1.11.2007

Bjarna Benediktssonar-styrkir.

Fréttatilkynning, 1. nóvember, 2007.

Hinn 30. apríl 2008 verða 100 ár liðin frá fæðingu Bjarna Benediktssonar lagaprófessors og forsætisráðherra. Til að minnast þeirra tímamóta hefur verið ákveðið að stofna til styrkveitinga á sviði lögfræði og sagnfræði.

Veittir verða sex styrkir til lögfræði- og sagnfræðirannsókna í fyrsta sinn 30 apríl 2008.

Þrír rannsóknarstyrkir verða veittir árlega á sviði stjórnsýslu- og stjórnskipunarréttar, einn að fjárhæð 1.000.000 kr. og tveir að fjárhæð 500.000 kr.

Markmiðið er að efla rannsóknir á þeim sviðum lögfræðinnar, sem snerta innviði stjórnskipunarinnar og réttaröryggi borgaranna gagnvart leyfisvaldi og eftirliti stjórnvalda.

Þrír rannsóknarstyrkir verða veittir árlega á sviði hag- og stjórnmálasögu 20. aldar til okkar daga, einn að fjárhæð 1.000.000 kr. og tveir að fjárhæð 500.000 kr.

Markmiðið er að efla rannsóknir og dýpka skilning á umbreytingum í íslensku efnahagslífi, stjórnmálum og utanríkismálum á 20. öld.

Þriggja manna úthlutunarnefnd um lögfræðirannsóknir er skipuð Páli Hreinssyni hæstaréttardómara, formaður, Björgu Thorarensen lagaprófessor og Birni Bjarnasyni ráðherra. Varamaður er Ragnhildur Helgadóttir, prófessor,

Þriggja manna úthlutunarnefnd um sagnfræðirannsóknir er skipuð Önnu Agnarsdóttur prófessor í sagnfræði, formaður, Matthíasi Johannessen rithöfundi og Sólrúnu Jensdóttur sagnfræðingi. Varamaður er Valur Ingimundarson prófessor.

Úthlutunarnefndir ákveða úthlutunarreglur, fara yfir umsóknir og annast úthlutun styrkja. Rannsóknamiðstöð Íslands (Rannís) mun annast rekstur og umsýslu sjóðsins og fylgja sömu reglum um opin og fagleg vinnubrögð og viðhöfð eru við rekstur annarra sjóða.

Ákvörðun úthlutunarnefndar um það hvaða rannsóknarverkefni skuli hljóta styrki byggist á faglegu mati á gæði rannsóknarverkefnis, færni og reynslu umsækjanda til að stunda rannsóknir og aðstöðu hans til að sinna verkefninu. Berist ekki umsóknir sem uppfylla framangreind skilyrði verður styrkjum ekki úthlutað.

Styrkþegi skal geta þess að rannsóknarverkefni hans hafi hlotið Bjarna Benediktssonar-styrk í inngangi eða formála, þegar rannsóknin er opinberlega birt.

Bjarna Benediktssonar-styrkir eru nú kynntir til úthlutunar í fyrsta skipti og er umsóknarfrestur til 1. febrúar 2008. Allar nánari upplýsingar fást á skrifstofu Rannís í síma 5155800 eða í netfangi rannis@rannis.is.

Vinir og samherjar Bjarna Benediktssonar ásamt fjölskyldu hans hafa sameinast um að afla fjár til að standa undir styrkveitingunum og er að því stefnt að um fimm ára verkefni verði að ræða. Verður haft samband við fólk og fyrirtæki, sem kann að vilja leggja þessu framtaki lið og opnaður söfnunarreikningur.

Um það hefur samist milli Borgarskjalasafns og afkomenda Bjarna Benediktssonar, að skjöl hans og myndir verði varðveitt í safninu. Er jafnframt á döfinni að opna vefsíðu í tengslum við safnið, þar sem birt verða gögn tengd Bjarna Benediktssyni, upplýsingar um Bjarna Benediktssonar-styrkina og efniságrip ritgerða styrkþega.