18.5.2007

Sagður höfuðpersóna í leikriti sem ég hef aldrei tekið þátt í

Viðskiptablaðið, 18. maí 2007 - Ólafur Teitur Guðnason

 

Fyrir réttri viku birtist í flestum dagblöðum landsins heilsíðuauglýsing frá Jóhannesi Jónssyni, oft kenndum við Bónus, þar sem kjósendur í Reykjavíkurkjördæmi suður voru hvattir til að strika yfir nafn Björns Bjarnasonar. Daginn eftir settu liðlega 2.500 kjósendur strik yfir nafn Björns og gerðu þannig að verkum að hann færist niður um sæti á lista Sjálfstæðisflokksins. Viðskiptablaðið hitti Björn að máli og spurði fyrst hver væri að hans mati skýringin á þessum fjölda útstrikana.

“Skýringin er einföld: það er auglýsingin frá Jóhannesi, sem hvetur fólk til að kjósa mig ekki,” segir Björn. “Það er alveg augljós skýring og hann segir sjálfur í auglýsingunni að ástæðan sé hvernig Baugsmálið hafi verið rekið, að hann hafi verið ákærður og að það standi jafnvel til að skipa einn af ákærendunum ríkissaksóknara, en sá maður hljóti að “hafa eitthvað á” mig og að af þessum sökum sé ekki hægt að kjósa mig.

Þetta er mjög óvenjulegt. Ég er þakklátur þeim rúmlega 80% kjósenda, sem létu áskorunina ekki hafa áhrif á sig. Í garð hinna ber ég engan kala. Þeir neyttu þess réttar, sem þeir hafa. Það sem mér finnst dapurlegast er hvernig þessu hefur verið tekið á almennum umræðuvettvangi. Aðrir stjórnmálamenn hafa almennt yppt öxlum fyrir utan Geir H. Haarde. Við munum sum eftir því þegar svokallaðir auðmenn þeirra tíma, en þeir væru bara smáseyði í samtímanum, birtu auglýsingu þegar Ólafur Ragnar Grímsson  var í forsetaframboði. Þá fór allt á annan endann og menn áttu ekki nógu sterk orð til að lýsa því hvað þetta væri yfirgengilega mikið inngrip og dónaskapur. Nú sitja þeir þöglir sem þá hrópuðu hátt og sjá ekkert athugavert. Aukin auðsöfnun og meiri fámennisstjórn í fjölmiðlum og viðskiptum kann að hafa brenglað dómgreindina, sem er mikið áhyggjuefni hvað sem minni persónu líður.

En ég vona að þegar frá líður verði litið á þetta sem undantekningu í stjórnmálasögunni. Og vonandi á þetta eftir að þykja það langt gengið að menn vilji ekki að það endurtaki sig. Ég vona líka að menn séu ekki almennt með þessu hugarfari í viðskiptaheiminum, að þeir eigi bara að reiða til höggs í krafti áhrifa sinna og peninga eða vinsælda sem kaupmenn og ráðskast með það hverjir sitja á þingi af því að þeir sæta opinberu eftirliti. Hvergi í heiminum telja menn slíkt eðlilegt. Það er orðinn misbrestur í réttarríkinu ef menn telja ekki að það sé ástæða til að standa gegn íhlutun í hið opinbera réttarkerfi, þegar lamið er á því í krafti auðs og viðskiptaumsvifa.”

 

Það hlýtur að koma þér á óvart að liðlega tvö þúsund manns verði við þessu ákalli.

“Óvart, ég veit ekki hvaða orð á að nota. Auðvitað vilja allir að störf þeirra séu metin að verðleikum, ég tel það ekki hafa verið gert með þessari hvatningu um að kjósa mig ekki. Ég hef oft sætt miklum árásum og staðið þær af mér, það er bara eins og það er. Menn hafa verið í átökum við mig bæði innan flokks og utan og ég hef aldrei siglt sérlega lygnan sjó í stjórnmálum. Þannig að ég kippi mér ekkert sérstaklega upp við þetta umfram margt annað. Bardagaglaðir menn verða að þola orrustur og best er að lifa þær af, eins og ég hef gert til þessa.”

 

Hefur þetta áhrif á þína stöðu, til dæmis varðandi setu í ríkisstjórn ef flokkurinn verður þá áfram aðili að stjórn?

“Nú er það ekki mitt að ákveða það heldur formanns flokksins sem gerir tillögu til þingflokksins. Ég trúi nú ekki að auglýsing af þessu tagi ráði því. Ef hún kæmi þar til álita þá væri það líka einstakt nýmæli í stjórnmálasögunni. Formaðurinn hefur raunar sagt að honum finnist framganga Jóhannesar með öllu óviðeigandi og hvergi ljáð máls á því að það beri að fara eftir svona auglýsingum.”

 

Hvað finnst þér almennt um útstrikanir sem valkost kjósenda?

“Menn hafa mismunandi aðferðir til að hafa áhrif á persónukjör en þetta er bæði gamaldags og neikvæð aðferð miðað við allar umræður um lýðræðisleg áhrif almennings. Þarna vilja ríflega 80% kjósenda flokksins engar breytingar gera en innan við 20% hafa svona mikil áhrif. Í öðrum löndum eru reglurnar yfirleitt jákvæðar, í þeim skilningi að ef menn vilja veg einhvers sem mestan þá halda þeir honum fram og reyna að lyfta honum upp í kosningum. Það hvetur einnig frambjóðendur til að hafa áhrif á kjósendur á jákvæðan hátt í kosningabaráttunni.

Ég hafði engin tök á að bregðast við þessari auglýsingu. Spyrja mætti: Ef það er ráðist á þig svona persónulega áttu að setja einhverja kosningavél í gang í kjördæminu? Í þessu tilviki var aðferðin sú að birta auglýsinguna á elleftu stundu, svo að erfitt yrði um allar gagnráðstafanir. Yfirleitt nálgast nú frambjóðendur kosningar með jákvæðu hugarfari og reyna að afla sér fylgis í staðinn fyrir að bregðast við svona neikvæðum árásum. Ef menn vilja ganga lengra í því að hægt sé að hafa áhrif á lista á kjördag finnst mér miklu nær að gera það á jákvæðan hátt heldur en að menn séu strikaðir út. Er það slíkt andrúmsloft sem við viljum hafa hér í kringum kosningar? Listinn var ákveðinn í prófkjöri með þátttöku þúsunda manna. Hefði ekki verið eðlilegra að Jóhannes birti þessa auglýsingu í prófkjörsslagnum? Hvernig hefðu kjósendur Sjálfstæðisflokksins tekið því þá?”

 

Jóhannes telur sig eiga harma að hefna gagnvart ákæruvaldinu og grípur til þess ráðs að hvetja kjósendur til að hafna dómsmálaráðherranum. Gengur sú nálgun hans upp?

“Hún hefur í það minnsta verið reynd núna! Það hefði auðvitað getað gerst að ég hefði verið felldur alveg út af listanum þannig að ég sæti ekki lengur á Alþingi. Hefðu menn viljað búa við slíkt kerfi? Þurfa einhverjir slíkir “dramatískir” atburðir að verða til þess að menn átti sig á því um hvað þetta snýst?

Ef menn vilja fara út í það að sakborningar eða þeir sem ákærðir eru hafi áhrif á hverjir eru saksóknarar, er einfaldast að leggja til að við kjósum menn í saksóknarastörfin eins og gert er í sumum löndum. Við erum reyndar að auglýsa eftir ríkissaksóknara núna en fáum ekki mjög margar umsóknir. Kannski það sé öðrum þræði verið að fæla fólk frá því að fara í svona störf. Eitt er að vera pólitíkus og dómsmálaráðherra og hafa tækifæri til að ræða málin á pólitískum vettvangi, annað að vera embættismaður sem ber skylda til að haga málflutningi sínum þannig að það standist allar kröfur réttarins en þurfa síðan að sitja undir árásum eins og þarna koma fram og virðast jafnvel hluti af málafærslu. Hvers vegna skyldu menn sækjast eftir því sérstaklega að verða slíkur skotspónn, þegar starfsskyldur þeirra felast í því að leggja mál fyrir dómara og hlíta niðurstöðu þeirra?

Margt hefur verið reynt í þessu máli til að þagga niður í mér. Það eitt að ég noti orðið “Baugsmiðlar” hefur orðið tilefni til þess að spurningar um málnotkun mína hafa verið lagðar fyrir dómara. Þegar ég setti Sigurð Tómas Magnússon ríkissaksóknara haustið 2005 fór það fyrir Hæstarétt hvort ég væri hæfur til að skipa hann vegna orða, sem ég hafði látið falla. Þannig að þú sérð að það er tekist á um allt í þessu.

Eftir að ég birti yfirlýsingu  mína um auglýsingu Jóhannesar, snerist Hreinn Loftsson, stjórnarformaður Baugs, til varnar fyrir hann með pólitískum árásum á mig. Athygli hefur verið vakin á því að Gestur Jónsson höfuðlögmaður Baugs er formaður landskjörstjórnar. Jón Steinar Gunnlaugsson sagði af sér sem formaður yfirkjörstjórnar þegar Ólafur Ragnar Grímsson var í kjöri vegna orða, sem hann hafði látið falla um Ólaf. Gestur Jónsson telur hins vegar eðlilegt, að hann sitji sem formaður landskjörstjórnar. Álitamál af þessu tagi vakna í samhengi við íhlutun Baugs í stjórnmálin. Þetta er ekki neinn sandkassaleikur. Framganga Hreins Loftssonar sýnir að markmið Baugs er að koma mér úr embætti dómsmálaráðherra, hvað sem tautar og raular.”

 

Heldurðu að þetta þýði að yfirvöld í landinu verði feimnari við að tala um eða gagnrýna auðmenn?

“Ég vona ekki. Takist það er mikil hætta á ferðum.”

 

Ég býst við að það sé fremur útbreidd skoðun að þú sért andstæðingur þessara manna. Ertu það ekki?

“Hvað hefur komið fram um að ég sé það? Baugsmálið var hafið áður en ég varð dómsmálaráðherra. Það eina sem ég hef gert í því er að skipa embættismenn, annars vegar að setja ríkissaksóknara og hins vegar ríkislögreglustjóra í skattsvikamáli. Það eru mín afskipti. Í báðum tilvikum er látið eins og þetta sé eitthvert stórkostlegt pólitískt samsæri. Þessi kenning stenst ekki, en það hefur hins vegar verið lykilatriði í málsvörninni að upphaf málsins hafi verið pólitískt samsæri og síðan þarf að viðhalda samsærinu með tilbúningi um að stjórnmálamenn stýri málinu á bak við tjöldin. Þegar ég sest í þetta embætti verð ég einskonar “statisti” í leikriti sem einhverjir menn eru að semja; leikriti sem ég hef aldrei tekið þátt í en er samt talin ein af höfuðpersónunum! – Miklu skiptir að sem flestir hafi þrek til að greina kjarnann og skoða um hvað þetta snýst í raun og veru. Ætlunin er að ráða því með eigin hagsmuni í huga hver skipar embætti dómsmálaráðherra og hver er valinn sem ríkissaksóknari. Auglýsing Jóhannesar og útlegging Hreins snúast um þetta.”

 

Langar þig að vera áfram í þessu ráðuneyti ef flokkurinn verður áfram í stjórn?

“Ég myndi vel sætta mig við það ef ég verð ráðherra áfram. Ég tel að á ómaklegan hátt hafi verið vegið að embættisfærslu minni og samstarfsmanna minna hér í ráðuneytinu á sama tíma og við höfum verið að ná ótrúlega góðum árangri á mörgum sviðum, til dæmis við að efla löggæslu og landhelgisgæslu. Þegar farið er að finna að því í fjölmiðlum að embætti séu auglýst í Lögbirtingablaðinu og leitast við að gera það tortryggilegt í kosningaviku er engu líkara en menn hafi lagst í að leita að einhverju sem gagnrýna mætti, ekki fundið neitt en samt ekki látið staðar numið. Ég er fús til að starfa áfram með því góða fólki sem hér er og í stofnunum ráðuneytisins. Lögreglan hefur til dæmis sýnt mér mikinn heiður á kjörtímabilinu, þegar ég fyrstur manna utan raða hennar hef bæði verið sæmdur gullmerki Landssambands lögreglumanna og gullmerki Félags yfirlögregluþjóna.”

 

Þú gast lítið sinnt kosningabaráttunni vegna veikinda. Hefurðu náð þér af þeim?

“Í dag eru fimm vikur síðan ég var skorinn upp. Þetta var stór skurður þannig að það tekur tíma að ná sér eftir hann. Þrekið eykst með gönguferðum dag frá degi en ég er ekki farinn að synda ennþá, sem ég geri mikið af, en það kemur að því. Raunar er ég sannfærður um að ég hef nú þegar meira þrek en ég hafði áður. Ég held að það sem háði mér hafi átt nokkurn aðdraganda sem hafi verið erfiðari en ég gerði mér grein fyrir.”

 

Vinstristjórn virtist allt eins liggja í loftinu eftir kosningar en hún virðist vera út af borðinu. Hvers vegna heldurðu að það sé?

“Já, hún virðist vera algjörlega út af borðinu. Þú sást að kaffibandalagið fékk 2% í könnunum rétt fyrir kosningar og gufaði upp. Ég held að þetta fólk geti bara ekki unnið saman. Gleymum því ekki að Vinstri-græn og Samfylking eru angar af hreyfingu sem átti að sameina en splundraðist vegna manna og málefna. Hvers vegna ætti þetta fólk frekar að geta starfað saman í ríkisstjórn en einum flokki?

Mér finnst meiri “kúltúr”, ef þannig má að orði komast, í Vinstri-grænum heldur en Samfylkingunni. Það mætti eins kalla Samfylkinguna samtíning – fólk kemur þangað úr svo ólíkum áttum að það er erfitt að átta sig á því fyrir hvað flokkurinn stendur – það er mikið af smákóngum þar, sem allir vilja láta ljós sitt skína. Ef menn bera saman stefnuskrár Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar má finna samhljóm á ýmsum sviðum. Hitt er síðan kannski erfiðara að finna fótfestu innan Samfylkingarinnar til að takast á við málefnin.

Með orðinu “kúltúr” í tengslum við Vinstri-græna er ég að vísa í gamlan Alþýðubandalags-kúltúr sem felur í sér ákveðinn stöðugleika og höfðar til þess að menn séu ekki endilega að fara fram úr sjálfum sér í eigin valdabrölti. Stefnumál Vinstri-grænna eru fjær okkur sjálfstæðismönnum en það sem samfylkingarfólk er að segja, en hjá Vinstri-grænum kann hins vegar að vera meiri staðfesta til að standa við það sem um er samið. Gleymum því þó ekki, að í “kúltúr” Vinstri-grænna felst kreddufesta og eigi hún að ráða ferð sigla þau áfram ein. Við sjálfstæðismenn náðum hins vegar saman í Evrópunefndinni með Vinstri-grænum og kynntum sameiginlega niðurstöðu í aðdraganda kosninganna. Í Evrópuljósi má segja að þeir flokkar sem andmæltu aðild að Evrópusambandinu hafa sigrað í kosningunum!”

 

Hvað með Framsóknarflokkinn?

Velunnarar hans veltu fyrir sér hvort betra væri fyrir hann að fara frá okkur núna til að vinna sig upp eða vera í samstarfi við okkur og vinna sig upp þannig. Ef þetta er fortíðarvandi sem er að brjótast fram núna hjá framsóknarmönnum hefði ég haldið að flokkurinn hefði nú frekar átt að vinna með okkur og vinna sig upp þannig heldur en að fara að sleikja einhver fortíðarvandasár í nokkur ár.”

 

Þetta er líka spurning um traust á milli manna. Geta sjálfstæðismenn treyst Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur til samstarfs að þínu mati? Þig tókust nú á í borginni.

“Jú jú, ég fylgdist með henni í borgarstjórninni og ég fylgdist með henni þegar hún fór frá R-listanum. Það var með ólíkindum allt saman; hvað það var sjálfhverft miðað við þá hagsmuni sem voru í húfi. Er það eitthvað sem setur svip sinn á Samfylkinguna núna? Ég hef ekki verið neinn sérstakur málsvari samstarfs við Ingibjörgu Sólrúnu.”

 

Nú tilkynnti Geir Haarde í gær að hann byggist við að hefja stjórnarmyndunarviðræður við Samfylkinguna. Hvernig líst þér á það?

“Ég hef eins og aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins veitt Geir umboð til að vinna að stjórnarmyndun og treysti honum til að leiða það mál til lykta á farsælan hátt. Þetta er ekki auðvelt verk, því að hvorki Samfylkingin né Vinstri-græn hafa neina reynslu af því að taka þátt í stjórnarsamstarfi og innan flokkanna eru aðeins tveir menn, annars vegar Össur Skarphéðinsson og hins vegar Steingrímur J. Sigfússon, sem hafa setið í ríkisstjórn. [Í samtalinu gleymdi ég Jóhönnu Sigurðardóttur, sem var á sínum tíma ráðherra Alþýðuflokksins og er enn þingmaður Samfylkingarinnar. Innsk. fyrir netútgáfu. Bj. Bj.]”

 

Var ekki óraunhæft að viðhalda samstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks?

“Það var ekki óraunhæft í ljósi stjórnmálasögunnar, fyrir utan reynslu af góðu samstarfi í 12 ár. Það gerðist ekkert í kosningabaráttunni sem gaf tilefni til þess að ætla að samstarf flokkanna gæti ekki orðið málefnalega farsælt. Uppákoman vegna sameignar á fiskimiðunum hefði getað orðið stjórnarslitamál en það var samið um það.”

 

Það hefur væntanlega skipt miklu fyrir sjálfstæðismenn hvernig formaður Framsóknarflokksins tók á því máli.

“Já, mjög miklu. Það virtust raddir um það innan Framsóknarflokksins að slíta jafnvel stjórnarsamstarfinu fyrir kosningar. Spunameistarar á borð við Pétur Gunnarsson, sem gera tilkall til ítaka við stefnumörkun Framsóknarflokksins, fóru mikinn á bloggsíðum sínum. Raunar átta ég mig ekki á því hvaða öfl deila innan Framsóknarflokksins – sumum þeirra var mjög í nöp við frekara samstarf við okkur sjálfstæðismenn og þau hafa greinilega haft betur innan flokksins.”

 

Heldurðu að Vinstri-græn hafi verið að gefa ykkur skilaboð með því að stofna vísvitandi til ágreinings við framsóknarmenn eftir kosningar?

“Það þætti mér löng og skrýtin leið til þess. Ég tek undir með Guðna Ágústssyni að hugmyndinni um að mynduð yrði minnihlutastjórn með hlutleysi Framsóknarflokksins má líkja við dónaskap. Hugdettur af þessu tagi vekja spurningar um hvort Vinstri-græn séu almennt samstarfshæf.

Þegar hugað er að nýbreytni og framförum í opinberum rekstri verður manni hugsað til alls þess sem Ögmundur Jónasson og Jón Bjarnason hafa sagt gegn breytingum. Þannig er engin furða þótt áhugamenn um þróun viðskiptalífsins og opinbers rekstrar með auknum einkarekstrarsjónarmiðum staldri við og spyrji: Er í raun hægt að tjónka við þessa menn?”

 

Heldur þú að það væri hægt að tjónka við þá?

“Ég veit það ekki. Í samstarfi þyrfti að semja um svona hluti. Sjálfstæðismenn semja ekki frá það svigrúm sem við teljum nauðsynlegt til þess að frjálst og opið þjóðfélag þróist hér áfram.”

 

Getur Sjálfstæðisflokkurinn samið um stóriðjustopp eða -hlé?

“Ef það væri okkar stefna hefðum við kynnt hana fyrir kosningar. Við gerðum það ekki. Eigum við þá eftir kosningar að snúa alveg við blaðinu? Það er ekki okkar stíll.”

 

Í lokin aftur um kjósendurna sem hlýddu kalli kaupmannsins. Viltu segja eitthvað við þá? Þeir virðast telja að þú sért aðalmaður í meintum ofsóknum á hendur þessum mönnum? Þarftu ekki að bregðast við því?

“Ég gaf nú út yfirlýsingu og bað fólk um að hugsa málið, staldra aðeins við og velta fyrir sér hvert stefnir ef stjórnarfarinu á að stjórna með auglýsingum daginn fyrir kjördag. Ég ofsæki engan – hvers vegna í ósköpunum skyldi ég vera að ofsækja þesa menn? Ég á ekkert sökótt við þá, en tek að sjálfsögðu til varna þegar að mér er vegið. Má ég minna á að Hreinn Loftsson stjórnarformaður Baugs hlutast ekki aðeins til um stjórnmálin með árásum á mig – hann gaf einnig út sérútgáfu af DV í 100.000 eintökum miðvikudaginn fyrir kjördag og birti þar opnugrein um að Sjálfstæðisflokkurinn ætti að fara í stjórn með Samfylkingunni.

Það var reynt í kosningunum 2003 að gera Baugsmálið að flokkspólitísku máli, meðal annars með Borgarness-ræðu Ingibjargar Sólrúnar. Þetta var ekki gert fyrir þessar kosningar en stjórnarformaður Baugs mælti sérstaklega með samstarfi sjálfstæðismanna við Ingibjörgu Sólrúnu og hvetur eftir kosningar til þess að mér verði ýtt út í ystu stjórnmálamyrkur. Ég held að fleiri en ég þurfi að bregðast við á stjórnmálavettvangi þegar forystumenn Baugs ganga fram á þennan hátt. Mín afstaða til inngrips af þessu tagi er skýr og ótvíræð.”

 

Guðmundur Steingrímsson sló því fram í gamni að kannski hefði fólk í rauninni ætlað að strika undir nafnið þitt til að leggja sérstaka áherslu á að þú næðir kjöri!

“Nei, það efast ég um! En tal af þessu tagi er dæmi um að álitsgjafar eða stjórnmálamenn leitist við að drepa málinu á dreif og forðast kjarna þess. Kjósi menn að gera það, sem ég vona að verði ekki, má vitna í dr. Gunna, sem sagði í tilefni af auglýsingu Jóhannesar að heilsíðan gæti auðveldlega endað sem eins konar blogg ríku karlanna, lúxusblogg. Almenningur mundi fylgjast spenntur með og gæti eignast uppáhaldsheilsíðukarlinn sinn.”