11.11.2006

Hef ekki áhuga á að mýkja ímyndina.

Viðtal Kolbrúnar Bergþórsdóttur í Blaðinu 11. nóvember 2006,

 

 

 

 

„Ég lít á úrslitin í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins sem góðan varnarsigur. Ég uni þeim vel fyrir sjálfan mig og tel að eins og í pottinn var búið þurfi ég ekki að kvarta. Það var harkalega sótt að mér,“ segir Björn Bjarnason dómsmálaráðherra. „Ekki sé ég að menn séu að blanda sér í prófkjör annarra flokka en í aðdraganda prófkjörs hjá okkur sjálfstæðismönnum voru menn í öðrum flokkum mjög að skipta sér af. Þeir hrósuðu mér kannski í aðra röndina en tilgangurinn var að draga upp þá mynd að ég væri fremur illmenni en góðmenni. Innan flokksins varð uppákoma hjá stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna vegna tillagna sem ekki höfðu verið lagðar fram og sagt var að ég væri að ráðast á mannréttindi og gera hluti sem áttu ekki við nokkur rök að styðjast. Prófkjörsbaráttan sjálf bar þess líka merki að menn börðust hart. Það er óvenjulegt við val á flokkssystkinum á lista að spjótum sé beint gegn einum frambjóðanda um leið og mælt er með öðrum, en það var greinilega gert í þessu prófkjöri.“

 

Hugsaðirðu á einhverjum tímapunkti að ef þú næðir ekki öðru sætinu þá myndiruðu hætta stjórnmálaafskiptum?

 

„Ég gerði annað sætið ekki að úrslitaatriði. Ef ég hefði lent neðarlega á lista hefði það verið skýr skilaboð um að ég ætti að fara að snúa mér að einhverju öðru. En ég fékk sterka kosningu í þriðja sætið, það er síður en svo eins og ég lafi í því.“

 

Ef flokkurinn fer í ríkisstjórn eftir kosningar gerirðu þá tilkall til ráðherraembættis?

 

„Á mínum pólitíska ferli hef ég aldrei gert tilkall til ráðherraembættis, það hefur frekar verið leitað til mín og ég spurður hvort ég væri tilbúinn að taka að mér ákveðin embætti. Það er ekkert óeðlilegt við það að þrír þingmenn menn úr Reykjavík verði ráðherrar og þess vegna fleiri ef góðir menn eru í boði. Annars veit ég ekki frekar en aðrir, hvernig þetta verður.“

 

Veiktist ekki staða þín í Sjálfstæðisflokknum þegar Davíð Oddsson hætti stjórnmálaafskiptum?

 

„Ég lít ekki svo á. Við Davíð vorum nánir í stjórnmálum enda héldum við fram ákveðnum sjónarmiðum, skoðunum og viðhorfum sem við viljum að ríki innan Sjálfstæðisflokksins. Ég tel að innan Sjálfstæðisflokksins vilji menn að þessi viðhorf fái að njóta sín áfram. Ég hef heyrt því haldið fram að vegna brotthvarfs Davíðs úr stjórnmálum hafi staða mín veikst. Ég hef ekki orðið var við það. Hvers vegna skyldi hún hafa veikst?“

 

Með nýjum foringja koma nýir menn, það er alltaf þannig.

 

„Nýir menn geta ekki farið öllu sínu fram. Það er ekki endilega farsælt fyrir stjórnmálaflokk að nýir menn ýti öllum öðrum til hliðar. Ég lít svo á að styrkur Sjálfstæðisflokksins felist í ákveðnu jafnvægi innan hans. Gæfa flokksins byggist á því, að áfram verði siglt í sæmilegri sátt.“ 

 

Ætlarðu að vera langa tíma í stjórnmálum í viðbót?

 

„Ég hef boðið mig fram til fjögurra ára. Enginn veit hvað gerist eftir kosningar frekar en sína ævi fyrr en öll er, en varðandi stjórnmálaþátttöku hugsa ég eins og áður í grundvallaratriðum til fjögurra ára.“

 

Manni finnst stundum að samskipti þín og fjölmiðlamanna séu stormasöm. Er það rétt tilfinning?

 

„Frá árinu 1995 hef ég haldið úti heimasíðu minni bjorn.is, raunar eigin fjölmiðli. Þar skrifa ég reglulega og hef oft verið dómharður. Ég les þau skrif ekki eftirá nema ég þurfi á því að halda að fletta upp einhverju sem ég hef sagt, en ég er viss um að mörgum hefur sviðið undan skrifunum. Ég er ekkert að friðmælast við menn.

 

Menn geta spurt: Er skynsamlegt fyrir stjórnmálamann að agnúast út í fjölmiðlamenn á eigin vefsíðu? Fær hann ekki fyrir vikið fjölmiðalmenn upp á móti sér? Ég hef vafalaust kallað á þau viðbrögð, enda fjölmiðlamenn líklega viðkvæmari fyrir sjálfum sér en stjórnmálamenn. Á hinn bóginn er það liður í því að vera stjórnmálamaður að segja skoðun sína og svara fyrir sig.

 

Í sjónvarpsumræðum og blaðaskrifum eru svokallaðir álitsgjafar oft hreinlega úti að aka og þá má velta því fyrir sér hvaða forsendur þeir hafi fyrir mörgu því sem þeir segja í dómum um menn og málefni. Tilfinningasveiflur geta ráðið skoðun þeirra, ábyrgðarleysi, þekkingarskortur eða einfaldlega óvild. Má ég ekki gera athugasemdir við slíkan málflutning? Ég leitast við að gera það aldrei nema með rökum og helst beinum tilvitnunum.  Spyrja má af hverju ég sé að elta ólar við þetta.  Stundum geri ég það vissulega sjálfur. En er það ekki liður í heilbrigðum skoðanaskiptum, að menn láti í sér heyra, ef  þeim þykir aðrir segja bölvaða vitleysu, oft um hin mikilvægustu mál?

 

Sumir halda því fram, að ráðherra megi ég ekki nota ákveðin orð til að lýsa skoðunum mínum. Málum hefur meira að segja verið skotið til dómstóla vegna orða, sem ég hef notað á vefsíðunni. Nú er ég sagður vænisjúkur, af því að ég nota orðið „andstæðingur“. Þetta er pólitísk rétthugsun sem er komin langt út fyrir það sem eðlilegt er.“

 

En þeir sem segja þetta halda kannski að þú munir misbeita valdi þínu.

 

„Það opinberar vanþekkingu á því hvernig stjórnkerfið virkar. Allir verða að vera ábyrgir orða sinna og við sem erum í ráðherrastarfi berum meiri ábyrgð en margir aðrir því ef við misbeitum valdi okkar erum við að brjóta lög. Um þetta er ég mjög meðvitaður.

 

Þótt ég skrifi eitthvað á vefsíðu mína og taki þátt í opinberum umræðum, sem stundum eru harðar, jafngildir það ekki því að ég fari síðan niður í dómsmálaráðuneyti og segi mönnum að lesa vefsíðuna til að sjá, hvernig taka eigi á málum! Þetta eru tveir ólíkir heimar: góð stjórnsýsla og vefsíðuskrif.“ 

 

Hefurðu alltaf verið þannig gerður að þú telur það skyldu þína að svara fyrir þig?

 

„Já, ég er þannig gerður. Mér finnst það hluti í stjórnmálunum að menn svari fyrir sig og láti aðra ekki eiga neitt inni hjá sér. Það er kannski hluti af því hvað stjórnmálaumræður hér á landi geta verið skrýtnar að menn telji að stjórnmálamenn eigi ekki að svara fyrir sig.“

 

Nú hefurðu nokkuð harðara ímynd. Hefurðu aldrei hugsað um að mýkja hana?

 

„Ég veit ekki af hverju hún er hörð. Á hverjum degi er ég að sinna málum og reyna að leysa og greiða úr vandamálum.Ég tek því almennt vel, ef fólk ber upp við mig erindi, en læt einnig í ljós, hvort ég geti sinnt því eða ekki. Í hverju felst hin harða ímynd? Felst hún í því að vera fastur fyrir og hafa ákveðnar skoðanir og láta ekki vaða ofan í sig. Ef það er svo þá hef ég ekki áhuga á að mýkja ímyndina. Ég held að það gagnist mér ágætlega að hafa harða ímynd. Ég sé ekki að það hafi spillt neitt fyrir mér. 

 

Þessi harða ímynd hefur örugglega átt sinn þátt í því að ég var gagnrýndur á fyrri hluta kjörtímabilsins fyrir að setja of hörð útlendingalög og gera of strangar kröfur varðandi komu útlendinga til landsins. Pólitíkin er fljót að breytast því nú sýnist mér áberandi sá málflutningur að ekki hafi verið gerðar nógu strangar kröfur. Ef menn telja að ríkisstjórnin hafi verið að gera ranga hluti í þessum málum þá hefðu þeir átt að krefjast þess að Íslendingar færu úr evrópska efnahagssvæðinu. Við höfum farið að reglum sem gilda á því svæði en að sama skapi höfum við hert reglur gagnvart þeim sem eru utan svæðisins.

 

Í þessu máli finnst mér allt í lagi að hafa harða ímynd. Ég hef skoðun og stefnu sem byggist á rökum og skýrum hugmyndum en ekki á upphlaupum eins og mér finnst einkenna umræðuna núna þegar menn vilja að slá sig til riddara. Útlendingar hafa komið hingað, hér er næg vinna og margir leggja hönd á plóginn. Þá standa menn upp og segja að þetta verði að stöðva. Þetta eru sömu mennirnir og töluðu á móti mér þegar ég var að vinna að þessum málum í upphafi kjörtímabils. Ég gef ekki mikið fyrir þennan uppslátt þeirra. Hins vegar tel ég að við eigum að breyta reglunum um íslenskan ríkisborgararétt og við verðum líka að vera tilbúin að gera breytingar á útlendingalögum. Við eigum að vinna að þessu máli þannig að allir séu klárir á því að hér séu í gildi skýrar og sanngjarnar reglur. Við eigum ekki að reka þetta sem upphlaupsmál eins og áberandi er nú þegar menn eru komnir út í pólitísk öngstræti með flokka sína. Það skilar ekki því sem að er stefnt því við þurfum líka að búa  þannig í haginn að fólk sem vill setjast hér að geti lagað sig að íslensku þjóðfélagi og notið sín hér á landi. Það á ekki að búa til óþarfa spennu í kringum það.“

 

Þú hefur fengið þinn skerf af gagnrýni á þínum pólitíska ferli. Tekurðu hana inn á þig?

 

„Ef ég tæki gagnrýni inn á mig þá væri ég bara í því og gæti ekki gert neitt annað. Enginn gleðst yfir harðri gagnrýni en menn verða að standa hana af sér ef þeir ætla að starfa í stjórnmálum. Það er misjafnt hvaða stjórnmálamenn verða skotspónn á hverjum tíma. Sumir eru alltaf í skjóli, aðrir fá stöðugt á sig gagnrýni. Sumir ganga þannig fram að það er erfitt að hafa þá sem skotmark af því enginn veit hvaða skoðun þeir hafa . Þeir eru bara þarna.“

 

Það er fátt spennandi við sviplitla stjórnmálamenn.

 

„Ef það er mönnum fjötur um fót að hafa ákveðnar skoðnir og svara fyrir sig þá telst sennilega heppilegra að hafa mjúka ímynd og vera skoðanalaus. Þá kemst viðkomandi áfram af því að hann er goody guy. Ég hef ekki tileinkað mér þetta viðhorf.“

 

 

Nú ólst þú upp við pólitík og systir þín, Valgerður, er í framboði fyri Samfylkinguna. Finnst þér það óþægilegt?

 

„Mér finnst það alls ekki óþægilegt. Mér finnst það ágætt hjá henni. Hún hefur lengi haft mikinn pólitískan áhuga og vill láta að sér kveða. Ég óska systur mini alls hins besta og vona að henni gangi allt í haginn, en ég greiði ekki atkvæði hjá Samfylkingunni.“

 

Finnst þér þú sem stjórnmálamaður og sonur Bjarna Benediktssonar bera pólitíska ábyrgð  gangvart föður þínum og sögunni?

 

„Ég er kominn yfir það. Finn ekki fyrir því. Mér hefur hins vegar sárnað þegar menn segja í umræðum um hleranamál að faðir minn hafi misbeitt valdi sínu og staðið fyrir ólögmætum aðgerðum. Ekkert hefur komið fram sem segir okkur annað en að farið hafi verið að réttum lögum. Faðir minn var stjórnlagaprófessor og lögfræðingur og vissi nákvæmlega hvað hann mátti og hvað hann mátti ekki lögum samkvæmt. Það er fráleitt í mínum huga að hann hafi brotið lög. Auðvitað var nauðsynlegt fyrir ríksvald og stjórnvöld á þessum tíma að halda þeim í skefjum sem talið var að kynnu að beita valdi til að breyta hér stjórnarháttum. Ég hef alltaf sagt að það eigi að leggja þetta mál á borðið og gera það upp eins og annað.“

 

Þú ert í annasömu ráðherrastarfi. Verðurðu ekki stundum þreyttur á pólitíkinni?

 

„Ég ætti sennilega að taka mér meiri hvíld frá pólitíkinni. En ég er ekki stjórnmálamaður sem talar í símann allan sólarhringinn. Ég vinn mín störf en heimilislífið er ekki gegnsýrt af pólitík dags daglega. Ég hef mjög mikinn frið heima hjá mér.“

 

Hefurðu hugleitt að skrifa ævisögu þína?

 

„Ég hef ekki hugleitt það. Ég hef skrifað hluta af ævisögu minni í tólf ár á netið. Ég veit ekki hversu mikið magn það væri ef það yrði tekið saman. Það er ekki hægt að líkja þessum skrifum við dagbækur þar sem menn eru með uppljóstranir um samstarfsmenn eða eitthvað í þá áttina. Þessi skrif lýsa skoðunum mínum og eru viðbrögð mín við því sem gerist í pólitík og þjóðfélagsmálum. Ef þau yrðu gefin út og lesin þá er ég viss um að ímynd mín myndi ekki mýkjast. Þá myndi sennilega koma í ljós að harkan væri jafnvel meiri en menn grunar. Ég sit uppi með það en kvarta alls ekki yfir neinu.“