8.3.2008

Heimsmynd okkar mun breytast.

viðtal Kolbrúnar Bergþórdsóttur 24 stundum 8. mars 2008.

„Ég hef flutt fyrirlestra

austanhafs og vestan

um þróun mála á

Norður-Atlantshafi. Ég

er sannfærður um að

allur þorri þjóðarinnar gerir sér

ekki grein fyrir þeirri breytingu

sem er að verða. Ef mál þróast

eins og menn spá í þá átt að siglingar

eigi eftir að aukast mikið í

nágrenni við Ísland þá er staða

okkar allt önnur en áður. Þá erum

við ekki lengur á hjara veraldar.

Við stöndum þá á krossgötum

varðandi orku- og

farmflutninga frá Asíu til Evrópu

og Norður-Ameríku. Heimsmynd

okkar mun breytast,“ segir Björn

Bjarnason dómsmálaráðherra um

stöðu Íslands í öryggismálum

heimsins. „Ég hef ferðast til Bretlands,

Danmerkur og Noregs og

hitt aðila sem eru samstarfsaðilar

lögreglu og landhelgisgæslu og

það er verið að vinna að því að

þróa nýtt öryggisnet miðað við

þessar breyttu aðstæður. Ég hef

lagt áherslu á að eðlilegra sé að

bregðast við breyttum aðstæðum

með borgaralegum aðferðum,

eins og með öflugri landhelgisgæslu

og eftirliti af þeim toga,

fremur en hernaðarviðbúnaði.

Þetta eru spennandi viðfangsefni

sem ég hef verið að takast á

við á þessu kjörtímabili og raunar

frá því að varnarliðið hvarf úr

landi. Þróunin síðan hefur sannfært

mig enn betur en áður um,

hve skammsýn Bandaríkjastjórn

var árið 2006 um framkvæmd

vanarsamstarfsins við Ísland.

Íslendingar eru að eignast nýtt

varðskip, nýja flugvél og þyrlur

og það er almennur stuðningur

við þessar aðgerðir. Þetta hefur

allt gengið frekar hljóðlega fyrir

sig og án pólitískra deilna. Það er

mjög víðtækur stuðningur við

það að Íslendingar láti að sér

kveða með þessum hætti.“

 

Mörgum Íslendingum finnst að

það sé markmið í sjálfu sér að Íslendingar

hafi ekki eigin her. Þú

ert ósammála því viðhorfi, er það

ekki?

 

„Með því að vilja ekki ræða

hermál við aðrar þjóðir erum við

að setja á okkur höft. Við verðum

þá að finna bestu leiðirnar sem

finnast án þess að stofna okkar

her. Ef þetta haft leiðir til þess að

hér sé friðsamlegra en annars

staðar þá er það gott mál. Ef það

leiðir til þess að einhverjir sjái

okkur sem auðtekna bráð þá er

það ekki gott. Á vegum utanríkisráðherra

starfar sérstök hættumatsnefnd.

Spyrja má: Verður

niðurstaða hennar að við getum

ekki brugðist við hættum sem að

okkur steðja nema með öðru en

þeim ráðum, sem við nú höfum?

Ég veit ekki hver niðurstaðan

verður, það kemur í ljós.“

 

Sölumenn í villta vestrinu

 

Hvernig þykja þér umræðurnar

um evruna sem hafa verið svo

áberandi í nokkurn tíma?

 

„Við getum velt fyrir okkur

ýmsum leiðum í Evrópumálum.

Þar þarf hins vegar skýra stefnu

og skýra sýn. Evru-umræðan hefur

ruglað þessa sýn. Það er erfitt

fyrir þjóð sem hefur lifað í sátt

við eigin krónu að allt í einu sé

fullyrt að krónan hafi ekkert

sjálfstætt gildi og lausnin sé annar

gjaldmiðill. Eitt er að halda

slíku fram, annað að benda á

hvað á að taka við. Er talið um

evruna kannski tal um eitthvað

annað? Eiga menn við að leggja

beri Seðlabankinn niður og þess

vegna eigi að taka upp nýjan

gjaldmiðil? Enginn gjaldmiðill

breytir efnahagslögmálum eða

losar menn undan hagstjórn. Við

búum við sérstök efnahagsleg

skilyrði sem breytast ekki eftir

því hvort við borgum í krónu,

evru eða sterlingspundum.

Mér finnst sumir ræðumenn

um þetta minna á sölumennina

sem fóru á milli bæja í villta

vestrinu og seldu fólki lífselexír

gegn öllum meinum. Svo drakk

fólk elexírinn og allt var við það

sama. Þá laumuðust sölumennirnir

á brott í skjóli nætur. Fólk

sá í gegnum þá. Enginn hefur

enn fundið upp lyf sem læknar

allar meinsemdir. Það gerist ekki

heldur í efnahagsmálum. Efnahagslögmálin

hljóta að gilda hér

áfram eins og verið hefur.

 

Fyrir réttu ári skilaði allra

flokka nefnd, sem ég stýrði,

greinargóðri skýrslu um tengsl

Íslands og Evrópusambandsins.

Ég er undrandi á því, hvers vegna

ekki er unnið markvisst að því að

framkvæma tillögur nefndarinnar

og styrkja þannig enn frekar en

nú er Evróputengslin, sem skipta

okkur mjög miklu. Þar er um

brýnt, raunhæft og vel skilgreint

úrlausnarefni að ræða – í stað

þess að sinna því, er haldið áfram

að tala út og suður og látið í

veðri vaka, að meðal stjórnmálamanna

sé ekki til nein skýr stefna

í Evrópumálum.“

 

Víti til að varast

 

Þú ritar grein í nýjasta hefti

Þjóðmála þar sem þú rýnir í samruna

REI og Geysis Green. Þú segir

að sexmenningarnir í borgarstjórnarflokki

sjálfstæðismanna

hafi haft „þrek til að standa á sínu

og snúast gegn laumuspili og fjármálabraski,

sem greinilega tengdist

öðrum þræði tilraunum til að

styrkja fjárhagslega stöðu FL Group“.

Má skilja þetta þannig að

sameining REI hafi fyrst og fremst

snúist um að styrkja fjárhagslega

stöðu FL Group?

 

„Það eru tímasetningar í öllu

þessu dæmi sem benda til þess að

hraðinn í málinu hafi tengst

kynningarfundi FL Group í

London. Maður getur dregið þá

ályktun eftir á að eigendur FL

Group hafi viljað styrkja stöðu

síns fyrirtækis. Þeir voru ekki í

góðgerðarstarfi. Ég get ekki varist

þeirri hugsun að það hafi komið

eigendum Geysis Green, og þar

með FL Group, vel að þetta gerðist.“

 

Þú segir í sömu grein að samfylkingarfólk

hafi lagt blessun sína

yfir REI-hneykslið á sínum tíma.

Þú vitnar í orð Össurar Skarphéðinssonar,

Dags B. Eggertssonar og

Sigrúnar Elsu Smáradóttur í því

samhengi og segir að spjótin ættu

frekar að standa á þeim í umræðum

um REI-málið en borgarstjórnarflokki

Sjálfstæðisflokksins.

Hvað áttu við með þessu?

 

„Ef menn eru að tala um efni

málsins og þá stjórnmálamenn

sem lögðu blessun sína yfir hugmyndina

þá hljóta menn að staðnæmast

við þessa einstaklinga.

Það voru þau sem gengu harðast

fram með þær skoðanir að það

væri landinu, þjóðinni og jafnvel

heiminum öllum til mestrar

blessunar að þetta fyrirtæki yrði

til. Það var boðskapur þeirra á

þessum tíma.

Síðan er myndaður nýr meirihluti

í borginni og pólitískar æfingar

hefjast. Björn Ingi Hrafnsson

skiptir um lið til að fylgja

málinu fram og segir á einum

stað að andvirðið af REI muni

duga til að borga allar skuldir

Reykvíkinga. Björn Ingi segir líka

að hann vilji ekki selja REI í heilu

lagi fyrr en 2009. Er það í raun og

veru tilefni til að mynda nýjan

meirihluta hvort maður vill selja

fyrirtæki fyrr eða síðar? Þegar ég

skrifaði þessa grein komst ég að

því að í málinu var ekki nein

orka, það var bara reykurinn

einn.“

 

Hvaða lærdóm er hægt að draga

af þessu máli?

 

„Lærdómurinn er margvíslegur.

Til dæmis sá hversu erfitt er

fyrir ríki og sveitarfélög að fara

inn á svið viðskiptalífisns. Við

sjáum líka að menn verða að átta

sig nákvæmlega á því hvaða

áhættu þeir eru að taka, það er

mjög óljóst hvaða verðmæti eru

þarna í húfi. Ég tel að stjórnarhættir

innan Orkuveitu Reykjavíkur

hafi sprungið í andlitið á

sjálfum sér. Leyndarhyggjan og sú

aðferðafræði sem menn hafa beitt

þar til að komast að niðurstöðu

og taka ákvarðanir gekk sér til

húðar með þessum dramatíska

hætti. Gerð var tilraun til að

komast að niðurstöðu með aðferðum

sem voru algjörlega á

skjön við alla opna stjórnarhætti.

Ef ég hefði tíma myndi ég

skrifa kennslubók um þetta mál

og kalla hana: Víti til að varast.“

 

Einkennilegt andrúmsloft

 

Ef við lítum á borgarmálin þá er

ekki hægt að neita því að þar hefur

verið mikill órói. Hvað er til ráða?

 

„Reykvíkingar hafa haft fimm

borgarstjóra síðan Ingibjörg Sólrún

fór frá, eða réttara sagt var

knúin til afsagnar í ársbyrjun

2003. Frá þeim tíma hefur verið

nær stöðugur barningur í borginni.

Það er mikill núningur milli

Sjálfstæðisflokksins og annarra

flokka í borginni. Stífnin er mikil

og því hefur ekki verið hægt að

mynda þá breiðu samstöðu sem

þarf til að skapa kjölfestu í stjórn

borgarinnar. Þarna ríkir einkennilegt

andrúmsloft og ég átta

mig ekki á því af hverju það stafar.

Davíð Oddsson talaði oft um

borgina sem fyrirtæki. Ekkert fyrirtæki

sem væri með svona ósamstæða

yfirstjórn myndi ná góðum

árangri. Þetta er áhyggjuefni fyrir

borgarbúa. Aðeins 9 prósent

þeirra segjast bera traust til borgarstjórnar.

Allir flokkarnir þurfa

að vinna í því að skapa borgarstjórn

aukið traust.“

 

Er ekki vandamál fyrir Sjálfstæðisflokkinn

að ekki hafi tekist

að leysa oddvitamál flokksins í

borginni? Getur ekki verið hættulegt

að ýta vandanum á undan sér?

 

„Það getur verið hættulegt.

Þótt borgarstjórnarflokkurinn

standi að baki Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni

þá hefur fólk á tilfinningunni

að þar sé opið tækifæri

fyrir aðra einstaklinga. Í hugum

fólks er komið upp oddvitavandamál.

Sá vandi sem nú er uppi í

borginni er þó ekki flokkslegur

vandi Sjálfstæðisflokksins heldur

vandi allra þeirra sem sitja í borgarstjórn.

Ég hef verið talsmaður

þess að breiður meirihluti yrði

myndaður í borginni til að ná

þeim árangri sem þarf að ná við

stjórn borgarinnar. Þessi skoðun

mín er ekki vantraust á sitjandi

meirihluta eða Ólaf F. Magnússon.

Það væri hins vegar mun

heppilegra að meirihlutinn væri

öflugri.“

 

Ertu þá að tala um samstarf

Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar?

 

„Já, eða samstarf Sjálfstæðisflokks

og Vinstri grænna.“

 

Í sérstakri stöðu

 

Þú ert einn öflugasti bloggari

landsins og hefur fagnað nýföllnum

dómi þar sem bloggari var dæmdur

fyrir meiðyrði. Sjálfur ert þú

óhræddur við að segja skoðanir

þínar á þinni bloggsíðu. Er ekki

skiljanlegt að stundum fari bloggarar

yfir strikið í skrifum sínum?

 

„Mín skoðun er sú að menn

séu ábyrgir fyrir orðum sínum

hvar sem þeir skrifa þau. Þeir sem

skrifa mikið geta farið yfir strikið

og þá er undir þeim komið sem

ráðist er á hvort hann vill sækja

viðkomandi til saka. Ég er í sérstakri

stöðu og geri því þær kröfur

til sjálfs mín að ég vandi mig

sérstaklega. Ef ég færi yfir strikið

þá væri sekt mín hugsanlega

meiri en annarra vegna stöðu

minnar og ég gæti fyrir vikið

hlotið harðari refsingu en aðrir.“

 

Hefurðu rætt við vin þinn Össur

Skarphéðinsson um bloggskrif hans

um Gísla Martein?

 

„Ég er ekki fulltrúi í sérstakri

siðvæðingarnefnd, hvorki gagnvart

Össuri né öðrum. Ég hef

hins vegar sagt Össuri að menn

hafi rætt það við mig að þeim

hafi þótt fast að orði kveðið í

bloggfærslu hans.“

 

Hvernig tók Össur því?

 

„Það er regla í samskiptum

okkar Össurar að taka því með

skilningi sem við segjum hvor við

annan.“

 

Sem stjórnmálamaður hefur þú

harða ímynd og virðist ekki gera

neitt til að mýkja hana.

 

„Ég tel mig vera mjúkan og

mildan mann. Ef ég hef harða

ímynd þá eru það ímyndarsmiðir

fjarri mér sem hafa búið hana

til.“

 

Þú veiktist illa í síðustu kosningabaráttu.

Ertu alveg búinn að

ná þér

 

„Ef ég hefði hummað veikindin

fram af mér hefði ég ekki lifað

lengi. En ég fór til lækna og þeir

læknuðu hið samfallna lunga og

nú er ég alheill. Það var mikil en

góð reynsla að kynnast okkar

ágæta heilbrigðiskerfi og leggjast

inn á spítala og vera ósjálfbjarga

og geta lítið annað gert en hlusta

á Wagner sér til skemmtunar. Ég

komst að því á þessu tímabili

hversu skammt getur verið á milli

lífs og dauða. En nú hef ég sem

sagt náð fullri heilsu.“

 

Hver er framtíð þín í pólitík?

Ætlar þú að sitja út þetta kjörtímabil?

 

„Já, það mun ég gera. Fyrir síðustu

kosningar gaf ég til kynna að

ég myndi ekki sitja lengur en út

þetta kjörtímabil. Hvað tekur svo

við? Ég get allavega sagt þér, að ég

mun ekki gerast sendiherra.

Þessi breyting, sem ég hef verið

að lýsa í þessu viðtali í utanríkisog

öryggismálum, kallar á ný viðhorf

hjá okkur Íslendingum og ný

viðbrögð til að tryggja fullveldi og

öryggi í okkar heimshluta. Ég get

lagt mitt af mörkum við mótun

stefnu og framkvæmd hennar

sem stjórnmálamaður. Áhugi

minn er mikill á þessum málum

og farsæld í þessum efnum skiptir

þjóðina miklu. Ég þarf að meta,

hvar ég tel mig geta orðið best að

liði. Eða ætti ég kannski bara að

fara að sinna kindunum mínum í

Fljótshlíðinni?“