20.10.2005

Skipulag ákæruvalds í kjölfar niðurstöðu Hæstaréttar.

Umræða utan dagskrár á alþingi 20. október 2005

 

 

Hinn 10. október vísaði hæstiréttur frá héraðsdómi hluta þess opinbera máls, sem háttvirtur þingmaður nefndiog kallaði Baugsmálið. Nánar tiltekið 32 ákæruliðum af 40, en lagði fyrir héraðsdóm að taka 8 ákæruliði til efnismeðferðar, og hnekkti þar með frávísunarúrskurði héraðsdóms hvað þá liði varðaði.

 

Háttvirtir þingmenn vita, að ákæruvaldið hefur þá lagaskyldu, að sjá til þess, að ákært sé vegna refsiverðrar háttsemi. ef því þykir hún hafa átt sér stað. Þótt ákæruvaldið hljóti ætíð að búa ákærur sínar svo úr garði, að þær fái efnismeðferð, má ekki hrapa svo að ályktunum að frávísun máls frá dómi séu fáheyrð tíðindi. Það er sífellt verið að vísa málum frá dómi. Einkamálum oftast en einnig opinberum málum.

 

Eftir þá frávísun, sem hér um ræðir sneri ríkislögreglustjóri sér til ríkissaksóknara hinn 11. október og að beiðni hans ákvað ríkissaksóknari að taka til athugunar þau gögn málsins, sem liggja að baki ákæruliðunum 32, til að ganga úr skugga um, hvort efni væri til þess að höfða mál að nýju á grundvelli gagnanna.

 

Í bréfi til mín dags. 13. október segist ríkissaksóknari hafa hugað að því, hvort skyldleiki sinn við starfsmenn hjá KPMG Endurskoðun hf. og starfstengsl þeirra við ákærða endurskoðendur gætu valdið vanhæfi sínu, en komist að þeirri niðurstöðu, að svo væri ekki.

 

Ríkissaksóknari segist hins vegar síðar hafa orðið þess var, að óhlutdrægni sín við meðferð málsins væri dregin í efa vegna þessara tengsla og þar með teldi hann sig ekki bæran til að ganga til þess verks, sem áður er lýst, og þess vegna væri nauðsynlegt að setja annan löghæfan mann til að vinna verkið eins og fyrir sé mælt í 1. mgr. 30. gr. laga um meðferð opinberra mála.

 

Eftir að þetta bréf barst mér hinn 14. október síðastliðinn hef ég unnið að því að finna þennan löghæfa mann og vænti ég þess, að geta innan skamms tíma skýrt frá því, hver hann verður.

 

Ég legg á það ríka áherslu, að til starfa sem ríkissaksóknari í þessu einstaka máli ráðist lögfræðingur með mikla lögfræðilega þekkingu og reynslu. Lögfræðingur, sem nýtur óskoraðs trausts, og fær aðstöðu, aðstoð og tóm til að leiða þennan þátt málsins til lykta.

 

Málinu þarf að ljúka af festu og alvöru. Við fjöllum hér um úrlausnarefni, sem hvílir þungt á hinum ákærðu, réttarkerfinu, viðskiptalífinu og í raun allri þjóðinni. Við þingmenn hljótum að vilja, að málið sé til lykta leitt í samræmi við þau lög, sem hér hafa verið sett.

 

Því hefur verið haldið fram, að ég sé vanhæfur til að bregðast við þessu erindi ríkissaksóknara. Fullyrðingar í þá átt styðjast hvorki við stjórnsýslulög, skýringar á þeim né dómafordæmi hér á landi eða í Noregi og Danmörku, svo að aðeins tvö nálæg ríki séu nefnd til sögunnar.

 

Ég leyfi mér í lok máls míns að vitna í tvo fræðimenn á sviði stjórnsýsluréttar.

 

Hans Gammeltoft-Hansen, umboðsmaður danska þingsins, lýsti í fræðiriti um stjórnsýslurétt frá árinu 2002 þeirri skoðun sinni, að ummæli stjórnmálamanna um viðhorf þeirra til ákveðinna mála, í tilefni af einhverjum atburðum líðandi stundar, yllu almennt ekki vanhæfi þeirra.

 

Dr. Páll Hreinsson, forseti lagadeildar Háskóla Íslands, sem samið hefur doktorsritið Hæfisreglur stjórnsýslaga, telur, að hafi ráðherra tjáð sig um viðkvæm einkamálefni manns í tengslum við úrlausn máls, sem ekkert tilefni hafi verið til að fjalla um á opinberum vettvangi, kunni ráðherra að verða vanhæfur til meðferðar málsins. Í því máli, sem hér um ræðir, er atvikum alls ekki þannig háttað.