20.9.2006

Skuldir Dagsbrúnar og ríkissjóðs

Grein í Morgunblaðinu 20. september, 2006.

HINN 25. ágúst síðastliðinn birtist frétt í Morgunblaðinu um afkomu ríkissjóðs árið 2005. Þar sagði í fyrirsögn, að ríkissjóður hefði verið rekinn með meiri hagnaði en nokkru sinni fyrr og næmi hann 113 milljörðum króna. Í fréttinni var síðan millifyrirsögnin:

60 milljarðar í hreinar skuldir

Undir henni stendur þessi texti:

„Fram kemur að lánsfjárafgangur samkvæmt ríkisreikningi nam 77 milljörðum króna í fyrra. Að auki var 32 milljörðum af söluandvirði Landssímans veitt til Seðlabanka Íslands með sérstökum lánssamningi. Nýtti ríkissjóður lánsfjárafganginn til að greiða niður skuldir og bæta stöðu sína hjá Seðlabanka. 50 milljörðum var varið til að greiða niður erlend lán og handbært fé jókst um 27 milljarða. Samanlagt ráðstafaði ríkissjóður 109 milljörðum af bættri afkomu sinni til Seðlabankans og til að greiða niður erlendar skuldir. Staða tekinna lána lækkaði úr 253 milljörðum í 196 milljarða í árslok 2005. Þar af voru erlend lán 85 milljarðar samanborið við 141 milljarð árið áður. Hrein skuldastaða ríkissjóðs, þ.e. skuldir að frádregnum veittum lánum, var í árslok 60 milljarðar í stað 156 milljarða króna í ársbyrjun, að því er fram kemur.“

Ég rifja þetta upp hér í tilefni af grein Hreins Loftssonar, stjórnarformanns Baugs Group, þegar hann segir mig ljúga, þegar ég telji 73 milljarða króna skuld Dagsbrúnar hærri en 60 milljarða hreina skuldastöðu ríkisins.

Hreinn gerir enga athugasemd við töluna, sem nefnd er um skuld Dagsbrúnar. Hann fjargviðrast enn einu sinni yfir, að notað sé orðið Baugsmiðlar. Kvartanir í þá veru verða hins vegar enn innantómari en áður eftir opið bréf Roberts Marhalls til Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra Baugs, um framtíð NFS.

Persónuleg ónot stjórnarformanns Baugs í minn garð eða Davíðs Oddssonar dæma sig sjálf. Við verðum ekki ósannindamenn sama hve margar greinar hann skrifar til að reyna að koma því orði á okkur.