13.12.2007

Víðtækar öryggisráðstafanir

Kynning fyrir starfshóp utanríkisráðherra um hættumat 13. desember 2007

 I.                  Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar 26. september 2006.

II.               Öryggisstofnanir – hlutverk og markmið.

III.           Alþjóðlegar öryggiskröfur – alþjóðasamstarf.

IV.            Verkefni í vinnslu.

V.               Niðurstaða.

I. Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar 26. september 2006.

Við brottför varnarliðsins gaf ríkisstjórnin yfirlýsingu um aðgerðir á innlendum vettvangi – framkvæmd þessara aðgerða fellur að miklu leyti undir verksvið dómsmálaráðherra og ræddi ég þær aðgerðir ítarlega í erindi hinn 29. mars 2007.

Í yfirlýsingunni felst pólitísk ákvörðun um hlut stofnana ríkisins við gæslu öryggis lands og þjóðar. Hér verður rakið, hvernig staðið hefur verið að framkvæmd yfirlýsingarinnar af hálfu dómsmálaráðuneytisins, en öryggisstofnanir ríkisins starfa á þess vegum.

 1. Öryggis- og almannavarnaráð.
 2. Samhæfingar- og stjórnstöð.
 3. Varalið lögreglu.
 4. Tetra-fjarskiptakerfi.
 5. Ný flugvél, nýtt varðskip, nýjar björgunarþyrlur.
 6. Skipti á trúnaðarupplýsingum við ríkisstjórnir og alþjóðastofnanir.

 

2. tl. yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar september 2006

 

,,Til þess að efla almennt öryggi verður við endurskoðun laga um almannavarnir hugað að því að koma á fót miðstöð þar sem tengdir verði saman allir aðilar sem koma að öryggismálum innanlands, hvort heldur vegna náttúruhamfara, eða vegna hættu af mannavöldum. Til að tryggja sem bezt samhæfingu innan miðstöðvarinnar munu forsætisráðherra, utanríkis­ráðherra, dóms- og kirkjumálaráðherra, samgönguráðherra, heilbrigðis- og tryggingamála­ráðherra og umhverfisráðherra sitja í yfirstjórn hennar. Dagleg stjórn miðstöðvarinnar verður á vegum dóms- og kirkjumálaráðherra og mun hann leggja fram frumvarp til nýrra almannavarnalaga.“ 

Framkvæmd:

·        Hlutverk öryggis- og almannavarnaráðs (3 gr. lagafrv. um almannavarnir):

Almannavarna- og öryggismálaráð markar stefnu stjórnvalda í almannavarna- og öryggis­málum til þriggja ára í senn. Í stefnunni skal gera grein fyrir ástandi og horfum í almanna­varna- og öryggismálum, fjalla um áhersluatriði varðandi skipulag almannavarna- og öryggis­mála, forvarnastarf, nauðsynlega samhæfingu á efni viðbragðsáætlana og starfsemi opinberra stofnana á því sviði, nauðsynlegar birgðir til þess að tryggja lífsafkomu þjóðarinnar á hættutímum, endurreisn eftir hamfarir og aðrar aðgerðir sem ráðið telur nauðsynlegar

Umsýsla vegna almannavarna- og öryggismálaráðs og undirbúningur vegna funda þess er í höndum dómsmálaráðherra.

·        Skipan almannavarna- og öryggismálaráðs (4. gr. lagafrv. um almannavarnir):

Forsætisráðherra er formaður ráðsins og auk hans sitja þar dómsmálaráðherra, samgöngu­ráðherra, umhverfisráðherra, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, utanríkisráðherra og iðnaðarráðherra. Forsætisráðherra er heimilt að kveðja allt að tvo ráðherra að auki til setu í ráðinu í senn vegna sérstakra mála.

Í ráðinu sitja með ráðherrum ráðuneytisstjórar þeirra og embættismenn eða forstöðumenn: Ríkislögreglustjóri, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands, flugmálastjóri, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar, siglingamálastjóri , vegamálastjóri, veðurstofustjóri, brunamálastjóri, for­stjóri Umhverfisstofnunar, landlæknir, sóttvarnalæknir, orkumálastjóri og forstjóri Landsnets.

Í ráðinu sitja einnig fulltrúar Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Rauða kross Íslands og samræmdrar neyðarsvörunar. Tveir fulltrúar samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga.

·        Skipulag samhæfingar- og stjórnstöðvar (12. gr. lagafrv. um almannavarnir):

Í samhæfingar- og stjórnstöð fer fram samhæfing og yfirstjórn almannavarnaaðgerða með hliðsjón af almannavarnastigi og viðeigandi viðbragðsáætlun. Þar getur einnig farið fram samhæfing hvers kyns aðgerða við leit og björgun á landi, sjó og í lofti. Í stjórnstöðinni starfa fulltrúar viðbragðsaðila almannavarna. Samhæfingar- og stjórnstöð skal hafa aðgang að öruggu fjarskiptakerfi, sem er óháð og aðskilið frá almennum fjarskiptakerfum, vegna samskipta við viðbragðsaðila almannavarna.

Samhæfingar- og stjórnstöð lýtur níu manna stjórn sem dómsmálaráðherra skipar. Formaður stjórnar skal skipaður af ráðherra án tilnefningar. Ríkislögreglustjóri, Landhelgisgæsla Íslands, landlæknir, stjórn slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, stjórn samræmdrar neyðar­svörunar og stjórn Slysavarnafélagsins Landsbjargar tilnefna hver sinn fulltrúa í stjórnina og skulu þeir valdir úr hópi þeirra sem taka virkan þátt í starfi samhæfingar- og stjórn­stöðvarinnar. Auk þess tilnefna samgönguráðherra og stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga hvor sinn fulltrúa.

Kostnaður af starfsemi samhæfingar- og stjórnstöðvar greiðist úr ríkissjóði.

·        Verkefni samhæfingar- og stjórnstöðvar (13. gr. lagafrv. um almannavarnir):

Samhæfingar- og stjórnstöð skal virkjuð þegar nauðsyn krefst að mati þeirra sem koma að stjórn leitar, björgunar eða viðbragða við hættuástandi. Almannavarnanefnd eða viðbragðsaðili almannavarna getur óskað eftir því að samhæfingar- og stjórnstöð annist stjórn aðgerða vegna tiltekinnar hættu. Ef ágreiningur er í almannavarnanefnd eða á milli viðbragðsaðila um það hvort leita skuli til samhæfingar- og stjórnstöðvar getur hvor aðili um sig óskað eftir því við ríkislögreglustjóra að samhæfingar- og stjórnstöð taki við stjórn aðgerða.

3. tl. yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar september 2006

 

,,Samhliða því að unnið er að nýskipan lögreglumála, verður samstarf lögreglu, landhelgis­gæslu, slökkviliða og björgunarsveita aukið enn frekar þannig að tryggja megi þátttöku varaliðs hvarvetna þar sem þess kann að vera þörfí landinu.“

Framkvæmd:

·        Varalið lögreglu:

Sérstakar aðstæður, svo sem vegna öryggismála, kalla á að tímabundið getur þurft að fjölga mjög lögreglumönnum við störf. Opinberar heimsóknir, fjölmennir alþjóðlegir fundir, margvíslegt almannavarnaástand og önnur slík verkefni kalla í reynd á fleiri lögreglumenn en hægt er að tefla fram hérlendis.

Frumvarp um varalið lögreglu er fullbúið í ríkisstjórn en ákveðið var að fresta framlagningu fram yfir áramót.

5. tl. yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar september 2006

,,Unnið verður að því að koma á öflugu öruggu fjarskiptakerfi, Tetra kerfi, er nær til landsins alls.“

Framkvæmd:

·        Tetra-fjarskiptakerfi:

Tetra-kerfið er stafrænt talstöðvar- og farsímakerfi sérsniðið að þörfum viðbragðsaðila þar sem hraði og öryggi skiptir máli. Tetra sem talstöðvarkerfi er mjög öflugt miðstýrt hópfjarskiptakerfi sem stofnanir, fyrirtæki og félagasamtök eða einstaklingar geta nýtt sér sem stjórntæki fyrir hröð og örugg samskipti milli einstaklinga og hópa ásamt flotastjórnun eða eftirliti með hjálp ferilvöktunar. Það nær nú til landsins alls.

6. tl. yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar september 2006

 

,,Þegar hafa verið gerðar ráðstafanir til að efla þyrluþjónustu Landhelgisgæslunnar auk þess sem ný flugvél og nýtt varðskip verða keypt.“

Framkvæmd:

·        Efling Landhelgisgæslu Íslands:

Nýtt varðskip 2009.

Ný flugvél 2009.

Nýjar þyrlur 2011 til 2014.

4. tl. yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar september 2006

 

,,Tryggt verði að íslensk stjórnvöld hafi lögheimildir til náins samstarfs við stjórnvöld og alþjóðastofnanir þar sem skiptst er á trúnaðarupplýsingum.“

Framkvæmd:

·        Skipti á trúnaðarupplýsingum:

Frumvarp til laga um öryggisþjónustu ríkisins hefur verið kynnt trúnaðarmönnum þingflokka.

 

 

II. Öryggisstofnanir – hlutverk og markmið.

 

Dómsmálaráðherra ber ábyrgð á starfsemi löggæslu og öryggisstofnana. Ráðuneyti hans gætir  þjóðaröryggis og annast öryggismat, löggæslu, landhelgisgæslu, leit og björgun, landamæra­eftirlit, almannavarnir.

 

Til að sinna þessu verkefni er lögð áhersla á eftirfarandi meginatriði:

 

 • Styrk löggæslu- og öryggisstofnana.
 • Samstarf og samhæfða stjórn aðgerða.
 • Öflugt  alþjóðasamstarf við  löggæslu- og öryggisstofnanir.

Hlutverk löggæslu:

 

Löggæsluáætlun 2007 til 2010:

 

 • Áhættugreining vegna hættu á hryðjuverkum, skipulagðri glæpastarfsemi og síbrota­starfsemi.
 • Viðbúnaður vegna náttúruhamfara eða stórslysa, þar með vegna mengunarslysa, tæknilegra bilana mikilvægra veitukerfa, skipulagðrar glæpa­starfsemi, hryðjuverkaógnar og ógnar, sem beinist að rafrænum samskiptakerfum (cyber crime). 
 • Rannsóknir til að upplýsa og rannsaka tölvuglæpi.
 • Gæsla ytri landamæra og eftirlit með komu fólks til landsins og samvinna allra stofnana lögreglu og tollgæslu auk sérstakrar öryggisgæslu þar sem hennar er þörf.
 • Sérsveit ríkislögreglustjóra tekst á við öryggismál og lögreglustörf, sem krefjast vopnaburðar, hvar sem er á landinu og innan efnahagslögsögu þess. Sérsveitin heldur fjölþjóðlegar æfingar hér á landi og tekur þátt í æfingum erlendis.
 • Greiningardeild ríkislögreglustjóra tók til starfa 1. janúar 2007. Henni er ætlað að rannsaka landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess og leggja mat á áhættu vegna hryðjuverka og af skipulagðri glæpastarfsemi. Aðalhlutverk hennar er hættumat, sérstaklega hvað varðar skipulagða glæpastarfsemi og hryðjuverk, og samvinna við öryggisstofnanir annarra ríkja víðs vegar um heim. Greiningardeildin annast áhættumat vegna landamæravörslu, siglingaverndar og flugverndar og miðlar upplýs­ingum reglulega til viðeigandi samstarfsaðila. Þá mun greiningardeild árlega gefa út skýrslu um stöðu mála hérlendis, sérstaklega hvað varðar skipulagða glæpastarfsemi og hryðjuverkahættu.
 • Öflugt lögreglusamstarf er við Norðurlönd, tengslafulltrúi starfar hjá Europol í Haag, náið samstarf er við Interpol og FBI. Þá á ríkislögreglustjóri aðild að nefndum NATO um lögreglusamstarf á sviði öryggismála.

 

Hlutverk Landhelgisgæslu Íslands:

 

 • Öryggisgæsla og leitar- og björgunarþjónusta á hafi úti.
 • Löggæsla á hafinu umhverfis Ísland.
 • Eftirlit með lögsögumörkum á hafinu.
 • Eftirlit á hafinu samkvæmt lögum um siglingavernd og öðrum sambærilegum lögum.
 • Að fjarlægja eða gera skaðlaus reköld, tundurdufl, sprengjur eða aðra hluti sem sjó­farendum getur stafað hætta af auk sprengjueyðingar á landi.
 • Alþjóðlegt samstarf við sambærilegar stofnanir.

 

Landhelgisgæsluáætlun:

 

 • Öll skip sem sigla um lögsöguna verði vör við landhelgisgæslu. 
 • Öflun og greining upplýsinga um lögbrot, hryðjuverkavá, mengun, landamæraeftirlit, ólöglegan innflutning og fleira og miðlun þeirra milli viðeigandi stofnana innan lands og utan. 
 • Fiskveiðieftirlit með skyndiskoðunum um borð í skipum innan íslensku efnahags­lögsögunnar. 
 • Leit að mengun, kortlagning mengunarsvæða og hreinsun.
 • Upplýsingaöflun, greining og miðlun undir forystu Vaktstöðvar siglinga (VSS). Öll íslensk skip og öll skip innan íslensku efnahagslögsögunnar verði í sjálfvirku tilkynningarskyldukerfi. Eftirlit og greining með ratsjárkerfum er á hendi VSS sem og eftirlit og greining með gervitunglamyndum.
 • Skilvirk samvinna greiningarteymis landhelgisgæslunnar og greiningardeildar embættis ríkislögreglustjóra. Öflun og úrvinnsla allra upplýsinga er snerta öryggismál samhæfð. Tryggja ber aðgang landhelgisgæslu að öruggu samskipta- og upplýsingakerfi NATO.
 • Örugg gagnkvæm upplýsingaskipti um skipaumferð til og frá nágrannalöndum Íslands austan hafs og vestan. 
 • Gott samstarf við nágrannaþjóðir Íslands á sviði öryggis- og löggæslumála, við þjálfun og leit og björgun. 

 

Hlutverk almannavarna:

 • Tryggja samhæfð viðbrögð til þess að takast á við afleiðingar almannahættu, sem ógnar lífi og heilsu almennings, umhverfi og/eða eignum, án tillits til þess af hvaða rótum almannahættan er runnin.
 • Undirbúa, skipuleggja og grípa til ráðstafana sem miða að því koma í veg fyrir, eftir því sem unnt er, að almenningur verði fyrir líkamstjóni eða eignatjóni af völdum náttúru­hamfara, farsótta eða af mannavöldum, hryðjuverka, hernaðaraðgerða eða af annarri hættu og veita líkn í nauð og aðstoð vegna tjóns sem hugsanlega kann að verða eða hefur orðið.

Framkvæmd almannavarna:

 • Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra annast heildarskipulagningu almannavarna og framkvæmd þeirra þátta sem falla undir ríkisvaldið. Í því felst meðal annars að samhæfa gerð almannavarnaáætlana sveitarfélaga og stofnana og hafa eftirlit með endurskoðun og viðhaldi þeirra.

 

Björgunarsveitir:

 

 

III. Alþjóðlegar öryggiskröfur – alþjóðasamstarf.

 

Siglingavernd - Lög um siglingavernd:

 

 • Tryggja vernd skipa, áhafna, farþega, farms og hafnaraðstöðu fyrir hvers kyns ógn af hryðjuverkum og öðrum ólögmætum aðgerðum. (Ráðstafanir samkvæmt ákvæðum alþjóðasamþykktar um öryggi mannslífa á hafinu (SOLAS 1974) auk alþjóðakóða (ISPS Code) um skipa- og hafnavernd.)
 • Ríkislögreglustjóri ákveður hvaða vástig gildir um skip eða höfn að fengnu áliti Siglingastofnunar, tollyfirvalda og landhelgisgæslu. Ríkislögreglustjóri setur verklags­reglur um viðbrögð lögreglu við hækkuðu vástigi. Ríkislögreglustjóri hefur eftirlit með vegabréfum farþega eða skipverja við komu skipa erlendis frá þegar þeir fara frá borði og út fyrir hafnarsvæði. Hann tekur við tilkynningum frá landhelgisgæslunni um skipakomur ásamt upplýsingum um áhöfn og farþega.

 

Flugvernd – Lög um loftferðir:

 

 • Koma á og framkvæma viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir ólöglegar aðgerðir sem beinast gegn almenningsflugi.
 • Samkvæmt flugverndaráætlun Íslands er sérstök ábyrgð lögreglustjóra á sviði flugverndar á alþjóða­flugvöllum/landamærastöðvum eftirfarandi:
  • Að koma í veg fyrir og upplýsa afbrot eða tilraunir til brota á flugvöllum og gegn loftförum, m.a. með áhættugreiningu og söfnun upplýsinga.
  • Að hafa eftirlit með komu-/brottfararfarþegum sem gætu ógnað flugstarfsemi, samanber ákvæði lögreglulaga og laga um meðferð opinberra mála.
  • Að þjálfa lögreglumenn í flugverndaraðgerðum.
 • Einnig er kveðið á um að lögreglustjórar, í samvinnu við embætti ríkislögreglustjóra og flugmála­stjórn, skuli gera neyðaráætlanir til varnar og hindrunar á flugránum, skemmdarverkum, sprengi­hótunum, árásum og almennu uppþoti.

 

Landamæraeftirlit og eftirlit með útlendingum:

 

 • Ísland á aðild að Schengen-samstarfinu og hagar landamæraeftirliti sínu í samræmi við þær reglur, sem um það gilda. Á grundvelli samstarfsins hafa verið mótaðar samræmdar öryggisreglur og gripið til sameiginlegra ráðstafana til að hrinda þeim í framkvæmd.
 • Lögregla fer með persónubundið vegabréfaeftirlit á landamærum og eftirlit með því hvort útlendingar séu í lögmætri dvöl hér á landi. Hún hefur eftirlit með því að útlendingar séu með dvalarleyfi, og einnig atvinnuleyfi þegar það á við. Einnig annast lögreglan landamæragæslu, skýrslutökur af hælisleitendum og frávísanir útlendinga.
 • Útlendingastofnun gefur út dvalarleyfi hvort sem um er að ræða dvalarleyfi á grundvelli atvinnuþátttöku eða t.d. fjölskyldusameiningar, námsvistar eða vistráðningar, áritanir og umsóknir hælisleitenda. Lög um útlendinga mótast af aðild Íslands að evrópska efnahagssvæðinu (EES).

 

Alþjóðasamstarf:

 

 • 11. janúar 2007 var ritað undir samstarfssamning við varnarmálaráðherra Dana um samstarf Landhelgisgæslu Íslands og danska flotans.
 • 30. nóvember 2007 var ritað undir samstarfssamning við dómsmálaráðherra Noregs um kaup á þremur stórum björgunarþyrlum fyrir Landhelgisgæslu Íslands.
 • Landhelgisgæslan á aðild að North Atlantic Coast Guard Forum, sem stofnað var undir lok október með aðild 18 ríkja og verður þar með formennsku árið 2009.
 • Unnið er að fjórhliða samstarfssamningi við Bandaríkin, Kanada og Bretland um leit og björgun á N-Atlantshafi.
 • Unnið er að samningi við bandarísku strandgæsluna um beint og milliliðalaust samband milli hennar og landhelgisgæslunnar.
 • Unnið er að úrvinnslu hugmynda um aðild landhelgisgæslu að alþjóðlegu eftirlitskerfi fyrir tilstuðlan gervitungla.
 • Tryggja þarf milliliðalaust samband landhelgisgæslu við flotastöð NATO í Northwood í Bretlandi.
 • Tryggja þarf milliliðalaust samband dómsmálaráðuneytis, ríkislögreglustjóra og landhelgisgæslu við BICES-kerfi NATO.
 • Samstarf almannavarnakerfisins við erlendar stofnarnir sem sinna almannavörnum verður aukið þ.e. við stofnanir sem eru hjá Sameinuðu þjóðunum, ÖSE, Evrópusambandinu, NATO og á Norðurlöndum.

 

 

IV. Verkefni í vinnslu.

 

Öryggisþjónusta – eftirgrennslan:

 

 • Með nýrri öryggisþjónustu eða eftirgrennslanadeild yrði unnt að efla samstarf við önnur ríki um skipti á trúnaðarupplýsingum og við forvirkar rannsóknir og tryggja betur en nú er þátttöku Íslands í samstarfi Evrópusambandsins (ESB) í baráttu þess gegn hryðjuverkum m.a. í samstarfi við aðgerðamiðstöð ESB í Brussel og samtök landsbundinna öryggis­þjónustustofnana aðildarríkja Evrópusambandsins, Noregs og Sviss.
 • Í nýrri skýrslu ríkisendurskoðunar um ráðstafanir gegn ólöglegum innflutningi fíkniefna segir (bls. 21): „Svigrúm yfirvalda til að stunda sértæka eftirgrennslan er takmarkað ef þau hafa ekki heimildir til að beita svokölluðum forvirkum rannsóknaraðferðum (e. proactive investigation). Hafi yfirvöld slíkar heimildir mega þau fylgjast með og safna upplýsingum um einstaklinga jafnvel þótt ekki liggi fyrir rökstuddur grunur um brot. Erlendis eru slíkar heimildir yfirleitt bundnar við tilteknar löggæslustofnanir sem háðar eru sérstöku eftirliti.“

 

Varnir gegn sýkla-, efna- og geislavopnum:

 

 • Dómsmálaráðuneytið lét vinna skýrslu um varnir gegn sýkla-, efna- og geislavopnum.
 • Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu gegnir lykilhlutverki við varnir á þessu sviði.
 • Á vegum ráðuneytisins er unnið að frekari verkáætlun um nauðsynlegar aðgerðir.
 • Aðgerðir, sem gripið hefur verið til vegna hættu á heimsfarsótt vegna fuglaflensu, gefa vísbendingar um þann búnað, sem hér þarf að vera fyrir hendi.

 

Gæsla lofthelgi:

 

 • Eðlilegt er að nýta þekkingu og reynslu innlendra stofnana, það er flugmálayfirvalda, lögreglu og landhelgisgæslu til að leggja fram áætlun um hagkvæmustu leiðir til að gæta lofthelginnar.
 • Starfsemi Ratsjárstofnunar sé felld að verkferlum þeirra vöktunarstöðva, sem reknar eru í þágu íslenska ríkisins, auk þess sem örugg boð séu send úr ratsjárkerfinu til annarra ríkja eftir því sem þurfa þykir.

 

Öryggi rafeinda- og fjarskiptakerfa:

 

 • Orku-, vatns-, flug-, skipa- og landflutningum, heilsuvernd, löggæslu, banka- og verðbréfaþjónustu, neyðarþjónustu (112) er að verulegu leyti stjórnað með rafeinda- eða fjarskiptakerfum. Gera verður ráðstafanir til að tryggja virkni kerfanna við óvenjulegar eða sérstakar aðstæður s. s. náttúruhamfarir eða skemmdarverk.
 • Tryggja þarf öryggi rafeinda- og fjarskiptakerfa gegn skipulögðum árásum, innbroti og hlerunum.

 

 

 

V. Niðurstaða.

 

Yfirlitið ber með sér að margt hefur verið gert, annað er í deiglunni.

 

Fjárfestingin er mest í tækjum fyrir landhelgisgæsluna.

 

Byggist á mati á nýjum aðstæðum vegna þróunar á norðurslóðum.

 

Hætta á mengunarslysi.

 

Hætta á stórslysi skemmtiferðaskips, olíuskips, gasflutningaskips.

 

Borgaralegt samstarf ríkja á N-Atlantshafi að aukast.

 

Skynsamlegt að bregðast eftirliti með auðlindanýtingu og siglingum með borgaralegum aðferðum en ekki herafla.

 

Heima fyrir er nauðsynlegt að gera ráðstafanir vegna hættu af alþjóðlegri glæpastarfsemi – fíkniefni, mansal, peningaþvætti.

 

Hryðjuverk.

 

Öryggi í höfnum.

 

Sjórán/flugrán.

 

Almannavarnaverkefni hefðbundin en ný lög gefa ný tækifæri. Mikilvægustu þættir nýrra laga: almannavarna- og öryggismálaráð og samhæfingar- og stjórnstöð.

 

Mikið áunnist á undanförnum árum við að samhæfa störf allra, sem að  öryggismálum koma. Stílbrot á þeirri þróun að koma á fót nýrri stofnun í kringum ratsjárkerfið. Íhuga alla þætti vel, áður en það skref er stigið.

 

Loftvarnir eru veiki hlekkurinn í öryggisgæslunni, þeim er hins vegar auðveldast að sinna úr fjarlægð og án fastrar viðveru í landinu.

 

Fella á alla starfsemi á Keflavíkurflugvelli að íslenska stjórnkerfinu.

 

Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði á þingi 30. nóvember 2006:

„Stefnan hefur verið mörkuð. Hún er sú að á fyrrverandi varnarsvæði falli stjórnsýslan í sömu skorður og annars staðar í landinu almennt séð. Það þýðir að flugstarfsemin, það sem henni tilheyrir, mun flytjast frá utanríkisráðuneyti yfir í samgönguráðuneyti. Tollgæslan mun flytjast frá utanríkisráðuneyti yfir í fjármálaráðuneyti. Það er þegar búið að gera ráðstafanir til að löggæslan færist milli utanríkis- og dómsmálaráðuneytis. Svo eru önnur mál eins og heilbrigðismál og skipulagsmál sem á endanum munu rata til sinna almennu heimkynna í samræmi við það sem almennt gerist í landinu.“

 

Hér hefur verið lýst borgaralegum viðbrögðum til að tryggja öryggi Íslands og þeirra, sem í landinu búa. Störf og tillögur starfshópsins munu væntanlega leiða í ljós, hvort ríkisstjórnin telur, að af hennar hálfu þurfi að gera hér á landi sérstakar hernaðarlegar ráðstafanir að fengnu samþykki Alþingis. Sé talin þörf á því, að íslenskir ríkisborgarar vinni að hernaðarstörfum í umboði íslenskra stjórnvalda hér á landi eða annars staðar ber að setja lög um umboð þeirra til þess og skipa málum innan Stjórnarráðsins á þann veg, að ákvarðanaferli sé skýrt og þar með hin pólitíska ábyrgð.

 

Ég hef átt þess kost að ræða þessi mál og hernaðarlega stöðu við ýmsa fulltrúa nágrannaþjóða okkar undanfarið og er nærtækt að nefna, að alls staðar á Norðurlöndum hafa menn unnið að því undanfarin ár og misseri að móta stefnu þjóða sinna að því er hernaðarlegt öryggi varðar.  Á grundvelli þeirra viðræðna hef ég vakið máls á og tekið undir það mat yfirmanns norska hersins, að við gæslu öryggis á norðurslóðum vegna auðlindanýtingar og siglinga sé nærtækara að beita borgaralegum úrræðum en hernaðarlegum.

 

Að lokum er vakin athygli á eftirfarandi:

 1. Noregur: Nýjar framtíðartillögur yfirmanns norska hersins og pólitískar tillögur þing­manna og sérfræðinga eru til umræðu – búist við niðurstöðu á stórþinginu vorið 2008.
 2. Svíþjóð: Framtíðartillögur og hættumat þingnefndar var birt í 163 bls. skýrslu 4. desember sl.
 3. Danmörk: Starfað samkvæmt áætlun frá 2005, sem gildir til 2009.
 4. Finnland: 6. júlí 2006 birti finnska varnarmálaráðuneytið stefnu sína í öryggismálum til 2025.