Ísland á innri markaði Evrópu.
Umræður á alþingi, 31. janúar, 2007.
Nú er um það bil ár liðið frá því, að Evrópunefndin, sem ég veitti formennsku, lauk störfum og skilaði skýrslu sinni. Á síðasta þingi gafst aldrei tækifæri til að ræða skýrslu nefndarinnar. Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar segir á hinn bóginn, að skýrsla Evrópunefndar sé grundvöllur nánari athugunar á því, hvernig hagsmunum Íslendinga verði í framtíðinni best borgið gagnvart Evrópusambandinu.
Þessi orð í stjórnarsáttmálanum eru fagnaðarefni fyrir okkur, sem störfuðum í nefndinni, sem skipuð var af Davíð Oddssyni á sínum tíma. Í nefndinni áttu fulltrúar allra flokka sæti og lögðum við okkur fram um að kynnast öllum þáttum samstarfs Íslands og Evrópusambandsins.
Meginniðurstaða nefndarinnar var sú, að samningurinn um evrópska efnahagssvæðið (EES-samningurinn) hefði staðist tímans tönn og hann væri sá grundvöllur, sem samskipti Íslands og Evrópusambandsins byggðist á og rétt væri að þróa áfram.
Nefndin fór í saumana á Schengen-samstarfinu og bendir á, að það verði sífellt viðameira. Innan Evrópusambandsins gæti þeirrar viðleitni, að samvinna ríkjanna á sviði laga og réttar verði ekki lengur á grundvelli þjóðréttarsamninga heldur flytjist undir fyrstu stoð sambandsins og þar með meirihlutaákvarðanir á vettvangi þess. Þetta hefur gerst með hinum nýja stofnsamningi Evrópusambandsins, sem kenndur er við Lissabon, og er nú til meðferðar í aðildarlöndum sambandsins.
Nefndin taldi hins vegar, að breytingar innan Evrópusambandsins, aukið vægi þings þess og fjölgun aðildarríkja hefði ekki hróflað við EES-samningnum. Þessi niðurstaða nefndarinnar stenst gagnrýni eftir gerð Lissabon-sáttmálans um nýskipan mála innan Evrópusambandsins – hann hefur ekki nein áhrif á inntak og efni EES-samstarfsins.
Það var mat nefndarinnar, að framkvæmd EES- og Schengen-samninganna hefðu almennt gengið vel. Ágreiningsefni hefðu verið leyst innan ramma samninganna, en það verði ekki gert án góðrar eftirfylgni. Þegar á heildina er litið taldi nefndin, að vel hefði til tekist á vettvangi Alþingis og framkvæmdavaldsins að vinna að framgangi mála á grundvelli EES- og Schengen-samninganna og vel hefði tekist til við að gæta hagsmuna Íslands þegar hugað væri að þátttöku í nefndum, fyrirvörum og að stækkun EES 2004.
Nefndin var sammála um að æskilegt væri að samskipti Íslands við Evrópusambandið yrðu aukin á ýmsum sviðum og er víða að finna ábendingar þess efnis í skýrslu nefndarinnar. Benti nefndin á, að Íslendingar tækju þegar virkan þátt í tæplega 200 nefndum og sérfræðingahópum framkvæmdastjórnar ESB en full ástæða væri til að efla þá þátttöku og nýta með því enn frekar þau tækifæri sem gæfust til að hafa áhrif á stefnumótun sambandsins í þessum efnum. Þá taldi nefndin miklu skipta að fylgjast náið með því, hvernig samstarf Evrópusambandsríkjanna þróaðist á sviði utanríkis- og öryggismála. Í stuttu máli taldi nefndin óhjákvæmilegt, að Ísland legði áherslu á aukna þátttöku stjórnmálamanna og embættismanna í hagsmunagæslu tengdri Evrópusamstarfi, með það að markmiði að auka áhrif Íslands á mótun og töku ákvarðana á þessum vettvangi.
Skýrsla sú, sem utanríkisráðherra kynnir hér í dag og unnin er af viðskiptasviði utanríkisráðuneytisins og sendiráði Íslands í Brussel endurspeglar vel áherslur Evrópunefndarinnar. Með skýrslunni er til dæmis fylgt fram tillögu Evrópunefndar, um að ríkisstjórnin gefi alþingi árlega skýrslu um þróun EES og Schengen mála, sem og um helstu stefnumál ríkisstjórnarinnar í samskiptum við Evrópusambandið.
Skýrsla utanríkisráðherra ber með sér, að innan stjórnarráðsins og á vettvangi ríkisstjórnarinnar er unnið að málum á grundvelli tillagna Evrópunefndar. Utanríkisráðuneytið hefur samkvæmt skýrslu ráðherrans unnið að því að skilgreina með hvaða hætti unnt er að hrinda í framkvæmd ýmsum þeim tillögum, sem er að finna í skýrslu nefndarinnar.
Ég fagna þessari áherslu í starfi utanríkisráðuneytisins. Ég tel einnig að mat ráðuneytisins á niðurstöðum Evrópunefndarinnar sé rétt, þegar segir í lok skýrslu utanríkisráðherra, að athugun á stöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu sýni í „hnotskurn hve náið Ísland stendur kjarna Evrópusamrunans og hvaða áhrif regluverk innri markaðarins hefur hér á landi. Mikilvægt er að allir aðilar sem koma að málum á þessu sviði hafi þetta hugfast því hagsmunirnir eru ríkir og kalla í raun á það að Ísland komi fram á þessu sviði líkt og um væri að ræða aðildarríki ESB.“
Og ráðuneytið segir einnig: „Í ljósi þessa markar skýrsla Evrópunefndar ákveðin tímamót þar sem lagðar eru til ákveðnar tillögur um hvernig efla megi hagsmunagæslu Íslands á þessu sviði.“ Boðar ráðuneytið, að það muni á næstu mánuðum vinna frekar úr ábendingum Evrópunefndar og leggja síðan ákveðnar tillögur fyrir ríkisstjórn.
Skýrsla utanríkisráðherra, sem hér er til umræðu, sver sig sem sagt mjög í ætt við skýrslu og tillögur Evrópunefndar að því leyti, að utanríkisráðuneytið leitast við að nálgast viðfangsefnið með vísan til þeirra leiða, sem íslensk stjórnvöld hafa til að móta þann hluta Evrópuréttarins, sem beint snertir íslenska hagsmuni. Til þess hafa Íslendingar fjölmörg úrræði og að mínu mati og Evrópunefndar hafa þau ekki verið nýtt til fulls.
Í Evrópumálum er brýnasta verkefni íslenskra stjórnvalda og þar með alþingis, að átta sig vel á stöðunni eins og hún er, sinna þeim verkefnum, sem við blasa, og nýta augljós tækifæri til öflugrar íslenskrar hagsmunagæslu í hinum góðu samskiptum, sem við eigum við Evrópusambandið.
Í því efni ber ekki að gera lítið úr þeirri staðreynd, að á pólitískum vettvangi hér heima fyrir hefur tekist góð sátt um Evrópustefnuna. Við öllum raunsæjum mönnum blasir, að ekkert knýr sérstaklega á um, að breytt sé um þessa stefnu, hvorki með vísan til íslenskra hagsmuna né vegna óska frá Evrópusambandinu.
Hvorki þeir, sem komu á fund Evrópunefndar, né aðrir hafa bent á skýra og augljósa íslenska hagsmuni, sem knýja á um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Ég geri ekki lítið úr skoðunum þeirra, sem hafa að pólitískri hugsjón, að Ísland gangi í Evrópusambandið – ég gef hins vegar lítið fyrir þá hugsjón andspænis hag Íslands af því að leggja rækt við EES-samninginn og nýta ákvæði hans til fulls.
Evrópunefndinni var ekki ætlað að taka afstöðu til þess, hvort Íslendingar ættu að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Þetta mál bar að sjálfsögðu á góma í störfum nefndarinnar og var meðal annars rætt á fundum hennar í Brussel við Olli Rehn, sem fer með stækkun Evrópusambandsins í framkvæmdastjórn þess. Í skýrslu nefndarinnar kemur fram, að búast megi við, að aðildarferlið gagnvart Evrópusambandinu tæki 2-3 ár en þar er einnig vakið máls á því, að hér heima fyrir þurfi að breyta stjórnarskrá og efna til þjóðaratkvæðagreiðslu vegna framsals á fullveldi þjóðarinnar, áður en Ísland getur gengið í sambandið.
Virðulegi forseti!
Alþingi þarf að líta í eigin barm, þegar hugað er að núverandi samskiptum okkar við Evrópusambandið.
Samkvæmt skýrslu utanríkisráðherra, sem hér er til umræðu, er markmið hennar að skerpa sýn þingmanna á forsendur, stefnumið og tilgang Evrópulöggjafar. Þar segir einnig, að nauðsynlegt sé fyrir Íslendinga að gæta hagsmuna sinna, þegar framkvæmdastjórnin fjalli um mál á fyrstu stigum þeirra og mikilvæg forsenda slíkrar málafylgju sé, að alþingi og kjörnir fulltrúar hafi vakandi auga á málefnum innri markaðarins mun fyrr í stefnumótunar- og löggjafarferlinu en hingað til hefur tíðkast.
Þá kemur einnig fram, að utanríkisráðherra vill leggja sitt af mörkum til að auka hlut alþingis, utanríkismálanefndar og eftir atvikum annarra nefnda þingsins í ákvörðunum sem varða ESB og EFTA. Þetta sé þeim mun brýnna, þar sem Lissabon-sáttmáli ESB færi Evrópuþinginu og þjóðþingum ESB-landanna aukna hlutdeild í löggjafarferli ESB og þar með löggjöf, sem varði innri markaðinn og Ísland sé skuldbundið til að innleiða.
Ég tek heilshugar undir þessi sjónarmið og minni á, að Evrópunefndin mótaði skýrar tillögur í þessu efni. Hún lagði til kjör sérstakrar Evrópunefndar alþingis, að þingið ætti fulltrúa í Brussel, þingflokkar gætu ræktað pólititísk tengsl við systurflokka á Evrópuþinginu og miðlað yrði meiri upplýsingum af EES-vettvangi til þingnefnda.
Við nýlega endurskoðun á þingsköpum alþingis var ekki tekið mið af tillögu Evrópunefndar um að alþingi kjósi sérstaka Evrópunefnd. Ég skil niðurstöðu þingskapaumræðna á þann veg, að Evrópuverkefni hvíli að meginþunga á herðum utanríkismálanefndar og síðan fastanefnda eftir því, sem mál eru lögð fyrir þær.
Ég tel mikilvægt, að fylgt sé fram verklagsreglum um kynningu EES-mála fyrir utanríkismálanefnd alþingis, reglum, sem settar voru árið 1994.
Virðulegi forseti!
Ég tel mjög brýnt, að hin pólitíska leiðsögn í Evrópumálunum sé skýr og markviss og hún beinist meira að hinum raunverlegu viðfangsefnum á sviði Evrópumálanna en því, sem verða kann, ef einhvern tíma yrði til pólitískur meirihluti fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu.
Einkennilegt er, að fjargviðrast sé yfir því, að Íslendingar hafi ekki áhrif á löggjafar- og reglusetningu á vettvangi Evrópusambandsins, þegar á sama tíma er látið undir höfuð leggjast að nýta þau tækifæri til áhrifa, sem eru fyrir hendi og um hefur verið samið. Ísland yrði ekkert betur sett innan Evrópusambandsins að þessu leyti, ef þá yrði ekki heldur lögð áhersla á að gæta íslenskra hagsmuna til hins ýtrasta.
Í raun er líklegra, að Ísland hafi meiri áhrif í þágu eigin hagsmuna með því að beita sér gagnvart Evrópusambandinu utan þess en innan og á grundvelli þeirra góðu samninga, sem við höfum gert við Evrópusambandið.
Hafi Íslendingar eitthvað skynsamlegt til málanna að leggja hlustar Evrópusambandið og aðildarþjóðir þess auðvitað á þau sjónarmið. Á þetta jafnt við, hvort Ísland er utan eða innan Evrópusambandsins. Áhrif Íslands ráðast alltaf af því, sem fært er fram í nafni lands og þjóðar, eins og raunar kemur fram í skýrslu utanríkisráðherra, þegar rætt er um athugasemdir Íslendinga í samráðsferlinu um málefni siglinga og sjávar. Í skýrslunni segir:
„Íslensk stjórnvöld hafa fylgst með þessari vinnu síðustu ár, tekið virkan þátt í mótun stefnunnar og nýtt þau tækifæri sem boðist hafa til áhrifa. Hefur aðkomu Íslands að stefnumótuninni verið afar vel tekið innan ESB og tillit tekið til margra ábendinga íslenskra stjórnvalda. Eru þessi jákvæðu viðbrögð hvatning til að nýta í auknum mæli tækifæri til að hafa áhrif á löggjöf ESB á fyrstu stigum hennar, í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um frumkvæði í alþjóðamálum. Má segja að reynslan hvað varðar aðkomu Íslands að stefnumótun á þessu sviði geti verið fyrirmynd um hvernig Ísland geti haft áhrif á öðrum sviðum í framtíðinni.“
Virðulegi forseti!
Sem dóms- og kirkjumálaráðherra hef ég átt þess kost að sitja marga ráðherrafundi í Brussel, þar sem fjallað er um Schengen-málefni. Á fundunum og í tenglsum við þá hef ég kynnst því af eigin raun, hvernig unnið er að töku pólitískra ákvarðana á vettvangi Evrópusambandsins.
Að lokum er það lögmætisreglan, sem ræður úrslitum um, hvort mál nái í höfn sem sameiginleg málefni, það er hvort rétt hafi verið staðið að öllu ferli við töku ákvörðunar og hún falli innan ramma samnings, sem lýtur forræði Evrópusambandsins.
Í Schengen-samstarfinu er sífellt verið að fjalla um lögfræðileg álitaefni – til dæmis hvort ákvarðanir falli undir Schengen-samkomulagið eða ekki. Bretar og Írar eru í Evrópusambandinu en ekki í Schengen, þjóðirnar vilja hins vegar tengjast hinu öfluga landamæra- og lögreglusamstarfi, sem sprottið er af Schengen. Þær geta það ekki nema samstarf á þessu sviði sé lögfræðilega skilgreint utan Schengen.
Íslendingar og Norðmenn una þessari þröngu skilgreiningu illa en hún hefur hentað Svisslendingum vel, enda hafa þeir haft verulega fyrirvara á öllu samstarfi við Evrópusambandið.
Hvað sem þessu líður hefur framkvæmd Schengen-samkomulagsins tekist vel og að mínu mati eigum við Íslendingar að huga að enn frekari þátttöku í samstarfi, sem af því er sprottið eins og því, sem kennt er við þýsku borgina Prüm., og snýst um nána lögreglusamvinnu, sem felur m.a. í sér gagnkvæman aðgang að gagnabönkum, sem geyma lífkennaupplýsingar (DNA og fingraför), og bifreiðaskrám, auk náinnar samvinnu lögreglu yfir landamæri.
Í því felst mikil vanþekking að halda, að Schengen-samkomulagið snúist um það eitt, að menn þurfi ekki að framvísa vegabréfum á innri landamærum aðildarríkjanna. Í skýrslu utanríkisráðherra er því lýst á skýran hátt, hvaða ávinning við höfum haft af þátttöku í þessu samstarfi.
Um Schengen-samstarfið gildir hið sama og EES-samstarfið, að við gætum hvorki íslenskra hagsmuna né náum árangri nema vilji sé til þess að láta fé af hendi rakna til að sinna verkefninu. Vel hefur verið að verki staðið til þessa en betur má, ef duga skal miðað við hina öru framvindu mála á sviði lögreglu- og dómsmála á hinum evrópska vettvangi.
Flutningur samstarfs á þessu sviði frá þriðju stoð Evrópusamsbandsins, það er samstarfi, sem byggist á þjóðréttarlegum skuldbindingum, yfir í fyrstu stoð, þar sem meirihlutaákvarðanir ráðherraráðsins skuldbinda ríki, getur orðið til þess, að auðveldara verður fyrir Ísland að fá samninga sína við ESB um málefni af þessum toga fullgilta – nú þarf ekki lengur að bera þá undir þjóðþing allra ESB-ríkjanna heldur er nægilegt er að fá staðfestingu innan stjórnkerfis ESB í Brussel.
Virðulegi forseti!
Ég lýk máli mínu með því að þakka fyrir þessa skýrslu utanríkisráðherra. Hún byggist á raunsæi og hvetur til skynsamlegra aðgerða íslenskra stjórnvalda. Ljóst er, að alls staðar er ástæða til að láta hendur standa fram úr ermum til að nýta enn betur gildandi samninga við Evrópusambandið.