28.1.2006

Háskólastefna hefur heppnast.

Ávarp á Bifröst 28. janúar 2006.

 

 

 

 

Mér er ánægja að taka þátt í þessari hátíðlegu athöfn með ykkur og samfagna með þeim, sem nú eru að ljúka námi eða mikilvægum áfanga á námsbrautinni. Óska ég ykkur, sem verðið brautskráð hér í dag innilega til hamingju. Ég veit, að veganestið, sem þið farið með héðan úr Viðskiptaháskólanum á Bifröst mun nýtast ykkur vel á lífsleiðinni.

 

Um menntun er réttilega sagt, að hún verði aldrei frá neinum tekin og ávallt sé unnt að bæta við hana. Menntabrautin er nú á tímum hluti af lífsbrautinni sjálfri. Sá, sem hefur ekki ætíð annað auga á tækifærum til að mennta sig meira, tileinka sér nýja tækni eða aðferðir, staðnar, einangrast og heltist jafnvel úr lestinni.

 

Margir nemendur hér á Bifröst hafa með ákvörðun sinni um að hefja nám við háskólann jafnframt tekið nýja stefnu í lífi sínu. Þeir hafa sagt skilið við fyrri störf, af því að þeim hefur orðið ljóst, að með náminu yrðu þeim fleiri leiðir færar en ella. Og fjölskylur hafa flust búferlum til að láta drauminn rætast.

 

Fyrirheit háskólans eru einnig mikil. Stjórnendur hans og kennarar lofa að veita nemendum framúrskarandi fræðslu og þjálfun til að búa þá undir ábyrgðar-, forystu- og stjórnunarstörf í innlendu og alþjóðlegu samkeppnisumhverfi. Þeir vilja skapa nemendum háskólans  samkeppnisyfirburði á vinnumarkaði að námi loknu og veita þeim hverjum og einum persónulegri þjónustu og betri aðstöðu til náms og þroska en aðrir háskólar gera.  

 

Ef marka má stöðugan vöxt í aðsókn hingað á Bifröst ár eftir ár hefur þessi stefna háskólans borið góðan árangur. Samkvæmt nýjum tölum frá Hagstofu Íslands voru skráðir nemendur við háskólann 685 haustið 2005 og hefur fjöldi þeirra meira en þrefaldast frá árinu 2000, þegar ný stefna og nýtt nafn skólans var kynnt.

 

Ég minnist þeirrar athafnar hér í skólanum og tel, að fjölgun nemenda og vöxturinn á staðnum hafi orðið hraðari og meiri en menn grunaði á þeirri stundu.  Krafturinn í skólastarfinu hefur einnig verið mikill og samhliða því, sem náms- og fræðasvið hafa breikkað hefur verið stefnt hærra eins og staðfest er af fyrstu meisturunum í lögfræði hér í dag.

 

Haustið 2005 voru skráðir nemendur á háskólastigi fleiri en nokkru sinni fyrr eða 17.107. Hefur fjöldi nemenda tæplega tvöfaldast frá hausti 1998 en hinn 1. janúar það ár tóku einmitt ný lög um háskóla gildi. Með frumkvæði að þeirri lagasetningu vildi ég auk annars skapa traustan grundvöll undir starfsemi sjálfstæðra háskóla. Á átta árum, sem síðan eru liðin, hafa mikil og góð umskipti orðið í háskólastarfi um allt land  – það var greinilega tímabært að leysa nýja og öfluga krafta úr læðingi.

 

Eftir að sjálfstæðir skólar fengu trausta fótfestu á háskólastigi hefur sannast hið sama í skólastarfi og í fjármálum með einkavæðingu banka. Umsvifin vaxa meira en nokkur spáði. Þjónustustig hækkar og markmiðin verða háleitari. Helsta undrunarefnið er, að hið sama framtak í nafni sjálfstæðra skóla hljóti ekki meira brautargengi á framhaldsskóla- og grunnskólastigi.

 

Ég fagna því, að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra hefur kynnt nýtt frumvarp til háskólalaga, þar sem tekið er mið af reynslu síðustu ára. Í frumvarpinu er starfsgrundvöllur sjálfstæðra háskóla enn treystur og jafnframt lagt á ráðin um, hvernig gæði náms verði best tryggð. Tekið er mið af því, að íslenskir háskólar starfi á alþjóðlegum þekkingarmarkaði og þess vegna sé brýnt, að  þeir starfi samkvæmt sömu viðmiðum og háskólar nágrannaríkjanna.

 

*

 

Nýlega var ég á fundi í stórfyriræki, sem kynnti þingmönnum starfsemi sína. Þegar rætt var um, hvaða þætti þyrfti að hafa í huga til að þetta fyrirtæki og önnur gætu haldið áfram að blómstra, var að sjálfsögðu vikið að gildi menntunar. Einn af forystumönnum fyrirtækisins hafði á orði, að sér þætti marklítið allt þetta tal um rannsóknarnám og doktorsnám og fjárveitingar í því skyni. Miklu nær væri að einbeita sér að góðu grunnnámi, grunnskólum, framhaldsskólum og fyrstu stigum háskólanáms. Það væri örugglega hagkvæmara að beina mönnum síðan til útlanda í frekara æðra nám, við gætum aldrei staðist öðrum snúning við að útskrifa doktora.

 

Ég mótmælti þessari skoðun. Rök mín voru hin sömu og áður: Ef við leyfum ekki menntastofnunum  að vaxa og dafna, teygja sig eins hátt og þær frekast geta, verður þar aðeins meðalgróður og markmiðin í samræmi við hann. Væri háskólinn á Bifröst sviptur frelsi til þess að bjóða rannsóknarnám, nyti hann og nemendur hans ekki ávaxta af meistaranámi. Spyrja má: Hver hefur gagn af banni við háleitum markmiðum?

 

Fyrirtækið, sem við heimsóttum, álítur Ísland of lítið fyrir sig og sækir kraft sinn og vöxt sífellt meira til markaða í útlöndum. Hver haldið þið, að staðan væri hér, ef stjórnvöld hefðu ákveðið að sníða fyrirtækjum þann stakk, að þau gætu aðeins starfað á Íslandi? Eða ef íslenskum félögum hefði verið bannað að kaupa fyrirtæki í útlöndum?

 

Um leið og hlúð er að meistara- og doktorsnámi við íslenska háskóla, ber áfram að stuðla að því að Íslendingar sæki sér menntun til útlanda. Sókn Íslendinga í menntun erlendis auðveldar þeim að hasla sér völl, hvar sem þeir kjósa. Í rannsóknum, viðskiptum og menningu höfum við Íslendingar ekki hikað við að virkja alþjóðlega strauma. Úr þeirri deiglu sprettur margt nýtt. Nú á tímum er alþjóðavæðing lykill að góðum árangri háskóla, nemenda jafnt og kennara.

 

*

 

Stundum er því haldið fram, að hættulegt sé að reka fámenna háskóla, þeir geti aldrei náð neinum markverðum árangri í fræðunum og þess vegna ekki boðið nógu góða menntun. Einkennilegt er, þegar gagnrýni af þessu tagi kemur frá íslenskum læknum. Í áratugi hefur tíðkast að takmarka mjög fjölda þeirra, sem geta numið læknisfræði við Háskóla Íslands. Engu að síður hefur tekist að stunda hér lækningar og vísindarannsóknir í læknisfræði á þann veg, að árangur og niðurstöður standast samanburð við hið besta í heiminum.

 

Góður árangur í íslenskum heilbrigðisvísindum stafar í senn af því að við Háskóla Íslands er öflug læknadeild, þótt ekki sé hún fjölmenn, og á Íslandi eru góðar aðstæður til rannsókna auk þess sem læknar hafa vegna framhaldsnáms síns tengsl við vísindamenn og stofnanir í öðrum löndum.

 

Spyrja má, hvort ekki séu að skapast sambærilegar aðstæður til rannsókna og fræðastarfa á sviði viðskipta og viðskiptalögfræði með sífellt meiri alþjóðavæðingu íslensks atvinnulífs. Rannsóknir eru aldrei aðeins stundaðar rannsóknanna vegna, þær hafa allar eitthvert vísindalegt og hagnýtt gildi.

 

Efla verður tengsl alþjóðlegra fyrirtækja með heimilisfang á Íslandi og íslenskra háskóla, rannsóknir og þróun á þeirra vegum, til þess að hin stóru alþjóðlegu, íslensku fyrirtæki dafni enn og vaxi. Frumkvöðlar eru alls staðar ómetanlegir til þess að ryðja brautina en varanlegur árangur næst ekki nema þekking byggð á rannsóknum sé virkjuð í þágu þess, sem gera skal.

 

 

 

*

 

Þegar litið er á hinn mikla vöxt á háskólastiginu síðustu ár og hve vel háskólum, sem innheimta há gjöld af nemendum sínum, hefur vegnað, er ástæða til að undrast, að forráðamenn ríkisrekinna háskóla skuli enn láta eins og aðeins sé unnt að tryggja þeim meira fé með því að seilast dýpra ofan í vasa skattgreiðinda.

 

Nýlega var sagt frá því í Morgunblaðinu, að efnt hefði verið til fundar í lagadeild Háskóla Íslands til að ræða um ójöfnuð gagnvart deildinni í samkeppni milli háskóla. Deildin mundi deyja vegna samkeppninnar nema hún fengi meira fé. Henni mætti líkja við einhentan boxara í keppni við einkareknu skólana, sem mættu innheimta skólagjöld.

Kvartað var undan því, að stjórnmálamenn gæfu ekki skýr svör, þegar þeir væru spurðir um, hvað þeir vildu gera til að bæta samkeppnisstöðuna. Þeir hrykkju frá og reyndu ekki að réttlæta þetta. Háskóli Íslands væri ráðalaus úti í miðri á og þar væri hætta á ofkælingu. Kostirnir væru tveir, að taka upp skólagjöld við ríkisháskóla eða hækka til þeirra ríkisframlög.

Lögfræðingur á fundinum hvatti til þess, að lögfræðingastéttin þétti raðirnar lagadeild Háskóla Íslands til stuðnings. Taldi lögfræðingurinn, að innan lögfræði væru svið, sem aldrei yrði sinnt af öðrum en hinni gömlu og góðu lagadeild Háskóla Íslands og nefndi í því sambandi  að sögn blaðsins síbreytilegt lagaumhverfi í atvinnulífinu og samkeppnisumhverfi.

 

*

 

Sjálfstæðir háskólar geta að sjálfsögðu sinnt fræðastörfum í öllum greinum lögfræðinnar og fráleitt að halda því fram, að ríkisreknar lögfræðirannsóknir séu betri en sjálfstæðar.

 

Þegar sú stefna var mótuð, að ríkið skyldi greiða sama gjald með nemanda, hvort heldur hann veldi sjálfstæðan háskóla eða ríkisrekinn, var viðmiðunartalan fengin frá Háskóla Íslands og byggð á upplýsingum úr skólanum. Meginstefnan var því skýr, Háskóli Íslands starfaði innan eigin fjárhagsramma, aðrir skólar fengju sama fé og hann með hverjum nemanda. Forskot Háskóla Íslands var greinilegt og byggðist á stærð hans, þróun og starfi í næstum níutíu ár.

 

Að haldinn sé einskonar neyðarfundur í lagadeild Háskóla Íslands til að ræða samkeppnisstöðu hennar við deildir, sem eru að slíta barnsskónum, staðfestir enn hve vel hefur tekist hjá hinum nýju deilum og hve vinsælar þær eru, þrátt fyrir há skólagjöld. Vilji Háskóli Íslands bæta stöðu sína og sitja við sama borð, eiga forystumenn hans að krefjast þess að fá að innheimta skólagjöld og vera tilbúnir í slaginn um þau.

 

Góðir áheyrendur!

 

Ég hef kosið að ræða háskólastefnu hér á þessari stundu, því að hún er til marks um nýja tíma í þjóðfélagi okkar. Framkvæmd hennar kallar á ný vinnubrögð, þar sem kröfur eru aðrar en áður, kröfur, sem sumir standast en aðrir ekki.

 

Sjálfstæðu háskólarnir hafa á skömmum tíma sett sterkan svip á menntalíf þjóðarinnar. Viðskiptaháskólinn á Bifröst er þar að auki mikil og góð lyftistöng í byggðarlagi sínu. Hann staðfestir gildi þess að nýta sér tækifæri breytinga í stað þess að óttast breytingar.

 

Ég hvet ykkur, sem héðan haldið stolt í dag með skírteini ykkar, til að nýta ykkur einnig tækifærin í breytingum í stað þess að óttast þær. Ég hvet ykkur til þess að

verða virkir þátttakendur í því að gera Ísland að enn betra landi tækifæranna.

 

Megi ykkur vegna vel! Innilega til hamingju!