7.2.2007

Lögreglan gegn barnaníðingum

Grein í Morgunblaðinu 7. febrúar 2007.

UM áramót varð mikil og merkileg breyting á lögregluumdæmum landsins. Markmiðið er að stórefla starf lögreglunnar, ekki síst getu hennar til rannsóknar mála með aukinni sérhæfingu lögreglumanna. Í langstærsta umdæminu, á höfuðborgarsvæðinu, hafa svo sérstök skref verið stigin og má nefna, að þar hefur nú verið stofnuð sérstök deild sem eingöngu sinnir rannsókn kynferðisbrota.

Lögreglan vinnur nú að samvinnu við netþjónustufyrirtæki um að takmarka aðgang að síðum sem geyma barnaklám. Þá er innan lögreglunnar unnið að því að auka sérþekkingu rannsóknarmanna á net- og tölvumálum og þar á bæ er nú hugað að uppbyggingu á upplýsingabanka um fólk sem hneigist til afbrigðilegrar kynhegðunar og þá aðallega um einstaklinga sem leita á börn. Við uppbyggingu þess verður horft til þeirra kerfa sem hönnuð hafa verið í Bandaríkjunum og í Evrópu, en vitaskuld verður að stíga varlega til jarðar þegar slíkir upplýsingabankar eru annars vegar og haft verður samráð við Persónuvernd um þessa vinnu.

Innan refsiréttarnefndar er nú unnið að endurskoðun ákvæða almennra hegningarlaga um öryggisráðstafanir og við þá vinnu einkum horft til breytinga á því sviði í Danmörku og Noregi.

Ríkislögreglustjóri á samstarf við Barnaheill, en þau reka ábendingalínu á netinu þar sem borgararnir geta tilkynnt um vefsíður sem innihalda barnaklám. Barnaheill eiga í alþjóðlegu samstarfi um slíkar ábendingalínur og í gegnum það samstarf berast upplýsingar til lögregluyfirvalda í viðkomandi ríki. Ef Barnaheill hér heima fá upplýsingar um erlenda síðu með barnaklámi sér alþjóðadeild ríkislögreglustjórans um að koma þeim upplýsingum tafarlaust rétta leið í gegnum alþjóðalögregluna Interpol. Þá fær embættið upplýsingar beint frá Interpol ef erlendis frá kemst upp að verið sé að hlaða niður slíku efni frá Íslandi. Ríkislögreglustjóri rannsakar þá hver á í hlut og kemur málinu því næst til viðeigandi lögreglustjóra til meðferðar.

Lögregla og fangelsisyfirvöld stefna nú að aukinni samvinnu, einkanlega að því er varðar afplánunarfanga sem leyfi fá til að ljúka afplánun utan fangelsisveggja. Skipst verður á upplýsingum og metið í hverju tilviki hvernig unnt er að líta sem öruggast og best eftir þeim sem eru að ljúka afplánun.

Mikið eftirlit með föngum sem ljúka afplánun í tengslum við áfangaheimili Verndar, starfsmenn heimilisins fylgjast með föngum og fangaverðir fylgjast með vinnustöðum. Þótt við fyrstu heyrn geti hljómað undarlega í eyrum að dæmdur fangi ljúki afplánun sinni annars staðar en í fangelsinu, verður að hafa í huga að hverri fangavist er ætlað að ljúka einhvern daginn með því að hinn dæmdi fái fullt frelsi að nýju. Í mörgum tilvikum má ætla að það væri hvorki honum né þjóðfélaginu til góðs að hann kæmi til baka rakleitt úr fangelsinu. Áfangaheimili Verndar hefur gefið mjög góða raun við aðlögun refsifanga að lífinu utan múranna og illt ef í framtíðinni yrði að hverfa frá því fyrirkomulagi. En hér verður reynslan að ráða. Það er minnsta kosti alveg ljóst að í framtíðinni munu fangelsisyfirvöld leggja enn meiri vinnu en áður í að meta hvort hættanlegt sé á að fangi, sem framið hefur brot gegn börnum, fái að ljúka afplánun sinni utan fangelsis. Í þeim tilvikum verður að hafa sérstakan vara á.

Af og til berst tal að notkun svonefndra tálbeitna. Þar verður þó að fara með mikilli gát enda ekkert gamanmál að reyna að blekkja einstakling til að fremja afbrot og reyna svo að fá hann dæmdan fyrir tilraunina. Dómstólar hafa hins vegar staðfest að lögreglu geti verið heimilt að beita tálbeitu við rannsókn mála, og brot, þar sem væntanlegur brotamaður leggur snörur fyrir sér ókunnug börn, sem eiga sér einskis ills von, hljóta að sjálfsögðu að koma þar sérstaklega til álita. Það væri auðvitað strax mikið unnið ef tækist að fæla menn frá því að reyna að nálgast saklaus börn um netið.

Notkun tálbeitna hlýtur fyrst og fremst að helgast af tilraunum til að hafa hendur í hári grunaðra manna. Þegar tálbeita er notuð til að lokka slíka menn úr skúmaskotum sínum er af augljósum ástæðum ekki hægt að halda leiknum svo lengi áfram að maðurinn fullfremji brotið, eins og á hinn bóginn er hægt í sviðsettum fíkniefnaviðskiptum, svo dæmi sé tekið. Það atriði hlyti að hafa áhrif á hugsanlegar ákærur vegna mála sem yrðu til með þeim hætti.