14.3.2007

Rafrænt aðgengi

Málþing Safnaráðs. Þjóðminjasafn, 14. mars, 2007.

 

Ég fagna því, að safnaráð telur mikilvægt, að hugað sé að almennu aðgengi að hinum sameiginlega arfi okkar eftir rafrænum leiðum.

Strax og ég kynntist veraldarvefnum, sannfærðist ég um gildi hans til að fræða og upplýsa. Þegar ég lít á vefinn sem opinber embættismaður,  er ég þeirrar skoðunar, að stjórnvöld eigi við rafrænar lausnir á öllum sviðum að hafa að meginmarkmiði, að nýta þær til að opna öllum aðgang að því, sem í boði er og brjóta múra, þar sem þeir hafa verið reistir, nema augljóst sé, að þeir gegni svo mikilvægu hlutverki, að ekki megi hrófla við þeim.

Til að ná þessu víðtæka markmiði, þarf að huga vel að öllum þáttum strax frá upphafi. Mér kemur þar í hug aðdragandi þess, að landskerfi bókasafna kom til sögunnar. Fyrir níu árum eða í mars 1998 setti ég á laggirnar nefnd til að gera tillögur um val á bókasafnskerfi sem hentað gæti fyrir öll bókasöfn í landinu þ.m.t. Landsbókasafn Íslands, almenningsbókasöfn, skólasöfn og rannsóknarbókasöfn. Hlutverk nefndarinnar var að velja eitt bókasafnskerfi sem þjónað gæti öllum landsmönnum með það að leiðarljósi, að öll bókasöfn í landinu gætu orðið samtengd og að gagnagrunnar þeirra litu út sem ein heild frá sjónarhóli notenda.

Rúmum þremur árum, eftir að nefndin var skipuð, eða í maí 2001 festi menntamálaráðuneytið kaup á Aleph 500 bókasafnskerfinu frá ExLibris, en 14. nóvember sama ár var stofnað hlutafélag, Landskerfi bókasafna hf., um rekstur sameiginlegs kerfis fyrir íslensk bókasöfn. Félagið stofnuðu ríkið og 26 sveitarfélög og síðar hafa allmargir aðrir hluthafar bæst í hópinn. Ríkissjóður á rúmlega helming hlutafjárins. Tilgangur félagsins er að reka sameiginlegt upplýsinga- og skráningarkerfi fyrir bókasöfn á Íslandi. Þetta kerfi er nú í fullum rekstri og kallast Gegnir (gegnir.is).

Kerfið felur í sér, að flett er upp í einni bókfræðilegri samskrá og því er hægt að leita í safnkosti aðildarsafna kerfisins á einum stað.. Búnaður kerfisins miðast við, að 150 bókaverðir geti notað það samtímis, auk 50 samtímanotenda á vefnum.

Þegar haldið var af stað til þessa eina samhæfða kerfis, voru tvö skráningarkerfi notuð í bókasöfnum landsins, Gegnir og Fengur. Þótti mörgum nokkuð hátt reitt til höggs, þegar ákveðið var að taka upp eitt kerfi og þurfti að gefa tíma til þess eins, að menn áttuðu sig á gildi þess. Ég minnist þess, að erfitt var að átta sig á hitanum í málsvörninni fyrir þessi tvö kerfi, því að mér fannst alltaf liggja í augum uppi að best væri að eiga eitt bókasafnskerfi af þessum toga.

Ég dreg þá ályktun af starfsemi Landskerfis bókasafna um þessar mundir, að enginn vilji nú tvö bókasafnskerfi. Fleirum en mér þykir örugglega þægilegt að þurfa aðeins að leita í gegnir.is til að átta sig á því, sem er að finna í íslenskum bókasöfnum. Raunar veit ég ekki um neina þjóð, sem býr við svo góða þjónustu á þessu sviði.

Sama hugmynd um víðtækan, auðveldan og opinn aðgang fyrir allan almenning réð ákvörðunum mínum um vefinn, sem nú er best þekktur undir heitinu hvar.is og veitirlandsaðgang að rafrænum gagnasöfnum og tímaritum. Aðgangurinn er opinn og endurgjaldslaus hjá notendum á Íslandi, sem eru tengdir íslenskum netveitum þar sem hið opinbera, bókasöfn, stofnanir og fyrirtæki hafa þegar greitt fyrir áskriftirnar.

Ef ákvarðanir hefðu ekki verið teknar um þennan opna landsaðgang, væru hér háværar kvartanir um aðstöðumun til rannsókna og gagnaöflunar eftir háskólum og landshlutum. Bókasöfn eru hvarvetna bakhjarl góðra háskóla. Ef unnt er að fylla skarð þeirra að verulegu leyti með rafrænni þjónustu, er lagt mikið af mörkum til að jafna aðstöðumun og skapa jafnræði til náms og rannsókna.

Væri ég spurður um tvær fyrirmyndir að lausnum til að tryggja almenningi opinn og traustan aðgang að menningarverðmætum, myndi ég nefna síðurnar gegnir.is og hvar.is. Ég veit, að hvorug vefsíðan hefði komið til sögunnar nema vegna þess að stuðst var við mikið hugvit, vinnu og skipulagningu, en einmitt vegna þess erfiðis alls, tókst að afla nauðynslegs stuðnings og fjár til að hrinda hugmyndunum í framkvæmd.

Mér kemur einnig í huga vefsíðan sagnanet.is, semer samvinnuverkefni Landsbókasafns Íslands, Háskólabókasafns og Cornell-háskóla í Bandaríkjunum í samvinnu við Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi. Sagnanetið veitir aðgang um netið að stafrænum myndum af u.þ.b.240.000 blaðsíðum handrita og um 153.000 blaðsíðum prentaðra rita. Sagnanetið var opnað 1. júlí 2001 en vinna við það hófst 1. júlí 1997.Efniviður Sagnanetsins eru íslenskar fornbókmenntir, m.a. heildstætt safn Íslendingasagna og -þátta. Einnig er þar drjúgur hluti norrænar goðafræði, biskupasagna, fornaldarsagna og riddarsagna auk þess sem fjöldi handrita geymir ýmist kvæði, rímur eða lausavísur.

Ég minnist funda um þessa vefsíðu með fulltrúum Mellon-sjóðsins í Bandaríkjunum, sem litu á þetta sem spennandi styrktarverkefni, þar sem með samvinnu Íslendinga og Bandaríkjamanna væri unnt að setja heildstæðan menningararf á netið – og þetta var árunum 1996 og 1997, en sagt er, að árið 1994 hafi aðeins verið um 10.000 vefsíður í heiminum.

*

Þegar mér var boðið að koma hingað, var sagt, að ýmsum kynni að þykja fróðlegt að heyra, hvernig staðið var að því að stofna til rafrænnar sýningar á Þingvöllum .

Þingvallanefmd og starfsmönnum þjóðgarðsins hafði lengi verið ljóst, að fræðsla fyrir gesti væri alltof lítil og skynsamlegast væri að reisa sérstakt hús til að sinna fræðslu um Þingvelli.

Á grundvelli samkomulags, sem Þingvallanefnd gerði við Davíð Oddsson forsætisráðherra, var sumarið 1999 hafinn undirbúningur að því að reisa fræðslumiðstöð á Hakinu við Almannagjá.

31 tillaga barst í samkeppni meðal arkitekta og í september 1999 var tillaga frá Glámu/Kím valin, og hófust framkvæmdir við húsið í apríl 2001. Húsið er 220 fermetrar og þar af sýningarsalurinn 180 en snyrtiaðstaða 40 auk þess eru 60 fermetrar undir þaki við anddyri hússins. Fellur mannvirkið vel að náttúrunni í einfaldleik sínum, tengist útsýnisstaðnum á Hakinu og Almannagjá og gjörbreytir allri aðstöðu á þessum fjölsótta ferðamannastað, en samkvæmt talningu komu rúmlega 170 þúsund manns í húsið á síðasta ári.

Árni Páll Jóhannsson, sýningarhönnuður og myndlistarmaður, hannaði sýninguna í húsinu. Hún umlykur gesti í orðsins fyllstu merkingu, því að hlaðnir voru veggir úr söguðu grágrýti sem sýna snið í berggrunn svæðisins og fyrir enda salarins blasa við myndir úr lífríki Þingvallavatns á 6 fermetra glerskjá. Breiddin á milli grágrýtisveggjanna  í salnum er jafmikil og landrekið á Þingvöllum síðustu 1000 ár.

Unnt að fræðast um sögu og náttúru Þingvalla og vatnsins með því að skoða hina stóru, snertistýrðu sjónvarpsskjái í sýningarsalnum. Einar Á. E. Sæmundsen, fræðslufulltrúi þjóðgarðsins, ritstýrði texta og myndefni margmiðlunarefnisins en ráðgjafar voru Sigurður Líndal prófessor, Kristján Sæmundsson jarðfræðingur, Skúli Skúlason rektor, Orri Vésteinsson fornleifafræðingur og Jóhannes Sturlaugsson líffræðingur. Undir verkefnisstjórn Hrings Hafsteinssonar vann hugbúnaðar- og margmiðlunarfyrirtækið Gagarín að tæknilegri útfærslu margmiðlunarinnar og notaði efni úr sjónvarpi og kvikmyndum, ljósmyndir, teikningar og tölvuunnið efni.

Sýningin markaði tímamót, þegar húsið var opnað 26. júlí 2002, því að hún var hin fyrsta á landinu, þar sem aðeins er notuð margmiðlunartækni

Sigurður K. Oddsson þjóðgarðsvörður hafði yfirumsjón með verkinu og leiddi það í samræmi við fjárveitingar, en heildarkostnaður við hús og sýningu var um 73 milljónir króna.

Í sýningarsalnum eru þrír flatskjáir sem stýrt er með snertiskjám,hver skjár annar 12- 14 manns. Þeir hafa stefnuvirkandi hátalara og trufla því ekki hver annan.

Stórt tjald fyrir enda salarins nýtist vel fyrir stærri hópa. Vanir leiðsögumennnota það í flestum tilvikum og einnig starfsfólk þjóðgarðsins, fyrir skólahópa og aðra sem óska eftir sérstakri leiðsögn.  Þegar tjaldið er ekki í notkun vegna leiðsagnar er á því sýning um lífríki vatnsins, hver ferð um vatnið tekur 10 mín.

 

Myndskeið og textier á 5 tungumálum. Heildartími efnis er um 40 mínútur, sem skiptist í fræðslu um náttúru og sögu í 19 köflum.  Einnig eru sýnd kort af þjóðgarðinum með vegum, örnefnum og helstu gönguleiðum. Hægt er að „þysja“ inn á einstaka hluta kortsins til að fá gleggri upplýsingar.

 

Að sögn starfsmanna eru gestir almennt fljótir að tileinka sér tæknina við snertiskjáina, jafnt ungir sem aldnir og lítið er um kvartanir. Helst er fundið að því að of mikil dagsbirta sé í salnum og dragi hún úr gæðum mynda á skjánum.

Þar sem efnið er lengra en svo, að auðvelt sé að kynna sér það í einni lotu, er algengt. að gestir komi oft í húsið og skoði efnið með hléum.

 

Kostir margmiðlunarkynningar eru margir.  Auðvelt er að breytaefni efþurfa þykir og kostar lítið umstang.  Margmiðlunarefni er auðvelt að setja á disklinga og var það gert á Þingvöllum strax í upphafi. Disklingana má selja á almennummarkaði ogeinnig er hægt að nýta þá sem kennsluefni í skólum.

 

Þegar margmiðlunarefni er fært á disk, er nauðsynlegt að hafa í huga, að það er rúmfrekt og þess vegna verður að sníða það eftir stærð disksins. Ef þýða á margmiðlunarefni á erlend tungumál dugar ekki að þýða íslenska textann beint heldur verður laga textann að myndefninu  hverju sinni.

 

Hið sama gildir um efni af þessu tagi og efni á vefsíðum, að það heldur ekki gildi sínu nema þess sé gætt að uppfæra efnið reglulega og laga að því, sem gerist í tímans rás. Komi gestir oft á sýninguna kunna þeir að meta, ef bætt er við hana nýjum fróðleik eða efnistökum er breytt á einhvern hátt. Þegar Þingvellir eiga í hlut er endalaust unnt að bæta við nýju efni – þó ekki væri nema til að minna á þróun heimsminjaskrárinnar, en á henni fjölgar ár frá ári. Við upphaflega hönnun kerfis eins og þessa er nauðsynlegt að hafa borð fyrir báru, svo að unnt sé að bæta við nýju efni.

 

Vandræði tengjast helst bilunum á vélbúnaði. Það getur verið gott að eiga hluti til vara t.d. snertiskjá. Síðasta haust var skipt um alla snertiskjái á Þingvöllum, gömlu skjáirnir voru farnir að gefa sig, auk þess fleygir tækninni svo ört fram á þessu sviði, að hlutir verða úreltir á  3-4  árum.

 

Við þessum vanda er auðveldara að bregðast en hinu, að húsið, sem var tekið í notkun fyrir tæpum fimm árum, er orðið of lítið. Nú er verið að athuga tillögur arkitekta þess um að bæta við snyrtingum í einingahúsum.  Einnig eru til frumdrög að nýjum sal til vesturs frá núverandi sýningarsal og yrði hann að einhverju leyti í jörð, sem mundi leysa vandann vegna dagsbirtunnar, sem spillir stundum myndgæðum skjánna.

 

Góðir áheyrendur!

 

Hér hef ég lýst meginhugmynd minni um rafrænt aðgengi allra að menningarminjum, sem unnt er að kynna á netinu. Ég hef einnig lagt áherslu á, að nota eigi hina nýju tækni til að brjóta múra, sem hafa ekki skýrt og augljóst gildi. Loks hef ég sagt frá því, hvernig staðið var að því að koma á fót margmiðlunarsýningu á Þingvöllum og hve vel henni hefur verið tekið.

 

Síðan þessi sýning var opnuð árið 2002 hafa ýmsir farið inn á svipaðar brautir. Má þar til dæmis nefna sýninguna, sem er hér í húsinu og varð til þess, að Þjóðminjasafnið fékk evrópska viðurkenningu fyrir góða sýningu. Einar Á. E. Sæmundsen, fræðslufulltrúi okkar á Þingvöllum, fékk einmitt leyfi frá störfum til að aðstoða við rafræna þáttinn í sýningu Þjóðminjasafnsins.

 

Nútímaleg söfn leggja mikla áherslu á, að sýningar þeirra séu ekki aðeins þannig úr garði gerðar, að þær dragi að sér athygli gestsins, markmiðið er einnig að virkja hann og hvetja til þess að afla sér meiri þekkingar en sýningin getur boðið.

 

Þeirri skoðun verður ekki andmælt, að eitt sé að opna aðgang og miðla fróðleik,  en hitt sé ekki síður mikilvægt að virkja almenning til þátttöku og vekja áhuga fólks á því að leggja sitt af mörkum.

 

Alfræðibókin Wikipedia, sem aðeins er til á netinu og er samin af netverjum, er til marks um, hvernig unnt er að virkja þúsundir ef ekki hundruð þúsunda manna um heim allan til að safna og miðla fróðleik.

 

Þegar ég leit á bókina í þann mund og ég var að setja þennan texta saman stóð þar á forsíðu:

 

Mýraeldar voru sinueldar sem komu upp að morgni 30. mars og stóðu til aðfararnætur 2. apríl árið 2006 í Hraunhreppi í Borgarbyggð. Þeir fóru um 75 km² landsvæði en alls brunnu um 67 km² lands þegar frá eru dregnar tjarnir og innilokuð svæði sem brunnu ekki. Líklegt er talið að kviknað hafi í út frá vindlingi við þjóðveg 54 á móts við Bretavatn. Sinueldurinn barst mjög hratt, um 18 kílómetra á fyrstu sex klukkustundunum. Brennda svæðið var allt á milli þjóðvegar 54, 540 og 537, að undanskilinni einni tungu sem náði suður fyrir veg 537. Þegar mest var var eldveggurinn allt að tveggja metra hár og fór með tuga metra hraða á mínútu.“

 

Þetta er gagnorður texti um nýlegan atburð. Hann er saminn með eftir þeirri meginreglu, að þess sé gætt eftir því sem kostur er, að Wikipedia geymi ekki annað en það, sem er satt og rétt, þótt allir geti sett þar inn efni.

 

Til umhugsunar varpa ég fram tveimur spurningum: Er það ekki til þess fallið að ýta undir áhuga á menningarefni á veraldarvefnum, að þar sé menningin ekki aðeins kynnt af þeim, sem eru sérmenntaðir, heldur einnig af hinum, sem hafa þekkingu og áhuga á að miðla henni? Enn má spyrja: Yrði það til dæmis ekki til að ýta undir  varðveislu og skrásetninngu  menningarminja eða staðbundinna sagnaþátta á vef, ef almenningi er leyft að prjóna við efnið undir hæfilegri ritstjórn?

 

Ég ætla ekki að svara þessum spurningum, en ítreka í lok máls míns, þá skoðun mína, að upplýsingatæknina á að nota til að virkja sem flesta og hvetja til þess að vera ekki aðeins áhorfendur heldur einnig þátttakendur.