun haldið fram, að evra verði ekki tekin upp hér án ESB-aðildar. Þess vegna hefur krafa um evru í stað krónu verið lögð að jöfnu við kröfu um ESB-aðild. Á þann hátt sé því unnt að benda á skýra hagsmuni tengda ESB-aðild.

Í skýrslu Evrópunefndar (bls. 90) segir:

„Raunhæfir kostir Íslands í peningamál-um eru að flestra mati einungis tveir, annars vegar núverandi fyrirkomulag og hins vegar upptaka evru samhliða aðild að ESB og EMU [evrópska mynt-bandalaginu]. Ísland gæti reyndar fræðilega séð tekið upp evruna einhliða eða með sérstöku samkomulagi við ESB, en báðir kostir verða í reynd að teljast óraunhæfir.“

Rökin fyrir því, að seinni kosturinn, sem nefndur er í hinum tilvitnuðu orðum, sé talinn óraunhæfur, er að finna neðanmáls í skýrslu Evrópunefndar, þar sem segir:

„Það hefur komið fram hjá Percy Westerlund, sendiherra og yfirmanni fasta-nefndar ESB gagnvart Íslandi, að ekki sé pólitískur vilji til að leyfa upptöku evru án aðildar að sambandinu, en Westerlund kannaði málið sérstaklega í kjölfar umræðu hér í mars 2006. Í ræðu Inigo Arruga Oleaga á fundi um evruna sem Evrópuréttarstofnunar [svo!] Háskólans í Reykjavík stóð fyrir 2. mars 2007 kom fram að einhliða upptaka evrunnar, án samþykkis ESB, væri að hans mati líklega ekki í samræmi við ákvæði EES-samningsins um samráð og samvinnu samningsaðila, m. a. á sviði efnahags- og peningamála, og gæti því hugsanlega sett framkvæmd EES-samningsins í uppnám. Oleaga starfar hjá lagadeild Seðlabanka Evrópu. Að auki mundi einhliða upptaka evrunnar þýða að Ísland myndi ekki njóta ýmissa kosta evrunnar né heldur baktryggingar Seðlabanka Evrópu ef til fjármála-kreppu kæmi á Íslandi.“

Til stuðnings þeirri skoðun, að kostir Íslendinga séu í raun aðeins þeir að halda í krónuna eða taka upp evru með ESB-aðild er í skýrslu Evrópunefndar vísað til tveggja nýlegra skýrslna um gengismál á Íslandi, annars vegar skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, sem Gylfi Zoëga og Tryggvi Þór Herbertsson unnu árið 2005 og skýrslu Viðskiptaráðs frá árinu 2006.

Í skýrslu Evrópunefndar er kafli um kosti og galla evrunnar fyrir Ísland, án þess að þar sé í raun nokkru slegið föstu, eftir að litið hefur verið yfir það, sem almennt er tíundað í slíku yfirliti. Minnt er á, að ákvörðunin í þessu efni byggist ekki síður á pólitískum en efnahagslegum þáttum. Í lok samantektar í skýrslunni segir:

„Í nýju og jákvæðu mati alþjóðlega mats-fyrirtækisins Moody’s á lánshæfi íslensku viðskiptabankanna þriggja kemur fram að það hafi jákvæð áhrif á lánshæfi bankanna hversu mikilvægir þeir eru í íslensku efnahagskerfi í heild sinni og hvaða þýð-ingu þeir hafa í greiðslumiðlunarkerfi landsins. Moody’s lítur meðal annars á það sem styrk að þeir skuli vera í ríki þar sem seðlabanki fer með prentunarvald, þ. e. ríki sem hafi eigin mynt.“

Í niðurstöðum sínum tekur Evrópunefnd-in ekki afstöðu til þess, hvort æskilegt sé að taka upp evru eða ekki. Lesandi skýrslu nefndarinnar getur þó varla velkst í neinum vafa um, að erfitt sé, ef ekki beinlínis útilokað, að huga að upptöku evru án þess að ræða aðild Íslands að ESB í sömu andrá — og raunar kunni annað að vera óheimilt samkvæmt EES-samningnum.

 *

Rannsóknamiðstöð um samfélags- og efnahagsmál (RSE) hélt hinn 23. ágúst 2007 ráðstefnu um áhrif aukins efnahagslegs frelsis á stöðu gjaldmiðla í heiminum. Framsögumenn voru Benn Steil, forstöðumaður alþjóðahagfræðisviðs hjá Council on Foreign Relations í New York, Gabriel Stein, aðalhagfræðingur al-þjóðahagfræðisviðs hjá Lombard Street Research í London, Manuel Hinds, fyrr-verandi fjármálaráðherra El Salvador, og Ársæll Valfells, lektor við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands.

Á ráðstefnunni var rætt um stöðu þjóðar-gjaldmiðla, þar á meðal krónunnar, á tímum aukinnar alþjóðavæðingar og efnahagslegs frelsis. Ennfremur var svarað spurningunni um, hvort nauðsynlegt væri fyrir smáríki að gerast aðili að myntbandalagi til að taka upp aðra mynt. Þá var því lýst, hvernig Bandaríkjadalur var með einhliða ákvörðun stjórnvalda í El Salvador gerður að gjaldmiðli landsins.

Í fréttum RÚV var haft eftir Benn Steil að hann væri sannfærður um að aukið jafnvægi kæmist á, ef evran yrði tekin upp og krón-unni kastað. Hann líkti þeim, sem vildu halda fast í þjóðargjaldmiðla við ökumenn, sem tækju beinskiptan Trabant fram yfir sjálfskiptan Mercedes Benz. Beinskipti Trabantinn byði upp á meiri sveigjanleika og með honum væri einfaldara að hafa stjórn á hlutunum.  Í sjálfskiptum bíl, sem sagt hagkerfi með fjölþjóðagjaldeyri, hefði ökumaðurinn að vísu ekki fulla stjórn á gírskiptingum en  sjálfskiptur Mercedes léti þó alltaf mun betur að stjórn en Trabantinn. Þá benti hann á að markmið peningamálastefnunnar hlyti að vera að halda stýrivöxtum lágum og verðbólgu lágri og stöðugri.

Gabriel Stein taldi einsýnt, að Íslendingar gætu tekið upp evru án þess að gerast aðilar að ESB. Hann taldi raunar fráleitt fyrir Íslendinga að fara í ESB. Þótt þeir teldu sig geta samið um einhverjar sérreglur til verndar fiskveiðirétti sínum á Íslandsmið-um, myndi ekki líða langur tími þar til útgerðarmenn annars staðar innan ESB teldu að hagsmunum sínum vegið með þessum sérreglum. Þeir myndu höfða mál fyrir ESB-dómstólnum, sem kæmist að þeirri niðurstöðu, að jafnræðisregla hefði verið brotin með sérreglunni og hana ætti að afnema!

Gabriel Stein sagði, að vildu Íslendingar leggja niður eigin krónu, sem hann taldi ekki sjálfsagt og ræða þyrfti og íhuga vel, ættu þeir ekki endilega að velja evru í stað hennar. Hvers vegna ekki sterlingspund, norska krónu eða kanadískan dollar? Eða Bandaríkjadollar?

Erindi Manuels Hinds fjallaði um aðferð-ir stjórnvalda í El Salvador við einhliða gjaldmiðilsskipti þar í landi þegar myntin colón vék fyrir Bandaríkjadal 1. janúar árið 2001. Þá varð dalurinn jafngildur colón í viðskiptum í El Salvador og notaður við öll reikningsskil en árið 2004 hvarf colón endanlega úr umferð. Hinds, sem stjórnaði myntbreytingunni, lýsti einstökum atriðum hennar, kostum og göllum á lifandi hátt. Þar kom meðal annars fram, að í stað þess að seðlabanki El Salvador sjái landinu fyrir mynt er það nú í verkahring Bank of New York að leggja til dalina.

Eftir að hafa hlustað á erindi þessara þriggja erlendu ræðumanna, var öllum áheyrendum þeirra ljóst, að ekkert væri, að þeirra mati, því til fyrirstöðu, að íslenska krónan hyrfi úr umferð og Íslendingar tækju upp aðra mynt, ef þeir sjálfir kysu — í raun þyrfti hvorki að spyrja kóng né prest utan Íslands.

 

*

Hvað sem þessum skoðunum líður, er ekki sjálfgefið, að skynsamlegt sé að láta krónuna víkja. Umræðum um evru í stað íslenskrar krónu er ekki lokið með þessari ráðstefnu. Vaxandi togstreitu gætir milli hagsmuna fyrirtækja, sem hafa haslað sér völl erlendis, og þeirra, sem standa vörð um krónuna.

Á ráðstefnu RSE taldi Þórarinn G. Pétursson, staðgengill aðalhagfræðings Seðlabanka Íslands, málflutning framsögu-manna of einhliða. Á gjaldmiðilsmálinu væri vissulega sú hlið, að skynsamlegt gæti verið fyrir ríki að halda í sinn eigin gjaldmiðil, það hefði reynst mörgum vel og þar á meðal Íslendingum.

Fyrir stjórnvöld er spurningin þessi: Ætla þau að láta viðskiptalífið og fyrirtæki, sem starfa að mestu erlendis leiða umræðurnar um gjaldmiðilinn eða hafa þar sjálf forystu? Því má ekki gleyma, að þessi fyrirtæki uxu úr grasi í skjóli krónunnar.

Inntak umræðna um evru mun breytast eftir ráðstefnu RSE. Nýjasta goðsögnin um nauðsyn aðildar að Evrópusambandi er horfin. Málsvarar ESB-aðildar Íslands geta ekki lengur notað evruna sem gulrót.