30.9.2006

Varnarliðið fer – öryggið er tryggt.

Grein í Morgunblaðinu 30. september 2006.

 

 

Við inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið (NATO) árið 1949 settu Íslendingar þau tvö meginskilyrði, að aðildinni fylgdi hvorki skylda til að stofna íslenskan her né til að hafa hér her á friðartímum.

Skammur tími leið frá því að þessi skilyrði voru samþykkt, þangað til ráð herforingja innan NATO taldi heimsmálin hafa þróast á þann veg, að ekki væri unnt að tryggja öryggi og varnir Íslands nema með viðveru herafla í landinu sjálfu. Íslensk stjórnvöld féllust á þetta mat og gerðu varnarsamning við Bandaríkin með vísan til aðildar sinnar að NATO og kom bandarískur herafli hingað til lands 7. maí 1951. Í dag 30. september 2006 hverfur þessi liðsafli af landinu.

Hér verður aðeins stiklað á stóu í sögu varnarsamstarfsins. Fyrstu ár þess einkenndust af stórframkvæmdum á Keflavíkurflugvelli, sem höfðu mikil áhrif á íslenskt efnahags- og atvinnulíf. Þá var einnig rætt af tilfinningahita um menningarleg áhrif af dvöl varnarliðsins og náðu þær umræður hámarki í deilunum um "kanasjónvarpið" á fyrri hluta sjöunda áratugarins. Undir lok hans veltu íslensk stjórnvöld því fyrir sér, hvort staða heimsmála hefði þróast á þann veg, að ástæða væri til að breyta um stefnu af þeirra hálfu og draga úr bandarískum umsvifum.

Þróun öryggismála á Norður-Atlantshafi var hins vegar á þann veg, að umsvif sovéska flotans og flughersins jukust jafnt og þétt frá lokum sjöunda áratugarins og fram til ársins 1985, þegar þau náðu hámarki. Viðbúnaður varnarliðsins endurspeglaði þessa þróun og á fyrri hluta níunda áratugarins var ráðist í miklar framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli, tækjakostur til kafbátavarna og loftvarna var endurnýjaður til að standast ströngustu kröfur. Eftir 1985 drógust sovésk hernaðarumsvif frá Kólaskaga saman og þar með á Norður-Atlantshafi. Með hruni Sovétríkjanna gjörbreyttist pólitíska viðhorfið og hættumat NATO-ríkjanna bæði hér og annars staðar.

II.

Tvisvar sinnum á þessu tímabili höfðu ríkisstjórnir það á stefnuskrá sinni að segja upp varnarsamningum eða láta varnarliðið hverfa. 1956 til 1958 undir forsæti Hermanns Jónassonar og 1971 til 1974 undir forsæti Ólafs Jóhannessonar. Þar var um svonefndar vinstri stjórnir að ræða með þátttöku Alþýðubandalagsins, sem beitti sér gegn aðild að NATO og varnarsamstarfinu. Í hvorugt skiptið náðu þessi áform fram að ganga og í hvorugt skiptið hafði árangursleysið í þessu efni áhrif á setu ráðherra Alþýðubandalagsins í ríkisstjórn. 1978 gekk Alþýðubandalagið til ríkisstjórnarsamstarfs undir forsæti Ólafs Jóhannessonar, án þess að setja fram kröfu um brottför varnarliðsins, en 1974 höfðu 55.522 Íslendingar lýst yfir stuðningi við varnarsamstarfið í undirskriftasöfnun Varins lands.

Augljóst hefur verið allt frá því að Sovétríkin heyrðu sögunni til, að varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna mundi taka breytingum. Þegar frá líður munu menn undrast, hve langur tími leið frá lokum kalda stríðsins, þar til skipan varna Íslands tók á sig nýja mynd.

Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, sem kom til sögunnar 30. apríl 1991, setti á laggirnar nefnd til að ræða breyttar aðstæður í öryggismálum og skilaði hún skýrslu í mars 1993. Þar er því slegið föstu, að við hinar nýju aðstæður sé hvorki áhugi á því hjá NATO né Bandaríkjamönnum, að varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna verði rift en hins vegar taki framkvæmd hans breytingum.

Um þessar breytingar varð samstaða milli ríkisstjórna landanna 1994 og 1996 og nú síðast með því samkomulagi, sem kynnt var þriðjudaginn 26. september og tekur mið af þeirri ákvörðun Bandaríkjastjórnar, sem kynnt var íslenskum stjórnvöldum 15. mars 2006. Þetta er róttækasta breytingin á framkvæmd varnarsamningsins, því að samkvæmt henni, hverfur sá liðsafli, sem hefur verið hér á landi síðan 1951 af landi brott og síðasti liðsmaðurinn fer í dag.

III.

Í áköfum deilum um varnarsamstarf okkar og Bandaríkjamanna á liðnum áratugum höfum við talsmenn þess, að öryggis lands og þjóðar sé jafnan gætt í samræmi við hernaðarlegt mat, mátt sæta því, að fyrir okkur vekti í raun ekki annað en aðför að sjálfstæði íslensku þjóðarinnar, því að við vildum, að hún yrði hersetin til eilífðar, ef ekki innlimuð í Bandaríkin. Nú hefur þessi málflutningur gengið sér til húðar eins og svo margt annað, sem andstæðingar þessa farsæla friðarsamstarfs hafa sagt.

Meðal málsvara varnarsamstarfsins hefur ekki alltaf ríkt samstaða um stefnuna gagnvart Bandaríkjastjórn. Sumir í okkar hópi vildu, að Bandaríkjamenn greiddu leigu fyrir aðstöðu sína hér. Okkur, sem vorum ósammála "aronskunni" eins og þessi stefna var kölluð, þótti ekki sæmandi að gera öryggi þjóðarinnar að féþúfu, auk þess sem við töldum, að með of miklum efnahagslegum tengslum yrði erfiðara en ella að sjá á bak varnarliðinu, þegar það hyrfi af landi brott.

Efnahagur íslensku þjóðarinnar hefur batnað jafnt og þétt, frá því varnarliðið kom og Íslendingar voru meðal þeirra þjóða, sem fengu hvað mestan fjárhagslegan stuðning undir merkjum Marshall-aðstoðarinnar. Raunar má segja, að með tilliti til efnahagsáhrifa af brottför varnarliðsins hefði ekki verið unnt að velja heppilegri tíma en þá, sem við nú lifum.

IV.

Á tímum kalda stríðsins byggðist varnarstefna Vesturlanda á framvörnum. Herafla var skipað þannig, að með skömmu viðbragði væri unnt að bregast við árás og síðan mundu átök stigmagnast, þar til gripið yrði til kjarnorkvopna, ef í nauðir ræki. Í samræmi við þessa stefnu var óvígur her í Vestur-Þýskalandi og lagt höfuðkapp á að snúast gegn sókn af Kólaskaga út á Norður-Atlantshaf eins norðarlega og fært þótti.

Nú byggist varnarstefna Vesturlanda á því að unnt sé að bregðast við hættu, sem getur verið af margvíslegum toga og er heraflanum skipað samkvæmt því, hann er sveigjanlegur og hreyfanlegur. Hið nýja samkomulag Íslands og Bandaríkjanna um framkvæmd varnarsamningsins tekur mið af þessu nýja hættumati. Hluta hins hreyfanlega herafla er ætlað það sérstaka hlutverk að gæta öryggis Íslands og um það liggja fyrir áætlanir, sem hafa verið kynntar íslenskum stjórnvöldum.

Að mínu mati er þetta viðunandi niðurstaða á langvinnum viðræðum fulltrúa þjóðanna um framkvæmd varnarsamningsins. Ákvæði um reglulegt samráð bæði stjórnmálamanna og embættismanna í hinu nýja samkomulagi er mikilvægur liður í að tryggja kynningu á íslenskum sjónarmiðum gagnvart hinum aðila samningsins. Í öllu samstarfi er mikilvægt að leggja rækt við slíka þætti.

Þá er það mikilvægur liður í þessu samkomulagi við Bandaríkjamenn, að þar er veitt afdráttarlaust pólitískt umboð til samstarfs lögreglustofnana landanna og landhelgisgæslu og strandgæslu. Þetta samstarf  hefur verið fyrir hendi um langt árabil en nú er það rammað inn í samkomulag, sem ríkisstjórnir landanna gera.

V.

Samkomulagið við Bandaríkjastjórn lýtur aðeins að hluta þess, sem hafa þarf í huga, þegar brugðist er við hættu nú á tímum og þegar stjórnvöld gera ráðstafanir til að tryggja öryggi borgara sinna. Hættan um þessar mundir felst ekki í því, að ríki hafi uppi áform um að beita herafla sínum til að færa út landamæri sín í Evrópu. Hættan stendur hinum almenna borgara mun nær og felst í því, að innan einstakra ríkja kunna að leynast einstaklingar eða hópar manna, sem vilja vinna samborgum sínum tjón.

Franska ríkisstjórnin gaf nýlega út skýrslu um öryggisráðstafanir gegn hryðjuverkum í Frakklandi. Þar er hættan greind á þann veg, að Frakkar geti búist við viðvarandi hættu af ofbeldisverkum, sem undirbúin séu með leynd og unnin af einstaklingum eða samtökum þeirra en ekki af fulltrúum einhverra ríkja og þess vegna sé erfiðara en ella að sjá þau fyrir. Ódæðismennirnir stjórnist af hugmyndafræði í þágu alþjóðlegs málstaðar, sem eigi sér sögulegar rætur. Eitt af markmiðum þeirra sé að drepa eins marga franska borgara - eða útlendinga í Frakklandi - og kostur sé. Allar árasir þjóni málstaðnum. Mestu skipti, að þær hafi sem þyngst sálræn áhrif á ríkisvaldið og allan almenning.

Í tilefni af lyktum viðræðnanna við Bandaríkin gaf íslenska ríkisstjórnin út yfirlýsingu um aðgerðir, sem hún mun vinna að í því skyni að treysta og efla öryggi þjóðarinnar.

Við endurskoðun laga um almannavarnir verður hugað að því að koma á fót miðstöð, þar sem tengdir verði saman allir aðilar sem koma að öryggismálum innanlands, hvort heldur vegna náttúruhamfara eða vegna hættu af mannavöldum.

Samstarf lögreglu, landhelgisgæslu, slökkviliða og björgunarsveita verður aukið, þannig að tryggja megi þátttöku varaliðs hvarvetna þar sem þess kann að verða þörf í landinu. Á vettvangi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins hefur verið farið yfir hugmyndir um skipulag og skipan slíks varaliðs, en án lagaheimilda verður ekki ráðist í að koma því á fót.

Tryggt verður að íslensk yfirvöld hafi lögheimildir til náins samstarfs við stjórnvöld og alþjóðastofnanir, þar sem skipst er á trúnaðarupplýsingum. Hér er um það að ræða, að hér á landi starfi öryggis- og greiningarþjónusta innan embættis ríkislögreglustjóra, sem hafi ótvíræðar heimildir til samstarfs við sambærilegar stofnanir annarra landa. Án upplýsinga af því tagi, sem slíkar stofnanir afla, er tómt mál að tala um nægilega burði íslenskra yfirvalda til að standa undir þeim kröfum, sem til þeirra ber að gera.

Unnið verður að því að koma á öflugu, öruggu fjarskiptakerfi, Tetra kerfi, sem nær til landsins alls. Þetta kerfi er nú nýtt á höfuðborgarsvæðinu og í rúmlega 200 km radíus frá því, á Ísafirði og Akureyri. Markmiðið er að sendum verði fjölgað nægilega til að kerfið nýtist sem öryggistæki fyrir alla landsmenn.

Innan skamms fær Landhelgisgæsla Íslands þriðju þyrluna og undir lok október hina fjórðu. Nú er verið að skoða tilboð í smíði nýs varðskips og leitað hefur verið tilboða í nýja flugvél fyrir landhelgisgæsluna. Stefnt er að því að efna hinn 2. nóvember næstkomandi til alþjóðlegrar ráðstefnu sérfræðinga til að ræða áhrif þeirra breytinga, sem verða vegna sífellt fleiri ferða risaolíuskipa og gasflutningaskipa frá Barentshafi til Norður-Ameríku, á öryggi á Norður-Atlantshafi og þar með verkefni landhelgisgæslunnar.

VI.

Hér hefur saga varnarsamstarfsins verið rakin í stuttu máli, lýst hefur verið megininntaki samkomulags Íslands og Bandaríkjanna um fyrirkomulag varnarmála við brotthvarf varnarliðsins og lýst auknum verkefnum íslenskra stofnana á sviði öryggismála.

Á tímum kalda stríðsins og raunar allt fram á þennan dag hafa umræður um íslensk öryggis- og varnarmál öðrum þræði tekið mið af þeirri trú sumra stjórnmálamanna, að önnur lögmál í öryggismálum gildi um Ísland en önnur lönd. Hér þurfi ekki að gera sambærilegar ráðstafanir á þessu sviði og gerðar eru í öðrum löndum. Ég hef jafnan andmælt þessum sjónarmiðum og talið þau byggjast á óskhyggju en ekki raunsæju mati á staðreyndum.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft sögulegu forystuhlutverki að gegna við mótun og framkvæmd ábyrgrar íslenskrar stefnu í utanríkis- og öryggismálum. Sjálfstæðisflokknum má enn treysta til þessarar forystu eins og góður árangur í þessum áfanga sýnir. Brýnt er, að á vettvangi Sjálfstæðisflokksins og undir forystu hans verði áfram hugað að farsælli stefnu um stöðu Íslands í alþjóðasamstarfi og bestu og skynsamlegustu leiðum til að tryggja öryggi þjóðarinnar.