27.4.2007

Tilbúinn í heilbrigðisráðuneytið.

 

Björn Bjarnason dómsmálaráð­herra tók á móti blaðamanni á heimili sínu, ótrúlega bratt­ur og hraustleg­ur þrátt fyrir að aðeins tvær vik­ur væru frá því að hann gekkst undir heljarinnar uppskurð.

Tvisvar á stuttum tíma hefur Björn þurft að leggjast inn á Landspítalann háskólasjúkrahús við Hringbraut vegna lungnasjúkdóms. Hann leit­aði til lækna í byrjun febrúar þar sem hann var orðinn svo móður og orku­lítill að hann gat varla farið á milli hæða án þess að standa á öndinni. Hægra lungað hafði fallið saman vegna blaðra sem lögðust á það og gerðu að lokum gat á lungað. „Ég lá inni á spítalanum í tíu daga og þeir dældu lofti úr brjóstholinu í þeim til­gangi að fá lungað til að lyfta sér og festast við brjósthimnuna þannig að götin á lunganu myndu lokast, þegar þau lokuðust ekki sjálf var dælt talk­úmi í brjóstholið,“ segir Björn. Að­gerðin tókst og loft hætti að leka úr lunganu en dugði þó í stuttan tíma.

Afmyndaðist vegna lofts

Annan í páskum var Björn orð­inn jafnslæmur. Hann fór í mynda­töku og var lagður inn samdægurs. „Daginn eftir var mikið loft undir húðinni á hálsinum og í andlitinu. Ég tútnaði út og var orðin eins og blaðra, var alveg afmyndaður í fram­an.“ Götin á lunganu eftir blöðrurn­ar voru svo stór að ekki dugði annað en uppskurður til þess að fjarlægja blöðrurnar og loka götunum á lung­anu. „Bjarni Torfason skurðlæknir opnaði á mér brjóstkassann og lokaði lunganu með goritex-efni og heftum. Nú bíð ég eftir því að vita hvort þetta hafi ekki dugað, en læknarnir telja svo vera,“ segir Björn.

Björn segir enga sérstaka skýringu vera á því af hverju hann hafi fengið þennan sjúkdóm. Væri hann stór­reykingamaður væri það líklegasta skýringin en það sé hann ekki. Það er þó ekki alltaf ástæðan því ungt og reyklaust fólk getur líka fengið þess­ar blöðrur á lungun en oftast eru þær mun minni og það gerir sjúkdóminn auðveldari viðureignar.

Birni gengur vel að jafna sig eftir uppskurðinn og finnst spennandi að sjá hvort hann verði ekki bara betur á sig kominn en lengi áður þegar hann hefur jafnað sig að fullu. Í dag, föstu­dag, verða teknar myndir af lungun­um og ákveðið í framhaldinu hvort hann verði útskrifaður eftir aðgerð­ina. Björn fer í gönguferðir í nágrenni við heimili sitt til þess að vinna upp þol og styrk.

Björn hefur verið heilsuhraust­ur alla tíð og því segir hann veikind­in hafa verið mikil viðbrigði. „Það er mikil reynsla að leggjast tvisvar inn á sjúkrahús við þessar aðstæður og hefur hún vissulega stækkað sjón­deildarhring minn. Ég naut frábærr­ar þjónustu lækna, hjúkrunarfræð­inga, sjúkraliða og annars starfsfólks á sjúkrahúsinu. Reynslan nýtist mér í mörgu tilliti og þess vegna einnig í stjórnmálum,“ segir Björn og bæt­ir við að sem betur fer sé sjúkdóm­ur hans vel læknanlegur. Á meðan á sjúkrahúslegunni stóð segir Björn alveg klárt að hann hafi ekki viljað neina sérmeðferð enda kunni menn almennu meðferðina yfirleitt miklu betur.

Gott fordæmi fyrir önnur ráðuneyti

Margir sem vinna hjá undirstofn­unum dómsmálaráðuneytisins hafa haft á orði að Björn sé maður verka


og hafi gert mikið í málaflokki sínum á valdatíð sinni. Sjálfum finnst Birni breytingarnar á lögreglulögunum og nýskipan lögreglumála, auk breyt­inganna á Landhelgisgæslunni helst standa upp úr.

Björn er ánægður með hversu vel breytingarnar á lögreglunni hafa gengið eftir og segir mikið hafa bæst við frá því að hann lagði fram hug­myndir sínar að breyttri skipan lög­reglumála haustið 2003. Síðan þá hafi greiningardeild ríkislögreglu­stjóra verið komið á laggirnar, sér­sveitin efld, dómsmálaráðuneytið tekið við yfirstjórn allrar lögreglu á Suðurnesjum eftir brotthvarf varn­arliðsins og lögreglan á höfuðborg­arsvæðinu styrkst svo eitthvað sé nefnt. „Ég sé það núna þegar ég horfi til baka að breytingarnar eru miklu róttækari heldur en lagt var af stað með í upphafi,“ segir Björn sem hef­ur mikla ánægju af því að takast á við breytingaverkefni.

Með fækkun lögregluumdæma segir Björn víðtæka þróun hafa farið af stað. Lögreglustjórum var fækkað en ekki sýslumönnum og hefur ráðu­neytið flutt verkefni til þeirra út á land. „Þetta tel ég vera gott fordæmi fyrir önnur ráðuneyti.“

Hann er líka ánægður með hvern­ig hefur tekist til með Landhelg­isgæsluna og eflingu hennar eft­ir hvarf varnarliðsins. Skrifað hefur verið undir samning um kaup á nýju varðskipi og lagt á ráðin um hvernig þyrlukostur Gæslunnar verður stór­efldur. Með nýjum lögum um Land­helgisgæsluna hefur hún víðtækara umboð til að fara í samstarf við aðrar þjóðir í öryggis- og varnarmálum.

Þarf að stofna varalið

Verkefnum í dómsmálaráðuneyt­inu er þó síður en svo lokið að mati ráðherra. „Það er ýmislegt sem ég hefði gjarnan viljað klára eins og að breyta lögunum um almannavarn­ir. Þar er gert ráð fyrir að sett verði á fót almannavarna- og öryggis­málaráð undir forystu forsætisráð­herra.“ Björn telur líka mikilvægt að klárað verði að stofna varalið. Það hafi sannað sig síðasta dag vetrar þegar bruninn varð í miðbænum og vatn flæddi á Vitastíg og Laugavegi. Þá hafi reynt á slökkvilið og lögreglu til hins ýtrasta. „Kerfið var fullþanið. Ef eitthvað eitt hefði komið þessu til viðbótar hefði þörf á varaliði sýnt sig en slíkur hópur getur létt undir með lögreglu og slökkviliði,“ segir Björn.

Fyrst og fremst sér Björn fyrir sér að varalið yrði skipað björgun­arsveitarmönnum sem séu þunga­miðja í allri viðbót við lögreglu og slökkvilið. Hann segir björgunar­sveitarmenn hafa kvartað undan því að hafa ekki alltaf nægilega skýrar heimildir þegar þeir eru kallaðar á vettvang. „Þeir gætu í sérstökum til­vikum beitt heimildum sem hluti af þjálfuðu varaliði og gætu gengið ör­uggari fram á vettvangi en ella.“

Fangaverðir hafa setið eftir

Erfið staða er í málefnum fanga­varða sem sagt hafa upp störfum vegna óánægju með kjör sín. Björn segir að með breytingu á lögum um fullnustu refsinga sem hann hafi beitt sér fyrir sé gert ráð fyrir aukn­um verkefnum fangavarða. „Mér hefur fundist alveg augljóst þegar litið er á stöðu fangavarða að þeir hafa setið eftir við síðustu samn­ingagerð. Samningar voru hins vegar gerðir og samningar skulu standa,“ segir Björn. Hann segir erf­itt að segja til um hvaða leiðir eigi að fara þegar heil stétt situr eftir eins og staðan er nú. Viðræður séu á milli fangavarða, stéttarfélags þeirra og fjármálaráðuneytisins. Fangaverð­ir telja laun sín eiga að miðast við laun lögreglumanna en samkvæmt athugun hefur komið í ljós að laun þeirra eru þrjátíu prósentum lægri. „Það blasir við að eitthvað hefur gerst því bilið á milli fangavarða og lögreglumanna hefur aukist. Þeir ættu að vera nær lögreglumönnum í launum,“ segir Björn og bætir við að menntun fangavarða hafi verið færð meira inn í Lögregluskóla ríkisins. Með auknum kröfum vinnuveit­andans segir hann greiðslur þurfa að hækka á móti.

„Ég vona að það gangi eftir að nýtt fangelsi verði komið á höfuðborgar­svæðinu samkvæmt þeirri áætlun, sem fyrir liggur. Fangelsin eru of lítil og að sama skapi svigrúmið til þess að veita meðferð og betrun. Búið er að leggja fram hugmyndir og skyn­samlegar áætlanir um hvernig best sé að byggja fangelsin upp,“ segir Björn og bætir við að engin höft ættu að vera á því að framkvæma og veita fjármagni til þess, því að verkefnið sé mjög aðkallandi og vel hafi verið staðið að öllum undirbúningi.

Þarf mitt viðhorf til

Aðspurður segir Björn ástæðu til að óttast fari svo að einhver annar flokkur en hans taki við dómsmála­ráðuneytinu. „Mér finnst ástæða til að óttast miðað við það sem sagt hef­ur verið á þinginu þegar ég hef kom­ið fram með mínar hugmyndir. Mér finnst menn ekki nógu raunsæir í mati sínu á stöðu okkar Íslendinga þegar horft er á hvað gera þurfi til að tryggja öryggi borgaranna,“ seg­ir Björn, því mikilvægt sé að dragast ekki aftur úr. Glaðlega bætir Björn því við að best væri ef Sjálfstæðis­flokkurinn fengi öll ráðuneyti að loknum kosningum.

Hann segir stjórnarandstöðuna alltaf hafa mætt hugmyndum sínum um auknar öryggisráðstafanir í fyrstu með þeim orðum að hann væri öfga­fullur og vildi ganga alltof langt. Það hafi hins vegar yfirleitt breyst þeg­ar málin hafi verið rædd og stjórn­arandstaðan hafi áttað sig á að hug­myndir hans hafi verið innan þeirra marka sem eðlilegt og nauðsynlegt sé. „Það þarf að hafa það viðhorf sem ég hef til að ýtt sé úr vör, annars ger­ist ekkert. Ég sé ekki að stjórnarand­staðan hafi það viðhorf.“

Heilibrigðisráðuneytið heillar

Þegar rætt er við Björn um ráð­herraembætti og hvort hann muni sækjast eftir því fari Sjálfstæðisflokk­urinn í ríkisstjórn eftir næstu kosn­ingar segist hann tilbúinn í ráðu­neyti þar sem taka þurfi til hendinni sé vilji til að nýta krafta hans. „Ég hef mikla reynslu bæði úr menntamála­ráðuneytinu og dómsmálaráðuneyt­inu þar sem miklar breytingar voru gerðar í minni tíð án þess að allt færi í háaloft,“ segir Björn honum líki vel í starfi sínu nú og sjái þar mörg spenn­andi verkefni, hann sé ekki spenntur fyrir ráðherrastól, þar sem allt eigi að vera við það sama.

Heilbrigðismálin eru Birni hug­leikin vegna reynslu hans undanfar­ið og einnig vegna þess hve viðamikil þau eru í ríkiskerfinu, hann telur að sjónarmið einkarekstrar hafi alls ekki fengið að njóta sín sem skyldi á þeim vettvangi þau eigi ekki síður heima þar en í menntakerfinu þaðan sem hann hefur mikla reynslu. „Ég er ekki að bjóða mig fram í neitt ráðuneyti en ítreka að ég er tilbúinn til verka þar sem verkefnin eru stór og breyt­ingar eiga að verða,“ segir Björn.

Björn telur flutning grunnskól­anna til sveitarfélaganna ekki hafa heppnast sem skyldi þar sem R-list­inn hafi verið við völd í Reykjavík. „Skólinn hefði þróast á allt annan veg, ef R-listinn hefði tekið á móti grunnskólunum eins og Ásdís Halla Bragadóttir gerði í Garðabæ. Hún leyfði Hjallastefnunni og þar með einkarekstri að njóta sín. Ef hið sama hefði verið gert í Reykjavík væri grunnskólastigið enn öflugra í borg­inni.“

Saknar Davíðs

„Auðvitað saknar maður skemmtilegs samstarfsmanns til margra ára. Ég sakna líka að hafa hann ekki með okkur í mörgum slag sem við erum að taka því hann er mikill baráttumaður og glöggur að greina hluti og takast á við viðfangs­efni,“ segir Björn um Davíð Odds­son, vin sinn og fyrrverandi formann Sjálfstæðisflokksins. Hann segir þó gott að vita af honum í Seðlabank­anum þar sem hann stigi fast til jarð­ar þegar nauðsyn krefst. Hann segir Davíð ekki tjá sig of mikið um sínar skoðanir miðað við stöðu sína. „Ef hann hætti að segja hvað honum fyndist hlyti að vera eitthvað að hon­um.“

Umskipti þegar Kjartan hætti

„Eftir að Davíð fór er eðlilegt að flokkurinn þróist á nýjan hátt og mér finnst það hafa tekist farsællega, því að það getur verið erfitt fyrir flokka að fóta sig, eftir að hafa verið undir forystu jafnöflugs leiðtoga og Dav­íðs,“ segir Björn. Hann telur flokk­inn þó ekki hafa skipt um stefnu með nýjum formanni. Á þessum breyt­ingatíma segir Björn ekki aðeins hafa reynt á þá sem kjörnir eru til forystu heldur líka þá sem vinna með þeim. Allt þetta telur Björn hafa lukkast vel og það megi sjá á því að fólk hafi ekki misst traust á flokknum eins og gerst hafi eftir formannskjörið í Samfylk­ingunni.

„Mín kynslóð er nú að flytja flokk­inn frá okkar kynslóð, undir forystu Davíðs Oddssonar, yfir til nýrrar kyn­slóðar með nýja forystu. Það er okkar verk að smíða brúna, svo að menn geti gengið öruggum fótum þarna á milli og ég held að okkur sé að takast það,“ segir Björn.

Björn segir það hafa verið ákveð­in umskipti fyrir sig þegar Kjart­an Gunnarsson hætti sem fram­kvæmdastjóri flokksins enda sé þeim vel til vina og hafi unnið mikið sam­an. Hann hafi þó alltaf haft þá burði innan Sjálfstæðisflokksins, sem til þurfi án þess að vera endilega háð­ur skrifstofu flokksins. Hann vonast til að nýir starfsmenn skrifstofunnar vinni sitt verk eins vel og gert hefur verið en á það muni reyna í kosning­unum og hefur hann fulla trú á að það takist.

Missti af Landsfundinum í fyrsta sinn

Í fysta skipti frá því á sjötta ára­tugnum vantaði Björn á Landsfund sjálfstæðismanna. En nú er meira en hálf öld síðan hann fór með föður sín­um í fyrsta sinn á fundinn. Björn segir sig því aðeins skorta tilfinningu fyrir því, sem gerðist á fundinum núna og erfitt hafi verið að geta ekki verið með. Hann fylgdist þó með því sem fram fór úr fjarlægð eins vel og hann mátti. Hann er ánægður með umfjöllunina sem fundurinn fékk. Hann telur þó fjölmiðla hafa gert lítið úr landsfundi sjálfstæðismanna með því að leggja hann að jöfnu við fund Samfylkingar­innar sem hafi verið sviðsett eftirlík­ing. „Landsfundur sjálfstæðismanna er raunverulegur fundur þar sem menn hittast til að vinna, komast að niðurstöðu með atkvæðagreiðslu og kjósa fólk til forystu.“

Lítið upptekinn af stjórnaandstöðunni

Björn hugsar sig um þegar hann er spurður hverjir séu erfiðustu and­stæðingarnir. „Mér finnst einhvern veginn að öll framganga andstæð­inganna hafi verið upphlaupskennd. Raunverulegir andstæðingar myndu benda manni markvisst á að maður væri á rangri leið með rökum og ef svo væri þyrfti að taka tillit til þeirra, öðru gegnir um andstæðinga sem hrópa og hoppa upp við fyrsta orð án þess að meira búi þar að baki en upphlaupið eitt.“

 

Björn spyr hvar stjórnarandstað­an sé í þessari kosningabaráttu og á hvaða grundvelli hún sé að gagn­rýna ríkisstjórnina. Sjálfur finnur hann ekki fyrir gagnrýni á sín verk sem dómsmálaráðherra frá stjórn­arandstöðunni. Hann veltir því fyrir sé hvort ástæðan sé sú að hún finni engan veikan punkt á hans störfum fyndi hún hann ætti hún að hamra á honum. „Annars er ég ekki mjög upptekinn af stjórnarandstöðunni, þótt ég skrifi stundum um hana á vefsíðunni minni mér til gamans,“ segir Björn.

Jón Baldvin svartur senuþjófur

„Ég held að kaffibandalagið hafi gufað upp í kosningabaráttunni og sé fyrir bí. Það er afar hæpið að þessir flokkar geti unnið saman. Hvað eiga þeir að sameinast um?“ segir Björn.

Hann segir ótrúlegt hvernig Jón Baldvin Hannibalsson komi allt­af sem svartur senuþjófur til að gera Samfylkingunni lífið leitt. Eins finnst honum það lýsa vandamál­um flokksins enn betur að það þyki frétt, þremur vikum fyrir kjördag, að Össur og Ingibjörg geti talað saman og hafi náð sáttum. „Samfylkingin er uppteknari af eigin vandamálum en sókn gegn okkur.“

Eins telur Björn greinilegt að Ómari Ragnarssyni hafi tekist að fipa vinstri græna eitthvað. Kannski hafi hann náð að taka frá þeim ákveð­inn hóp sem veittu vinstri grænum breidd. Hitt sé líka spurning hvort umhverfismálin hafi toppað í kosn­ingunni í Hafnarfirði og eftir hana hafi glansinn dofnað á stefnu flokks­ins.

Björn segir þó ekki hægt að horfa framhjá mikilli fylgisaukningu vinstri grænna samkvæmt skoðanaönn­unum og sé litið til úrslita síðustu kosninga. Það telur hann mega skýra meðal annars með því að flokkur­inn hafi skipt um lit sýnt græna lit­inn í stað rauða kjarnans auk þess að draga úr andstöðu við Sjálfstæðis­flokkinn. Flokkarnir geti náð saman um ákveðin mál, eins og afstöðuna til Evrópusambandsins, án þess að láta ólíka stefnu í öðru trufla sig.

Feilspor hjá Framsókn

Björn segir Framsókn hæglega geta bætt við sig á kjördag eins og oft áður en eins geti farið svo að það takist ekki. „Ég tel óvarlega far­ið af framsóknarmönnum að segjast ekki ætla í ríkisstjórn nema þeir nái ákveðinni prósentutölu. Því ef þeir fá þingmannafjölda til þess að fara í ríkisstjórn þá er ég viss um að þeir muni gera það hvað sem prósentu­tölum líður,“ segir Björn. Prósentu­talið sé hægt að nota gegn þeim fari þeir í ríkisstjórn án þess að hafa náð markmiðum sínum. „Menn verða að huga að því, hvað þeir segja til að hvetja fólk til að kjósa sig – þeir sitja uppi með ummælin.“

Upphafið að endalokum R-listans

„Ég held að slagur okkar Ingi­bjargar Sólrúnar um borgarstjóra­stólinn á sínum tíma hafi náð að kveikja einhverja strauma innan R-listans sem síðan hafi leitt til þess að hann leystist upp,“ segir Björn, fyr­irfram hafi hann allt eins búist við því að það þyrfti meira en eitt skref fyrir Sjálfstæðisflokkinn að ná borg­inni aftur. Hann hafi verið tilbúinn til þess að taka áhættu og það hafi verið lærdómsríkt að vera í borgar­stjórn. Eftir kjörtímabilið hafi R-list­inn verið splundraður sem hafi dug­að til þess að Sjálfstæðisflokkurinn gat myndað meirihluta í kosningun­um á eftir. „Það var ekki stór mun­ur á atkvæðafjöldanum sem náðist undir minni forystu og síðan fjöld­anum sem dugði til þess að ná yfir­höndinni, það vantaði bara herslu­muninn.“

Björn segir feril stjórnmálamanna sem taka áhættu vera sveiflukennd­an og þegar litið sé til baka séu þeir sem þori oft hærra skrifaðir en hinir sem sitji á alltaf friðarstóli.

Missættið á bak og burt

Björn fullyrðir að það missætti sem varð í prófkjörsbaráttunni í haust, þegar Guðlaugur Þór Þórðar­son bauð sig fram gegn honum, sé á bak og burt. Hann heldur enn fast við að unnið hafi verið gegn honum og þess vegna hafi hann allt eins bú­ist við því að hann myndi rúlla nið­ur listann. Björn bauð sig fram því hann var tilbúinn að taka hvaða nið­urstöðu sem var. „Reglan er yfirleitt sú að formaðurinn situr óáreittur á friðarstóli. Ef menn vilja skapa ófrið um önnur sæti, nú þá verður ófriður á meðan baráttan stendur yfir. Svo er bara spurningin hvernig mönn­um tekst að vinna úr málum eftir á og ég tel að okkur hafa tekist það vel miðað við hvernig málin voru og hvernig menn töluðu síðasta haust,“ segir Björn. Nauðsynlegt sé að setja leiðindin á bak við sig annars séu menn komnir í einhvern Samfylk­ingarleik.

Knúinn til að verja föður sinn

Björn segir sig hafa verið knú­inn til þess að bera hönd fyrir höfuð föður sínum, Bjarna Benediktssyni, í allri umræðunni um hlerunar­málið og þeirri gagnrýni sem hann sætti þar. „Það er sárt ef gagnrýnin er ósanngjörn, lygi eða tilbúningur. Það er erfitt þegar mannorð látins manns er svert með þessum hætti,“ segir Björn.

Sjálfur hafi faðir hans talið erfitt að segja á líðandi stundu hvort ákvarð­anir, sem stjórnmálamenn þyrftu að taka, væru réttar eða rangar. Allt ork­aði tvímælis, þegar gert væri. Björn segir að í hlerunarmálinu hafi ekkert óeðlilegt hafa komið fram, fara eigi í saumana á þessum málum og skýra eins og kostur er.

„Þegar ég var í prófkjörinu í haust var hlerunarmálið blásið upp og svona eftir á að hyggja kann það hafa verið gert til að það kæmi mér illa í prófkjörsslagnum,“ segir Björn. Hann segist hálfhissa miðað við öll lætin í vetur, á því, að málinu skuli ekki haldið á lofti í kosningabarátt­unni.

„Það stenst ekki að lagt hafi ver­ið á ráðin um að hlera pólitíska and­stæðinga. Ég held að lögreglan hafi verið að búa sig undir ef eitthvað færi úr skorðum í hita leiksins. Það liggur fyrir að lögreglan bað um hlerunar­heimildir, dómari veitti þær en ekki er vitað, hvenær og jafnvel hvort lög­reglan hafi notað heimildirnar.“

Sumir hafa gagnrýnt Björn fyr­ir að hafa tjáð sig um hlerunarmál­ið með þeim hætti sem hann gerði. Sjálfur segist hann hafa haldið sig innan eðlilegra marka sem dóms­málaráðherra. Það sé skrýtið í lýð­ræðisþjóðfélagi ef hömlur eru settar á hvað stjórnmálamenn megi segja um svona mál.

„Hvað mig varðar þá var ég van­ur því að faðir minn sætti stöðug­um árásum. Ætla hefði mátt, að því myndi einhvern tíma linna en svo virðist ekki vera, allavega hvað suma menn varðar,“ segir Björn sem fann sig knúinn til að taka upp hanskann fyrir föður sinn á liðnum vetri og ger­ir aftur, ef hann telur þess þörf.

Með varnarmúr

Talað hefur verið um það að Björn sé ekki nógu hlýr og allt að því hrokafullur á köflum þegar hann kemur fram í fjölmiðlum. „Ég er bú­inn að heyra þetta alla ævi. Þetta er kannski minn varnarmúr gagnvart umhverfinu. Ég verð að passa mig að vera ekki of harður því ég á það til að setja múr í kringum mig þegar ég þarf á því að halda,“ segir Björn sem alla tíð hefur þurft sitt svigrúm.

Eiginkonu sína Rut Ingólfsdóttur segir hann líka þurfa sitt athvarf og heimilið sé griðastaður þeirra. Rut sem er fiðluleikari kemur fram sem listamaður og vegna starfa þeirra beggja þurfi þau að vera mikið út á við. Þau Rut hafa verið gift í 38 ár og segir Björn hjónaband stjórn­málamanns og listamanns fara vel saman en að sjálfsögðu misjafnlega eftir málaflokkum. „Þegar ég var menntamálaráðherra fóru störf okk­ar auðvitað mjög vel saman en það breyttist talsvert þegar ég fór í lög­reglumálin enda passa þau ekki eins vel við hennar áhugamál.“

Saman eiga Björn og Rut tvö börn og þrjú barnabörn sem eru sjö ára, fimm ára og átta mánaða. Þau búa í London og því sjá þau minna af barnabörnunum en þau vildu. „Þeg­ar þau koma eru það hátíðarstund­ir. Ég reyni að vera eins mikill afi og ég get.“