18.5.2006

Menning í fangelsum

Selfossi, 18. maí, 2006, 12. norræna ráðstefnan um menntun í fangelsum.

Mér er ánægja að bjóða ykkur velkomin til þessarar ráðstefnu og fagna því, að hún skuli nú haldin í fyrsta sinn á Íslandi.

 

Þið komið hér saman í næsta nágrenni við eina stóra fangelsi okkar Íslendinga, Litla-Hraun. Þótt það sé ekki stórt á mælikvarða ykkar, sem komið frá mun fjölmennari þjóðum, er þar tekist á við sambærileg viðfangsefni og hjá ykkur.

 

Ég tel mikils virði fyrir þá Íslendinga, sem sinna málefnum fanga að fá tækifæri til þess á heimavelli að kynna störf sín og áherslur á sama tíma og unnt er að læra af reynslu annarra.

 

Á Litla-Hrauni, en þar hefur verið fangelsi síðan 1929, er nú unnt að hafa 87 fanga af þeim 140, sem íslenska fangelsiskerfið getur hýst. Nú er unnið að framkvæmd áætlunar um nýbyggingar á Litla-Hrauni auk þess sem áform eru um að reisa nýtt móttöku- og gæsluvarðhaldsfangelsi í Reykjavík.

 

Valtýr Sigurðsson, fangelsismálastjóri og samstarfsmenn hans, hafa unnið ötullega að því að kynna áætlanir sínar um nýskipan fangelsismála á grundvelli nýrra laga um fullnustu refsinga, sem samþykkt voru fyrir einu ári, 17. maí árið 2005.

 

Markmiðið er, að föngum verði tryggð örugg og vel skipulögð afplánun, að mannleg og virðingarverð samskipti verði höfð í fyrirrúmi og að fyrir hendi verði aðstæður og umhverfi, sem hvetur fanga til að takast á við vandamál sín.

 

Til að ná fram þessu markmiði stefna fangelsisyfirvöld að því að setja fram einstaklingsbundna áætlun um framvindu afplánunarferils sérhvers fanga í upphafi refsivistar. Í áætluninni felst áhættumat, meðferðarþörf, mat á getu fanga til náms og vinnu, og þörf fyrir sálfræðilegan, félagslegan og annan stuðning.

 

Eftir þessari áætlun yrði síðan unnið með viðkomandi fanga á afplánunartímanum af menntuðu og þjálfuðu starfsfólki og áætlunin endurskoðuð reglulega. Þegar kemur að lokum afplánunar skal stuðlað að því, í samvinnu við fangann, að hann eigi fastan samastað, hafi góð tengsl við fjölskyldu og vini, kunni að leita sér aðstoðar og nái að fóta sig í samfélaginu.

 

Þetta markmið næst ekki nema takist að skapa föngum fjölbreytileg tækifæri til starfa og náms. Hér eins og víða annars staðar er oft hægara sagt en gert að skapa slík tækifæri.

 

Þess má geta að á Litla-Hrauni er starfandi skóli með tveimur skólastofum auk tölvuvers og á þessu skólaári hafa 35 nemendur verið innritaðir í skólann, sem starfar undir umsjá Fjölbrautaskóla Suðurlands hér á Selfossi – af þessum 35 nemendum þreyta 19 próf í lok þessarar námsannar. Mörg dæmi eru um, að nemendur nái betri árangri í námi innan veggja fangelsisins en utan.

 

Kennd eru tungumál, stærðfræði, íþróttir, lífsleikni, grunnteikning og iðnteikning auk þess sem unnt er að stunda fjarnám við fleiri menntaskóla og einnig Háskólann í Reykjavík.

 

Auk hefðbundins náms hafa föngum á Litla-Hrauni verið boðin námskeið á vegum símenntunarstofnunar og hafa þau snúist um sjálfseflingu og samskipti annars vegar og vinnumarkaðinn hins vegar. Umsagnir fanga um þessi námskeið benda til þess, að þau hafi verið þeim gagnleg, auki þeim sjálfstraust og auðveldi aðlögun að lífi utan fangelsisins.

 

Fyrir rúmu ári sótti ég 11. ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna gegn glæpum, sem haldin var í Bangkok í Tælandi. Á meðan ég dvaldist þar skrifaði ég þetta á vefsíðu mína:

„Fórum árla dags og heimsóttum kvennafangelsi, fangasjúkrahús og karlafangelsi í Bangkok. Þetta var einstaklega fróðleg ferð, þar sem við fengum tækifæri til að ræða við fangaverði og lækna og auk þess fanga, sem gátu talað ensku. Þarna var til dæmis Breti, sem hafði verið dæmdur í 25 ára fangavist fyrir heróín-smygl. Hann kaus frekar að eyða tíma sínum í þessu fangelsi en verða sendur í fangelsi í Bretlandi. Hann sýndi okkur hvernig fangar unnu myndlistarverk, þá lék hann einnig í hljómsveit, sem flutti tælenska tónlist.

Fangar, sem dæmdir eru til lífstíðar, eru í fangelsi til lífstíðar, þess vegna er líknardeild á sjúkrahúsinu og heimsóttum við hana auk skurðdeildar og tannlæknadeildar.

Tæplega 5000 konur voru í kvennafangelsinu og var okkur sagt, að 26 svæfu saman á gólfinu í hverjum svefnsal, sem var um 40 fermetrar og við mikla ásókn í fangelsin væru allt að 50 í einum slíkum sal eða herbergi. Hundruð kvenna sátu aðgerðarlausar í skugga í hitanum, en ég sá einnig hóp kvenna stunda qi gong æfingar og var sagt, að þær væru einkum fyrir þær, sem væru komnar til ára sinna.“

Mér kom þessi lýsing í hug, þegar ég velti fyrir mér efni ráðstefnu ykkar, því að þarna var svo sláandi munur á þeim föngum, sem höfðu eitthvað fyrir stafni og hinum, sem sátu hundruðum saman í skugganum og biðu þess eins, að tíminn liði. Mestur virtist einmitt krafturinn í þeim, sem sinntu listsköpun af einhverjum toga. Var í raun ótrúlegt að sjá, hve margt var unnið af miklu listfengi af því, sem okkur var sýnt auk þess sem hljómsveitir fangelsisins léku af mikilli kunnáttu.

 

Ég er eindreginn hvatamaður þess, að stuðlað sé að listrænu starfi meðal fanga og ýtt undir sköpunarkraft þeirra. Skref hafa verið stigin í þá átt undanfarin ár og minnist ég heimsókna listamanna til mín, sem hafa beðið um að fá tækifæri til að flytja list sína innan veggja Litla-Hrauns – en aðstaða til þess batnaði, þegar þangað kom píanó fyrir ekki svo mjög löngu.

 

Tel ég tækifæri felast í því fyrir yfirvöld fangelsismála og fanga, að stofnað verði til samstarfs við Listaháskóla Íslands og til dæmis ýtt undir hönnunarvinnu meðal fanga – þá yrðu þeir að nokkru leyti sjálfs síns herrar í þeim skilningi, að verk þeirra mætti selja á markaði.

 

Ég gat þess, að hópur kvenna í tælenska fangelsinu hefði verið að stunda kínversku lífsorkuæfingarnar qi gong. Ég tel æskilegt, að föngum séu kynntar slíkar æfingar eða jóga til að þjálfa þá í hugleiðslu og horfast í augu við sinn innri mann.

 

Fyrir nokkrum árum átti ég kost á að kynnast því í Frakklandi, hvaða árangri jógakennari náði, eftir að hafa fengið heimild fangelsisstjórnar til að þjálfa áhugasama fanga í stóru öryggisfangelsi. Raunar dvaldist ég í viku með einum þessara fanga á frönskum sveitabæ, þegar honum var treyst til að vera þar í því skyni að laga sig að lífi utan fangelsisins.

 

Góðir áheyrendur!

 

Menningu má rækta á ýmsan hátt í fangelsum. Fyrsta skrefið er að átta sig á því, að menning getur að sjálfsögðu þrifist innan fangelsa eins og annars staðar. Þegar þetta skref hefur verið stigið, opnast margar dyr og ekki er skortur á þeim utan fangelsanna, sem vilja leggja góðum málstað lið.

 

Þetta hefur til dæmis sannast á síðustu tveimur árum, eftir að Skákfélagið Hrókurinn tók að skipuleggja skákmót á Litla-Hrauni.Hrókurinn fer í fangelsið  tvisvar í mánuði og á síðasta ári stofnuðu fangar skákfélagið Frelsingjann. Skákmeistarar Hróksins hafa haldið námskeið og fjöltefli, og oft eru haldin hraðskákmót með veglegum verðlaunum.

 

Samstarf liðsmanna Hróksins og Frelsingjans hefur gengið framúrskarandi vel. Tugir fanga hafa tekið þátt í skáklífinu og að jafnaði koma tíu til fimmtán á hverja æfingu. Skák er mikið iðkuð dags daglega og hafa margir tekið stórstígum framförum á skákborðinu, eins og segir á heimasíðu Hróksins.

 

Ég er þess fullviss, að á ráðstefnu ykkar hér munu fæðast góðar hugmyndir um leiðir til að bæta innra starf fangelsa og stuðla að betrun fanga með menningarlega viðleitni að leiðarljósi.

 

Megi mikilvægt starf ykkar skila góðum árangri. Ég lýsi ráðstefnuna setta.