2.11.2006

Viðtal á Morgunvakt um prófkjörið.

Ólöf Rún Skúladóttir: Björn Bjarnason nýliðið prófkjör margir segja að það hafi verið sögulegt og að það hafi orðið kynslóðaskipti í Sjálfstæðisflokknum. Hver er þín skýring?

Björn Bjarnason:
Ja, kynslóðaskipti og ekki kynslóðaskipti við erum nú þarna við Geir Haarde í 2 af efstu 3 sætunum og Geir hefur nú verið lengur á þingi heldur en ég og þótt að ég sé kannski aðeins eldri á árum , ja, ég veit ekki hvernig menn túlka þetta með kynslóðaskipti. En það kemur þarna inn í 2. sætið Guðlaugur Þór sem er jú yngri heldur en við og síðan kemur Guðfinna Bjarnadóttir í 4. sætið og að vissu leyti má segja að þetta séu kynslóðaskipti. En ég hef nú jafnan litið á stjórnmál þannig að þau snúist frekar um málefni og stefnur og viðhorf í stjórnmálum og hverjir eru best fallnir til að fylgja þessum viðhorfum fram og hvaða skoðanir fólk hefur ekki hvort menn eru yngri eða eldri til þess að fylgja slíkum sjónarmiðum fram það ræðst náttúrulega bara af hæfileikum hvers og eins.

Ólöf Rún
: Niðurstaðan engu að síður varð hún þér áfall, þú áttir væntanlega ekki von á þessari niðurstöðu?

Björn Bjarnason
: Nú ég gat náttúrulega búist við öllu eins og menn gera í prófkjöri og mér finnst nú allt of sterkt að orði kveðið þegar þú talar um áfall í þessu sambandi. Ég held mínu 3. sæti, ég hef verið í 3. sæti á lista sjálfstæðismanna í Reykjavík alveg frá því ég bauð mig fram í fyrsta sinn árið 1990. Nú ætlaði ég að sækjast eftir 2. sætinu og ég náði því marki ekki. En ef þú lítur á aðra frambjóðendur í þessu prófkjöri og berð stöðu mína saman við þeirra stöðu þá sérðu það að margir þeirra eru ekki einu sinni í sama þingsæti eða sama sæti á listanum og þeir voru áður en gengið var til prófkjörsins. Ég held þó mínu sæti og mér finnst nú þetta ofdramatíserað þessi úrslit og menn séu eitthvað að gera meira úr þeim heldur en efni standa til frá mínum bæjardyrum séð eru þau eins og ég sagði nú um helgina, góður varnarsigur. Síðan hef ég fengið fjölmargar símhringingar og tölvubréf sem segja að þetta sé nú meira en það og það eigi ekki að líta á þetta með nokkru móti sem eitthvað áfall eða nota þau sterku orð um það sem mér hefur nú heyrst ýmsir vilja gera. Þetta er ákveðin röðun á þennan lista en eins og ég segi stjórnmál snúast nú fyrst og fremst um málefni og skoðanir, störf og stefnur og þetta er svona eins og að taka próf. Ég meina við vitum það af því við höfum verið í skóla og menn hafa tekið próf og sumir hafa verið nokkrum stigum hærri heldur en aðrir en hver man það þegar upp er staðið. Menn taka fyrst og fremst eftir því hvað menn eru að gera og hvaða verk þeir eru að vinna. Og í því efni þarf ég ekki að kvarta vegna þessa prófkjörs því að ég er mjög ánægður með þá miklu viðurkenningu sem ég fékk úr mörgum áttum fyrir þau störf sem ég hef verið að vinna sem stjórnmálamaður.

Ólöf Rún:
Menn töluðu þó svolítið um að nýjum aðferðum væri beitt í þessu prófkjöri eða ýmislegt var gert til að vekja á sér athygli. Þú segir að málefnin séu það sem skiptir máli. En umbúðirnar virðast nú alltaf hafa eitthvað að segja líka eða hvað?

Björn Bjarnason:
Jú, það er rétt varðandi mína kosningabaráttu, ég ætla ekki að leggja mat á kosningabaráttu annarra. Varðandi mína kosningabaráttu þá var hún með mjög hefðbundnu sniði af minni hálfu. Það var skrifstofa og það var gefið út blað og það var tekið á móti fólki og einhverjar símhringingar voru og auglýsingar í blöðum. En það eru fréttir um það líka að menn hafi sótt fram í hringingum af miklu meiri krafti heldur en áður. Og ég heyrði það líka þegar menn voru að leggja á ráðin um það hvernig kosningabaráttu ætti að heyja að menn töldu að þessar hringingar skiptu mjög miklu máli. Það sem ég heyri síðan að menn telja að það hafi nú verið kannski of mikið hringt frá sumum og það hafi líka verið hringingar sem hafi verið svolítið sérkennilegar því það hafi ekki verið endilega verið að mæla með einum heldur líka að mæla á móti öðrum. Og kannski eru menn farnir að fara meira út í það að vera í tveggja manna tali með kosningabaráttuna og reka hana á þeim grunni. Mér finnst nú nær að reka hana fyrir opnari tjöldum heldur en svo að vera að heimta svör af fólki um það hvern þeir ætla að kjósa og tala kannski illa um einhvern frambjóðanda á kostnað annars. Mér finnst að það sé ekki kosningabarátta sem sé til fyrirmyndar.

Ólöf Rún:
Veistu til þes að ákveðnir frambjóðendur hafi gert þetta og þá hverjir?

Björn Bjarnason:
Nei, ég bara hef heyrt þetta. Þetta er svona eitt af þessu sem um er talað og eitthvað hef ég fengið um þetta orðsendingar, en ef að þetta er svona þá er það ekki kosningabarátta sem ég vil heyja. Ég hef alltaf sagt að ég býð mig og sagði þá og segi enn, ég býð mig ekki fram gegn neinum í prófkjöri ég býð mig fram til þess að skapa góðan lista og eiga gott samstarf við fólk. Ef að menn vilja fara út í neikvæða kosningabaráttu með því að berjast gegn einhverjum þá er það ekki í mínum stíl að minnsta kosti.

Ólöf Rún
: En það er einmitt eitt af því sem að hefur verið nefnt að menn hafi jafnvel þá kannski sett þig mjög neðarlega á lista í stað þess að setja þig í næsta sæti á eftir þeim sem valinn var, ertu að vísa til þess?

Björn Bjarnason:
Ja, ég meina þetta er það sem talað er um og ef menn skoða tölurnar og sjá hvernig þetta lítur út allt saman  þá geta þeir dregið þá ályktun líka af tölunum. En þú ert að spyrja mig um aðferðir í kosningabaráttunni og þá er þetta kannski það sem mér finnst nýmæli í þessari kosningabaráttu hafi þessari aðferð verið beitt. En frá mínum bæjardyrum séð var þetta hefðbundin kosningabarátta og margir góðir frambjóðendur og ég vakti líka máls á því og hef vakið máls á því að prófkjör eru náttúrulega óvissuferð sem flokkar fara út í og það getur margt gerst á slíkum ferðalögum og margt komið upp á og mitt markmið er að reyna að vinna úr því þannig að það skaði ekki flokkinn til langframa. Því það geta orðið slíkir flokkadrættir í prófkjörum að þau skilji eftir sig einhverja gjá milli manna sem síðan verður erfitt að brúa þegar upp er staðið og ég vona svo sannarlega að það hafi ekki gerst í þessu prófkjöri. En við vitum aldrei, eftirleikurinn getur stundum orðið óvandaður en við skulum nú vona að það verði ekki í þessu. En eitthvað óbragð er í munni einhverra þegar menn eru að ræða um þetta en það er ekki hjá mér. Ég lít á þetta alveg hreint sem búið mál og  uni vel við það að sitja í mínu 3. sæti og hafa þá öflugu stöðu sem ég tel mig hafa innan Sjálfstæðisflokksins.

Ólöf Rún: Nú er nýkomið upp ja, það eru komnar fram einhverjar efasemdir í tengslum við símalista eða þá lista sem að voru í boði, úthringingarlista einhverja og það er verið að kanna þetta hjá flokknum hvort að þetta hafi eitthvað verið furðulegt. Hvað segir þú um þetta?

Björn Bjarnason
: Nei, ég þekki þetta mál nú ekki þannig að ég geti tjáð mig um það. Mér finnst svolítið einkennilegt maður kemur fram í Kastljósi og lýsir yfir einhverri skoðun og eigin reynslu í þessu. Síðan er gefin út yfirlýsing og sagt að það sé kannski ekki að marka manninn af því að hann hafi verið stuðningsmaður minn í prófkjörinu. Ég lít nú frekar á það sem gæðastimpil á fólk að hafa stutt mig. En ef einhverjir telja að þeir geti gert manninn ótrúverðugan með þessu þá finnst mér það nú heldur hallærislegt eða barnalegt. Því auðvitað kemur enginn maður fram og lýsir skoðun eða viðhorfi sínu vegna þess að hann hafi verið stuðningsmaður einhvers heldur vegna þess að hann telur að það hafi eitthvað gerst sem hann vill ræða um.

Ólöf Rún:
Þú segir það á eftir að koma á daginn hvort að það verða vatnaskil eða hvort að það grær um heilt eftir þetta prófkjör. Hvað finnst þér kannski mikilvægast að leggja áherslu á í starfi Sjálfstæðisflokksins núna. Það er kosningavetur og hasar framundan?

Björn Bjarnason
: Já, það eru mikilvægar kosningar framundan og það verður hart sótt að okkur sjálfstæðismönnum og það verður náttúrulega notað gegn okkur að við erum búnir að vera lengi í stjórn og mér finnst það nú alltaf einkennilegt að nota það gegn mönnum að þeir hafi verið lengi í stjórn þegar vel hefur til tekist. Nú það var líka svipaður tónn í kosningabaráttunni í prófkjörinu að menn sem væru búnir að vera lengi ættu að fara hvað sem liði þeirra störfum. Og ég tel að það sem við sjálfstæðismenn þurfum að gera er  óhikað að kynna það sem við höfum verið að gera og segjast ætla að halda áfram á sömu braut og við höfum náttúrulega dæmi um annars konar stefnu sem hefur verið fylgt á sama tíma og við höfum verið að stjórna landinu, skuldir ríkisins hafa næstum því horfið, á sama tíma hafa vinstri menn verið að stjórna Reykjavíkurborg og skuldirnar hafa hækkað ár frá ári. Þetta eru svo sláandi dæmi að fyrir almenning ætti að vera auðvelt að gera sér grein fyrir þessum mikla mun sem er annars vegar og hefur verið á stjórn ríkisins og hins vegar á Reykjavíkurborg undir stjórn R-listans. Þannig að það eru svona meginsjónarmið sem mér finnst að menn þurfa að hafa í huga og ég gef nú ekki mikið fyrir það þegar sumir stjórnmálamenn segjast vera betri í stjórnmálum en aðrir í þeim skilningi að þeir vilji gera meira fyrir fólkið heldur en aðrir. Það er ekki þannig, auðvitað gera allir sitt besta við þær aðstæður sem eru og það sem okkur hefur tekist frá því að við tókum við forystu hér í stjórnmálum 1991 er með miklum ólíkindum og við munum leggja það fram með okkur og það er okkar mikla framlag til þess þegar menn líta til framtíðar að okkur hefur gengið vel í fortíðinni og menn geta þá dæmt okkur af þeim verkum. Þetta finnst mér en síðan er  alltaf reynt að finna eitthvað annað. Fræg Borgarnesræða fyrir síðustu kosningar í kosningabaráttunni setti ákveðinn svip á það. Núna á undanförnum mánuðum og vikum hafa menn verið að ræða einhver hleranamál og kaldastríðsmál til þess að draga athyglina frá meginatriðunum. Það tókst og með því kæfðu þeir umræður um Kárahnjúkavirkjunina sem var orðin mjög erfið til dæmis fyrir Samfylkinguna og sérstaklega fyrir formann hennar sem greiddi atkvæði með virkjuninni í borgarstjórn Reykjavíkur en vill núna láta líta út eins og hún hafi ekki stutt málið. Þannig að menn grípa til ýmissa ráða eins og þú veist í stjórnmálum til þess að dreifa athygli kjósenda en meginmáli skiptir að kjósendur missi ekki sjónar á aðalatriðunum sem er náttúrulega farsæl stjórn landsins.

Ólöf Rún:
Hleranamálið, þú nefnir það, telur þú að einhver hafi ætlað sér að koma þér á kné með því að þetta mál var í umræðunni, telurðu að einhver sé að reyna að koma þér út úr stjórnmálum?

Björn Bjarnason:
Ja, það var greinilega gerð tilraun til þess að koma mér út úr stjórnmálum í kringum þetta prófkjör, það er engin spurning um það.

Ólöf Rún: Og hver gerði það?

Björn Bjarnason
: Nei, ég meina þú sérð það nú hvernig andstæðingar flokksins hafa veist að mér  og innan flokksins líka voru ungir sjálfstæðismenn, stjórn þeirra ályktaði á misskildum forsendum um málið. Þannig að menn vildu gera þetta að einhverju höfuðmáli í kosningabaráttunni. En það er alveg fráleitt annars vegar að segja að ég sé að flytja tillögur sem ég hef ekki flutt og hins vegar að ég beri ábyrgð á einhverjum hlerunum sem voru fyrir 40, 30 eða 50 árum. Hvoru tveggja er jafn vitlaust en sýnir hvað menn geta seilst langt í því að reyna að búa til eitthvað andrúmsloft í kringum einstaklinga sem þeir telja að sé til þess fallið að það komi þeim illa.

Ólöf Rún:
Geturðu nafngreint einhverja sem að þú telur að hafi verið með áform um að koma þér út úr íslenskum stjórnmálum í tengslum við þetta?

Björn Bjarnason
: Nei, ég ætla nú ekki að nafngreina neina. Þetta er nú bara, ég meina menn þurfa ekki að vera miklir sérfræðingar í stjórnmálum til að sjá hvernig þetta var og hvað hefur gerst eftir að prófkjörinu lauk nú þá dettur þetta niður, þá bara gufar þetta mál upp einhvern veginn og menn eru ekki að tala um það lengur. En hins vegar sitjum við áfram með það að við þurfum sem berum ábyrgð og ég sem dómsmálaráðherra við þurfum að búa þannig um hnútana að hér sé gætt þess öryggis fyrir borgarana sem þarf að vera fyrir hendi svo við njótum frelsis og góðra stjórnarhátta í landinu og menn komist ekki upp með einhverja hluti sem við viljum alls ekki að gerist í okkar þjóðfélagi og til þess þurfum við tæki og til þess þurfum við að skapa aðstæður fyrir löggæslumenn og lögreglu og það er þetta sem ég er að vinna að og þetta var, sérstök viðleitni var hjá sumum að gera einmitt þetta tortryggilegt í kosningabaráttunni. Nú það tókst ekki að ýta mér til hliðar þannig að ég mun halda áfram að ræða þessi mál og beita mér fyrir því að treysta öryggi borgaranna og efla öryggi þjóðarinnar allrar.

Ólöf Rún:
Það eru kosningar í vor, þú ert búinn að vera talsverðan tíma í stjórnmálum, fáir þú einhverju um það ráðið hvað hugsarðu þér að vera lengi í stjórnmálum?

Björn Bjarnason
: Nei, eins og ég sagði og sumir hafa nú talið að það væri ein af ástæðunum fyrir því að ég náði ekki 2. sætinu í þessu prófkjöri að ég lýsti því yfir í aðdraganda ákvörðunar minnar að ég ætlaði ekki að sækjast aftur eftir kjöri eftir þetta næsta kjörtímabil. Ég hef ekki breytt um þá skoðun. Nema að eitthvað sérstakt gerist. En ég sló til eitt kjörtímabil í viðbót en þú veist að í stjórnmálum eins og annars staðar að enginn veit sína ævina fyrr en öll er en meginreglan hefur nú verið sú að menn sem eru komnir á minn aldur og eins og ég verð orðinn eftir að næsta kjörtímabili lýkur að þá get ég nú með góðri samvisku sagt að ég sé búinn að vinna mitt verk.

Ólöf Rún:
Og hvað ætlarðu þá að gera, hvað langar þig að gera annað en að vera í stjórnmálum?

Björn Bjarnason: Nú er það, ég veit það ekki, ætli ég fari ekki bara að sinna hugðarefnum mínum að skrifa eitthvað meira, svo erum við líka búin að koma okkur ágætlega fyrir austur í Fljótshlíð, kannski fer ég bara að sinna búskap.

Ólöf Rún:
Og gerist bóndi í ellinni?

Björn Bjarnason
: Já, gerist bóndi í ellinni, ha, ekki er það verra.

Ólöf Rún:
Björn Bjarnason, kærar þakkir fyrir komuna á Morgunvakt.