3.9.1999

Háskólahátíð 1999

Háskólahátíð
3. september 1999

Á tímum örra breytinga getur verið erfitt að ná áttum og leggja rétt mat á stöðu sína. Segja má, að háskólastigið sé nú á slíku breytingaskeiði jafnt hér á landi sem hvarvetna annars staðar í heiminum.

Rithöfundurinn Stefan Zweig segir frá því í meistarverki sínu Veröld sem var, þegar hann hóf háskólanám í Austurríki fyrir réttum hundrað árum. Á þeim gömlu og gleymdu tímum hafi enn verið nokkur rómantískur ljómi yfir því að fara í háskóla. Ýmis hlunnindi fylgdu því að vera stúdent, svo að ungir háskólaborgarar nutu víðtækra forréttinda fram yfir aðra jafnaldra sína. Háskólarnir hafi flestir verið stofnaðir á miðöldum, á þeim tíma þegar tæplega var litið á það sem starfsgrein að leggja fyrir sig vísindastörf, og því nauðsynlegt að veita stéttinni einhver forréttindi til að laða unga menn að námi.

Sá tími er sannarlega liðinn, að veita þurfi forréttindi til að laða ungt fólk að námi. Hitt er að verða sönnu nær, að það séu forréttindi að komast að í því háskólanámi, sem menn hafa hug á að stunda. Hvarvetna standa stjórnendur háskóla frammi fyrir því gleðilega viðfangsefni, að þeim fjölgar sífellt, sem vilja komast að í skólunum. Vandi skólastjórnenda felst í því að tryggja nægilegt fjármagn, nota fjármuni vel og stjórna skólastarfi þannig, að góðir kennarar veljist til starfa og staðið sé að kennslu og rannsóknum af metnaði.

Fyrir nokkrum mánuðum var prófessor Anthony Giddens, sem er rektor London School of Economics og jafnframt helsti hugmyndafræðingur þriðju leiðarinnar svonefndu í stjórnmálum, hér í heimsókn. Í samtali okkar taldi hann lífsnauðsynlegt fyrir skóla sinn að afla tekna með skólagjöldum. Skólinn ætti í samkeppni við háskóla á borð við Harvard í Bandaríkjunum, sem væri í hópi öflugustu fyrirtækja þar í landi. Enginn háskóli gæti staðist slíka samkeppni án heimildar til að innheimta kennslugjöld. Gjöldin tryggðu nemendum betri menntun. Kostnaðarvitund nemenda og kennara skerptist, nemandinn nyti námsins til langs tíma og ætti því að bera kostnað umfram skatta sína auk þess sem hann styrkti skóla sinn til góðra verka. Ókeypis háskólaganga leiddi ekki til þess að hinir efnaminni færu frekar í langskólanám.

Mér er ljóst, að það eitt er hættulegt fyrir menntamálaráðherra að lýsa skoðunum annarra á skólagjöldum. Hefur það áður verið lagt út í áróðursumræðum hér á landi á þann veg, að ég sé að mæla með slíkri gjaldtöku í ríkisháskólum á Íslandi. Ég tel þó skylt að taka þessa áhættu, því að ræði menn ekki þennan þátt í starfsumhverfi háskóla, sjá þeir aldrei heildarmyndina. Þeim löndum fækkar, þar sem háskólanám er ókeypis fyrir nemendur.

Á vegum Eurydice, sem er samstarfsvettvangur þjóðanna á evrópska efnahagssvæðinu um söfnun og miðlun upplýsinga um menntamál, hefur nýlega verið gefin út fróðleg skýrsla um fjárhagslegan stuðning við háskólastúdenta í Evrópu. Þar er einnig að finna röksemdir með og á móti skólagjöldum og samanburð milli þjóða í því efni. Tilgangur skýrslunnar er meðal annars að auðvelda stjórnvöldum menntamála og öðrum að átta sig á þeim kostum, sem fyrir hendi eru við þróun og stjórn háskólastigsins.

Í öllum löndum er stefnt að því að bjóða meirifjölbreytni í námsvali um leið og nemendum fjölgar. Talsmenn aukinnarmenntunar þurfa að huga að leiðum til að örva frumkvæði, frumleika ogárangur í kennslu og rannsóknum, og fjárstreymi til skóla ogrannsóknarstofnana. Leiðir til þessa eru margar en geta verið vandrataðar.Við fjármögnun er ekki margra kosta völ og um hana þarf að ríkja sæmileg sátt,svo að nemendur, kennarar og skólastjórnendur geti einbeitt sér aðhöfuðtilgangi skólastarfsins, markvissu námi og metnaðarfullri kennslu. Telég, að því markmiði verði best náð með samningum milli ríkisvaldsins ogeinstakra skóla, sem byggjast á hlutlægu mati á vel skilgreindum kostnaði.

Margir eru orðnir langeygðir eftir slíkum samningi um starfsemi Háskóla Íslands. Er ég í þeim hópi. Samningar byggjast ekki á því, að annar hvor aðili hafi allt sitt fram, heldur á samkomulagi um skynsamlega niðurstöðu. Tel ég sanngjarna lausn innan seilingar og hvet eindregið til að þessi mikilvægi þáttur í samskiptum ríkisvalds og háskóla verði til lykta leiddur.

Þegar umræður um sérstök lög fyrir Háskóla Íslands á grundvelli, nýrrar almennrar löggjafar um háskólastigið, hófust, var andrúmsloftið þannig, að fæstir töldu líklegt að sátt næðist um málið. Samráð og viðræður leiddu hins vegar til þess, að gott samkomulag tókst og hinn 1. maí síðastliðinn gengu nýju lögin í gildi. Vil ég við þetta tækifæri þakka Páli Skúlasyni, rektor Háskóla Íslands, og samstarfsmönnum hans framlag þeirra til farsællar lausnar í málinu og í mörgum álitaefnum öðrum.

Fyrstu lög um Háskóla Íslands voru sett fyrir 90 árum. Þau endurspegluðu andrúmsloft síðustu aldamóta. Með nýju lögunum um skólann eru gerðar róttækustu breytingar á stjórnarháttum hans frá upphafi. Breytingarnar eru til þess fallnar að efla skólann enn frekar og treysta stöðu hans.

Eftir að rammalöggjöfin um háskólastigið tók gildi 1. janúar 1998 hefur þróunin verið mjög ör. Menntamálaráðuneytið hefur veitt þremur einkaháskólum starfsleyfi á grundvelli laganna: Viðskiptaháskólanum í Reykjavík, Samvinnuháskólanum á Bifröst og Listaháskóla Íslands. Ný lög um Háskólann á Akureyri tóku gildi 1. júlí síðastliðinn. Nú er rætt, hvernig best verður staðið að því að laga Tækniskóla Íslands að nýju lögunum þannig að tæknimenntun verði skipað eins og best má fara. Henni verði skapað aðlaðandi og verðugt umhverfi með hagsýni og metnað að leiðarljósi. Er verulegur áhugi hjá aðilum atvinnulífsins á því, að Tækniskóli Íslands verði einkarekinn, leiðir að því marki verða skoðaðar til hlítar á næstu vikum.

Samhliða þessum breytingum á hinum hefðbundnu háskólum hafa nýjar menntaleiðir opnast um land allt með miðstöðvum símenntunar og fræðslunetum. Er í sjálfu sér með ólíkindum, hve þróunin hefur verið ör í þessu efni. Þar skapast ný og spennandi tækifæri fyrir háskóla til að þróa fjarkennslu. Er nauðsynlegt fyrir Háskóla Íslands að taka virkan þátt í þessu starfi. Upplýsingatæknin setur sífellt meiri svip á allt skólastarf. Hún hefur ekki aðeins breytt heiminum í þorp heldur eina skólastofu.

Tengsl milli annarra skólastiga og háskóla þurfa einnig að taka breytingum. Nýjar námskrár fyrir grunnskóla og framhaldsskóla hafa tekið gildi. Þar er gert ráð fyrir meira valfrelsi nemenda en áður. Stefnt er að því, að nemendur ráði, hvort þeir taka samræmd próf úr grunnskóla, prófin verði réttur, sem veitir nemendum réttindi til að velja sér námsbrautir í framhaldsskólum. Innan bóknámsbrauta framhaldsskólanna hafa nemendur mikið val. Aukið frelsi og aukin ábyrgð gjörbreytir afstöðu nemenda til menntunar sinnar og þess tíma, sem þeir verja í skólum.

Ég nefni þetta hér, því að skilaboð, sem nemendur fá úr háskólum um inntökuskilyrði einstakra deilda þar, geta skipt sköpum fyrir ákvarðanir þeirra. Vilji háskóladeildir laða til sín nemendur eða tryggja, að þeir undirbúi sig sem best, er brýnt, að þær segi þeim skýrt og skorinort, hvaða kröfum þeir þurfi að fullnægja. Reynslan meðal annars af kynningarstarfi á vegum deilda Háskóla Íslands sýnir, að mestur árangur næst með því að kveikja sem fyrst í framhaldsskóla áhuga nemenda. Það er raunhæfara viðfangsefni en deilur um, hve margar stundir eða einingar eru bundnar með námskrám.

Við eigum að varast að hugsa fyrir nemendur og steypa þá í sama mót. Meiru skiptir að þjálfa þá í að beita agaðri hugsun, enda séu kröfur og námsleiðir skýrar og afdráttarlausar. Takist það treysti ég nemendum til að taka skynsamlegar ákvarðanir um framtíð sína.

Góðir áheyrendur!

Nýmælin í starfsemi háskóla eru mörg og þau verða alls ekki öll rakin hér. Vegna hinna öru breytinga í samfélaginu og til að leggja á ráðin um hvað dugi best til að gera góða háskóla enn betri, hef ég falið starfsmönnum menntamálaráðuneytisins að leggja drög að háskólaþingi, sem efnt yrði til í byrjun nóvember eða síðar, ef undirbúningur krefst meiri tíma .

Síðasta kjörtímabil einkenndist af miklum umræðum um fyrstu skólastigin. Þær skiluðu góðum árangri, sem kemur í ljós stig af stigi.. Nauðsynlegt er að ýta undir sambærilega þróun á háskólastiginu. Allt skólastarf ber þess nú merki, að menn verða sífellt að kynna sér eitthvað nýtt og endurskoða markmið og leiðir.

Sigurður Nordal prófessor komst þannig að orði: „Háskóli er ekki heiti, sem felur í sér fulla skilgreiningu, afmörkun. Það er heiti, sem markar stefnu, bendir fram á leið."

Við skulum skilgreina inntak þessarar stefnu við núverandi aðstæður í þjóðfélagi okkar. Slík vinna stuðlar ekki aðeins að því að styrkja háskólastigið á tímum mikilla breytinga. Hún er einnig til þess fallin að skilgreina stöðu íslensku þjóðarinnar í samanburði við aðrar þjóðir á öld þekkingar og upplýsinga. Við höfum kvatt veröld sem var og lifum tíma stöðugra breytinga. Tækifærin, sem þær bjóða, nýtast okkur ekki nema með meiri og betri menntun, rannsóknum og vísindum.