27.9.2006

Samkomulag Íslands og Bandaríkjanna um varnarmál.

Samtal á Morgunvakt rásar 1. 27. september, 2006.

 

Sveinn Helgason, umsjónarmaður Morgunvaktarinnar, á rás 1 birti þetta viðtal við miðvikudaginn, 27. september.

 

Í samkomulagi Íslendinga og Bandaríkjamanna um varnarmál og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við það er komið inn á margvísleg ný verkefni sem ekki síst snúa að dómsmálaráðuneytinu. Morgunvaktin ræddi við Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra og spurði hann almennt fyrst um niðurstöðu þessara viðræðna. Hafa þau markmið náðst sem íslensk stjórnvöld stefndu að?

 

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra: Það hefur náðst að við höldum rekstri Keflavíkurflugvallar áfram hindrunarlaust og það gerum við á mjög hagkvæman hátt á grundvelli þessa samnings. Það hefur líka náðst að við höfum skapað nýjan samstarfsgrundvöll við Bandaríkjamenn um varnir landsins á grundvelli varnarsamningsins og nú liggja fyrir varnaráætlanir sem taka mið af því sem kallað er hreyfanlegur herafli. Og þegar við lítum á þróun hernaðarmála á undanförnum árum að þá byggjast allar varnir orðið á hreyfanlegum herafla. Sjáum hvað Evrópuríkin eru að gera og innan NATO hvað mikil áhersla er lögð á hreyfanlegan herafla. Það er ekki lengur sama staða og á tímum Kalda stríðsins þegar víglínan var dregin í gegnum Evrópu og menn voru gráir fyrir járnum sitt hvorum megin við járntjaldið. Það er allt önnur staða núna og byggist á þessum hreyfanleika og síðan þá á næmu eftirlitskerfi þannig að menn bregðist við ef þeir verða varir við einhverjar breytingar sem eru taldar þess eðlis að það steðji ógn af yfirráðum þjóða yfir landi sínu.

 

Sveinn Helgason: Þannig að þú metur það svo að þó að hér sé ekki her með fasta viðveru að landið sé ekki varnarlaust.

 

Björn Bjarnason: Nei landið er ekki varnarlaust. Það var ákveðin öryggistrygging fyrir okkur fólgin í því að hafa orrustuþotur hér á flugvellinum og við lögðum fram kröfur um það. Nú þær náðust ekki fram að ganga og ég tel að þessi kostur sem er í boði núna sé fullnægjandi enda verði sýnt fram á það með æfingum og í viðræðum á milli ríkjanna sem gert er ráð fyrir bæði stjórnmálamanna og embættismanna að menn séu með öryggishagsmuni Íslands að leiðarljósi í þessu samstarfi og Íslendingar hafi tök á því að koma sínum sjónarmiðum á framfæri við framvindu mála og það verði brugðist við á grundvelli þessa samkomulags við þeim hættum sem að kunna að steðja. Þannig að ég tel nú að það séu þær tryggingar í þessu að við getum vel við þær unað.

 

Sveinn: Manni virðist Björn af samkomulag íslenskra og bandarískra stjórnvalda og yfirlýsingu íslensku ríkisstjórnarinnar að samvinna landanna á sviði öryggismála, eftirlits og löggæslu að hún verði talsvert nánari heldur en verið hefur, allavega komist í fastari skorður. Hverjir eru mikilvægustu þættirnir í þessu efni að þínu mati?

 

Björn Bjarnason: Við höfum náttúrulega átt mjög náið samstarf við Bandaríkin á mörgum sviðum. Þarna í þessu samkomulagi er minnst á landamæraeftirlit sem skiptir náttúrulega mjög miklu máli. Við erum Schengenhlið gagnvart Bandaríkjunum og útgönguhlið frá Schengen til Bandaríkjanna. Þannig að við þurfum að halda mjög vel á allri gæslu hér á okkar landamærum og á Keflavíkurflugvelli sérstaklega auðvitað. Nú síðan er talað þarna um samstarf á sviði lögreglumála. Það hefur nú verið fyrir hendi. Þarna er það sett inn í þennan ramma. Það er talað um samstarf sérsveitarmanna og við þjálfun sérsveita og það er nauðsynlegt að menn lagi sig líka að því gagnvart Bandaríkjamönnum eins og við höfum verið að gera gagnvart Evrópuþjóðunum. Núna nýlega voru lögreglumenn héðan á æfingum í Danmörku sem voru sameiginlegar æfingar Norðurlandabúa gegn hryðjuverkaárás. Það er eðlilegt að við æfum líka með mönnum frá Norður-Ameríku, Bandaríkjunum, slíkar eða viðbrögð við slíkum árásum. Nú síðan er verið að tala um samstarf við strandgæsluna. Landhelgisgæslan hefur um langt árabil átt þess kost að senda menn til þjálfunar hjá Bandarísku strandgæslunni. Þarna er þetta sett inn í þetta samkomulag. Nú og fleiri þættir, líka heimavarnarráðuneytið bandaríska er náttúrulega ráðuneyti sem getur átt samstarf við dómsmálaráðuneytið hér og er ekki samstarfsvettvangur við varnarmálaráðuneyti heldur annars konar stjórnvöld. Þannig að við erum að fara inn á það að samstarf um öryggismál okkar og Bandaríkjamanna er samningsbundið um fleiri þætti heldur en bara það sem lýtur að hermálum. Við fórum stór sendinefnd á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til Bandaríkjanna, ef ég man rétt, vorið 2004 og heimsóttum þá alla þessa staði. Yfirmaður bandarísku strandgæslunnar hefur komið hingað og við höfum átt samtöl við hann. Þannig að það er ekki verið að í sjálfu sér að skapa nein ný tengsl heldur að samningsbinda þessi tengsl og af því það er innan þessa ramma að þá er ég sannfærður um það að það muni skila jafnvel betri árangri heldur en það samstarf sem við höfum átt á undanförnum árum.

 

 Sveinn: Við fáum aðgang að nýjum og auknum upplýsingu, t.d. hugsanlega um hryðjuverkaógn og margt fleira og við verður þá að láta líka af hendi upplýsingar og þetta eru leynilegar upplýsingar. Þannig að þarna kannski bætast enn frekar verkefni við sem falla undir leyniþjónustu, öryggisþjónustu eða hvað við viljum kalla það.

 

Björn Bjarnason: Eins og þú kannski veist og þú hefur nú fylgst vel með þessu að þá hef ég síðan við fengum skýrslu frá fulltrúum Evrópusambandsins núna í júnímánuði, einmitt vakið máls á því oftar en einu sinni að við þurfum að hafa hér löggjöf og starfsemi sem er þess eðlis að við getum átt trúnaðarsamstarf við sambærilega aðila í öðrum löndum. Og þarna í þessari yfirlýsingu sem ríkisstjórnin gefur í tilefni af þessu samkomulagi að þá er þetta áréttað og ég mun halda áfram að vinna að því að hrinda þessum áformum í framkvæmd þannig að það náist um það víðtæk samstaða á stjórnmálavettvangi.

 

 Sveinn: Við erum að tala þarna um nýjar lögheimildir eins og það er orðað í samkomulaginu. Þannig að hvaða lögum þarf að breyta til að styrkja þetta samstarf enn frekar í sessi sem þú hefur verið að tala um við Bandaríkjamenn og kannski fleiri? Þarf ekki að breyta ýmsum lögum í þessu efni til að skapa þá umgjörð sem að því ber að hafa?

 

Björn Bjarnason: Ég hef nú ekki átt í neinum viðræðum við Bandaríkjamenn um þetta, ég hef hins vegar átt í miklum viðræðum við Evrópusambandsmenn um þetta og sérfræðinga á þess vegum. Við getum farið svipaða leið og Danir sem hafa þetta í sínum réttarfarslögum og lögreglulögum og eru ekki með sérstakan lagabálk um málið eða við getum farið svipaða leið og Norðmenn sem hafa sett um þetta sérstök lög. Og ég hallast nú frekar að því að setja um þessa starfsemi sérstök lög og þá verði í lögunum gert ráð fyrir í skipulaginu, það verði gert ráð fyrir verkefnunum og síðan verði gert ráð fyrir eftirlistaðilunum og þar myndi Alþingi koma að sem eftirlitsaðili.

 

Sveinn: En má segja að það sé einhverskonar eðlisbreyting í gangi í framhaldi af brotthvarfi Varnarliðsins á sviði öryggis-, eftirlits- og löggæslumála?

 

 Björn Bjarnason: Eðlisbreyting er nú kannski of sterkt að orði kveðið. Það sem er að gerast er það að það er verið að dýpka starf okkar á sviðum sem þegar eru fyrir hendi. Við höfum jú lagt grunn að því að efla sérsveitina, við höfum verið að ræða um það að við þyrftum sérstakar heimildir til þess að eiga samstarf um trúnaðarupplýsingar við aðrar þjóðir. Það má kannski segja að það sem er nýtt í þessu sem þarna er um að ræða er þessi áhersla sem við leggjum á almannavarnirnar og yfirstjórn almannavarnanna með því að tengja saman þá ráðherra sem eiga að sitja þar í yfirstjórninni og leggja þannig meiri áherslu en áður á þessa pólitísku þætti þegar kemur að almannavörnunum og að þær lúta ekki aðeins að náttúruvá heldur líka vá af mannavöldum. Og síðan það sem er sagt í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar varðandi samþættingu einstakra aðila, lögreglu, slökkviliðs, björgunarsveita og allra þessara aðila sem eru hér í landinu til að tryggja öryggi okkar og síðan þar sem vikið er að því að það þurfi að koma á laggirnar varaliði. Þannig er að í lögreglulögunum fram til 1996 voru ákvæði um varalið en þessi ákvæði voru afnumin þegar sú lagabreyting var gerð. Ég tel að það sé alveg bráðnauðsynlegt fyrir okkur að hafa heimildir í lögum til þess að kalla út varaliðssveitir ef á þarf að halda bæði vegna náttúruhamfara og einnig vegna annarra hamfara sem að okkur geta steðjað. Þannig að það er líka þáttur sem er minnst á í þessar yfirlýsingu sem felur það í sér að við getum gripið til róttækari ráðstafana heldur en ella væri. Nú síðan er þarna líka talað um það að við erum að leggja á ráðin um að nýta Tetra-kerfið meira og Tetra-kerfið nái til landsins alls sem er náttúrulega gífurlega mikilvægt skref í okkar öryggismálum að hafa svo fullkomið fjarskiptakerfi og það nái til landsins alls. Við höfum það núna þannig að það nær til höfuðborgarsvæðisins og kannski 200 kílómetra radíus eða rúmlega það í kringum Reykjavík. Það er líka á Ísafirði og Akureyri. En með þeim áformum sem við erum að boða að þá er ætlunin að það nái til landsins alls. Þannig að þetta er allt fyrir hendi hér hjá okkur nú þegar en við erum að dýpka þetta og við erum að gera þetta að pólitísku viðfangsefni allrar ríkisstjórnarinnar með þeirri yfirlýsingu sem gefin er í tilefni af þessum samningum.

 

Sveinn: Er þetta kannski ein af stóru pólitísku tíðindunum við þetta samkomulag að hér er sett fram ákveðin öryggispólitík?

 

Björn Bjarnason: Ja það er gert. Þetta er mikilvæg yfirlýsing þegar menn lesa hana, hún lýtur bæði að því sem snertir brotthvarf Varnarliðsins, hvað tekur við á Keflavíkurflugvelli og síðan að þessum innri öryggismálum og loks er þar líka vikið að því að það verði til samstarfsvettvangur stjórnmálaflokkanna um öryggismálin. Þannig að mér finnst að þegar menn ræða þessi mál að þá er þetta tvíþætt. Samstarfið við Bandaríkin og hins vegar þessi yfirlýsing ríkisstjórnarinnar sem er þess eðlis að það er alveg augljóst að við höfum tekið um það pólitíska ákvörðun að láta meira að okkur kveða og treysta á þær stofnanir sem fyrir hendi eru í landinu og það heildarkerfi sem við höfum. Við erum ekki að leggja áherslu á það að stofna eitthvað nýtt heldur að dýpka og efla það sem fyrir hendi er í landinu og hefur reynst okkur vel og við höfum verið að leggja drög að að efla eins og með stækkun lögregluumdæma. Það var samþykkt á þinginu síðast liðið vor eða 2. júní að lögreglustjórinn eða sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli yrði lögreglustjóri á Suðurnesjum. Þar var stigið skref í þá átt að styrkja löggæsluna á öllu svæðinu undir stjórn lögreglustjórans á Suðurnesjum sem er núna sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli. Hann getur sinnt verkefnum einhverjum líka fyrir utanríkisráðuneytið en við erum að stíga hvert skrefið eftir annað og höfum verið að búa í haginn fyrir það að við værum í stakk búnir til þess að axla meiri ábyrgð á þessu sviði. Sérsveitin, efling hennar er líka liður í þessu. En okkur vantar ákveðna þætti og það er vikið að þeim í þessari yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þannig að mér finnst að menn megi ekki gleyma því í þessu efni þegar verið er að ræða um þetta. Mengunarmál og frágangur á húsum er finnst mér frekar tæknilegt viðfangsefni sem þarf að vinna af alúð og vandvirkni en þessir þættir sem ég er að nefna lúta að öryggisgæslunni. Varnarliðið var hér til að gæta okkar öryggis og var byggt upp á grundvelli hættu sem menn sáu fyrir sér á tímum Kalda stríðsins. Nú eru allt annars konar hættur sem að okkur steðja og það sem við erum að lýsa yfir er það að íslensk stjórnvöld eru að búa þannig í haginn að íslenskir aðilar geti gripið á málum til að tryggja öryggi þjóðarinnar á miklu markvissari hátt heldur en áður.

 Sveinn: Var þetta þá ekki löngu tímabært. Hefði ekki Varnarliðið bara þurft að fara fyrr svo við hefðum hugað að þessu?

 

 Björn Bjarnason: Nú ætla ég ekki að fullyrða neitt um það hvaða hlutir eru tímabærir og hvenær hlutir eru tímabærir. Það sem ég er að segja í þessari stöðu sem við erum núna að þá höfum við búið í haginn fyrir það að vera betur undir það búnir að standa frammi fyrir þeim staðreyndum sem blasa við á þessari stundu. Hvort við hefðum átt að vera fyrr undir það búnir, veit ég ekki. Þú veist að það eru núna umræður um alls konar hluti sem eru 50 og 60 ára gamlir og menn eru að velta því fyrir sér hvort að þeir hefðu ekki átt að vera öðruvísi. Ég held að við eigum í þessu efni að lifa í núinu og segja, heyrðu það sem við getum gert best núna dugar okkur betur til framtíðar heldur en að vera að rífast eitthvað um það sem gerðist í fortíðinni.

 

 Sveinn: En varalið, sérsveitir, trúnaðarupplýsingar. Þetta hljómar svolítið eins og við séum að búa til vís að her, leyniþjónustu og slíku. Er eitthvað slíkt á ferðinni?

 

Björn Bjarnason: Nei það er ekki. Þú gleymdir nú líka að minnast þarna á Landhelgisgæsluna og það var nú eitthvað það fyrsta sem við gerðum þegar, raunar áður en Bandaríkjamenn tilkynntu 15. mars að þeir ætluðu að hverfa á brott á þann veg sem síðan hefur orðið. Við sögðum strax í febrúar að við værum reiðubúnir til þess að efla Landhelgisgæsluna og sérstaklega þyrlubjörgunarsveit hennar þannig að hún gæti tekið að sér verkefni þyrlubjörgunarsveitarinnar á Keflavíkurflugvelli. Og Landhelgisgæslan, hvað sem öðru líður, hvað sem, það sem ég hef verið að tala um er jú má segja, þegar litið er á fjárfestingu, smámunir miðað við það sem við höfum ákveðið að fjárfesta í Landhelgisgæslunni. Nýju varðskipti, nýrri flugvél og þremur nýjum þyrlum fyrir utan það að við höfum ákveðið að leigja þyrlur í nokkur ár til þess að hér verði örugglega fyrir hendi nægur þyrlukostur. Ekkert af þessu er hernaðarlegs eðlis. Við erum ekki að leita að þyrlum sem eru hernaðarþyrlur. Við erum að leita að þyrlum til björgunar- og leitarstarfa. Við höfum ekkert umboð til þess að taka neinar ákvarðanir sem eru hernaðarlegs eðlis. Við erum hins vegar aðilar að NATO og getum fengið upplýsingar þar. Við tökum þátt í friðargæslu og við erum þátttakendur á ýmsum sviðum innan Atlantshafsbandalagsins. En við höfum frá upphafi verið aðilar að Atlantshafsbandalaginu án þess að á okkur hvíldi sú skylda að stofna her og við erum ekki að gera það. Það er seinni tíma mál væntanlega að Íslendingar velti því betur fyrir sér hvort að þeir eigi að stofna sinn eigin her en það er ekki verið að gera það með þessu. Það er verið að efla þær stofnanir sem fyrir hendi eru í landinu, löggæslustofnanir þannig að þær séu í stakk búnar að standa undir þeim kröfum sem eðlilegt er að gera til þeirra við þær aðstæður sem nú ríkja í heiminum.