15.6.2006

Hugarburður hæstaréttarlögmanns.

Morgunblaðið, 15. júní 2006.

 

Vegna greinar Ragnars Aðalsteinssonar hæstaréttarlögmanns í Morgunblaðinu 14. júní  skal tekið fram, að ég hef hvergi tjáð mig um sekt eða sakleysi skjólstæðings hans Jóns Ólafssonar, sem kenndur er við Skífuna. Ég tel eins og Ragnar, að mál Jóns eigi að leiða til lykta hjá þeim yfirvöldum, sem um það fjalla.

 

Ragnar Aðalsteinsson taldi, að með orðum, sem féllu í ræðu minni í borgarstjórn Reykjavíkur 18. desember 2003 um skjólstæðing hans, hefði ég gert ríkislögreglustjóra vanhæfan til að rannsaka mál Jóns Ólafssonar. Hæstiréttur féllst ekki á þessa kröfu Ragnars.

 

Ég er undrandi á þessari aðför Ragnars að málfrelsi mínu. Hann hefur oft gengið fram fyrir skjöldu til varnar mannréttindum og málfrelsi er þungamiðja þeirra.

 

Ragnar Aðalsteinsson telur, að með dómi sínum sé hæstiréttur „að stíga varlega til jarðar þegar æðstu handhafar framkvæmdavaldsins eiga í hlut, einkum ráðherrar.“ Ég er ósammála þessu mati Ragnars. Hæstiréttur er einfaldlega að fella dóm í samræmi við lögfræðilegar kenningar um frelsi stjórnmálamanna til að taka þátt í opinberum umræðum.

 

Hans Gammeltoft Hansen, umboðsmaður danska þingsins, lýsti í fræðiriti um stjórnsýslurétt frá árinu 2002 þeirri skoðun sinni, að ummæli stjórnmálamanna um viðhorf þeirra til ákveðinna mála í tilefni af einhverjum atburðum líðandi stundar yllu almennt ekki vanhæfi þeirra. Dr. Páll Hreinsson, forseti lagadeildar Háskóla Íslands, sem samið hefur doktorsritið Hæfisreglur stjórnsýslulaga, telur að hafi ráðherra tjáð sig um viðkvæm einkamálefni manns í tengslum við úrlausn máls, sem ekkert tilefni hafi verið til að fjalla um á opinberum vettvangi kunni ráðherra að verða vanhæfur til meðferðar málsins.

 

Hitt stangast einnig á við viðteknar skoðanir um hæfisreglur innan stjórnsýslunnar, að ummæli ráðherra geti valdið vanhæfi lægra setts stjórnvalds, sem starfar í umboði hans.

 

Ragnar Aðalsteinsson tekur sér einnig fyrir hendur í þessari sömu grein að skýra fyrir lesendum Morgunblaðsins, hvað hann telur hafa gerst á ritstjórnarskrifstofu Fréttablaðsins, eftir að ég ritaði Þorsteini Pálssyni, ritstjóra blaðsins, bréf hinn 2. júní vegna skrifa Jóhanns Haukssonar í einskonar ritstjórnardálk blaðsins. Ekki var um frétt að ræða eins Ragnar segir ranglega í grein sinni. Í bréfi mínu til Þorsteins sagði:

 

„Í Fréttablaðinu í dag ræðst Jóhann Hauksson þingfréttaritari blaðsins á ómaklegan hátt að föður mínum vegna símahlerana á árunum 1949 til 1968 um hann segir í blaðinu, að hann hafi ráðið „mestu um slíkar hleranir á sínum tíma“. Fyrir liggur sagnfræðileg rannsókn, sem sýnir, að í öllum tilvikum, sem hér er um að ræða tók sakadómari ákvarðanir um hleranir eftir að hafa fengið um það tilmæli frá dómsmálaráðuneyti en framkvæmd hlerana var í höndum lögreglu. Orð blaðamannsins standast ekki frekar en unnt er að halda því fram almennt, að þeir, sem leggi mál fyrir dómara, taki ákvörðun um niðurstöðu hans, hún ræðst af mati dómarans á því, sem fyrir hann er lagt.“

 

Ég ræð af grein Ragnars, að hann hafi aðeins lauslegar upplýsingar um þetta mál. Hann kýs hins vegar að draga af því þá ályktun, að forsvarsmenn Fréttablaðsins hafi kosið að leggja ekki áherslu á sjálfstæði ritstjórnar með því að svara mér á þann veg „að blaðið tæki ekki við fyrirmælum um efni og efnistök blaðsins frá lesendum og jafnvel ekki valdsmönnum, þegar tjáningarfrelsi blaðsins og blaðamanna þess væri í húfi.“ Þeir hafi ekki valið þessa leið heldur beint „spjótum sínum að blaðamanninum“ eins og hann orðar það.

 

Ályktun Ragnars Aðalsteinssonar um það, sem gerðist á Fréttablaðinu, stangast alfarið á við öll orð forsvarsmanna blaðsins um brottför Jóhanns Haukssonar af ritstjórn þess. Raunar má skilja leiðara Fréttablaðsins 14. júní á þann veg, að það hafi heldur verið Jóhanni Haukssyni til málsbóta innan ritstjórnar blaðsins, að ég gerði athugasemd við skrif hans.