7.10.2006

Gæsluþyrlum fjölgar.

Ræða flutt í flugskýli Landhelgisgæslu Íslands, 7. október, 2006.

Þegar við komum saman hér í dag erum við ekki aðeins að fagna þeirri þyrlu frá Air Lift, sem hér var að lenda, heldur einnig öðrum mikilvægum áfanga í flugsögu Landhelgisgæslu Íslands.

Flugmálastjórn Íslands veitti landhelgisgæslunni í gær flugrekstrarleyfi en án þess hefði ekki verið unnt að ganga til samninga við Air Lift um leigu á þyrlunni.

 

Flugrekstrarleyfið er liður í því að efla flugdeild landhelgisgæslunnar. Með því eykst öryggi við flugstarfsemi hennar verulega þar sem gæslan fullnægir  nú skilyrðum JAR OPS-3, sem eru kröfur Flugöryggissamtaka Evrópu. Í leyfinu felst jafnframt, að  Flugmálastjórn Íslands hefur framvegis virkt eftirlit með flugrekstri landhelgisgæslunnar.

 

Leyfið fjölgar verulega þeim verkefnum, sem flugdeild landhelgisgæslunnar getur sinnt, og með því er allri starfsemi deildarinnar sett skýr umgjörð innan alþjóðlegra reglna. Í nýjum lögum um Landhelgisgæslu Íslands eru heimildir um þróun flugdeildarinnar og veitir flugrekstrarleyfið tækifæri til að nýta þær, verði það talið hagkvæmt.

 

Þyrlan sem var að lenda hér rétt í þessu er eins og áður sagði  tekin á leigu hjá norska þyrlufyrirtækinu Air Lift. Fyrirtækið rekur m.a. björgunarþyrluþjónustu fyrir sýslumanninn á Svalbarða en starfsemin þar er með svipuðu sniði og verið hefur hjá landhelgisgæslunni. Flugdeild gæslunnar hefur verið í nánu samstarfi við fyrirtækið um árabil varðandi þjálfun, skipti á flugmönnum og varahlutum.

 

Þyrlan er leigð frá og með 5. október 2006 til eins árs. Á henni hafa verið gerðar margvíslegar breytingar, svo að hún geti þjónað hlutverki björgunarþyrlu sem allra best  Þyrlan er af gerðini Pouma (AS-332C) og er í mörgu tilliti sambærileg við TF LIF, þótt ekki sé hún að öllu leyti löguð að okkar ýtrustu kröfum, enda ekki sérsmíðuð með þær í huga.

 

Flugdrægni þyrlunnar er 240 sjómílur og er þá miðað við að hún geti verið 30 mínútur við störf í þeirri fjarlægð og híft upp 10 menn og snúið aftur – drægni þyrla gæslunnar mun enn aukast með eldsneytisbúnaði um borð í varðskipunum.

 

Leiguþyrla af Dauphin-gerð er síðan væntanleg snemma í næsta mánuði en hún er sambærileg TF-SIF, minni þyrlu gæslunnar.

 

Með leigu á þessum tveimur þyrlum hefur það markmið náðst, sem ríkisstjórnin setti strax og ljóst var, að þyrlusveit varnarliðsins mundi hverfa héðan í september, það er að  Landhelgisgæsla Íslands gæti með nægum þyrlukosti tryggt landsmönnum öryggi við björgun á sjó og landi.

 

Ég vil á þessari stundu þakka þeim, sem hafa staðið að því að ná þessu markmiði. Eins og fram kom hjá Georg Lárussyni var ekki auðhlaupið með þeim skamma fyrirvara og við höfðum, að ná í þyrlur til að sinna erfiðum verkefnum hér á norðurslóðum. Það tókst og vil ég færa þeim Stefáni Eiríkssyni, Leifi Magnússyni og Georg Lárussyni, sem veittu forystu við framkvæmd tilllagna minna og ákvarðana ríkisstjórnarinnar þakkir og jafnframt öllum starfsmönnum flugdeildar Landhelgisgæslu Íslands, sem hafa orðið að laga sig að gjörbreyttum aðstæðum.

 

Fáein orð um framtíðina. Landhelgisgæslan hefur leigt þriðju Super Pouma þyrluna frá 1. maí næstkomandi.

 

Frá mínum bæjardyrum séð er leiga á þyrlum bráðabirgðalausn. Í júlí kynnti ég tillögur um framtíðarlausn. Þar er gert ráð fyrir að keyptar verði þrjár sérsmíðaðar björgunarþyrlur auk þess sem fjórða þyrla af minni gerð verði hluti af þyrlukosti gæslunnar.

 

Unnið er að úrvinnslu þessara tillagna, meðal annars í samstarfi við Norðmenn. Enn hafa ekki verið teknar endanlegar ákvarðanir um framkvæmd þeirra.

 

Ég lýk máli mínu með því að láta í ljós þá ósk, að gæfa og öryggi fylgi þyrlunni, sem við fögnum hér í dag og þeim, sem í henni munu sinna ábyrgðarmiklum og oft hættulegum störfum.