30.4.2007

Hættulegur tvískinnungur.

 

 

 

Nýlega kom hingað til lands með ferjunni Norrænu maður, sem hefur verið hér á landi síðastliðinn tvö sumur til að andmæla virkjunar- og stóriðjuframkvæmdum á Austurlandi. Við komuna birti lögregla á Seyðisfirði manninum dóm héraðsdóms Austurlands, þar sem hann hafði verið dæmdur í 60 daga fangelsi skilorðsbundið vegna frelsissviptingar skrifstofufólks á Reyðarfirði og óhlýðni við fyrirmæli lögreglunnar. Við svo búið ásakaði maðurinn lögreglumann í sjónvarpsviðtali um að hafa hótað sér að koma fíkniefnum eða „einhverju“ í bifreið sína til að geta vísað honum úr landi. Í tilefni af þessu sjónvarpsviðtali birti Lárus Bjarnason, lögreglustjóri á Seyðisfirði, yfirlýsingu, þar sem hann segir fullyrðingu mannsins í viðtalinu ranga. Í yfirlýsingunni segir einnig:

 

„Það er þekkt aðferðafræði mótmælenda að ata mótherja sína auri til að reyna að bæta eigin málstað og koma á þá höggi. Lögreglan biður landsmenn að taka fréttum á komandi sumri af samskiptum lögreglunnar og mótmælenda með gagnrýnum huga, en þeir hafa boðað uppsetningu mótmælendabúða frá og með 6. júlí 2007.“

 

Lögreglustjóri segir, að lögregla hafi ekki afskipti af mótmælendum af fyrra bragði. Ekki sé tekið á þeim nema þeir gerist sekir um háttsemi, sem varði við lög og séu dómar héraðsdóms Reykjavíkur og Austurlands því til sönnunar. Þá telur lögreglustjórinn, að fjölmiðlar hafi ekki gætt hlutleysis í fréttum af mótmælunum og taki yfirlýsingum mótmælenda ekki af nægilegri gagnrýni. Loks bendir hann á, að lögregla hafi ekki verið kærð vegna framgöngu sinnar.

 

Í Lögreglublaðið 2006 ritar Gísli Jökull Gíslason lögreglumaður grein, sem hann nefnir: Spellvirkjar og mótmælendur, þar sem hann lýsir reynslu sinni af því að hafa verið sendur til að gæta laga og reglu á Austurlandi síðastliðið sumar. Heiti greinar sinnar skýrir hann á þennan hátt: „Fjölmiðlar hafa kallað það fólk mótmælendur en það er sorglegt að nota sama orð yfir alla sem eru á móti framkvæmdunum. Þeir sem mótmæla í sátt við lög eru mótmælendur en þeir sem einsetja sér með ásetningi að raska starfsemi eru ekki mótmælendur í þeim skilningi. Hér eftir kýs ég að kalla þá spellvirkja.“

 

*

 

Búðirnar 2005 og 2006, sem reistar voru fyrir útlendinga gegn framkvæmdunum á Austurlandi, eru dæmi um alþjóðavæðingu gegn stórframkvæmdum og alþjóðafyrirtækjum. Einn í hópnum stærði sig af því að hafa mótmælt í 8 löndum.

 

Ekkert ríki lætur afskiptalaust, að innlendir eða erlendir einstaklingar bregði fæti fyrir lögmætar framkvæmdir. Hér á landi er nú tveggja ára reynsla hjá lögreglu í viðureign við hópa af þessu tagi og þriðja sumarið er að hefjast.

 

Ég tel, að lögregla hafi brugðist við þessum vanda á réttan hátt og með aukinni áherslu á áhættumat og þjálfun með hliðsjón af reynslu síðustu ára, tel ég hana vel til þess búna að tryggja öryggi á framkvæmdasvæðum. Dómum verður að fylgja eftir og beita lagareglum um brottvísun úr landi.

 

*

 

Á kjörtímabilinu hef ég beitt mér fyrir því að efla og styrkja löggæslu í öllu tilliti til lands og sjávar. Verulegur árangur hefur náðst í því efni og hafið er yfir allan vafa, að lögregla nýtur mikils trausts landsmanna. Ég hef jafnframt lagt áherslu á, að gæsla öryggis Íslendinga hvílir nú meira á íslenskum stjórnvöldum en nokkru sinni fyrr – ekki síst vegna þess að hættur hafa breyst og er reynslan á Austurlandi til marks um það.

 

Í hvert sinn, sem ég hef vakið máls á nauðsyn þess að styrkja lögreglu, hafa þingmenn Samfylkingar hlaupið upp til handa og fóta og talið skrefið of stórt. Vinstri/græn hafa á hinn bóginn stundum látið eins og þau hafi skilning á því, að borgaralegar öryggisstofnanir þjóðarinnar séu efldar, nú síðast í tilefni af rammsamningum við Norðmenn og Dani um öryggismál.

 

Að sjálfsögðu þurfum við að halda áfram að efla lögreglu, landhelgisgæslu og björgunarsveitir. Næsta skynsamlega skref er að skipuleggja og þjálfa 240 manna varalið lögreglu. Ég fagna stuðningi allra við þau áform.

 

Stjórnmálamenn verða einnig að treysta löggæslumönnum. Það er til lítils, að stjórnmálamenn samþykki fjölgun þeirra en vilji síðan, að þeir sitji auðum höndum, þegar farið er á svig við lögin. Þessi tvískinningur einkennir málflutning vinstri/grænna. Á síðasta þingi fluttu þau Kolbrún Halldórsdóttir og Steingrímur J. Sigfússon tillögu til þingsályktunar um að skipuð yrði sérstök nefnd til að rannsaka „framgöngu lögreglu gagnvart mótmælendum við Kárahnjúka.“ Af tillögunni og greinargerð hennar verður ráðið, að flutningsmenn hennar telji lögreglu hafa stofnað til vandræða á Austurlandi en ekki þá, sem þau kalla mótmælendur.

 

Vinstri/græn vilja þurrka orðið her á brott, þegar rætt er um öryggi Íslands. Þau segjast vilja efla borgaralegar stofnanir í þágu öryggis borgaranna. Þau krefjast hins vegar sérstakrar rannsóknar, þegar lögregla beitir valdi til að stöðva spellvirki gegn lögmætum framkvæmdum. Er þessi tvískinnungur trausts verður?