9.10.2006

Möguleg leyniþjónustustarfsemi á vegum ríkisins.

Umræður utan dagskrár ál alþingi 9. október, 2006.

Eins og venja er, þegar efnt er til umræðna hér á alþingi um málefni utan dagskrár, gaf háttvirtur þingmaður Steingrímur J. Sigfússon mér skriflega vísbendingar um það, sem hann kysi helst, að ég ræddi.

 

Þegar ég las spurningar háttvirts þingmanns, lenti ég í nokkrum vandræðum með svörin, því að spurningar hans lúta að löngu liðnum atburðum og því hvernig taka hefði átt á málum á fyrri tíð.

 

Hér er í raun um sagnfræðilegt úrlausnarefni að ræða. Fjallað er um það, sem háttvirtur þingmaður nefnir eftirgrennslana- eða leyniþjónustustarfsemi lögreglu, tilefni hennar og eðli, í nýlegri ritgerð eftir dr. Þór Whitehead, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, í tímaritinu Þjóðmálum.

 

Enginn, sem les þá ritgerð, getur komist að þeirri niðurstöðu, að hér hafi verið um víðtækar, ólögmætar persónunjósnir á vegum lögreglunnar að ræða. Tveir til þrír lögreglumenn, sem hafa það verkefni að sinna öryggisþjónustu, eru nefndir til sögunnar á hverjum tíma. Það þarf mikið hugmyndaflug byggt á ríkri tortryggni að ætla, að á þann veg hafi verið unnt að fylgjast með fjölda manns. Að gefa sér þá niðurstöðu, að heimild til hlerunar jafngildi því, að sími sé hleraður, sýnir best, hve frjálslega er hrapað að niðurstöðum. Að kalla þetta „pólitíska vöktun“ er einfaldlega út í hött.

 

Varðandi fjárheimildir verður að ætla að þessi “eftirgrennslana- eða leyniþjónustustarfsemi” , sem svo er nefnd af fyrirspyrjanda, hafi að mestu leyti verið rekin af almennri fjárveitingu til lögreglustjórans í Reykjavík og útlendingaeftirlitsins. Lögreglumönnum hafi einfaldlega verið skákað til, svo að þeir gætu sinnt öryggismálum, ef nauðsyn krafðist. Hugsanlega kann að hafa verið veitt aukafjárveiting vegna utanríkisráðherrafundar Atlantshafsbandalagsins hér á landi 1968 en sá kostnaður gæti þó jafnvel hafa verið greiddur af safnfjárveitingu sem veitt var forsætis- eða utanríkisráðuneyti. Slíkt tíðkaðist gjarnan við opinberar móttökur og stórviðburði.

 

II.

 

Ég hef skýrt frá því í svörum við fyrirspurn hér á hinu háa alþingi, að á ári hverju séu símar hleraðir mörg hundruð sinnum vegna rannsókna á afbrotum, ekki síst til að upplýsa fíkniefnabrot. Þessar hleranir eru stundaðar á grundvelli laga um meðferð opinberra mála og eftir úrskurð dómara.

 

Krafan um úrskurð dómara til að tryggja lögmæti símahlerunar var lögfest hér á landi árið 1951 með fyrstu heildstæðu lögunum um meðferð opinberra mála. Í þeim lögum sagði: „Dómari getur, þegar öryggi ríkisins krefst þess eða um mikilsverð sakamál er að ræða, úrskurðað hlustanir í síma, sem sökunautur hefur eða ætla má hann nota.“

 

Þetta ákvæði leysti af hólmi sambærilegt ákvæði, sem hafði verið í fjarskiptalögum síðan 1941 – en í hinu eldra ákvæði var ekki gerð krafa um úrskurð dómara heldur að dómsmálaráðherra skyldi í hvert skipti fella úrskurð um, að lögregla hefði aðgang að því að hlusta á símasamtöl. Með lögunum um meðferð opinberra mála frá 1951 var það skilyrði einnig sett í fyrsta sinn fyrir hlerun síma, að hún skyldi alltaf vera í þágu rannsóknar sakamáls.

 

Í umræðum um símahleranir frá stríðslokum fram að lyktum kalda stríðsins hefur hvergi komið fram, að lagaskilyrðum hafi ekki verið fullnægt við hlustanir lögreglu og þær hafi ekki byggst á úrskurði dómara. Þvert á móti liggur fyrir sagnfræðileg rannsókn, sem sýnir, að í öllum tilvikum, sem þar eru nefnd, tók sakadómari ákvarðanir um hleranir.

 

Sé litið til skilyrða upplýsingalaga um upplýsingaskyldu stjórnvalda segir, að þau gildi ekki um rannsókn eða saksókn í opinberu máli.

Þetta ákvæði upplýsingalaga endurspeglar það viðhorf, sem almennt hefur einkennt skyldu stjórnvalda til að miðla upplýsingum um málefni af þeim toga, sem um er rætt í spurningum háttvirts þingmanns, Steingríms J. Sigfússonar. Nú er mælt fyrir um það í lögum, að ekki sé skylt að láta í té upplýsingar, sem snerta rannsókn eða saksókn í opinberu máli. Það liggur beint við að álykta á þann veg, að sömu rök og búa að baki þessu lagaákvæði, hafi ráðið afstöðu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til þess að hafa ekki sjálft frumkvæði að opinberri miðlun upplýsinga um rannsóknir, sem byggjast á úrskurði dómara vegna gruns um saknæmt athæfi þess, sem rannsókninni sætir.

 

Að því virtu, sem gerðist á þeim tíma, sem vikið er að í spurningum háttvirts þingmanns, tel ég af og frá, að í raun sé unnt að kenna þá starfsemi við leyniþjónustu frekar en nú á tímum, þegar um það er að ræða, að lögregla fær heimild til símahlustunar vegna til dæmis gruns um fíkniefnabrot.

 

III.

 

Á þessum árum eins og raunar enn þann í dag er eðlilegt, að á vegum ríkisins sé haldið úti öryggisgæslu vegna starfsemi erlendra sendiráða í landinu. Nýlegt atvik við rússneska sendiráðið, þegar fána þess var stolið, minnir á skyldur gistiríkis gagnvart sendiráðum.

 

Á tímum kalda stríðsins var allt að þriðjungi starfsmanna í sovéskum sendiráðum talinn á vegum KGB eða GRU, leyniþjónustu hersins.

 

Íslensk stjórnvöld hafa ekki aðeins skyldu til að gæta öryggis sendiráða í landinu heldur verða þau einnig að gæta hins, að starfsemi á þeirra vegum sé innan lögmætra marka samkvæmt alþjóðasamningum.

 

Ég minnist þess ekki, að íslensk stjórnvöld hafi sætt gagnrýni fyrir óeðlilega framgöngu gagnvart erlendum sendiráðum hér á landi á tímum kalda stríðsins. Hitt kunna háttvirtir þingmenn að muna,  að löngum og oft var rætt, að fjöldi starfsmanna í sovéska sendiráðinu í Reykjavík væri meiri en góðu hófi gegndi miðað við almenn umsvif þess. Árið 1986 störfuðu t. d. 37 menn í sovéska sendiráðinu hér og alls voru 80 manns frá Sovétríkjunum í tengslum við það. Þegar slíkar tölur voru nefndar, brást sendiráðið oft þunglega við og var látið að því liggja, að héldu fjölmiðlar áfram að ræða samskipti ríkjanna á þessum nótum, mundi það spilla fyrir viðskiptum milli þeirra.

 

IV.

 

Öryggisgæsla ríkisins tekur mið af aðstæðum og hættumati hverju sinni. Ég heyrði til dæmis sagt frá því í morgun, að þýska lögreglan hefði ráðlagt óperustjóra í Berlín að hætta við að sýna óperu eftir Mozart af ótta við reiði múslíma yfir efnistökum leikstjórans. Var farið að tilmælum lögreglu, en þau byggjast á greiningu hennar og hættumati.

 

Í fyrrnefndri grein Þórs Whiteheads kemur fram að eftir Gúttó-slaginn svonefnda á fjórða áratugnum og vegna atlögunnar að alþingi 30. mars 1949 hafi verið lögð áhersla á það af hálfu lögreglu, að hún yrði að geta lagt mat á áhættu með því að fylgjast með þeim, sem líklegir yrðu til þess stofna til átaka – en hér voru starfandi stjórnmálafylkingar, sem sættu sig hvorki við stjórnarhætti né þjóðskipulag og töldu sumar, að ekki yrði unnt að breyta stjórn ríkisins nema með valdi.

 

Eftir því sem hætta á átökum af þessu tagi minnkaði beindist athygli lögreglu að öðru og þá kannski einstökum hópum, sem vildu nota sérstaka atburði til að vekja athygli á málstað sínum, jafnvel með ofbeldi eins og til dæmis gerðist, þegar í fyrsta sinn var efnt hér til utanríkisráðherrafundar Atlantshafsbandalagsins árið 1968.

 

Spennan var miklu meiri meðal Íslendinga sjálfra í kringum NATO-fundinn en fund þeirra Georges Pompidous Frakklandsforseta og Richards Nixons Bandaríkjaforseta að Kjarvalsstöðum árið 1993 eða Ronalds Reagans og Mikhaíls Gorbatsjovs í Höfða fyrir réttum 20 árum. Enginn þarf að efast um, að í tilefni af þessum fundum hafi verið gripið til víðtækra, leynilegra öryggisráðstafana, en líklegt er, að þær hafi fremur verið á vegum erlendra aðila en innlendra.

 

Sama ár og þeir Reagan og Gorbatsjov hittust hér skipaði ríkisstjórn undir forsæti Steingríms Hermannssonar sérstaka nefnd til að fjalla um innri öryggismál ríkisins. Hóf nefndin störf í júlí 1986 og lauk þeim í ársbyrjun 1987 með munnlegri skýrslu Baldurs Möllers nefndarformanns til forsætisráðherra, eftir því sem best er vitað.

 

V.

Eins og áður sagði  bý ég ekki yfir þeirri þekkingu á því, hvernig öryggisgæslu ríkisins var háttað fyrir mörgum áratugum, að ég geti svarað einstökum spurningum háttvirts þingmanns. Ég tel hins vegar, að alþingi hafi þegar gert viðunandi ráðstafanir til að unnt sé að fá við  svör við  þessum spurningum.

 

Í tilefni af umfjöllun sl. vor um sagnfræðilega rannsókn á hlerunum á dögum kalda stríðsins var samþykkt þingsályktun 3. júní 2006 þar sem ríkisstjórninni var falið að skipa nefnd til þess að annast skoðun gagna sem snerta öryggismál Íslands, innra og ytra öryggi, á árunum 1945–1991 í vörslu opinberra aðila og ákveða frjálsan aðgang fræðimanna að þeim. Með þessari þingsályktun var sú pólitíska stefna mörkuð að þessar upplýsingar skyldu gerðar fræðimönnum aðgengilegar og sérstakri nefnd síðan falið að gera tillögu um hvernig staðið skyldi að því, en nefndin var skipuð af forsætisráðherra 22. júní 2006.

 

Hinn 4. október sl. samþykktum við samhljóða hér í þessum sal lög um að þrátt fyrir lögmælta þagnarskyldu sé öllum opinberum starfsmönnum skylt að svara fyrirspurnum nefndarinnar um verklag við öflun, skráningu og varðveislu upplýsinga um öryggismál Íslands á árunum 1945–1991. Hið sama gildi um opinbera starfsmenn sem látið hafa af störfum. Upplýsingalög, nr. 50/1996, gildi ekki um störf nefndarinnar.

 

 

VI.

 

Nokkuð hefur verið rætt um skráningu persónuupplýsinga, spjaldskrár og eyðingu þeirra.  Nú eru hér í gildi lög um persónuvernd, og þar eru upplýsingar um uppruna, litarhátt, kynþátt, stjórnmálaskoðanir, svo og trúar- eða aðrar lífsskoðanir taldar viðkvæmar persónupplýsingar, sem njóta sérstakrar verndar.

 

Gagnaskráning og samkeyrsla gagna er miklu auðveldari nú á tölvuöld en á þeim tíma áður en lög um meðferð tölvugagna komu til sögunnar og stuðst var við spjaldskrár eða upplýsingar í slíkum gögnum.

 

Í margnefndri grein dr. Þórs Whiteheads er skýrt frá því, hvernig spjaldskrár embættis lögreglustjórans í Reykjavík voru eyðilagðar.

 

Fleiri rök kunna að hafa legið að baki förgun þessara gagna en að lögreglustjóri hafi reiknað með að hverfa til annarra starfa. Á þessum tíma voru hafnar umræður um skráningu persónuupplýsinga. Fyrstu „tölvulögin“ voru sett á árinu 1981. Nefnd hafði verið skipuð til að undirbúa lagafrumvarp á árinu 1976.

 

VII.

 

 

Í tíð minni sem dóms- og kirkjumálaráðherra hef ég margoft vikið að nauðsyn þess að skipa þessari starfsemi á vegum ríkisins með lögum og tryggja eftirlit af hálfu alþingis með henni.

 

Síðastliðinn föstudag kynnti ég tillögur um þetta efni í ríkisstjórn og í dag lagði ég þær fram á samráðsfundi með fulltrúum þingflokka. Tillögurnar byggjast á niðurstöðum starfshóps, sem ég skipaði síðastliðið sumar undir formennsku Haraldar Johannessens ríkislögreglustjóra. Megintillögur hópsins eru þessar:

 

1.     Stofnuð verði öryggis- og greiningarþjónusta hjá embætti ríkislögreglustjóra.

2.     Unnið verði að sérstökum lögum um starfsemi öryggis- og greiningarþjónustunnar.

3.     Starfsemi öryggis- og greiningarþjónustu verði háð eftirliti sérstakrar eftirlitsnefndar sem skipuð verði fimm þingmönnum.

4.     Byggt verði upp upplýsingakerfi fyrir öryggis- og greiningarþjónustuna og aflað verði heimilda til samkeyrslu gagna í vörslu opinberra aðila.

5.     Komið verði á formlegu samstarfi við erlendar öryggisþjónustur.

 

Ég tel, að í þessum tillögum sé tekið mið af því, sem fram kom í umræðum hér á alþingi síðastliðið vor, þegar rætt var um nýskipan lögreglumála og sérstaka greiningar- og rannsóknadeild hjá ríkislögreglustjóra. Þá byggjast tillögurnar á vísan til skýrslu sérfræðinga frá ráðherraráði Evrópusambandsins, sem gerðu úttekt á hryðjuverkavörnum okkar Íslendinga og töldu brýnt að stofna deild á borð við þá, sem er nefnd öryggis- og greiningarþjónusta í framangreindum tillögum.

 

Úttekt hinna evrópsku sérfræðinga er í raun eina heilstæða opinbera skýrslan, sem hér hefur verið birt um stöðu þeirra mála hér landi, sem vikið er að í spurningum háttvirts þingmanns Steingríms J. Sigfússonar. Af úttektinni má ráða, að sérfræðingarnir telja lögregluna á Íslandi ekki hafa neinar heimildir til rannsókna, án þess að þar búi að baki rökstuddur grunur um saknæmt athæfi. Hér sé því ekki starfandi leyniþjónusta eða rekin leyniþjónustustarfsemi af hálfu lögreglunnar.

 

Ég tek undir þessa niðurstöðu hinna óháðu, erlendu sérfræðinga. Ég hvet þingmenn jafnframt til að horfa frekar fram á veginn í þessu efni en geta sér til um það, hvað hugsanlega kunni að hafa gerst í fortíðinni. Við breytum henni ekki og rannsóknir á henni eru best komnar í höndum sagnfræðinga. Við getum hins vegar lagt grunn að öruggari framtíð með skynsamlegum ákvörðunum okkar hér á alþingi og með hagsmuni lands og þjóðar að leiðarljósi. Í þeim anda mun ég halda áfram að vinna að þessum mikilvægu málum og óska enn á ný eftir góðu samstarfi við þingmenn um niðurstöðuna.