9.4.2006

Minni brot leyst á sáttafundi geranda og þolanda

Ástæðan fyrir eflingu sérsveitarinnar var meðal annars aukin harka í þjóðfélaginu, að sögn Björns Bjarnasonar, dóms- og kirkjumálaráðherra. "Það þurfti að auka öryggi lögreglunnar og þar með hins almenna borgara. Þannig að sérsveitarmenn yrðu alltaf til taks á höfuðborgarsvæðinu og víðar á landinu til þess að grípa inn í þegar aukin harka væri hlaupin í leikinn. Þetta hefur þegar skilað góðum árangri og ljóst að sérsveitin hefur einnig forvarnargildi, sem sést m.a. á átaki sérsveitarinnar gegn handrukkurum."

Alþjóðleg glæpasamtök í landinu

-Hefur tíðarandinn breyst í íslensku samfélagi?

"Alþjóðleg glæpasamtök hafa hreiðrað um sig í landinu. Og af hverju skyldu þau vera mildari hér en annars staðar?"

-Það virðist vera nokkuð mikið um tilefnislausar líkamsárásir?

"Er meira um slíkar árásir eða er fréttaflutningurinn meiri? Við megum ekki gleyma því að hér hefur verið gefið út heilt blað um þetta efni. Tölfræðin frá lögreglu sýnir að það hefur dregið úr ofbeldisbrotum."

-Er tekið nógu fast á svokölluðum minniháttar líkamsárásum, þar sem ekki hlýst af varanlegur skaði?

"Viðbrögð við málum af því tagi ráðast af aðstæðum, meðal annars aldri þeirra, sem hlut eiga að máli. Refsiharka er ekki alltaf skynsamlegasta úrræðið - mestu skiptir að sjálfsögðu að beina mönnum sem fyrst af afbrotabrautinni. Undir forystu dómsmálaráðuneytisins hefur verið unnið að undirbúningi að því undanfarin ár að minni brot séu leyst á sáttafundi með geranda og þolanda. Í lögreglumálum hefur verið ákveðið, að stuðlað verði að því af hálfu lögreglunnar að þeir geri málin upp sín á milli. Tekin hefur verið ákvörðun um hvernig staðið verði að þessu og nú þarf að þjálfa mannskapinn og hrinda þessu í framkvæmd. Mér er það raunar undrunarefni að ekki sé búið að taka þetta upp hér fyrir löngu ef horft er til þess hversu algengt þetta fyrirkomulag er erlendis og hve það hefur gefið góða raun.

Aðgerðir af þessum toga hafa verið notaðar þegar ungmenni hafa verið annars vegar, m.a. í Hringnum í Grafarvogi, Gamla apótekinu á Ísafirði, í Breiðholti, Kópavogi og Hafnarfirði, svo ég nefni þá staði sem koma mér í hug. Nýtt skref verður stigið nú í ár í samvinnu við lögregluna í Reykjavík og eins og áður sagði er undirbúningur á lokastigi. Ef krakki brýtur rúðu, horfist hann í augu við húseigandann að viðstaddri lögreglu og komið er á sáttum, sem felast í því að krakkinn taki ábyrgð og bæti skaðann með einhverjum hætti, þannig að ekki séu sárindi eftir í málinu. Þetta snýst ekki alltaf um peninga. Ef ekki takast sættir, er unnt að skjóta máli hefðbundna leið með ákæru."

Mælanleg markmið lögreglu

-Með þessu er þá verið að færa ábyrgðina og lausnina nær fólkinu?

"Já, það er ákveðin tilhneiging hjá fólki að kalla alltaf til ríkið. En ríkið er ópersónulegur aðili og á ekki að sýna tilfinningasemi. Skattgreiðendur geta staðið í því að borga manni sem orðið hefur fyrir skaða, af völdum annars en oft er málið óleyst að öðru leyti og ýtir jafnvel undir frekari afbrot. Með sáttamiðlun og sáttafundum er stuðlað að því að brotamenn horfist í augu við gjörðir sínar og afleiðingar þeirra. Í stað þess að þeir séu sektaðir, settir á sakaskrá og dæmdir úr samfélaginu."

-Hvaða fleiri ráðstafana er gripið til?

"Lögreglan er farin að setja sér mælanleg markmið, t.d. um að fækka afbrotum um ákveðið prósent á ári. Sú áhersla sem lögð er á greiningardeild innan lögreglu skýrist m.a. af því að hún auðveldar þessa markmiðssetningu fyrir lögregluna. Hún leggur áherslu á að greina áhættu og grípa síðan til ráðstafana í því skyni að koma í veg fyrir hættuna. Spyrja má: Hvernig á að koma í veg fyrir að glæpahringir frá Litháen nái að festa hér rætur? Hvað hafa aðrar þjóðir gert í þeim efnum? Til þess að svara þessum spurningum þarf greiningu og mat."

Ástandið í Reykjavík áhyggjuefni

-Á að fjölga eftirlitsmyndavélum í miðborginni?

"Ég tel það. En það getur þó aðeins orðið upp að ákveðnu marki. Þú manst, að Seltirningar voru með hugmyndir um að setja upp eftirlitsmyndavélar við sín bæjarmörk. Því var mótmælt og þeir féllu frá því. Þeir fóru síðan þá leið, að höfðu samráði við lögreglu, að semja við Securitas um reglulegt eftirlit í bæjarfélaginu. Sá samningur er í gildi og fréttir hafa ekki borist af innbrotum á Seltjarnarnesi.

Samstarf af þessu tagi er fagnaðarefni og skýrsla sem gefin var út í vikunni af viðræðuhópi um löggæslumál í Reykjavík byggist á því að náin samvinna sé milli lögreglu og sveitarstjórna. Við sjálfstæðismenn höfðum að stefnumáli í síðustu borgarstjórnarkosningum að borgin yrði ekki síður en ríkið að leggja eitthvað af mörkum til að tryggja öryggi borgarbúa. Lögreglan sinnir sínu hlutverki, en þetta er samþætt verkefni. Ef sveitarfélagið ræður til dæmis ekki yfir meðferðarúrræðum til að sinna þeim, sem á því þurfa að halda, getur það hæglega dregið úr öryggi borgaranna. Sinni sveitarfélag ekki tilmælum lögreglunnar vegna félagslegra vandamála unglinga, sem eru kannski versti óvinur friðsældar í samfélögum eins og okkar, þá er ekki í mörg hús að venda. Lögreglunni ber að umgangast slík vandamál á ákveðinn hátt, en það eru félagsmála- og barnaverndaryfirvöld, sem eiga að ásamt foreldrum og forráðamönnum að sýna þessum ungmennum þá umhyggju sem þarf til að gera þau að betra fólki. Ef þetta samstarf er ekki gott vegna skorts á umönnun, styttist leiðin að fangelsisdyrunum. Ég held að ástandið sé þannig í Reykjavík að efla þurfi félagsleg meðferðarúrræði. Ef við lítum á harðasta hóp afbrotaungmenna í Reykjavík, má fullyrða, að hann sé ekki stór, jafnvel innan við 20 manns.

Lögreglan er mikið að eltast við sama fólkið, en síðan skortir úrræði með vísan til sakhæfisreglna. Félagsleg úrræði verða að taka mið af þróuninni ekki síður en skipan lögreglumála.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið efndi til málþings um stöðuna í þessum málum á síðasta ári og kallaði þar saman sérfræðinga, meðal annars þá, sem vinna mjög gott starf við erfiðar aðstæður til að koma ungu fólki til betri vegar utan refsikerfisins. Á meðan börn eru ólögráða lúta þau forræði annarra. Lögregla virðir það forræði að sjálfsögðu en hér geta félagsmálayfirvöld látið sig málið varða."

-Boðuð hefur verið aukin áhersla á grenndarþjónustu lögreglu.

"Já, því hefur verið haldið fram að greiningardeild væri að hnýsast í líf fólks. En ég tel að grenndarlöggæsla sé einskonar greiningardeild. Þá fá menn lögregluþjón í hverfið sem þeir þekkja og treysta og hann fylgist með. Ef hann sér eitthvað sem aflaga fer, t.d. veggjakrot, grípur hann inn í. Hann aflar upplýsinga sem eiga að koma í veg fyrir frekari afbrot. Þannig vinnur greiningardeildin líka. Hvort tveggja miðar að því að lögreglan greini hvernig straumarnir í samfélaginu liggja og geti brugðist við áður en allt fer í óefni."

-Finnst þér að þyngja eigi refsingar fyrir ofbeldisbrot?

"Ég er að flytja frumvarp varðandi kynferðisbrot sem gerir ráð fyrir þyngri refsingum á því sviði. Þar eru dómarar skyldaðir til að líta málin skarpari augum í sumum atriðum. Þannig er einnig frumvarp um heimilisofbeldi sem er að fara í gegnum þingið. En hvar endum við ef sífellt er kallað eftir þyngri refsingum? Af hverju tölum við þá ekki bara um dauðarefsingar? Þær eru hinsvegar bannaðar í okkar heimshluta og ekki er ég talsmaður þeirra. Þegar refsingar við fíkniefnabrotum voru þyngdar, urðu miklar umræður á þinginu um hvort gengið væri of langt og færa má röksemdir fyrir því að þungar refsingar geti snúist í andhverfu sína. Raunar felst oft mikil einföldun í því að kalla alltaf eftir harðari refsingu í stað þess að huga einnig að öðrum þáttum."

Tollverðir í lögregluskólann

-Telurðu að fíkniefnavandinn fari vaxandi og að efla þurfi varnir gegn honum?

"Ég tel þörf á því. Við erum að finna meira af fíkniefnum en áður. Það á einkum við um samstarf lögreglu og tollvarða í Keflavík, sem er nánara en í Reykjavík. Það er spurning hvort ekki eigi að taka upp það fyrirkomulag víðar en á Keflavíkurflugvelli að lögregla og tollverðir vinni svo náið saman. Þetta er eitt af því sem við fjármálaráðherra höfum rætt, hvort ekki megi breyta samstarfi lögreglu og tollvarða í þessa veru. Ég tel raunar æskilegt að tollvörðum gefist færi á að ganga í lögregluskóla, sem verði sameiginlegur fyrir öryggisverði, tollverði og lögreglumenn. Þá yrði nafni skólans væntanlega breytt og námið sniðið að þeirra þörfum. Tollverðir eru eins og lögreglan að fara inn í harðari heim og þurfa að búa við að öryggi þeirra sé ógnað á nýjan hátt. Hér á landi eru um 150 tollverðir og það þarf að tengja þá starfsemi betur því starfi sem unnið er af lögreglu."