27.4.1999

Ársfundur Rannsóknarráðs Íslands

Ársfundur
Rannsóknarráðs Íslands
Salnum Tónlistarhúsi Kópavogs
27. apríl 1999


Í hinu mikla skáldverki Halldórs Laxness, Sjálfstæðu fólki, sem nú hefur verið valið bók aldarinnar, er frumstæðri frelsisþrá Bjarts í Sumarhúsum lýst með snilldartökum Nóbelskáldsins.

Á sögunni er einnig önnur hlið, sem dr. Kristján Kristjánsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, hefur lýst með þessum hætti: „Þrátt fyrir meint traust Íslendinga á menntakerfinu og vilja okkar, að minnsta kosti í orði, til að gera veg mennta og vísinda sem mestan, bögglast hér enn fyrir brjósti okkar eins konar Sumarhúsaviðhorf eða eymdarheimspeki: oft fái sá mát sem menntina beri hærri, verkfræðingar mígi helst upp í vindinn, bókvitið verði á endanum ekki í askana látið og þar fram eftir götunum. Að þessu leyti líkjumst við enn frumstæðu veiðimannasamfélagi fremur en hinum tæknivæddu upplýsingasamfélögum í kringum okkur sem keppast við að efla og örva metnaðarfulla fræðimennsku."

Við Íslendingar glímum enn við þennan vanda - aðdáun á þeim, sem brjótast áfram af brjóstvitinu og óttafulla minnimáttarkennd gagnvart menntamönnum og fræðingum.

Skilin milli atvinnulífs og skóla, rannsókna og vísinda, minnka þó ár frá ári. Æ fleiri stjórnendur fyrirtækja átta sig á því, hve mikils virði er að ráða vel menntað fólk til starfa. Þá hefur sú gleðilega þróun orðið, að fyrirtæki á Íslandi hafa stóraukið hlut sinn við fjármögnun rannsókna, jafnvel hraðar en búast mátti við miðað við stærð og bolmagn þeirra.

Í ræðu minni hér á þessum vettvangi í fyrra gerði ég grein fyrir inntaki stefnunnar, sem þá hafði nýlega verið kynnt undir kjörorðinu: Enn betri skóli. Þar var lagt á ráðin um inntak í nýjum námskrám fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

Vinnu við allar þessar námskrár er nú lokið. Þær taka allar gildi á þessu ári og koma til framkvæmda stig af stigi. Þegar menn meta námskrárnar verða þeir að hafa hugfast, að þær eru samdar með samfellu og stígandi í huga. Í fyrsta sinn í skólasögu þjóðarinnar hefur innra starfið á þremur fyrstu skólastigunum verið mótað með þessum hætti.

Við gerð námskránna fyrir grunnskólann var til dæmis tekin ákvörðun um að auka nám verulega í náttúrufræðigreinum í yngri bekkjum skólans. Kennsla í stærðfræði vex einnig á yngri árum. Tungumálakennsla hefst fyrr en áður og enska verður fyrsta erlenda málið. Tækifæri eru veitt til að bjóða þriðja erlenda tungumálið í grunnskóla. Upplýsingatæknin skipar veglegan sess og enginn á að útskrifast úr grunnskóla án þess að kunna á lyklaborðið. Mikill þungi er á íslenskunám. Ýtt er undir sköpunarþörf með listnámi og sjálfstraust nemenda á að auka með nýrri námsgrein, lífsleikni.

Stefnan er, að nemendur hafi hlotið góða almenna menntun, þegar þeir koma úr grunnskóla og séu þess vegna betur undir það búnir en nú til að sérhæfa sig í framhaldsskóla.

Það verður bylting að því er starfsnámið varðar. Menntamálaráðuneytið hefur forgöngu um gerð námskráa fyrir bóknámsbrautir og listnám en atvinnulífið sjálft gerir tillögur um inntak starfsnámsbrautanna. Skipuð hafa verið fjórtán starfsgreinaráð til að skipuleggja nám á jafnmörgum eða fleiri starfsnámsbrautum. Fullyrði ég, að þessi nýskipan og áhrif hennar á öllum sviðum atvinnulífsins eru þegar farin að valda viðhorfsbreytingu í mörgum starfsgreinum. Tillögur um nýjar námsbrautir og nýskipan starfsnáms eru að fæðast.

Skólakerfið mun næstu ár þreyta mikla prófraun vegna nýrra krafna frá atvinnulífinu. Raunar er ég þeirrar skoðunar, að meira en hæpið sé að draga mörk á milli skóla og atvinnulífs. Tugir þúsunda manna eru svið störf í skólum. Framhaldsskólar láta verulega að sér kveða við þróun atvinnulífsins í samvinnu við það. Háskólar ná til nemenda langt utan veggja sinna, þeir teygja sig inn á heimili og í fyrirtæki.

Fjarnám veldur því að nemendur eru ekki lengur háðir stað og stund, vilji þeir menntast. Símenntun og endurmenntun eru leiðir til að efla innviði fyrirtækja. Einstaklingar styrkja stöðu sína að loknu hefðbundnu námi og njóta meiri lífshamingju með því að nýta sér námskeið hjá hinum færustu mönnum, sem veita fræðslu á öllum sviðum.

Ný skólastefna á að verða meira en orð á blaði um skýr markmið, sem eru skilgreind og sett fram í námskrám. Hún verður að skila augljósum árangri innan skólastofunnar, í sambandi kennara og nemenda og skóla og heimila. Miklu skiptir, að það takist að virkja hina best menntuðu til að miðla af þekkingu sinni og henni sé síðan skilað á farsælan hátt til áhugasamra nemenda, sem nálgast viðfangsefni sín af opnum huga og fróðleiksfýsn.

Stórfellt átak verður gert í námsefnisgerð og við endurmenntun kennara. Vil ég á þessum vettvangi hvetja okkar fremstu menn í rannsóknum og vísindum til að taka þátt í þessu átaki, svo að skólarnir fái notið krafta hinna hæfustu og bestu og þekking ykkar skili sér sem fyrst inn í skólakerfið. Nú gefst einstakt tækifæri.

Fjórða skólastigið, háskólastigið, hefur einnig verið að taka á sig nýja mynd undanfarna mánuði. Ný háskólalög, sem tóku gildi 1. janúar 1998, gera ráð fyrir ríkisháskólum og einkaháskólum.

Tveir einkaháskólar hafa komið til sögunnar. Viðskiptaháskólinn í Reykjavík, sem hóf störf síðastliðið haust, og Listháskóli Íslands, sem tók formlega til starfa undir stjórn rektors um síðustu áramót. Þetta eitt eru mikil tíðindi. Hitt hefur einnig gerst, að skipulagi Háskóla Íslands hefur verið gjörbreytt með nýjum sérlögum, sem taka gildi eftir fáeina daga, eða 1. maí. Ný lög hafa einnig verið samþykkt um Háskólann á Akureyri og taka þau gildi 1. júlí. Lagt hefur verið á ráðin um það, hvernig haga beri breytingum á Tækniskóla Íslands á grundvelli nýju háskólalaganna.

Frá því að fyrstu lögin um Háskóla Íslands voru sett 1909 hefur ekki verið gerð jafnróttæk breyting á stjórnarháttum skólans. Sjálfstæði hans er aukið og þar með einnig ábyrgð stjórnenda hans á eigin málum. Menntamálaráðherra skipar í fyrsta sinn menn í háskólaráð, tvo af tíu, sem sitja í ráðinu.

Fjárhagsleg tengsl háskóla og ríkisvaldsins eru að taka breytingum á grundvelli samninga. Kjaramál háskólakennara hafa einnig verið í mikilli gerjun, eftir að kjaranefnd úrskurðaði um laun prófessora.

Háskólar eru eins og aðrir skólar til vegna nemendanna. Af hálfu stjórnvalda hafa verið teknar margar ákvarðanir, sem bæta hag nemenda. Ég nefni hér, að fé til Rannsóknanámssjóðs hefur aukist ár frá ári. Innan háskólanna, einkum Háskóla Íslands, er lögð meiri áhersla en áður á framhaldsnám. Athyglisvert er, hve áhugi á framhaldsnámi við Kennaraháskóla Íslands eykst jafnt og þétt.

Keppni háskóla um nemendur takmarkast ekki lengur af hnattstöðu, því að allur heimurinn er nú einn menntamarkaður. Hefðbundnir háskólar keppa ekki aðeins innbyrðis heldur einnig við nýja tegund af háskólum, sem öflug fyrirtæki reka. Þau hafa flest lengi rekið stofnanir í þágu rannsókna og þróunar. Nú eru fyrirtækin að fikra sig inn á nýjar brautir í menntamálum. Líklegt er, að innan tíðar þyki ekki aðeins alþjóðlegur gæðastimpill að hafa háskólapróf frá Oxford eða Harvard, heldur einnig frá Intel eða Microsoft.

Í háskóla starfa menn ekki í vernduðu samfélagi heldur í harðri samkeppni. Þar skiptir ekki síður máli en á öðrum vettvangi, að fyrirkomulag og stjórnarhættir tryggi, að kraftar allra nýtist sem best, jafnt nemenda sem kennara. Þeir tapa, sem hræðast breytingar í stað þess að grípa tækifærin, sem í þeim felast.

Farsæl framkvæmd nýju skólastefnunnar ræðst meðal annars af því, hvernig skilaboð háskólar senda til framhaldsskólanemenda. Frelsi nemenda til að móta námsleiðir er meira en áður. Vilji háskóladeildir laða til sín nemendur verða þær að gera það með markvissum hætti og í samvinnu við framhaldsskóla, kennara innan þeirra og nemendur. Áhuga- og afskiptaleysi skilar ekki frekar árangri á þessu sviði en öðrum.

Vilji stjórnvöld halda áfram að framkvæma nýju skólastefnuna með skipulegum hætti á næsta kjörtímabili ber þeim að beina athygli sinni sérstaklega að háskólastiginu, rannsóknum og vísindum. Þetta vil ég undirstrika. Efna þarf til víðtækra umræðna um inntak háskólamenntunar og hlutverk háskóla við nýjar aðstæður. Reynslan sýnir, að það eitt fellur í góðan jarðveg að stofna til almennra umræðna um skólamál á jákvæðum forsendum í því skyni að virkja krafta allra til nýrra átaka. Á grundvelli víðtæks samstarfs og samráðs á síðan að setja háskólum skýr markmið innan nýrra laga og með hliðsjón af nýjum kröfum.

Stjórnvöld taka ekki ákvarðanir um inntak í rannsóknum og vísindum. Þau ráða því ekki heldur, hvernig staðið er að verki í skólastofunni. Þá kröfu má hins vegar gera til stjórnmálamanna, að þeir sýni í verki, hvaða aðferðum þeir vilja beita við úrlausn mála og hvort þeim tekst að ná markmiðum sínum.

Á síðasta ársfundi Rannsóknarráðs Íslands var kynnt ný stefna og áform um að framkvæmd yrði markáætlun um rannsóknir í upplýsingatækni og umhverfismálum. Stefnt skyldi að mælanlegum árangri með áætluninni og sérstök áhersla lögð á að auka þátttöku ungs vísindafólks í þessu starfi og þverfaglega samvinnu vísindamanna.

Þessi stefna hefur gengið eftir. Þegar hefur verið veitt 115 milljónum króna til þessarar áætlunar og 85 milljónir króna eiga renna til hennar á næsta ári. Alls er gert ráð fyrir, að 580 milljónir króna renni úr ríkissjóði til áætlunarinnar.

Ég boðaði einnig í ræðu minni á síðasta ári, að gerð yrði úttekt á grunnrannsóknum á Íslandi og jafnframt á áhrifum þátttöku Íslands í rammaáætlun Evrópusambandsins um stuðning við rannsóknir og þróun. Niðurstaða í úttektinni á grunnrannsóknum verður kynnt síðar á þessum fundi. Skýrsla um áhrif fjórðu rammaáætlunarinnar á Íslandi birtist í desember 1998. Aðild Íslands að fimmtu rammaáætluninni hefur jafnframt verið tryggð. Unnið hefur verið að því að styrkja stöðu okkar Íslendinga í alþjóðlegu rannsóknasamfélagi meðal annars með því að efla tengslin við Bandaríkin og Kanada.

Á næsta ári gefst okkur einstakt tækifæri til að kynna íslenskan menningararf og Ísland samtímans í Norður-Ameríku, meðal annars þegar Smithsoniansafnið setur upp mikla víkingasýningu, sem verður þungamiðjan þar, þegar fagnað er nýju árþúsundi. Sýningin fer til fjölmargra borga í Bandaríkjunum og jafnframt til Kanada. Þá má þess geta, að íslenskar bókmenntir verða sérstaklega kynntar í bókasafni Bandaríkjaþings.

Er nauðsynlegt fyrir alla, sem huga að því að styrkja stöðu sína í samskiptum við Bandaríkin að hafa þessa atburði í huga. Þeir gefa einstakt tækifæri á mörgum sviðum.

Ég vil í þessu samhengi árétta nauðsyn þess, að við gerð þjóðhagsáætlana sé lagt mat á hlut menntunar, rannsókna og þróunar. Í því felst of mikil fastheldni á gömul vinnubrögð að leggja ekki þjóðhagslegt mat á þessa mikilvægu þætti atvinnulífsins. Menntun, rannsóknir og vísindi ráða mestu um samkeppnishæfni fyrirtækja og þjóða. Fyrirtæki fá ekki fleira og betur menntað fólk til starfa nema menntun sé metin í launaumslaginu.

Opinberum útgjöldum eru og verða takmörk sett. Aukin skattheimta þrengir að einstaklingum og fyrirtækjum. Skattheimta getur fljótt snúist í andhverfu sína, ef henni er ætlað að auka hagvöxt. Það eru einstaklingar og fyrirtæki þeirra, sem knýja á um nýjungar og nýting fjármuna batnar ekki við að fara um opinberar hendur. Á vettvangi ríkisvaldsins er því ekki síður nauðsynlegt huga að betri rekstri en hjá einkaaðilum. Rannsóknarráð hefur sent ríkisstjórninni áfangaskýrslu um útfærslu sameiginlegrar stefnu rannsóknastofnana atvinnuveganna um almennan rekstur þeirra, það er stjórnun, þjónustu, rannsóknir og þróunarstarf.

Verið er að stíga nýtt skref í samvinnu rannsóknastofnana á Akureyri með því að stofna rekstrarfélag um matvælasetur þar í samvinnu við háskólann. Um leið og mönnum verður æ betur ljóst, að ekki næst árangur í rannsóknum nema með þverfaglegri samvinnu, er nauðsynlegt að stjórnkerfi innan rannsókna- og vísindasamfélagsins taki mið af þessari staðreynd.

Davíð Oddsson forsætisráðherra komst þannig að orði í ávarpi, sem hann flutti, þegar nýsköpunarverðlaun Rannsóknarráðs og Útflutningsráðs voru afhent 3. mars síðastliðinn:

„Ég hef áður gert að opinberu umtalsefni að rekstur stofnana á borð við Byggðastofnun, Nýsköpunarsjóð, Útflutningsráð, Rannsóknarráð, rannsóknastofnanir, fjárfestingaskrifstofur, Ferðamálaráð er ekki endilega sjálfgefinn í óbreyttri mynd. Ég held reyndar að allir geti verið sammála um að margt gott verk hafa þessar stofnanir unnið. Þessu kerfi má samt breyta, ef við teljum okkur geta nýtt takmarkað fé okkar betur og haft þessa umgjörð hagkvæmari og einfaldari. Hluti af núverandi fyrirkomulagi átti vel við þegar nýsköpun hér á landi, og reyndar efnahagsmál í heild sinni, voru með allt öðrum hætti en þau eru í dag. Þarna þarf því að fara fram endurmat á næstu misserum."

Öll erum við líklega sammála um það hér á þessum fundi, að of litlu opinberu fé sé varið til rannsókna. Þróunin hefur þó orðið á þann veg á þessum áratug, að hlutfall rannsókna af vergri þjóðarframleiðslu er að vaxa úr einu prósenti í tvö. Í gagnrýni á þessa hlutfallstölu bera menn okkur saman við hið besta og vilja eðlilega ná því marki.

Sú spurning vaknar, hvort ekki sé ástæða til að líta á fleira en slíkar hlutfallstölur. Er keppt um opinbert fé til rannsókna og nýsköpunar með öðrum hætti hér á landi en annars staðar? Verjum við of miklu af takmörkuðu rannsóknafé í stjórnun og yfirbyggingu, mat og eftirlit? Skilgreinum við fjárveitingar okkar til rannsókna og þróunar með sama hætti og aðrar þjóðir? Erum við enn svo háð eymdarheimspekinni úr Sumarhúsum, að við skiljum ekki að vísindin efla alla dáð?

Ég tek heilshugar undir með forsætisráðherra, þegar hann segir, að hinu opinbera kerfi megi breyta, ef við teljum okkur geta nýtt takmarkað fé okkar betur og haft umgjörðina hagkvæmari og einfaldari. Raunar eigum við að breyta þessu kerfi, ef við teljum okkur ekki ná þeim árangri, sem að er stefnt. Markmið okkar er ekki að reka opinberar rannsóknastofnanir þeirra sjálfra vegna heldur að beina opinberu fjármagni til rannsókna og þróunar.

Vísinda- og háskólasamfélagið er að taka breytingum, hvað sem opinberum stofnunum og starfsemi þeirra líður. Áður gat ég um tvo nýja einkarekna háskóla. Störf þeirra og kröfur setja þegar svip sinn á háskólasamfélagið. Sífellt fleiri vísindamenn eru að hasla sér völl utan hins opinbera kerfis. Þeir starfa ekki aðeins innan öflugra einkafyrirtækja heldur sem sjálfstæðir sérfræðingar og verktakar. Um þessar mundir sjást ný dæmi um þetta á sviði félags- og hugvísinda. Sjálfstætt starfandi vísindamenn vilja standa jafnfætis þeim, sem starfa við opinberar stofnanir. Nýlega gaf ég út reglur um Launasjóð fræðiritahöfunda, sem starfar undir merkjum Rannsóknarráðs Íslands, og á að auðvelda fræðimönnum að sinna ritstörfum.

Keppni um rannsóknafé eykst jafnt og þétt. Leita ber allra leiða til að stækka þá sjóði, sem standa við bakið á rannsóknum og þróun. Í því efni á bæði að huga að nýjum tekjustofnum og einnig að ráðstöfun á fjármunum, sem eru fyrir hendi. Forgangsröðun í þágu rannsókna felst ekki einungis í því að auka útgjöld ríkissjóðs heldur einnig hinu að ráðstafa fé á annan hátt en nú er gert.

Góðir áheyrendur!

Í skýrslu Rannsóknarráðs, sem ég lagði fram á alþingi, fyrr á þessu ári segir meðal annars:

„Á Íslandi eru kjöraðstæður til rannsókna á mörgum sviðum vísinda og tækni. Horfur ættu því að vera góðar á því að íslenskir vísinda- og tæknimenn geti stundað öflugar rannsóknir á alþjóðlegan mælikvarða og átt í víðtæku, alþjóðlegu samstarfi sem styrkt geti stöðu Íslands á komandi árum. Rannsóknarráð telur að þessar aðstæður beri að nýta með markvissum hætti og muni það opna Íslendingum ný tækifæri á komandi árum."

Ég styð eindregið þessa framtíðarsýn. Vil ég þakka Þorsteini Inga Sigfússyni, formanni Rannsóknarráðs, og samstarfsmönnum hans ánægjulegt samstarf á liðnu ári. Vel hefur miðað og ráðið hefur víða látið að sér kveða með góðum árangri. Öll stefnum við að því að gera enn betur og höfum sannarlega kjöraðstæður til þess.

Með því að styrkja fyrstu skólastigin höfum við stuðlað að því að almenn menntun þjóðarinnar batni. Með því að leggja mikla áherslu á nýtingu hinnar nýju upplýsingatækni og opna öllum Íslendingum leiðir til að nýta sér hana viljum við kenna öllum vinnubrögðin, sem stuðla að bestum árangri í upplýsingasamfélaginu. Með því að standa vel og skipulega að háskólamenntun, rannsóknum og vísindum eflum við ekki aðeins þessa mikilvægu þætti þjóðlífsins heldur styrkjum allt starf í skólum, opinberum stofnunum og einkafyrirtækjum.

Á Íslandi er ekki lengur frumstætt veiðimannasamfélag, hafi Íslendingar nokkru sinni geta kallast það. Hinar fornu rituðu heimildir ættu að minna okkur á, að við höfum ávallt búið í samfélagi, þar sem þekking og upplýsingar hafa verið í hávegum hafðar. Okkur vegnar því aðeins vel, ef við skilgreinum stöðu okkar á réttum forsendum. Athygli beinist nú að Íslandi vegna rannsókna í mörgum greinum. Hátækni skapar okkur ný og áður óþekkt tækifæri. Við búum í háþróuðu mennta- og menningarsamfélagi, sem hefur náð góðum árangri. Við viljum standa í fremstu röð þeirra þjóða, sem lengst hafa náð í krafti þekkingar. Höldum því áfram að auka hlut menntunar, rannsókna og vísinda og Ísland verður land sífellt fleiri og betri tækifæra.