Lögbirtingablaðið 100 ára
Vík í Mýrdal, 18. janúar, 2008.
Ég vil fyrir hönd okkar gestanna þakka Önnur Birnu Þráinsdóttur, ritstjóra Lögbirtingablaðs og samstarfsfólki hennar fyrir að bjóða okkur hingað til að fagna 100 ára afmæli Lögbirtingablaðsins.
Við sem komum frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu erum stolt yfir því, hve vel hefur tekist til við flutning Lögbirtingablaðsins úr ráðuneytinu og fögnum, hve vel hefur verið staðið að rekstri þess hér í Vík undir forystu Önnu Birnu.
Fyrir okkur hefur verið ævintýri líkast að fylgjast með ýmsum starfsþáttum ráðuneytisins skjóta rótum víðsvegar um land og ná að blómstra þar á skömmum tíma undir öruggri handleiðslu sýslumanna.
Ég ætla hér í fáum orðum að minnast þriggja þátta úr 100 ára sögu Lögbirtingablaðsins.
Í fyrsta lagi er það upphafið.
Þegar rætt var á alþingi árið 1907 um nauðsyn þess að gefa út Lögbirtingablað, var hvergi minnst á aðsetur ritstjórnar. Það var raunar spurt, hvort nokkur þörf væri á ritstjórn, ráðherrann og samstarfsmenn hans gætu bara séð um útgáfuna með öðru í stjórnarráðinu. Þannig væri unnt að halda kostnaði í skefjum.
Þingumræðurnar tóku mið af því, að árin á undan eða síðan 1903 hafði útgefendum hinna almennu fréttablaða í Reykjavík verið veittur einkaréttur til að birta stjórnvaldsauglýsingar samkvæmt útboði og hlaut það blað hnossið, sem bauð landssjóði hæst árlegt gjald fyrir þennan rétt.
Hinn 1. apríl 1903 hvarf auglýsingarétturinn frá blaðinu Ísafold, sem hafði haft hann frá 1. janúar 1887 til blaðsins Þjóðólfs. Landsstjórninni þótti óhentugt fyrir almenning að skipta um auglýsingablað í miðjum árgangi og var samið um, að Þjóðólfur hefði auglýsingarnar til ársloka 1906 en frá 1. janúar 1907 voru þær aftur boðnar út, þó aðeins til eins árs, og varð hæstbjóðandi þá blaðið Reykjavík, sem hafði réttinn, þar til útgáfa Lögbritingablaðsins hófst 1. janúar 1908.
Þótti stjórnvöldum bæði óheppilegt og jafnvel hættulegt réttindum manna, að „hafa slíkt los á þessari rjettarstofnun, lögbirtingu auglýsinga og innkallana, sem varða svo mjög hagsmuni einstaklinganna“ eins og segir í greinargerð lagafrumvarpsins um útgáfu lögbirtinga-blaðs.
Auk þess væru blöðin mönnum misjafnlega geðfelld vegna þess, sem þar birtist „og það er augljóst hve óviðkunnanleg krafa það er, að menn kaupi eða lesi deilublöð, sem þeir annars ekki mundu vilja styðja, til þess að geta óræntir verið rjettindum, sem hinar opinberu auglýsingar hljóða um, og er það alveg jafnóviðkunnanlegt, hvort heldur fyrirskipanin stafar af geðþenki stjórnarinnar, eða af nokkurra króna yfirboði.“
Þingmenn voru ekki allir á einu máli um frumvarpið, sem Hannes Hafstein ráðherra flutti. Valtýr Guðmundsson lagðist gegn málinu í efri deild alþingis með vísan til þess, að það yrði 800 króna halli á útgáfunni en með útboðinu hefði landssjóður fengið 800 krónur í tekjur – tap sjóðsins yrði því samtals 1600 krónur.
Mér sýnist, að málið hafi komist í gegnum þingið, vegna þess að við frumvarpið var í meðförum þess bætt þessari lykilsetningu:
„Í blaði þessu skal birta allar auglýsingar um seldan óskilafjenað.“
Magnús Andrjesson, þingmaður Mýramanna, flutti þessa mikilvægu breytingartillögu og sagði, að með samþykkt hennar mundi aukast það gagn, sem almenningur hefði af auglýsingablaðinu, og það mundi bera sig betur, þó að auglýsingagjaldið væri ekki hærra en verið hefði.
Í öðru lagi vil ég geta um netvæðingu Lögbirtingablaðsins.
Hinn 1. júlí 2005 boðaði dóms- og kirkjumálaráðuneytið til athafnar hér í nágrenningu eða á Hvolsvelli til að fagna rafrænni útgáfu Lögbirtingablaðsins. Með því staðarvali var áréttað af hálfu ráðuneytisins, að hin rafræna umbylting á blaðinu leysti það úr landfræðilegu hafti höfuðborgarinnar.
Aðdragandi þessara breytinga var nokkuð langur, því að hinn 22. september 2000 skipaði Sólveig Pétursdóttir, þáverandi dóms- og kirkjumálaráðherra, nefnd til að gera tillögur um framtíðarskipulag á birtingu laga og stjórnvaldsfyrirmæla. Skyldi nefndin meðal annars endurskoða gildandi lög með tilliti til rafrænnar birtingar samhliða eða í stað hefðbundinnar birtingar.
Fyrsta skrefið til rafrænnar útgáfu Lögbirtingablaðsins var stigið í ársbyrjun 2002, þegar unnt varð að nálgast efni þess á netinu samhliða hinni prentuðu útgáfu. Reynslan af þessari netútgáfu varð góð og leiddi hún til þess, að flutt var frumvarp á alþingi, um að hætt yrði að prenta Lögbirtingablaðið og var það samþykkt með lögum 165/2002.
Á grundvelli þessara laga var stofnað til þess að smíða vefkerfi utan um rafræna útgáfu Lögbirtingablaðsins. Eftir útboð var skrifað undir verksamning við Hugvit hf. um þetta verk hinn 17. febrúar 2004.
Í þriðja lagi og að lokum vil ég nefna aðdraganda þess, að Lögbirtingablaðið fékk heimilisfang hér í Vík.
Við ákvarðanir um nýskipan lögreglumála varð niðurstaða sú, að ekki yrðu allir sýslumenn lögreglustjórar, en hugað yrði að nýjum verkefnum fyrir þá sýslumenn, sem létu af lögreglustjórn.
Dóms- og kirkjumálaráðuneytið dró upp lista yfir verkefni, sem það taldi til þess fallin að flytja í umsjá sýslumanna og var ritstjórn og útgáfa Lögbirtingablaðs eitt þeirra. Ég flutti frumvarp til laga um flutning verkefna frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti og var það samþykkt 8. desember 2006. Þar var fengin nauðsynleg heimild til að fela sýslumanni útgáfu blaðsins, og var sýslumanninum í Vík síðan falin útgáfan frá og með 1. janúar 2007, sbr. reglugerð nr. 1121/2006.
Ástæða þess að embætti sýslumannsins í Vík var falið þetta verkefni var ekki síst sú, að Anna Birna Þráinsdóttir sýslumaður hafði vorið 2006 óskað eftir að taka að sér Lögbirtingablaðið, og fylgdi hún þeirri ósk sinni fast eftir. Blaðið er nú alfarið unnið héðan frá Vík og með útgáfunni hafa orðið til tæp tvö starfsgildi.
Ég tek undir orð sýslumanns þess efnis, að flutningurinn hingað hafi gengið með eindæmum vel. Ég óska henni og samstarfsfólki hennar innilega til hamingju með það um leið og ég óska okkur öllum til hamingju með þessi tímamót.