Stórfelldar réttarbætur - tóm vonbrigði?
Grein í Morgunblaðinu 19. mars 2007.
Hin nýju lög til hertra refsinga fyrir kynferðisofbeldi eru mikið framfaraspor. Ein stærsta breytingin sem gerð er er að hámarksrefsing fyrir misneytingu – það er að segja í þeim tilvikum sem fórnarlambið hefur ekki verið í ástandi til að sporna við verknaðinum, svo sem vegna svefndrunga eða ölvunar – er hækkuð úr sex árum í 16 ár. Lögfest hefur verið almennt ákvæði um refsiábyrgð vegna kynferðislegrar áreitni og margt fleira mætti nefna. Margir höfðu lengi barist fyrir lagabreytingum í þessa veru og það er mér mikið ánægjuefni að hafa mátt eiga hlut að því að þessi árangur náðist. Reyndist mikið heillaskref, að Ragnheiður Bragadóttir tók hið mikla vandaverk að sér að semja frumvarpið og vinna að meðferð þess með allsherjarnefnd alþingis, sem að lokum stóð saman um málið undir formennsku Bjarna Benediktssonar.
Nokkurt undrunarefni er, að í sumum fjölmiðlum hefur einkum verið vakin athygli á óskum, sem ekki rættust við samþykkt hinna nýju laga, af því að ekki reyndist við þær stuðningur á alþingi. Þótt feikilega stór skref hafi verið stigin til aukins réttaröryggis, og löggjafinn hafi enn sýnt hversu alvarlegum augum hann lítur kynferðisbrot, hafa sumir fréttamenn aðallega reynst fundvísir á sjónarmið þeirra, sem enn lengra vildu ganga en nutu ekki nægilegs stuðnings. Mætti helst ætla eftir samtöl í fréttatímum, að hin stóru framfaraskref í nýsamþykktum lögum væru í raun og veru tóm vonbrigði.
Það urðu mér vonbrigði.