10.9.1999

Listaháskóli Íslands settur

Listaháskóli Íslands
10. september 1999

Við komum saman hér á Kjarvalsstöðum í dag og tökum þátt í merkum atburði í menningar- og skólasögu Íslendinga. Listaháskóli Íslands er settur í fyrsta sinn. Langþráðu takmarki er náð. Miklar vonir eru bundnar við hinn nýja skóla og honum fylgja góðar óskir um glæsta framtíð.

Undanfarna áratugi hafa ítrekaðar tilraunir verið gerðar til að stofna til ríkisrekins listnáms á háskólastigi. Þær misheppnuðust allar. Árangur náðist, þegar ákveðið var að höfða til listamanna sjálfra og hvetja þá til að taka að sér að verða bakhjarl listaháskóla. Vilji listamanna til að skapandi áhugi þeirra nýtist sem best í þágu skólans, var enn staðfestur með þeirri ákvörðun að ráða Hjálmar H. Ragnarsson tónskáld rektor skólans.

Á síðasta áratug var unnið að mörgum frumvörpum til laga, sem miðuðu að því að færa listnám á háskólastig. Hugmyndir voru kynntar um að breyta þremur starfandi framhaldsskólum í myndlist, tónlist og leiklist í jafnmarga háskóla. Árið 1988 tóku þrír fyrrverandi menntamálaráðherrar setu í nefnd og sömdu drög að frumvarpi um Listaháskóla Íslands. Voru þau drög rædd víða en urðu aldrei að lögum frekar en eldri frumvörp.

Enn var skipuð nefnd snemma árs 1991. Hún lagði til að listaháskóli yrði sjálfstæð kennslu- og rannsóknastofnun innan vébanda Háskóla Íslands, með sérstakri stjórn og eigin rektor. Var þessum tillögum hafnað af Háskóla Íslands.

Við svo búið skipaði menntamálaráðherra enn nefnd í nóvember 1992. Kom það í minn hlut að veita henni formennsku. Má segja að ég hafi síðan tekið þátt í undirbúa þennan dag í dag.

Við nefndarmenn töldum einsýnt að fella ætti listmenntun á háskólastigi í eina stofnun. Nefndin varð einnig einhuga um að stofna ætti einkaháskóla í þessu skyni. Það skapaði sjálfstæði í kennslu, stjórnun og rekstri, stuðlaði að gæðum, hagkvæmni og skilvirkni í rekstri, tryggði að saman færi ábyrgð og ákvörðunarvald stjórnenda, veitti skólanum frelsi til að þróa listmenntun á eigin forsendum og nýta hina bestu starfskrafta. Sömdum við drög að skipulagsskrá fyrir Listaháskóla Íslands og að samþykktum fyrir Félag um Listaháskóla Íslands, sem yrði opið listamönnum og öðrum og kysi þrjá menn af fimm í stjórn skólans.

Á grundvelli tillagna okkar flutti Ólafur G. Einarsson, þáverandi menntamálaráðherra, frumvarp til laga um listmenntun á háskólastigi. Alþingi samþykkti það einróma snemma árs 1995. Þar fékk menntamálaráðherra heimild til að semja við einkaaðila um að annast þessa listmenntun. Með samþykkt þessa lagafrumvarps mótaði alþingi stefnu að því marki, sem við höfum náð í dag.

Eftir að ég tók við embætti menntamálaráðherra vorið 1995, leitaði ég leiða til að hrinda þessum áformum í framkvæmd. Þar var enn í mörg horn að líta. Í samræmi við niðurstöðu í nefndinni, sem ég stýrði, var leitað eftir því, að Reykjavíkurborg kæmi að því að stofna Listaháskóla Íslands. Þegar á reyndi var ekki vilji til þess hjá borgarstjórn Reykjavíkur.

Forsendur einkarekins Listaháskóla Íslands voru enn treystar með samþykkt almennrar löggjafar um háskólastigið, sem tók gildi 1. janúar 1998. Á því ári tóku hjólin einnig að snúast hraðar. Í september var skólinn formlega stofnaður og stjórn þriggja listamanna og tveggja fulltrúa menntamálaráðuneytisins tók til starfa undir formennsku Stefáns P. Eggertssonar verkfræðings. Í nóvember var Hjálmar ráðinn rektor frá 1. janúar 1999. Í mars á þessu ári rituðum við undir áætlun til þriggja ára um það, hvernig hinn nýi skóli tæki að sér að veita menntun í myndlist, leiklist og tónlist.

Þessi áætlun hefur gengið eftir og nú er komið að framkvæmd hennar.

Ég hef kosið að stikla á stóru um aðdragandann til að árétta þá fullyrðingu að langþráðu takmarki er náð. Fjöldi manna hefur lagt hönd á plóginn. Væri of langt mál að nafngreina þá alla um leið og þeim eru færðar einlægar þakkir. Mestu skiptir, að listamenn voru tilbúnir til að axla ábyrgð á skólanum. Hefur Pétur Einarsson, leikari og formaður Félags um listaháskóla, haft þar mikilvæga forystu. Er ég viss um, að öflugur stuðningur listamanna verður einn mesti styrkur skólans, þegar til lengdar lætur.

Menningarlíf á Íslandi stendur nú með miklum blóma. Er sama hvar borið er niður, alls staðar tala menn um meira líf en nokkru sinni fyrr. Bókaútgáfa sló fyrr met árið 1998 og sömu sögu er að segja um. aðsókn að leikhúsum á liðnum vetri. Sinfóníuhljómsveit Íslands nýtur stöðugra og vaxandi vinsælda og nú er rætt um að stækka þurfi salinn í fyrirhugðu tónlistarhúsi til að koma til móts við þær. Umsvif í kvikmyndagerð eru meiri en áður, en að minnsta kosti sex íslenskar kvikmyndir verða frumsýndar á næstu mánuðum.

Við þetta blómlega menningarlíf bætist nú Listaháskóli Íslands. Hann er nýr skóli á eigin forsendum. Grunnur að námi í skólanum hefur hins vegar verið lagður með farsælu starfi annarra skóla. Nefni ég í dag sérstaklega Myndlista- og handíðaskólann. Þar hefur ríkt mikill listrænn metnaður. Gróskan í íslenskri myndlist er mikil og verður mikill hlutur skólans aldrei metin þar til fulls.

Ég er ekki í nokkrum vafa um, að Listaháskóli Íslands verður vinsæll. Í framhaldsskólum eru nýjar listnámsbrautir að koma til sögunnar með nýjum námskrám. Er mikilvægt, að stjórnendur og kennarar listaháskólans sendi skýr boð til nemenda á framhaldsskólastigi um kröfur listaháskólans og markmið. Meðal framhaldsskólanema er auk þess mikill áhugi á hönnun og nýsköpun á öllum sviðum með upplýsingatækninni. Bind ég vonir við, að listaháskólinn virki þennan mikla skapandi kraft. Hann gæti þar með orðið að öflugum starfsmenntaháskóla á þeim sviðum, sem skapa hvað mestan arð í samtímanum.

Árið 1991 var skólanum ætlað húsnæði á Laugarnestanga. Ljóst er, að það verður mjög kostnaðarsamt að innrétta þetta húsnæði fyrir skólann. Stefnt er að því, að öll starfsemi skólans flytji í húsnæði hans árið 2001. Stjórn skólans skoðar nú allar skynsamlegar leiðir að þessu markmiði. Af hálfu ríkisvaldsins hefur verið lýst yfir vilja til að standa að því að búa skólanum góðan samastað.

Setning Listaháskóla Íslands er sögulegur áfangi á ferðalagi, sem aldrei lýkur. Háskóli nær í raun aldrei markmiði sínu, því að hann þarf alltaf að takast á við ný viðfangsefni. Megi sá andi metnaðar og skapandi framsýni ríkja innan Listaháskóla Íslands.

Ég óska nemendum Listaháskóla Íslands, rektor, kennurum og stjórn farsældar í mikilvægum störfum. Ég færi íslenskum listamönnum og unnendum lista hamingjuóskir. Þessi tímamót eru hátíðisdagur allra Íslendinga.

Megi Listaháskóli Íslands vaxa og dafna um langan aldur.