14.2.2006

Nýskipan lögreglumála.

Framsöguræða alþingi, 14. febrúar, 2006.

 

 

 

Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögreglulögum og lögum um framkvæmdarvald ríkisins í héraði. Frumvarpið hefur að geyma tillögur um nýskipan lögreglumála.

 

Hvarvetna vill almenningur, að öryggi sitt sé sem best tryggt með góðri og öflugri löggæslu. Það er skylda stjórnvalda að sinna kröfum í þessu efni og bregðast við þeim í samræmi við aðstæður á hverjum tíma.

 

Þann tíma, sem ég hef gegnt embætti dómsmálaráðherra, hef ég leitast við að skapa lögreglunni sem bestar aðstæður til að sinna mikilvægum störfum sínum. Þegar ákvarðanir voru teknar um nýtt skipulag sérsveitar lögreglunnar og eflingu hennar, lagði ég áherslu á nauðsyn þess að efla öryggi lögreglunnar sjálfrar og þar með allra landsmanna. Styrking sérsveitarinnar hefur skilað góðum árangri og framkvæmd áætlunar um stækkun hennar lýkur á þessu ári.

 

Ég hef einnig beitt mér fyrir umræðum um sérstakar rannsóknaraðferðir lögreglu og bent á, að á vettvangi Evrópuráðsins hefur til dæmis verið unnið verulegt starf til að móta inntak þessara aðferða í ljósi breytta áherslna, þegar gerð er krafa um, að lögregla rannsaki ekki aðeins afbrot heldur haldi einnig úti rannsóknum til að koma í veg fyrir afbrot. Rannsóknir lögreglu í því skyni að koma í veg fyrir afbrot má kenna við forvörn, sem byggist á greiningu á atvikum og ábendingum.

 

Þá hef ég vakið máls á því, að inntak hættumats lögreglu eða annarra aðila, sem axla ábyrgð á öryggi borgaranna, hafi breyst vegna hryðjuverkaárása undanfarin ár. Annars konar vá steðjar nú að opnum og frjálsum þjóðfélögum en á tímum kalda stríðsins, þegar tvær meginfylkingar stóðu andspænis hvor annarri, gráar fyrir járnum. Öryggisgæsla í víðtækum skilningi hvílir nú meira á herðum lögreglu en áður og hlýtur löggjöf um ytra og innra starf lögreglu að taka mið af því.

 

Hér í þessu frumvarpi er fjallað um hina ytri umgjörð lögreglunnar og skipulag en ekki heimildir hennar til rannsókna, handtöku og annað vald hennar til að halda uppi röð og reglu. Ákvæði lögreglulaga eða laga um meðferð opinberra mála, sem snerta þessa þætti, eru óbreytt, þótt þetta frumvarp verði samþykkt. Hér er því um skref að ræða til að skapa starfi lögreglunnar nýja umgjörð, skref vegna ákæruvalds og nýjar lögheimildir lögreglu við rannsóknir eða önnur störf verða stigin síðar og kynnt alþingi.

 

Sný ég mér þá að efni þessa frumvarps sérstaklega.

 

Landssamband lögreglumanna hefur oft ályktað á þann veg undanfarin ár, að efla ætti einstök lögreglulið með því að stækka umdæmi þeirra. Sýslumenn hafa einnig rætt þessi mál í sinn hóp og hvatt til breytinga. Ég taldi nauðsynlegt að leiða þetta mál til lykta á skipulegan hátt og skipaði haustið 2003 verkefnisstjórn, til þess í fyrsta lagi að koma með hugmyndir að nýju skipulagi löggæslu í því skyni að styrkja og efla starfsemi lögreglu og sýslumanna auk þess að bæta nýtingu þeirra fjármuna sem til sýslumannsembætta væri varið og í öðru lagi að móta löggæsluáætlun til næstu ára, þar sem kynnt yrði forgangsröð við úrlausn verkefna og sett mælanleg markmið fyrir löggæsluna. Verkefnisstjórnin fékk einnig önnur verkefni, þar á meðal að meta reynslu af lögreglulögunum, sem sett voru fyrir tíu árum, og  skipulagi og verkaskiptingu, sem þá kom til sögunar, og einnig  skyldi hún taka afstöðu til sjónarmiða, sem fram hefðu komið um skipulag ákæruvalds.

 

Ég setti verkefnisstjórn þá meginreglu, að stækkun lögregluumdæma leiddi ekki til þess, að sýslumönnum yrði fækkað.

 

Verkefnisstjórnin skilaði ítarlegri skýrslu í janúar 2005. Skýrslunni fylgdu tillögur fjögurra sérfróðra manna um skipulag lögreglunnar. Í skýrslunni er að finna greinargott yfirlit og mat á núverandi stöðu mála. Þá eru gerðar tillögur að efnisatriðum í löggæsluáætlun til næstu ára og í þriðja lagi er rakið með hvaða hætti skuli styrkja og efla löggæslu í landinu. Það var meginniðurstaða verkefnisstjórnarinnar að vegna smæðar ættu mörg lögreglulið erfitt með að sinna lögbundnu hlutverki sínu. Í skýrslu verkefnisstjórnarinnar á blaðsíðu 35 segir um þetta atriði með leyfi forseta:

 

„Almenningur og stjórnvöld gera í dag miklar kröfur til lögreglunnar og hennar starfa. Krafan er sú að lögreglan sinni öllum störfum sínum vel og í samræmi við þarfir og þróun samfélagsins á hverjum tíma, svo og þarfir íbúa í hverju umdæmi fyrir sig. Lögreglan á samkvæmt þessum kröfum að vera skilvirk og árangur af störfum hennar mikill, á sama tíma og hún á að vera opin og jákvæð gagnvart óskum og þörfum hins almenna borgara, vera sýnileg í störfum sínum og umfram allt tryggja öryggi almennings og stjórnvalda. Samhliða þessum kröfum á lögreglan einnig að vera í stakk búin til að sinna vel rannsóknum flókinna sakamála, tileinka sér hratt og vel nýjungar í störfum sínum, taka virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi á sviði löggæslu og rannsóknum sakamála og sjá til þess að rannsóknum allra mála, jafnt stórra sem lítilla, sé lokið innan hæfilegs tíma og hagað í samræmi við ákvæði laga, mannréttindasáttmála og stjórnarskrár. Þessu til viðbótar má nefna að auknar kröfur eru gerðar til forstöðumanna og stjórnenda opinberra stofnana almennt í tengslum við rekstur þeirra í víðum skilningi þess orðs, en á undanförnum árum hafa stjórnunarheimildir verið færðar til stofnana, kröfur um vandaða stjórnsýslunhætti aukist með tilkomu stjórnsýslulaga og upplýsingalaga og nýjar stjórnunaraðferðir eins og árangursstjórnun verið innleiddar. Allt hefur þetta í för með sér auknar kröfur til stjórnenda og starfsmanna opinberra stofnana, þar á meðal lögreglu.“

 

Með vísan til þessa lagði verkefnisstjórnin til að lögregluumdæmunum 26 yrði fækkað til muna og þau yrðu samtals fimm til sjö. Yrði ekki unnt að ganga svo langt í stækkun umdæma vildi verkefnisstjórnin, að samvinna og samstarf lögregluembætta yrði stóraukið. Með stækkun og fækkun umdæma yrði lögreglu um land allt gert kleift að standa betur undir þeim kröfum sem til hennar væru gerðar á öllum sviðum og margvíslegir kostir sköpuðust til að styrkja starf lögreglunnar.

 

Skýrsla verkefnisstjórnarinnar vakti mikla umræður meðal sýslumanna og lögreglumanna. Landssamband lögreglumanna fagnaði skýrslunni og tillögunum og taldi þær koma til móts við sjónarmið sín. Sýslumannafélagið efndi til sérstaks félagsfundar um efni skýrslunnar og ályktaði um stækkun lögregluumdæma. Lagði félagið til að lögregluumdæmi yrðu stækkuð og fækkað, þau yrðu 12-16 talsins.

 

Eftir umræður um tillögurnar skipaði ég vorið 2005 framkvæmdanefnd til að útfæra nánar tillögur verkefnisstjórnar. Skyldi framkvæmdanefndin móta tillögur um fjölda, stærð og stjórn lögregluumdæma. Áhersla var lögð á, að með stækkun lögregluumdæma væri verið að auka og efla þjónustu lögreglu við íbúa landsins og styrkja hana á öllum sviðum, bæði við rannsóknir sakamála og almenna löggæslu. Framkvæmdanefndin skilaði tillögum sínum í lok október 2005 og lagði til að lögregluumdæmi í landinu yrðu fimmtán, þar af sjö sem ábyrgð bæru á rannsókn og saksókn stórra og flókinna mála. Þessi embætti skyldu einnig bera ábyrgð á því að samræma vaktkerfi lögregluembætta á sínu starfssvæði, í þeim tilgangi að tryggja aukna og sýnilegri löggæslu en áður. Var það mat framkvæmdanefndarinnar að með þessari skipan yrðu rannsóknir sakamála betri, markvissari og öflugri alls staðar á landinu, sýnileg löggæsla myndi aukast og unnt yrði að halda úti sólarhringsvöktum lögreglu víðar á landinu en nú er.

 

Þegar tillögur framkvæmdanefndarinnar lágu fyrir var henni falið að kynna þær með því að efna til funda um land allt með lögreglustjórum, lögreglumönnum og sveitarstjórnarmönnum þar sem hlustað væri eftir sjónarmiðum og viðhorfum heimamanna til þeirra. Efnt var til margra funda um land allt og einnig voru sérstakir fundir með þeim aðilum sem eftir því óskuðu og vildu fara nánar yfir einstaka atriði og koma á framfæri sjónarmiðum sínum. Vel á fjórða hundrað manns sóttu fundi nefndarinnar auk þeirra sem mættu til sérstakra funda. Að lokinni þessari ítarlegu yfirferð yfir málið með hagsmunaaðilum um land allt skilaði framkvæmdanefndin framhaldsskýrslu og lagði þar til nokkrar breytingar frá upphaflegum tillögum í samræmi við athugasemdir og sjónarmið, sem fram höfðu komið í framangreindu kynningarferli.

 

Í mínum huga er ekki vafi á því, að vel og faglega var staðið að undirbúningi þessa máls af hálfu verkefnisstjórnarinnar og síðan framkvæmdanefndarinnar. Öllum hagsmunaaðilum var gefinn kostur á því að koma á framfæri sjónarmiðum sínum og viðhorfum og miklar umræður sköpuðust á undirbúningstímanum um einstaka þætti í tillögum framkvæmdanefndarinnar, jafnvel smáatriði í sumum tilvikum. Hlustað var eftir öllum þessum sjónarmiðum og afstaða tekin til þeirra, sem í sumum tilvikum leiddi til þess að breytingar voru gerðar frá upphaflegum tillögum.

 

Hin góða kynning á málinu hefur leitt til þess, að umræður um einstaka þætti þess hafa almennt byggst á góðum og gildum rökum. Þess hefur þó orðið vart, að það vinnuheiti á undirbúningsstigi að nefna þau sjö embætti, þar sem rannsóknardeildir verða starfræktar til að sinna flóknum og stórum málum, lykilembætti, hefur valdið misskilningi.

 

Dæmi um slíkan misskilning mátti lesa í Morgunblaðinu í morgun, þar sem sagt var frá því, að á netinu væri hafin söfnun undirskrifta í þeim tilgangi, að „ halda lykilembætti lögregluumdæmisins í Borgarnesi“ eins og það er orðað. Í texta, sem fólk er hvatt til að undirrita, er greinilega talið, að í hugtakinu „lykilembætti“ felist  annað og meira hlutverk en að reka rannsóknardeild og stuðla að samræmingu vakta. Af textanum má einnig ætla, að í Borgarnesi sé starfækt eitthvert „lykilembætti“, sem nú eigi að flytja á Akranes.

 

Hið rétta er, að rannsóknarlögreglumaður hefur verið á Akranesi en ekki í Borgarnesi og með frumvarpinu er ákveðið, að hann verði þar áfram og á Akranesi verði því rannsóknardeildin, sem annist rannsókn stórra og flókinna mála. Að halda því fram eins og gert er í þeim texta, sem birtur er í Morgunblaðinu, að með þessari skipan sé „ fótunum kippt undan eðlilegri löggæslu á svæðinu“ og í framhaldi af þeim flutningi megi „fastlega búast við að héraðsdómur og sýslumannsembættin fari þá sömu leið áður en langt um líður,“ er í besta falli misskilningur byggður á ótrúlegri vanþekkingu en í hinu versta vísvitandi tilraun til að blekkja fólk til að undirrita alrangan texta.

 

 

Í umræðum vegna þessa frumvarps hefur einnig vottað fyrir áhyggjum af sameiningu lögregluliðanna á höfuðborgarsvæðinu.  Í mínum huga er enginn vafi á því, að löggæsla á höfuðborgarsvæðinu eflist við að sameina lögreglu þar undir einni stjórn. Frá því að fjarskiptamiðstöð lögreglunnar tók til starfa fyrir rúmum fimm árum, hefur lögregla á höfuðborgarsvæðinu unnið sem ein heild við úrlausn fjölda verkefna og lögreglumönnum hefur verið stýrt eftir því hvaða bíll er næstur vettvangi hverju sinni en ekki eftir umdæmum. Árangur af sameiginlegum átaksverkefnum lögreglu á þessu svæði er einnig hvetjandi, þannig hefur átak lögreglunnar í Reykjavík, Hafnarfirði og Kópavogi með sérsveit ríkislögreglustjórans gegn handrukkurum skilað mjög athyglisverðum og jákvæðum árangri. Raunar má hið sama segja um sambærilegt átak sérsveitarmanna og lögreglunnar á Akureyri.

 

Með því að sameina lögeglulið á höfuðborgarsvæðinu er verið að viðurkenna í reynd samruna sveitarfélaga hér, þegar tekið er á verkefnum, sem varða heill og öryggi almennings. Þetta hefur þegar verið gert með því að sameina slökkvilið, sem sveitarfélög reka, og almannavarnarnefndir, sem starfa á vegum sveitarfélaga. Raunar er fyrir löngu tímabært að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sigli í kjölfarið.

 

 

Frumvarpið, sem ég mæli hér fyrir, hefur að geyma tillögur um nýskipan lögreglumála, sem byggjast á því vandaða starfi, sem ég hef nú lýst. Ég mun nú gera nánari grein fyrir helstu meginatriðum sem í frumvarpinu felast.

 

Í fyrstu grein eru lagðar til breytingar á 5. gr. lögreglulaga. Hún fjallar í heild sinni um hlutverk og verkefni ríkislögreglustjóra og í b-lið 2. mgr. er nú mælt fyrir um að ríkislögreglustjóri skuli starfrækja lögreglurannsóknardeild sem rannsaki landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess og aðstoði auk þess lögreglustjóra við rannsókn alvarlegra brota.

 

Af orðum, sem fallið hafa opinberlega vegna þessa frumvarps, hefði mátt ætla, að þar væri í fyrsta sinn að finna ákvæði um skyldur rannsóknardeildar ríkislögreglustjóra til að rannsaka landráð og brot af því tagi, sem nefnd voru. Hér er um misskilning að ræða eins og augljóst er af lestri núgildandi laga.

 

Breytingar samkvæmt frumvarpinu byggjast á umræðunum um nýskipan lögreglumála. Í fyrsta lagi er hér lögð til sú breyting, að ekki verði lengur mælt fyrir um, að þessi rannsóknardeild hjá embætti ríkislögreglustjóra skuli vera öðrum lögregluembættum til aðstoðar við rannóknir alvarlegra brota. Er þetta lagt til með hliðsjón af fyrirhuguðum breytingum samkvæmt frumvarpinu á rannsóknum stórra og flókinna mála hjá rannsóknardeildum við sjö lögregluembætti. Með þeirri skipan minnkar þörf fyrir rannsóknaraðstoð þó hún hverfi að sjálfsögðu ekki, en lagt er til að dómsmálaráðherra setji nánari reglur um aðstoðina.

 

Í þessari grein frumvarpsins segir, að ríkislögreglustjóri skuli starfrækja lögreglurannsóknardeild og greiningardeild, sem rannsakar landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess og leggur mat á hættu á hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi.  Með ákvæðinu um greiningardeild er lögð áhersla á þá skyldu lögreglu að rannsaka ekki aðeins afbrot, sem hafa verið framin, heldur stundi hún einnig rannsóknir til að koma í veg fyrir að afbrot verði framin. Mikilvægt er, eins og rakið er í skýrslu verkefnisstjórnar um nýskipan lögreglumála, að hugað sé sérstaklega að leiðum til að stemma stigu við hættum af skipulagðri og alþjóðlegri glæpastarfsemi. Lögregla verður að leggja sig fram um að greina skipulagða glæpastarfsemi, safna á einn stað upplýsingum frá innlendum og erlendum lögregluliðum og leggja mat á hættu, sem tengist til dæmis fíkniefnabrotum, mansali, skipulögðu vændi, peningaþvætti og öðrum afbrotum, sem  hafa alþjóðlega vídd. Hið sama á við um ógn vegna hryðjuverka. Alþjóðlegt samstarf lögregluliða til að draga úr hættu á hryðjuverkum vex jafnt og þétt. Þessi hætta getur tekið á sig ýmsar myndir eins og sjá má núna vegna vanda Dana eftir birtingu skopmynda  Jyllands Postens.

 

Í samræmi við nauðsynlegan sveigjanleika í starfi lögreglu er einnig lagt til í frumvarpinu að ráðherra geti ákveðið að við einstök embætti lögreglustjóra starfi undir eftirliti ríkislögreglustjóra greiningardeildir til að leggja mat á hættu á hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi. Er þá sérstaklega horft til stærstu embættanna, sem hafa vegna sérstöðu og sérþekkingar forsendur til að leggja starf af mörkum á þessu sviði. Má þar minnast á góðan árangur fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík og sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli, sem hefur í mörgum tilvikum á grunni vandaðs áhættumats lagt hald á umtalsvert magn fíkniefna. Þessar árangursríku aðferðir við löggæslu verður að styrkja og miðar frumvarpið að því.

 

Eins og áður hefur verið rakið eru tillögur um nýskipan lögreglumála meginefni þessa frumvarps. Lagt er til að lögregluumdæmi í landinu verði 15 í stað 26 og við sjö af 15 lögregluembættum verði sérstakar rannsóknardeildir. Með þessu er tryggt, að sérþekking til að takast á við rannsóknir afbrota þróist víða á landinu og löggæsla styrkist þannig og eflist alls staðar.

 

Frumvarpið boðar verulegar breytingar á skipulagi löggæslu á suð-vestur horni landsins. Annars vegar er gert ráð fyrir því, að nýtt embætti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu taki við löggæsluverkefnum lögreglustjórans í Reykjavík og sýslumannanna í Hafnarfirði og Kópavogi. Hins vegar er lagt til,  að lögregluembættin tvö í Keflavík og Keflavíkurflugvelli verði sameinuð undir einni stjórn lögreglustjórans á Suðurnesjum. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum verður jafnframt sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli. Um þessa skipan hefur náðst gott samkomulag milli dómsmálaráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins, en ráðuneytin munu sameiginlega setja leiðbeinandi reglur varðandi verksvið lögreglustjórans á Suðurnesjum og sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli.

 

Samkvæmt frumvarpinu fjölgar þeim sýslumönnum, sem ekki fara með lögreglustjórn. Nú er sýslumaðurinn í Reykjavík hinn eini, sem ekki stjórnar lögreglu, en verði frumvarpið að lögum slást sýslumenn í Reykjanesbæ, Hafnarfirði, Kópavogi, Búðardal, Patreksfirði, Bolungarvík, Hólmavík, Siglufirði, Ólafsfirði, Höfn og Vík í hópinn með honum.  

 

Við hin stærri sýslumannsembætti hefur verkefnum fjölgað svo mjög undanfarin ár, að brotthvarf lögreglustjórnar auðveldar stjórnendum þeirra að takast á við aukið álag á öðrum sviðum. Að því er sýslumannsembættið í Reykjanesbæ varðar er unnið að því að flytja þangað framleiðslu á vegabréfum og öðrum skilríkjum með nýjum tækjabúnaði.

 

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefur sett sér markmið um að flytja verkefni á vegum ráðuneytisins eða stofnana þess til sýslumannsembætta utan höfuðborgarsvæðisins. Eru þessi verkefni tíunduð í greinargerð frumvarpsins. Stærsta verkefnið til þessa er að koma á fót Innheimtumiðstöð sekta og sakarkostnaðar við sýslumannsembættið á Blönduósi. Með því verkefni er ekki einungis verið að styrkja og efla þessa mikilvægu starfsemi heldur er einnig verið að skapa fjölda nýrra starfa úti á landsbyggðinni. Áform um frekari verkefnaflutning til sýslumannsembætta eru mislangt komin, en hér má nefna tvö verkefni sem eru á undirbúningsstigi, annars vegar stendur til að flytja bótanefnd og þau verkefni sem henni tengjast til sýslumannsins á Siglufirði og hins vegar útgáfu Lögbirtingablaðs til sýslumannsins í Vík.

 

Frumvarpið hefur að geyma aðrar breytingar, sem taldar eru nauðsynlegar í tengslum við endurskipulagningu lögregluumdæmanna. Má þar nefna að lagt er til að heiti varalögreglustjóra verði breytt í aðstoðarlögreglustjóra og slíkar stöður verði innan stóru lögregluembættanna á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. Þá er heimilað, að fleiri en einn aðstoðarlögreglustjóri starfi hjá hverju liði. Frumvarpið heimilar, í fyrsta sinn að lögreglumenn sem sérstaklaga hafa menntað sig til stjórnunarstarfa innan lögreglunnar geti hlotið skipun sem aðstoðarlögreglustjórar. Þetta er eðlilegt skref í ljósi framhaldsmenntunar innan Lögregluskóla ríkisins. Undanfarin ár hefur skólinn í samráði við endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands staðið fyrir sérstöku stjórnunarnámi fyrir lögreglumenn og lögreglustjóra, með athyglisverðum og góðum árangri.

 

Lagðar eru til breytingar á inntökuskilyrðum nýnema við Lögregluskóla ríkisins í samræmi við tillögur valnefndar skólans. Lagt er til að aldurshámark verði hækkað í 40 ár, breytingar verði gerðar á kröfum um tungumálakunnáttu og  að valnefnd skilgreini kröfur í inntökuprófum í stað skólanefndar.

 

Að lokum er ástæða að vekja athygli á ákvæði til bráðabirgða í frumvarpinu. Í fyrsta lagi er þar lagt til að starfsmenn lögregluembættanna þriggja á höfuðborgarsvæðinu njóti forgangs til starfa hjá nýju embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, og jafnframt að þeir skuli við flutning til starfa hjá nýju embætti njóta áunninna réttinda sinna. Með þessu móti er tryggt, að þeir, sem gegna tilgreindum stöðum hjá embættunum þremur standi framar öðrum, þegar kemur að því að stofna og skipuleggja nýtt embætti. Einnig er tryggt, að þeir glati ekki áunnum réttindum sínum við tilfærslu í starfi þegar lögin koma til framkvæmda. Með þessu er stuðlað að sem minnstri röskun á stöðu og högum starfsmanna og spornað gegn kostnaði vegna biðlaunagreiðslna.

 

Í öðru lagi er ætlunin, að lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins verði skipaður eigi síðar en 1. júlí nk. og verður hlutverk hans út árið að undirbúa stofnun embættisins.

 

Í þriðja lagi er ráð fyrir því gert, að skipuð verði nefnd til ráðgjafar við stofnun nýs embættis á höfuðborgarsvæðinu og flutning starfsmanna til þess. Þar munu þau stéttarfélög sem að þessu koma eiga fulltrúa auk þess sem starfsmenn embættanna þriggja skipa fulltrúa í nefndina.

 

Loks er lagt til, að skipuð verði óháð þriggja manna nefnd sem hafi það hlutverk að fylgjast með framkvæmd breytinga samkvæmt frumvarpinu í heild og skila skýrslu til ráðherra um, hvernig til hafi tekist.

 

Virðulegi forseti.

 

Þetta mál á sér langan og leyfi ég mér að segja vandaðan aðdraganda eins og ég hér hefur verið lýst. Mikilvægt er, að áfram verði haldið á þessum málum með vönduðum hætti og fallist alþingi  á tillögurnar, sem hér hafa verið kynntar, þarf að hrinda þeim í framkvæmd af vandvirkni og fagmennsku. Samhliða því, sem málið er lagt fyrir alþingi, hef ég fengið til liðs við dómsmálaráðuneytið sérstakan verkefnisstjóra til að fylgja framkvæmd þessara víðtæku breytinga  eftir, verði frumvarpið samþykkt. Ólafur Kristófer Ólafsson, sýslumaður Snæfellinga, hefur tekið þetta verkefni að sér. Hann býr yfir mikilli reynslu á þessu sviði og  hefur meðal annars endurskipulagt löggæslu á Snæfellsnesi á farsælan hátt. Hann mun vinna að þessu verki í samvinnu við sérfræðinga hjá embætti ríkislögreglustjóra.

 

Mikilvægt er að góð sátt og samvinna takist á milli lögregluliða um innleiðingu þessara breytinga, og ekki síður að allt verði verkið unnið í náinni og góðri samvinnu við hlutaðeigandi sveitarfélög.

 

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umræðu.