15.10.1999

Hönnunarsafn Íslands

Hönnunarsafn Íslands
15. október 1999

Hönnunarsafn Íslands hefur lengi verið til umræðu. Nú er umræðunum lokið og safnið komið til sögunnar með fyrstu sýningu sinni. Skipulegur undirbúningur að þessum degi hófst með formlegum hætti í febrúar 1996. Þá skipaði ég nefnd til að gera tillögur um það, hvernig best væri að hrinda hugmyndinni um hönnunarsafn í framkvæmd.

Frá þeim tíma hafa menn stigið eitt skref í einu í átt að markinu. Mikilvægur áfangi náðist, þegar bæjarstjórn Garðabæjar tók hönnunarsafni opnum örmum. Staðfestum við bæjarstjóri og formaður Þjóðminjaráðs samstarf um safnið hinn 29. desember síðastliðinn og þá var jafnframt ákveðið, að safnið yrði hér í Garðabæ. Sú ákvörðun ein er gleðiefni, því að aðild Garðabæjar að safninu markar tímamót í sögu bæjarins.

Val á stað fyrir menningarstofnanir á borð við söfn og skóla veldur oft deilum. Í fyrstu líta menn gjarnan til Reykjavíkur og telja aðsetur þar forsendu fyrir vexti og viðgangi stofnunar, sem þeir bera fyrir brjósti. Nánari umhugsun kann að leiða til annarrar niðurstöðu, sem ekki er síðri. Í nágrenni Reykjavíkur hefur starfsemi listasafna þróast með ágætum. Nægir þar að nefna Gerðarsafn í Kópavogi og Hafnarborg í Hafnafirði.

Nú erum við að leggja grunn að nýju safni í Garðabæ. Fyrstu stofnuninni af þessu tagi innan bæjarins. Vil ég færa bæjarstjórn Garðabæjar þakkir fyrir mikinn áhuga á vexti og viðgangi hönnunarsafnsins.

Í Hönnunarsafni Íslands verður ekki aðeins um sýningar að ræða heldur einnig söfnun og skrásetningu muna, sem setja mikinn svip á daglegt líf okkar og bera þróun samfélagsins vitni.

Nefndin, sem vann að að gerð tillagna um hönnunarsafnið nefndi, að opinber stofndagur þess yrði 30. október, á fæðingardegi Matthíasar Þórðarsonar þjóðminjavarðar, sem varð einna fyrstur Íslendinga til að vekja athygli á nauðsyn þess að safna góðu íslensku listhandverki og nytjalist. Matthías markaði Þjóðminjasafni Íslands þá stefnu að sinna varðveislu muna af þessu tagi. Þess vegna skiptir aðild safnsins og þjóðminjaráðs að hönnunarsafni miklu, einkum þegar starfssvið hins nýja safns er mótað og hlutverk þess skilgreint með hliðsjón af hinni almennu starfsemi Þjóðminjasafns.

Þjóðminjaráð, þjóðminjavörður og aðrir starfsmenn Þjóðminjasafns Íslands hafa komið að stofnun og skipulagi hönnunarsafns með miklum velvilja og er hann ómetanlegur, þegar ýtt er úr vör.

Stofnun Hönnunarsafns Íslands verður ekki fagnað án þess að minnst sé á hlut hönnuðanna sjálfra, sem starfa innan vébanda samtakanna Form Ísland. Þeir hafa fylgt málinu eftir af þrautseigju. Án frumkvæðis þeirra og hvatningar stæðum við líklega ekki hér á þessari stundu.

Á sama tíma og unnið hefur verið að því að koma hönnunarsafni á laggirnar höfum við verið að hanna Listaháskóla Íslands. Hann var settur í fyrsta sinn fyrir rúmum mánuði og veitir nú menntun í myndlist. Skólinn mun verða öllu íslensku hönnunarstarfi mikil lyftistöng. Þar verður miðstöð þróunar á þessu sviði. Ég efast ekki um, að áhugi nemenda á námi í þessum greinum verður mikill á háskólastigi. Fáar nýjar greinar hafa kallað til sín jafnfmarga nemendur á skömmum tíma í framhaldsskólum og hönnunargreinar.

Hönnunarsafn gegnir lykilhlutverki fyrir þróun kennslu í þessum greinum á öllum skólastigum. Safnið og skólarinir skapa nýjar forsendur fyrir hönnun í íslensku þjóðfélagi. Segja má, að ekki sé seinna vænna fyrir okkur Íslendinga að veita hönnun þennan sess. Góð hugmynd og glæsileg útfærsla hennar ráða nú úrslitum um velgengni á öllum sviðum.

Ég óska nýráðnum forstöðumanni safnsins farsældar í starfi. Ég ítreka þakkir mínar til allra, sem hafa komið að því að stofna Hönnunarsafn Íslands og færi þeim heillaóskir í tilefni dagsins. Hönnunarsafn Íslands er opnað og fyrsta kynningarsýning þess.