20.6.2008

Enginn Berlínarmúr.

Viðtal í Morgunblaðinu 20. júní 2008, eftir Rúnar Pálmason runarp@mbl.is

BJÖRN Bjarnason dómsmálaráðherra segir að jafnvel þó hentug lóð fengist á Hólmsheiði eða annars staðar á höfuðborgarsvæðinu væri óskynsamlegt að reisa þar stórt fangelsi, líkt og stefnt hefur verið að um árabil. Mun betra sé að stækka fangelsið að Litla-Hrauni og reisa gæsluvarðhalds- og skammvistunarfangelsi í tengslum við nýjar aðalstöðvar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta er mikil stefnubreyting og hún hefur ekki gerst á löngum tíma. Í ræðu sem Björn flutti á Kvíabryggju 3. október 2007 kom t.a.m. fram að enn væri stefnt að byggingu fangelsis með klefa fyrir 64 fanga á Hólmsheiði. Það var ekki fyrr en í janúar á þessu ári sem Björn sagði opinberlega að vafi léki á því að fangelsið myndi rísa.

Í samtali við Morgunblaðið sagði Björn að þegar hann flutti ræðuna á Kvíabryggju hefðu starfsmenn ráðuneytisins verið byrjaðir að velta því fyrir sér breytingum á áformum um fangelsið á Hólmsheiði. Í ljós hefði komið að lóðin sem Reykjavíkurborg skipulagði fyrir fangelsið hentaði ekki og umræða um innanlandsflugvöll á heiðinni hefði sett lóðarmálin í enn meira uppnám.

Lóðin ekki aðalatriðið

Lóðarmálin riéðu þó ekki baggamuninn, að sögn Björns. Margt mælti með því að hætta við að að reisa stórt öryggisgæslufangelsi á höfuðborgarsvæðinu en reisa í staðinn gæsluvarðhalds- og öryggisgæslufangelsi í tengslum við nýja lögreglustöð og jafnframt stækka fangelsið á Litla-Hrauni. Þessi kostur ætti í fyrsta lagi að verða mun ódýrari og hagkvæmari. Þótt enn hefði ekki verið reiknað út hver stofn- og rekstrarkostnaður yrði við stækkun Litla-Hrauns og byggingu gæsluvarðhalds- og skammvistunarfangelsis, segði heilbrigð skynsemi að kostnaðurinn yrði minni. Ríkið ætti nú þegar lóð á Litla-Hrauni og mun hagkvæmara væri að stækka núverandi fangelsi en að reisa nýtt hús á nýjum stað. Þá myndi aðstaða lögreglustöðvarinnar og fangelsisins á höfuðborgarsvæðinu að einhverju leyti verða samnýtt. Þá væri reynslan af Litla-Hrauni einstaklega góð og á svæðinu væri bæði mikil sérþekking og hefð fyrir rekstri fangelsis.

Vinnuhópur sem gerði þarfagreiningu fyrir fangelsið á Hólmsheiði í ágúst 2007 taldi mikilvægt að afeitrunar- og fíkniefnameðferð fanga yrði á höfuðborgarsvæðinu vegna nálægðar við sérhæfða þjónustu á þessu sviði, bæði hjá SÁÁ og Landspítalanum. Í fangelsinu á Hólmsheiði átti einnig að vera sjúkradeild fyrir fanga með geðræn vandamál sem yrðu meðhöndlaðir í samvinnu við Landspítalann.

Hugsanlega mun afeitrun fara fram í gæsluvarðhalds- og skammvistunarfangelsi en þar verður hvorki meðferðar- né sjúkradeild

Aðspurður sagði Björn enga ástæðu til að ætla að sú meðferð sem verður í boði á Litla-Hrauni verði verri en sú sem hefði fengist ef fangelsið risi á Hólmsheiði. „Það er ekki eins og það sé einhver Berlínarmúr í Þrengslunum,“ sagði hann.

Sjálfsagt að flytja verkefni

Aðspurður hvort sérfræðingar á vegum SÁÁ og Landspítalans þyrftu þá ekki að ferðast á milli benti Björn á að sífellt fleiri úr Hveragerði, Árborg og Þorlákshöfn sæktu vinnu á höfuðborgarsvæðinu og sjálfsagt væri að huga að flutningi verkefna fyrir sérhæft starfsfólk til Litla-Hrauns. Sérfræðingar í málefnum fanga og allri þjónustu við þá gætu allt eins verið búsettir þar. Heilbrigðisstofnunin á Selfossi væri sífellt að eflast og þar hefðu menn lengi átt samstarf við stjórnendur Litla-Hrauns. Reynslan sýndi að þjónusta byggðist upp þar sem þörf væri fyrir hana.

Starfsmenn Litla-Hrauns og bæjarráð Árborgar beindu í lok október sl. þeim tilmælum til stjórnvalda að hætt yrði við fangelsið á Hólmsheiði en þess í stað byggt upp á Litla-Hrauni. Þá hafa viðmælendur Morgunblaðsins innan stjórnkerfisins sagt að þingmenn hafi beitt sér fyrir þessari niðurstöðu.

Björn sagðist ekki hafa orðið fyrir þrýstingi af hálfu þingmanna í þessa átt en honum væri að sjálfsögðu kunnugt um sjónarmið starfsmanna Litla-Hrauns og bæjarráðsmanna Árborgar. „Ef menn eru að gera lítið úr ákvörðun minni með vísan til þess, að hún byggist á byggðasjónarmiðum, er það í fyrsta lagi einkennileg röksemdafærsla í málinu miðað við, hve lengi Litla-Hraun hefur verið starfrækt. Í öðru lagi hef ég mjög góða reynslu af því að færa verkefni úr dómsmálaráðuneytinu til sýslumanna utan Reykjavíkur. Ég tel að menn starfi alls staðar faglega að verkefnum, sem þeim eru falin. Ef auk skýrra málefnalegra raka minna í málinu er einnig unnt að færa fyrir þessu byggðarök, er það aðeins bónus,“ sagði Björn. Í þessu tilfelli færi það saman að starfsemi yrði aukin úti á landi og þjónustan gæti bæði orðið betri og ódýrari.

Ósammála fangelsismálastjóra

Í grein í Morgunblaðinu 11. nóvember sl. sagði Valtýr Sigurðsson, þáverandi fangelsismálastjóri, að niðurstaða Fangelsismálastofnunar væri sú að fagleg rök mæltu gegn því að hætta við byggingu Hólmsheiðarfangelsis og reisa í staðinn gæsluvarðhalds- og móttökufangelsi á höfuðborgarsvæðinu og stækka Litla-Hrauni, líkt og nú er stefnt að.

Björn sagði þá Valtý hafa rætt þessi mál og verið sammála um, að ekki yrði ráðist í að reisa jafnstórt fangelsi á höfuðborgarsvæðinu og fyrir lá í ársbyrjun 2003. Raunar hefði Valtýr átt mestan þátt í að draga athygli sína að nauðsyn þess að endurskoða þær tillögur, án þess að kasta grunnvinnu við þær fyrir róða. Þeir hefðu meðal annars farið saman til Jótlands og kynnt sér nýtt fangelsi þar. Valtýr hefði lagt meiri áherslu á að meðferðar- og heilbrigðisþátturinn yrði áfram á höfuðborgarsvæðinu en Björn.

Valtýr hefði hins vegar einnig farið af stað með svonefndan fyrirmyndargang í fangelsinu á Litla-Hrauni, þar sem boðin hefur verið meðferð og efnt hefði verið til AA-funda með miklum og góðum árangri. Björn sagði að sú reynsla hefði styrkt sig í þeirri skoðun, að unnt væri að veita föngum þjónustu á þessu sviði á Litla-Hrauni ekki síður en annars staðar.

Stakk ekki upp á Hólmsheiðinni

Björn Bjarnason færir ýmis rök fyrir ákvörðun sinni um að hætta við Hólmsheiðarfangelsið. En ef rökin eru svona borðleggjandi hvers vegna var þá yfirleitt verið að stefna að þessu stóra fangelsi á Hólmsheiði?

Björn svaraði því til að hann hefði aldrei stungið upp á að fangelsi yrði reist á Hólmsheiði. Áform um fangelsið hefðu legið fyrir þegar hann tók við embætti dómsmálaráðherra. Eftir að Valtýr Sigurðsson varð fangelsismálastjóri og hóf skoðun á málinu í samvinnu við starfsmenn Fangelsismálastofnunar hefði verið ákveðið að byrja á uppbyggingu á Kvíabryggju og Akureyri. Þeim framkvæmdum væri lokið. Nú beindist athygli því að Litla-Hrauni og fangelsinu sem kennt hefði verið við Hólmsheiði. Þetta hefði verið skynsamleg og árangursrík stefna og sagðist Björn fagna því að ráðuneytið og Fangelsismálastofnun hefðu gefið sér þennan tíma til að leggja grunn að framtíðarrekstri fangelsa á Litla-Hrauni og á höfuðborgarsvæðinu. Stefnan lægi skýr fyrir af sinni hálfu. Mestu skipti nú að fá góða lóð fyrir lögreglustöð og fangelsi á höfuðborgarsvæðinu.

S&S

Hvar verður fangelsið á höfuðborgarsvæðinu?Til stendur að það verði reist í tengslum við eða í sömu byggingu og nýjar höfuðstöðvar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Ekki er búið að ákveða hvar þær verða en þessa stundina beinist athygli yfirvalda einna helst að lóð sem Veðurstofa Íslands stendur á við Bústaðaveg í Reykjavík. Lóðin er í eigu ríkisins.

Hvað verður fangelsið stórt?Miðað er við að í fangelsinu verði móttökudeild og klefar fyrir fanga í gæsluvarðhaldi og þá sem afplána styttri dóma. Fangelsið á Hólmsheiði átti að rúma 64 fanga og má gera ráð fyrir að fangaklefarnir í nýju fangelsi verði um helmingi færri eða um 30.

Hversu langt var undirbúningur Hólmsheiðarfangelsis kominn?Þarfagreining lá fyrir í ágúst 2007 en ekki var byrjað að teikna fangelsið. Árið 2003 var málið komið lengra og þá samþykkti ríkisstjórnin að láta fara fram lokað útboð á byggingu þess en framkvæmdum var frestað. Rætt hefur verið um stórt fangelsi á höfuðborgarsvæðinu frá 1960.

Ókleifur múr um fangelsið

Ógn af smygli

ÞÓTT fangelsið á höfuðborgarsvæðinu verði aðeins fyrir gæsluvarðhalds- og skammvistunarfanga verður að vera hægt að hleypa föngum út undir bert loft því samkvæmt lögum um refsisvist eiga fangar rétt á útivist. Til að hægt sé að hleypa föngunum út verður væntanlega að reisa múr umhverfis fangelsisgarðinn. En hversu stór verður garðurinn og múrinn?

Það hefur auðvitað ekki verið ákveðið en nota má ýmislegt sem kemur fram í þarfagreiningu fyrir Hólmsheiðarfangelsið til viðmiðunar. Þar kom fram að gæsluvarðhaldsdeildin þyrfti þrjú aðskilin rými, 35 m² hvert, samtals 105 m². Fyrir almenna deild og meðferðardeild var gert ráð fyrir 200 m².

Í þarfagreiningunni segir einnig að ef fangelsi rís í þéttbýli þurfi að vera múr utan um garðinn (en ekki vírgirðing), bæði til þess að fangarnir blasi ekki við vegfarendum en einnig til þess að ekki sé hægt að koma óæskilegum bögglum til fanganna. Miðað við þarfagreiningu fyrir Hólmsheiði má reikna með 5-6 metra háum múr.

Vírnet yfir garðinn og girðing

Í fangelsinu í Helsingör reyndist nauðsynlegt að reisa girðingu fyrir utan múrinn og setja vírnet yfir garðinn. Með þessu var að mestu leyti komið í veg fyrir smygl.

Ekki er óvarlegt að ætla að bæði verði að reisa múr og girðingu við fangelsið á höfuðborgarsvæðinu og þar með er um leið ljóst að plássið sem fangelsisgarðurinn tekur til sín verður verulegt.

Rétt er að taka fram að fangar sem eru í einangrun eiga líka rétt á útivist og á Litla-Hrauni fer sú útivist fram í litlum garði við einangrunarálmu fangelsisins. Að sjálfsögðu er aðeins einn fangi sendur út í einu.

Hægt að hanna betur

Reynsla af sambýli í Helsingør er slæm

VINNUHÓPURINN sem gerði þarfagreiningu fyrir Hólmsheiðarfangelsið leit mjög til reynslu Dana í fangelsismálum og skoðaði m.a. fangelsið í Helsingør þar sem fangelsi og lögreglustöð eru sambyggð. Danskir ráðgjafar töldu að í Helsingør hefðu komið upp vandamál vegna nálægðar lögreglustöðvar og fangelsis og sögðu þessa tilhögun í heild ekki heppilega. Þó var bent á að ef til vill mætti rekja gallana að nokkru leyti til hönnunar sem mætti leysa betur.

Björn Bjarnason kvaðst ekki í nokkrum vafa um að hægt yrði að hanna lögreglustöðina og fangelsið á höfuðborgarsvæðinu þannig að nábýlið skapaði ekki vandamál. Mjög góð reynsla væri af fangelsinu á Akureyri sem væri sambyggt lögreglustöð.