20.12.2007

Öryggisleysi í Framsóknarflokknum.

Fréttablaðið 20. desember.

 

 

Valgerður Sverrisdóttir segir á vefsíðu sinni, að ég hafi viljað, að starfsemi ratsjárstofnunar félli undir „starfsemina í Skógarhlíð og þar með dómsmálaráðuneytið“ og ég hafi talið það stílbrot „að varnamálastofnun yrði til“ en nú hafi ég snúið við blaðinu, leyst ágreining fyrir forsætisráðherra og gefið eftir gagnvart Ingibjörgu Sólrúnu.

Frá því að varnarliðið fór hef ég lagt áherslu á borgaralegt hlutverk stofnana dómsmálaráðuneytisins. Hinn hernaðarlegi þáttur er hjá utanríkisráðuneytinu. Hér þarf að greina skýrt á milli. Ég hef jafnframt lagt áherslu á flutning boða frá ratsjárkerfinu til miðstöðvarinnar við Skógarhlíð. Telji utanríkisráðherra nauðsynlegt, að sérstök varnarmálastofnun sinni hernaðartengdum verkefnum vegna aðildarinnar að NATO og varnarsamstarfs við Bandaríkin í stað þess að verkefnið sé innan utanríkisráðuneytisins, lít ég ekki á það sem neitt stílbrot.

Siv Friðleifsdóttir segir í Fréttblaðinu 18. desember, að ég hafi unnið að því að leggja „meginlínur í varnar- og öryggismálum þjóðarinnar í myrkviðum kompum Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar.“ Þetta er alrangt. Ég hef í einu og öllu fylgt fram efni yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar frá 26. september 2006, en í þeirri ríkisstjórn sátu þær Siv og Valgerður.

Hinn 29. mars 2007 gerði ég ítarlega grein fyrir framvindu öryggis- og varnarmálanna í opinberu erindi og nú hef ég birt skýrslu um málið og lagt hana fyrir starfshóp utanríkisráðherra um hættumat. Það er rangt hjá Siv, að ég hafi verið gerður afturreka með nokkuð af þessum málum. Efni frumvarps um varalið lögreglu hef ég kynnt opinberlega og fulltrúar allra stjórnmálaflokka, ekki aðeins stjórnarflokkanna, eins og Siv segur, hafa verið upplýstir um ákvæði í hugsanlegu frumvarpi um öryggis- og eftirgrennslanaþjónustu lögreglunnar.

Öryggisleysi í Framsóknarflokknum birtist meðal annars í viðleitni Valgerðar og Sivjar til að ala á tortryggni í garð okkar, sem berum ábyrgð á öryggismálum þjóðarinnar. Ég fullvissa þær um, að ekki verður farið á bakvið þær eða nokkurn annan við meðferð þessara mála og allir geta komið óskaddaðir frá umræðum um þau, enda sé farið rétt með staðreyndir.