7.2.2007

Svar til Steingríms J. um símhleranir

Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill málsins.


133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 841 —  521. mál.
Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn Steingríms J. Sigfússonar um símhleranir og eftirgrennslana-, öryggis- eða leyniþjónustustarfsemi lögreglunnar.

    1.      Telur dómsmálaráðuneytið sig engar almennar skyldur hafa til að upplýsa um símhleranir og eftirgrennslana- eða leyniþjónustustarfsemi lögreglunnar frá því á umliðnum árum?
    Ráðuneytið hefur svarað öllum fyrirspurnum um mál af þessum toga sem til þess hefur verið beint og ráðherra hefur t.d. tvisvar svarað spurningum fyrirspyrjanda, á þingfundum 9. október 2006 og 24. janúar 2007. Að fyrirspyrjandi sætti sig ekki við svör ráðuneytisins jafngildir því alls ekki að ráðuneytið svari ekki fyrirspurnum um þetta mál. Hinn 24. janúar 2007 sagðist ráðherra ekki geta sagt meira um þessi mál en hann vissi. Með þessum orðum er ekki brotið gegn 54. gr. stjórnarskrárinnar. Greinin mælir fyrir um rétt þingmanna til að „óska upplýsinga ráðherra eða svars um opinbert málefni með því að bera fram fyrirspurn um málið eða beiðast um það skýrslu.“ Að fyrirspyrjandi fái ekki þau svör sem hann væntir er ekki nýmæli en á hinn bóginn er ekki unnt að álykta sem svo að þau vonbrigði séu merki þess að ráðherra hafi brotið gegn stjórnarskránni og ekki verður þess krafist af ráðherra að hann segi meira um einstakt mál en vitneskja hans leyfir.
    Vorið 2006 var samstaða um það meðal þingflokka og þingmanna að skipuð skyldi sérstök nefnd til að kanna mál af þessum toga. Allsherjarnefnd Alþingis var samstiga í afstöðu sinni til þess hvernig að þessu nefndarstarfi skyldi staðið og lýsti því þannig í áliti sínu um þingsályktunartillögu forsætisráðherra um málið (þskj. 1467, 803. mál 132. löggjafarþings):
    „Nefndin hefur fjallað um málið. Með tillögunni er lagt til að skipuð verði nefnd til að annast skoðun gagna í vörslu opinberra aðila sem snerta öryggismál Íslands, innra og ytra öryggi, á árunum 1945–1991. Markmiðið er að leiða í ljós hvort í opinberum gagnasöfnum sé að finna upplýsingar um persónulega hagi einstaklinga eða dæmi um ólögmæta upplýsingaöflun.
    Samkvæmt tillögunni er lagt til að nefndin verði skipuð stjórnarformanni Persónuverndar, þjóðskjalaverði, forseta Sögufélags, skrifstofustjóra Alþingis og formanni stjórnmálafræðiskorar félagsvísindadeildar Háskóla Íslands. Enn fremur segir að nefndin skuli í samráði við forsætisráðuneyti, utanríkisráðuneyti og dóms- og kirkjumálaráðuneyti ákveða aðgang fræðimanna að gögnunum og skila Alþingi skýrslu um störf sín eigi síðar en í árslok 2006.
    Allsherjarnefnd telur rétt að forseti Alþingis og formenn þingflokka eigi þess kost að fylgjast með framgangi starfsins og leggur til breytingar í þá veru. Óþarft er að tekið sé fram í tillögugreininni að samráð skuli haft við stjórnarráðið en engu að síður er ljóst að ráðuneytin þurfa að leggja nefndinni lið við gagnaöflun. Lagt er til grundvallar að nefndin byggi niðurstöður sínar um aðgang á mikilvægi gagnanna fyrir fræðilegar rannsóknir og gildandi lögum.“
    Í upphafi þess þings sem nú situr flutti forseti Alþingis ásamt þingflokksformönnum frumvarp til laga um aðgang þessarar nefndar að trúnaðarskjölum. Í greinargerð með frumvarpinu, sem samþykkt var samhljóða, segir (sjá þskj. 27, 27. mál):
    „Í tilefni af umfjöllun sl. vor um sagnfræðilega rannsókn á hlerunum á dögum kalda stríðsins var samþykkt þingsályktun 3. júní 2006 þar sem ríkisstjórninni var falið að skipa nefnd til þess að annast skoðun gagna sem snerta öryggismál Íslands, innra og ytra öryggi, á árunum 1945–1991 í vörslu opinberra aðila og ákveða frjálsan aðgang fræðimanna að þeim. Með þessari þingsályktun hefur sú pólitíska stefna verið mörkuð að þessar upplýsingar skuli gerðar fræðimönnum aðgengilegar og sérstakri nefnd síðan falið að gera tillögu um hvernig staðið skuli að því, en nefndin var skipuð 22. júní 2006.
    Áður en nefndin getur skilað tillögum sínum um tilhögun á aðgangi fræðimanna að gögnunum þarf hún að kanna hvaða stjórnvöld hafa slík gögn í vörslum sínum og gera könnun á þeim. Þannig verður þá hægt að taka afstöðu til þess hvort rétt er að gera tillögu um að gögn um öryggismál Íslands frá þessu tímabili verði varðveitt í sérstakri deild, t.d. á Þjóðskjalasafni Íslands. Einnig þarf að kanna hvaða einkalífsupplýsingar hafa verið skráðar og taka afstöðu til þess hvort ákvæði 71. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs leggja skyldu á löggjafann að setja í lög ákvæði til verndar þeim einstaklingum sem sætt hafa eftirliti eða rannsókn af hálfu stjórnvalda með vísan til öryggishagsmuna íslenska ríkisins.
    Þar sem ætla verður að öll gögn og upplýsingar um öryggismál íslenska ríkisins á árunum 1945–1991 séu ekki aðgengileg almenningi á grundvelli upplýsingalaga, nr. 50/1996, aðallega vegna einkalífsverndar þeirra sem sættu eftirliti eða rannsókn á þessu tímabili, er nauðsynlegt að mæla í lögum fyrir um aðgangsrétt nefndarmanna að þessum gögnum og leggja um leið þagnarskyldu á þá. Frumvarp þetta er flutt til þess að lögfesta slíka aðgangsheimild nefndarmanna. Þá er jafnframt lagt til að lögfest verði að öllum opinberum starfsmönnum, bæði núverandi og fyrrverandi, verði skylt að svara fyrirspurnum nefndarinnar um verklag við öflun, skráningu og varðveislu upplýsinga um öryggismál Íslands á árunum 1945–1991 þrátt fyrir ákvæði laga um þagnarskyldu. Ákvæðið er nefndinni nauðsynlegt svo að hún geti kannað með hvaða hætti gögn um öryggismál Íslands urðu til og hvernig varðveislu þeirra var hagað, hvar þau er að finna og hvaða gögnum hefur verið eytt.
    Þá er í frumvarpinu mælt svo fyrir að upplýsingalög, nr. 50/1996, gildi ekki um störf nefndarinnar. Þykir það rétt í ljósi eðlis starfa nefndarinnar sem er að gera tillögu um rýmri aðgang að gögnum um öryggismál íslenska ríkisins á árunum 1945–1991, en af því tilefni er nefndarmönnum nauðsynlegt að kanna umfang og eðli fyrirliggjandi gagna. Auk þess er rétt að benda á að væri slíkt ákvæði ekki sett mundu öll gögn, sem nefndin aflaði sér frá dómstólum í málum sem fjallað var um á árunum 1945–1991, færast undir gildissvið upplýsingalaga þar sem þau væru þá komin í vörslur stjórnvalds og orðin þáttur í ákveðinni stjórnsýslu nefndarinnar.
    Rétt þykir að taka upp í lögin það ákvæði sem var í síðari málsgrein þingsályktunarinnar frá 3. júní 2006 um að nefndin hafi á starfstíma sínum samráð við forseta Alþingis og formenn þingflokka um framvindu verksins. Slíkt samráð er afar mikilvægt til að tryggja áfram þá samstöðu um málið sem náðist við samþykkt ályktunarinnar sl. vor.“
    Af þeim ákvörðunum sem þingmenn hafa einhuga tekið um fyrrgreinda rannsókn er ljóst að hún er unnin í samráði við forseta Alþingis og formenn þingflokka. Ráðherra hefur staðið að því með öðrum þingmönnum að þessi leið verði farin til að afla upplýsinga um þessi mál. Svör við öðrum liðum fyrirspurnarinnar eru gefin með þeim fyrirvara að hinni ítarlegu rannsókn nefndarinnar er ekki lokið og skýrsla hennar hefur því ekki birst. Ráðuneytið telur að með rannsókn óhlutdrægs aðila sé best tryggt að allt sé upplýst um þessi mál sem unnt er með vísan til heimilda. Ráðuneytið vekur einnig athygli á því að í áliti allsherjarnefndar kemur fram að ráðuneyti skuli leggja nefndinni lið við gagnaöflun. Hefur það verið gert af hálfu ráðuneytisins og stofnana þess.

    2.      Hversu umfangsmikil var þessi starfsemi hvað varðar fjölda þeirra einstaklinga sem símar voru hleraðir hjá og/eða spjaldskrár á grundvelli stjórnmálaskoðana voru færðar um?
    Í bókinni Óvinir ríkisins eftir Guðna Th. Jóhannesson sagnfræðing er að finna tölur um fjölda þeirra sem koma við sögu þegar leitað er heimildar hjá sakadómara til að hlera síma í þeim tilvikum sem sérstaklega eru rannsökuð af sagnfræðingnum. Í rannsókn sinni beindi Guðni Th. Jóhannesson athygli að málum sem tengdust stjórnmálaátökum. Hann birtir þessar tölur:
    Mars 1949: Óskað var eftir heimild til hlerunar á 16 símum.
    Janúar 1951: Óskað var eftir heimild til hlerunar á 15 símum.
    Apríl 1951: Óskað var eftir heimild til hlerunar á 25 símum.
    Febrúar 1961: Óskað var eftir heimild til hlerunar á 14 símum.
    September 1963: Óskað var eftir heimild til hlerunar á 6 símum.
    Júní 1968: Óskað var eftir heimild til hlerunar á 17 símum.
    Hafi verið færðar spjaldskrár með upplýsingum um stjórnmálaskoðanir einstakra manna eru þær ekki í vörslu ráðuneytisins eða stofnana á þess vegum.
    Augljóst er af öllu sem sagt hefur verið um þetta mál að umfang þessarar starfsemi á vegum lögreglu hefur aldrei verið mikið. Tveir til fimm menn virðast hafa sinnt verkefnum á þessu sviði frá því um upphaf sjötta áratugarins.

    3.      Nákvæmlega hvernig var háttað samvinnu Útlendingaeftirlits, lögreglu og dómsmálaráðuneytis við bandaríska sendiráðið og leyniþjónustumenn þar og njósnadeildir hersins í Keflavík?
    Starf af hálfu Útlendingaerftirlits, lögreglu og dóms- og kirkjumálaráðuneytis hefur byggst á lögheimildum íslenskra yfirvalda og dómsúrskurðum á grundvelli slíkra heimilda. Hvenær og hvort leyniþjónustumenn hafi starfað í bandaríska sendiráðinu eða njósnadeild á vegum varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli getur ráðuneytið ekki staðfest.

    4.      Hvernig var háttað samstarfi og samskiptum ráðherra og skrifstofa flokka þeirra við íslenska og bandaríska leyniþjónustuaðila, t.d. varðandi mannaráðningar Bandaríkjahers?
    Af hálfu íslenskra stjórnvalda voru samskipti við Bandaríkjaher undir forsjá utanríkisráðuneytis.

    5.      Hvenær lauk sérstakri eftirgrennslana- eða leyniþjónustustarfsemi hjá lögreglunni eða hefur slík starfsemi farið fram í einhverjum mæli allt til þessa dags og þá hvar og í hvaða umfangi?
    Svar við fyrirspurn fyrirspyrjanda um leyniþjónustustarfsemi (251. mál, 24. janúar 2007) var svohljóðandi:
    „Fyrirspurnir hv. þingmanns eru sprottnar af grein eftir dr. Þór Whitehead í tímaritinu Þjóðmálum þar sem sagt er frá því að á 4., 5. og 6. áratug síðustu aldar hafi verið lagður grunnur að því hjá lögreglustjóranum í Reykjavík að gert væri yfirlit yfir styrk kommúnista í ýmsum lykilstofnunum ríkisins með það í huga að þeir kynnu að geta misnotað aðstöðu sína, sérstaklega á stríðstímum, ef flokkur þeirra krefðist, eins og segir í ritgerð Þórs, með leyfi forseta:
    „Þá hafi rannsókn á útlendingum í landinu vafalaust tengst viðvörun Dana um njósnanet danskra kommúnista en einn þeirra átti einmitt að sinna viðgerðum hjá Ríkisútvarpinu.“
    Segir Þór frá því að einn maður, Pétur Kristinsson, hafi sinnt skrásetningarstarfi hjá lögreglustjóranum í Reykjavík í upphafi 6. áratugarins og hann hafi starfað náið með Árna Sigurjónssyni, yfirmanni Útlendingaeftirlitsins, og þá hafi verið vitað um a.m.k. þrjá hjálparmenn sem vöktuðu sovéska sendiráðið um þetta leyti. Í ritgerðinni er því lýst hvernig þessi starfsemi þróaðist í tímans rás. Ljóst er að aldrei var hún umfangsmikil. Má vafalaust finna umræður um hana í þingtíðindum ef grannt er skoðað.
    Á árinu 1986 ákvað ríkisstjórn undir forsæti Steingríms Hermannssonar að setja á laggirnar starfshóp til að huga að skipulagi innri öryggismála. Baldur Möller, sem þá hafði nýlega látið af störfum sem ráðuneytisstjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, var formaður hópsins og skilaði forsætisráðherra munnlegri skýrslu um málið snemma árs 1987.
    Af bráðabirgðaskýrslu sem Baldur ritaði 27. desember 1986 verður ráðið að skömmu áður en hópurinn hóf störf hafi verið gripið til úrbóta í öryggismálum æðstu stjórnar landsins, eins og Baldur orðar það, og telur hann þær aðgerðir á allgóðum vegi en í bráðabirgðaskýrslunni segir, með leyfi forseta:
    „Nú er unnið að mjög kröftugri eflingu tölvustýrðs upplýsingastreymis frá öryggismálastofnunum í öðrum löndum og telur starfshópurinn að þar verði um mjög mikilvæga framþróun að ræða. Jafnframt telur starfshópurinn nauðsynlegt að kanna vel öryggisaðstæður ýmissa viðkvæmustu ríkisstofnana og starfsemi utan þrengstu miðstjórnar ríkisins, svo sem fjarskiptastofnana, útvarps, orkustofnana og flugvalla.“
    Af þessari frásögn dreg ég þá ályktun að á þessum tíma hafi íslenska ríkið verið að búa sig undir að sinna þeim verkefnum sem hv. fyrirspyrjandi ræðir á annan veg en gert var á 6., 7. og 8. áratugnum. Skömmu síðar varð hv. þingmaður samgönguráðherra og hlýtur hann að hafa tekið afstöðu til þess hvernig staðið skyldi að öryggi þeirra stofnana sem heyrðu undir ráðuneyti hans.
    Í lok júnímánaðar sl. var birt opinberlega úttektarskýrsla sérfræðinga ráðherraráðs Evrópusambandsins í hryðjuverkavörnum. Var úttektin gerð fyrir dóms- og kirkjumálaráðuneytið. Niðurstaða skýrslunnar er að íslenska ríkið reki ekki neina starfsemi sem unnt sé að kenna við leyniþjónustu. Skýrslan gefur gleggri mynd en nokkur önnur opinber gögn af þessum málum hér á landi og þar er gerð tillaga um að koma á laggirnar íslenskri öryggis- og greiningarþjónustu. Sérfræðingarnir töldu hana með öðrum orðum ekki fyrir hendi í landinu.
    Ég vænti þess að nefnd undir formennsku dr. Páls Hreinssonar, sem starfar á grundvelli ályktunar Alþingis, geti upplýst þingheim um það efni sem hv. þingmaður nefnir í 2. lið fyrirspurnar sinnar [sjá svar við 1. lið fyrirspurnarinnar hér að framan]. Ég hef hvorki þekkingu né vitneskju til að lýsa umfangi þeirrar starfsemi sem fyrirspyrjandi nefnir, hverju var safnað, hverjir vissu um þessa starfsemi eða hverjir höfðu aðgang að upplýsingunum.“

    6.      Á grundvelli hvaða lagaheimilda, þ.m.t. fjárheimilda, voru stundaðar símhleranir og rekin eftirgrennslana- eða leyniþjónustustarfsemi?
    Löggæsla var á hendi sveitarfélaga til ársins 1972 en þá tók ríkið við allri fjármögnun hennar. Allar fjárveitingar til lögreglu byggjast á fjárlögum. Enn fremur voru allar beiðnir um símahleranir byggðar á gildandi lögum á hverjum tíma og ávallt lagðar fyrir dómara í samræmi við kröfur þar um.

    7.      Hverjir í stjórnsýslunni höfðu vitneskju um símhleranir og eftirgrennslanastarfsemi lögreglunnar?
    Embættismenn, dómarar, lögreglumenn og símamenn sem komu að því að afla og framkvæma lögmæltar heimildir höfðu vitneskju um starfsemina.

    8.      Hyggst dómsmálaráðuneytið upplýsa þá einstaklinga eða eftirlifandi aðstandendur þeirra sem sættu símhlerunum eða öðrum persónunjósnum um það hve lengi eftirlitið stóð og um annað sem máli skiptir í því sambandi?
    Ráðuneytið hefur ekki slík áform sem spurt er um.

    9.      Hefur dómsmálaráðuneytið tekið til skoðunar þann möguleika að greiða þolendum þessara aðgerða sem brotið var á bætur hliðstætt og gert hefur verið í Noregi?
    Ráðuneytið hefur kynnt sér hvernig staðið var að málum í Noregi og telur atvik þar annars eðlis en hér á landi.