24.11.2007

Íslenska vegabréfakerfið er öruggt og skilvirkt

Grein í Morgunblaðinu 24. nóvember, 2007.

ÓMAR Valdimarsson kvartar undan því í Morgunblaðinu 22. nóvember, að hann og kona hans hafi þurft að koma frá Afríku til Íslands til að endurnýja vegabréf sín. Ræðst hann af því tilefni ómaklega að þeim, sem hafa unnið að því að koma á hinu nýja kerfi og lætur í það skína, að ég hafi verið beittur blekkingum við útfærsluna á kerfinu. Fullyrðir Ómar, að um sé að ræða „fádæma fíflalegar og óhentugar reglur“ sem „einhver möppudýr“ hafi samið.

Af þessu tilefni vil ég árétta það, sem ég hef áður sagt, að ég er stoltur af því á hve hagkvæman og skilvirkan hátt tókst að innleiða hið nýja vegabréfakerfi á Íslandi. Ég tel, að leitun sé að nokkru landi, þar sem veitt er betri þjónusta á þessu sviði fyrir allan meginþorra þess fólks, sem óskar eftir vegabréfum – en á Íslandi er það hlutfall íbúanna með því hæsta, sem þekkist í heiminum.

23. júní síðastliðinn birtist forystugrein í The New York Times undir fyrirsögninni: Where are our passports? – Hvar eru vegabréfin okkar? Minnt er á, að síðan í janúar á þessu ári verði Bandaríkjamenn að framvísa vegabréfi, þegar þeir koma fljúgandi heim frá Kanada, Mexíkó, Bermúda og öðrum karabískum eyjum. Utanríkisráðuneytið, sem annist útgáfu vegabréfa, hafi haft tvö ár til að búa sig undir þessa breytingu. Eitthvað hafi greinilega farið í handaskolum, hin venjulega sex vikna bið eftir vegabréfi sé orðin að 10 til 12 vikum og nú séu um þrjár milljónir manna á biðlistanum.

Utanríkisráðuneytið segist ekki hafa átt von á öllum þessum umsóknum, það kosti sitt að fá vegabréf, 97 dollara fyrir venjulega afgreiðslu, 60 dollurum meira, ef menn óski eftir hraðafgreiðslu en hún taki tvær til þrjár vikur. Fyrirtæki, sem sérhæfi sig í hraðþjónustu á þessu sviði, taki 100 til 400 dollara fyrir að útvega mönnum vegabréf á nokkrum dögum. Fyrirtækin kaupi sér afgreiðslutíma hjá útgefanda vegabréfanna.

Útgáfa nýrra íslenskra vegabréfa, sem uppfylla allar alþjóðlegar kröfur, hófst 23. maí 2006 og hefur hún gengið vel. Fræðast má um vegabréfin á vefsíðunni www.vegabref.is. Afgreiðslutími vegabréfa er líklega ekki neins staðar styttri en hér og dæmi eru um, að menn sæki um vegabréf að morgni og taki það í afgreiðslu í Reykjanesbæ á leiðinni út á Keflavíkurflugvöll og greiði 10.100 kr. fyrir en fyrir venjulega afgreiðslu greiða menn 5.100 kr. Eins er víst, að vegabréfið berist í pósti daginn eftir að sótt er um það hjá sýslumanni, þar er tekin rafræn mynd af umsækjanda, en hún er innifalin í verðinu. Hæstiréttur felldi nýlega dóm um, að þessi tilhögun á myndatöku væri heimil, en ljósmyndarar stefndu dóms- og kirkjumálaráðuneytinu til að fá þjónustunni hnekkt.

Útbreiðsla vegabréfa er meiri hér en hjá flestum þjóðum og miklu meiri en í Bandaríkjunum en í byrjun þessa árs var talið að 73% Bandaríkjamanna ættu ekki vegabréf.

Með tilkomu hinna nýju vegabréfa, sem geyma upplýsingar um handhafa þess í örgjörva, er ekki lengur hægt að sækja um vegabréf á öðrum stöðum en þeim sem hafa yfir að ráða til þess gerðum búnaði. Umsækjandi þarf að fara á afgreiðslustað, hvort sem hann lætur taka af sér mynd þar eða kýs að koma með rafræna mynd. Þannig er tryggt að vélrænn samanburður á andliti viðkomandi og myndinni sem skráð er á örgjörvann sýni að handhafi bréfsins sé sá sami og á myndinni í örgjörvanum. Ferðalangar geta sætt slíkum samanburði hvar sem er í heiminum og því er brýnt að tryggja að samanburður á mynd og andliti leiði ekki til efasemda um að réttur handhafi bréfsins sé annar en sá sem er á myndinni. Við notkun kerfisins byggist smám saman upp myndabanki sem unnt er að nota til samanburðar við umsóknir um ný skilríki. Þar með verður til gagnabanki, sem nýta má til að framleiða vegabréf án þess að umsækjendur þurfi að fara á afgreiðslustað, t.d. þegar umsækjendur eru búsettir langt frá öllum umsóknarstöðum. Skoðað verður til hlítar, hvernig nýta má þennan gagnagrunn við endurnýjun vegabréfa þeirra, sem eitt sinn hafa verið skráðir í hann á fullnægjandi hátt.

Um eitt ár er liðið frá því, að innleiðing nýja vegabréfakerfisins hófst í sendiráðum Íslands. Nú er hægt að sækja um vegabréf í sendiráðunum í Washington, London, Berlín, Ósló, Stokkhólmi og Kaupmannahöfn. Rekstur kerfisins hefur gengið vel og miðar dóms- og kirkjumálaráðuneytið að því að fjölga útgáfustöðum. Utanríkisráðuneytið hefur nýlega fengið til umráða færanlega móttökustöð fyrir umsóknir um vegabréf. Hún verður nýtt, þar sem helst er talin þörf á henni miðað við fjölda Íslendinga á hverjum stað, ef þeir dveljast fjarri sendiráðum.

Öll viljum við, að opinber þjónusta sé klæðskerasniðin að þörfum okkar og hennar sé unnt að krefjast þar, þá og þegar við þurfum á henni að halda. Íslenska vegabréfakerfið er sniðið að þörfum alls meginþorra Íslendinga og þjónar þeim mjög vel. Ómar Valdimarsson vegur ómaklega að þeim, sem að því hafa unnið að hanna, innleiða og reka þetta kerfi.

Ef hann af alþjóðareynslu sinni getur bent okkur, sem berum ábyrgð á kerfinu, á betri þjónustu en veitt er við vegabréfaútgáfu hér á landi, væri fagnaðarefni, að hann ritaði grein í Morgunblaðið um málið.