1-1-2 í tíu ár.
Ráðstefna Hótel Loftleiðum, 10. febrúar, 2006.
Þegar litið er yfir 10 ára sögu Neyðarlínunnar – eða 1- 1-2 - er þakklæti efst í huga. Þakklæti fyrir, hve mörgum hefur verið veitt skjót og rétt aðstoð. Þakklæti fyrir þá alúð, sem einkennt hefur skipulag og starfsemi hinnar einstæðu þjónustu, sem Neyðarlínan veitir.
Á sínum tíma ríkti ekki einhugur um, hvernig staðið skyldi að því að stofna og reka Neyðarlínuna, þótt ekki væri deilt um nauðsyn neyðarnúmers. Fyrirmyndin að samræmdu neyðarsímanúmeri er fengin frá Alabama í Bandaríkjunum. Þar kom númerið 9-1-1 til sögunnar árið 1968 og hlaut síðan skjóta útbreiðslu í öðrum ríkjum Bandaríkjanna. Vísir menn segja, að Katrín Fjeldsted, læknir og þáverandi borgarfulltrúi, hafi orðið fyrst til að leggja fram tillögu um samræmt neyðarnúmer hér á landi, það var í borgarstjórn Reykjavíkur árið 1988.
Evrópusambandið fetaði í fótspor Bandaríkjanna og ákvað neyðarnúmerið 1-1-2 á svæði sínu. Við tengdumst því með samningnum um evrópska efnahagssvæðið og skömmu eftir að samningurinn um það gekk í gildi eða í mars 1995 samþykkti alþingi lög um samræmda neyðarsímsvörun.
Samkvæmt lögunum skyldi ríkisstjórnin ekki síðar en 31. desember 1995 koma upp samræmdri neyðarsímsvörun fyrir Ísland til að sinna viðtöku tilkynninga um fólk og eignir í neyð og beiðnum um aðstoð lögreglu, slökkviliðs, björgunarsveita og sjúkraflutningaliðs og aðra neyðaraðstoð.
Í samræmi við þetta hóf hlutafélagið Neyðarlínan störf hinn 1. janúar 1996. Tillögurnar að baki félaginu byggðust á því, að stofnað yrði til víðtækrar samvinnu opinberra aðila, félagasamtaka og einkaaðila í öryggisþjónustu. Nú er Neyðarlínan að meirhluta í eigu ríkis og Reykjavíkurborgar. Hlutafélagsformið hefur frá upphafi tryggt fyrirtækinu nauðsynlegan sveigjanleika í síbreytilegu umhverfi, þar sem tækniframfarir eru örar.
Eins og áður sagði voru ekki allir sammála um þetta form á sínum tíma. Þórhallur Ólafsson, þáverandi aðstoðarmaður dóms- og kirkjumálaráðherra og núverandi forstjóri Neyðarlínunnar, rökstuddi þessa tilhögun á þennan veg í Morgunblaðsgrein í mars 1996: „Tvær meginröksemdir voru fyrir því, að þessi kostur var valinn. Í fyrsta lagi var það sú hagræðing og sparnaður sem ríki og sveitarfélög nytu. Í öðru lagi að stuðla að sem víðtækastri samvinnu milli þeirra sem sinna neyðar- og öryggisþjónustu. “
Með reynsluna af 10 ára starfi Neyðarlínunnar í huga er augljóst, að farin var rétt leið með lögunum frá 1995. Almenningur kunni strax vel að meta að þurfa ekki að muna nema eitt neyðarnúmer í stað þess að þekkja ekkert af þeim 145 númerum, sem það leysti af hólmi, og hlutafélagsformið hefur staðið undir væntingum.
Innra starf Neyðarlínunnar hefur verið mótað af miklum metnaði og viðleitni til að tileinka sér sem best nýjustu tækni í því skyni að sinna verkefnum fyrirtækisins hratt og örugglega. Fljótt kom til sögunnar tölvustýrt kerfi til að auðvelda símsvörun og boðun viðbragðsaðila. Kerfið hefur þróast í áranna rás á þann veg að vera nú í fremstu röð slíkra kerfa í heiminum.
Ákvarðanir um starfsemi Neyðarlínunnar hafa ekki aðeins reynst heilladrjúgar heldur einnig ákvörðun um staðarval fyrir hana í nábýli við slökkvilið í slökkviliðsstöðinni í Reykjavík – þar er nú hin öfluga samhæfingar- og stjórnunarmiðstöð, Björgunarmiðstöðin Skógarhlíð.
Neyðarlínan tók strax við stofnun sína við símsvörun fyrir slökkviliðið og árið 2000 var sérstakri fjarskiptamiðstöð fyrir lögregluna valinn staður við Skógarhlíð og nýtti hún sér tölvukerfið, sem þróað hafði verið fyrir Neyðarlínuna.
Um svipað leyti var nýtt fjarskiptakerfi á svonefndum TETRA-staðli tekið í notkun. Með þessu kerfi hefur tekist að stytta viðbragðstíma bæði lögreglu og sjúkraflutningamanna, eftir að boð berast frá Neyðarlínu. Ferilvöktun á ferðum lögreglu- og sjúkrabifreiða í gegnum TETRA auðveldar skjót viðbrögð.
Í því skyni að efla og styrkja þetta öryggisfjarskiptakerfi var nýlega ákveðið að Neyðarlínan keypti fyrirtækið TETRA Ísland. Á undanförnum árum hefur sannast hér og annars staðar, að TETRA-kerfið er öðrum kerfum betra við stjórn neyðar- og björgunaraðgerða og vöktun viðbragðsaðila. Nú er nauðsynlegt að endurnýja miðbúnað kerfisins í takt við tæknibreytingar, fjölga sendum og skiptistöðvum í kerfinu. Með þessu eykst skilvirkni TETRA-kerfisins, en það nær nú vel austur fyrir Mýrdalsjökul og nokkuð langt norður eftir Vesturlandi, auk þess sem kerfið er notað á Eyjafjarðarsvæðinu og á Vestfjörðum í kringum Ísafjörð.
Vöxtur Björgunarmiðstöðvarinnar Skógarhlíðar hefur ekki síður verið mikill og spennandi síðustu ár en þróun Neyðarlínunnar. Í Skógarhlíð eru nú til húsa auk þeirra, sem áður voru taldir Slysavarnafélagið Landsbjörg, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, vaktstöð siglinga, Landhelgisgæsla Íslands og tölvumiðstöð dómsmálaráðuneytisins.
Þetta sambýli boðunar- og viðbragðsaðila er einstakt. Hin frjálsu og öflugu félagasamtök, Slysavarnafélagið Landsbjörg, sem stofnuð voru árið 1999, hvöttu frá upphafi til þess, að þróað yrði sameinað stjórnkerfi leitar og björgunar. Slagorð fyrstu ráðstefnu samtakanna var: Eitt land, eitt stjórnkerfi. Í þeim anda hefur verið unnið að því að þróa samhæfingar- og stjórnunarmiðstöðina í Skógarhlíð.
Þar standa neyðarverðir 1-1-2, og starfsmenn fjarskiptamiðstöðvar ríkislögreglustjóra, stjórnstöðvar landhelgisgæslu og vaktstöðvar siglinga vaktina allan sólarhringinn og þaðan er með öskömmum fyrirvara unnt að kalla út viðbragðsaðila til að takast á við brýn verkefni.
Á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins hefur undanfarið verið unnið að smíði nýrra laga um almannavarnir. Innan skamms verður það lagt fram til kynningar og umræðu. Frumvarpið tekur mið af ávinningi undanfarinna ára og starfi Neyðarlínunnar og Björgunarmiðstöðvarinnar Skógarhlíðar. Ég vona, að víðtæk sátt megi nást um frumvarpið, svo að það hljóti greiða leið í gegnum alþingi.
Stefnt er að því með frumvarpinu að skapa nýjan lagaramma um neyðarsímsvörun og lögfesta í fyrsta sinn ákvæði um samhæfingar- og stjórnunarmiðstöð, sem hafi yfirumsjón með aðgerðum við leit og björgun á landi, sjó og í lofti. Í miðstöðinni starfi fulltrúar lögreglu, slökkviliðs, landhelgisgæslu, heilbrigðisstofnana og björgunarsveita eftir því sem við á hverju sinni. Lagt er til, að dómsmálaráðherra skipi fulltrúa allra þessara viðbragðsaðila í samráðsnefnd miðstöðvarinnar, en nefndin afgreiði mál varðandi innra samstarf og útfærslur á einstökum viðbragðsáætlunum.
Góðir áheyrendur!
Neyðarþjónusta hefur gjörbreyst á síðustu tíu árum. Ný lög um almannavarnarnir verða að endurspegla þá breytingu um leið og þau skapa nauðsynlegan sveigjanleika til að bregðast skynsamlega við framtíðarverkefnum.
Tækniframfarir síðustu 10 ára eru meiri en nokkur gat spáð við stofnun Neyðarlínunnar, bæði í tölvum og fjarskiptum. Fyrir 10 árum voru GSM símar fáir en nú eru þeir í hvers manns höndum. Þá var netnotkun að ryðja sér rúms en nú nýta tæplega 90% Íslendinga sér netið á einn eða annan hátt. Neyðarlínan hefur lagað starfsemi sína að þessum breytingum.
Tæknin þróast enn og mun gera Neyðarlínunni kleift að sinna mikilvægum störfum sínum á enn hagkvæmari og virkari hátt. Samstarf þeirra, sem eru undir sama þaki við Skógarhlíð, mun einnig styrkjast.
Hér á ráðstefnunni í dag gefst færi á því að draga saman reynslu síðustu ára, greina hana og leggja á ráðin um framtíðina. Ég þakka þeim, sem hér munu taka til máls og býð Jyrki Landsted, framkvæmdastjóra 1-1-2 í Finnlandi sérstaklega velkominn. Finnar standa framarlega á þessu sviði eins og svo mörgum öðrum og hafa nýlega endurskipulagt neyðar- og öryggisþjónustu sína.
Á hverju ári eru hringingar í 1-1-2 um 300 þúsund og skráðar neyðarbeiðnir um 130 þúsund. Saga síðustu 10 ára geymir mörg atvik, þar sem árvekni og snarræði neyðarvarða 1-1-2 hefur bjargað mannslífum og hjálpað fólki í nauðum. Um leið og þetta starf er þakkað hér er gleðilegt að minnast þess, að kannanir sýna, að 96% þjóðarinnar lýsa ánægju með störf 1-1-2, en aðeins 0,5% óánægju.
Verði haldið áfram á sömu braut næstu 10 ár – geta menn fagnað glæsilegum árangri þá eins og við gerum hér í dag. Ég óska okkur til hamingju með Neyðarlínuna, og stjórn hennar, framkvæmdastjóra og starfsliði öllu innilega til hamingju með daginn.