17.4.1999

Skólamálaþing - Akureyri

Skólamálaþing
Inn í nýja öld 17. apríl 1999
Menntaskólanum á Akureyri

Inn í nýja öld

Ég fagna því framtaki Félags íslenskra leikskólakennara, Kennarasambands Íslands og Hins íslenska kennarafélags að efna til þessa skólamálaþings undir fyrirsögninni: Inn í nýja öld. Vil ég nota tækifærið hér í dag til að þakka forystumönnum félaganna og félagsmönnum öllum gott samstarf á kjörtímabilinu, sem er að líða. Sameiginlega höfum við staðið að miklum breytingum á öllu íslenska skólakerfinu síðustu fjögur árin.

Fyrstu almennu fræðslulögin eru frá árinu 1908 og þau mörkuðu upphaf nýrra tíma í menntunarsögu þjóðarinnar. Mikill og góður árangur hefur náðst undanfarin 90 ár. Á síðasta áratug aldarinnar hafa þó orðið meiri umskipti í íslenskum menntamálum en nokkru sinni fyrr á jafnskömmum tíma.

Ný leikskólalög hafa komið til sögunnar. Síðustu fjögur ár höfum við flutt grunnskóla til sveitarfélaga. Hrundið nýjum lögum um grunnskóla og framhaldsskóla í framkvæmd. Meiri áhersla er lögð á starfsnám og samvinnu við atvinnulífið en nokkru sinni fyrr. Nýjar námskrár hafa verið samdar fyrir þrjú fyrstu skólastigin, leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla með þátttöku meira en tvö hundruð kennara. Í fyrsta sinn eru námskrár fyrir öll skólastigin þrjú unnar samhliða. Þær taka allar gildi á þessu ári en koma til framkvæmda á lengri tíma. Má ætla, að þetta fyrirkomulag leiði til góðrar samfellu og stígandi í námi barna og unglinga.

Á kjörtímabilinu hafa ný lög verið samþykkt fyrir háskólastigið. Ríkisháskólum hafa verið sett ný sérlög og tveir einkareknir háskólar komið til sögunnar, Viðskiptaháskólinn í Reykjavík og Listaháskóli Íslands auk Samvinnuháskólans í Bifröst. Lögð hefur verið áhersla á að efla rannsóknir og þróun.

Við horfum til framtíðar og búum íslensku þjóðina undir samkeppni á tímum þegar þekking og hugvit varða veginn til framfara og hagsældar. Við náum ekki árangri nema með menntun, rannsóknum og vísindum. Á þetta við um allar greinar atvinnulífsins. Við krefjumst framfara og árangurs og höfnum metnaðarleysi og stöðnun.

Við höfum lagt grunn að því, að í skólasögunni verði aldarlokanna minnst, sem upphafs nýrrar sóknar í menntamálum.

Sprottin er fram ný skólastefna undir kjörorðinu Enn betri skóli. Aldrei fyrr í sögu okkar hafa stjórnvöld mótað stefnu með þessum hætti og ekki hefur heldur fyrr tekist að ná svo víðtækri sátt um slíka stefnu. Umræður um skólamál eru með allt öðrum brag en við höfum kynnst í marga áratugi. Það eitt lofar góðu um framhaldið.

Menntamálaráðuneytið hefur beitt sér fyrir átaki í námsefnisgerð fyrir grunnskóla í samræmi við nýja námskrá. Námsgagnastofnun fær aukna fjármuni til að sinna verkefnum sínum. Af minni hálfu er lögð rík áhersla á, að stofnunin skilgreini hlutverk sitt á þann veg, að hún bjóði út sem mest af þessum miklu verkefnum. Skólavörubúðin hefur verið seld og andvirði hennar nýtist Námsgagnastofnun. Hún hefur einnig fengið aukið fjármagn til að framleiða kennsluhugbúnað.

Upplýsingatæknin er sífellt að opna nýjar víddir. Á UT99, nýlegri ráðstefnu um upplýsingatækni í skólastarfi á vegum menntamálaráðuneytisins í samvinnu við Skýrslutæknifélag Íslands, var lýst mikilum áhuga á því að nýta hina nýju tækni sem mest og best í þágu menntunar. Við Íslendingar stöndum nú þegar mjög framarlega, þegar rætt er um skóla og tæknivæðingu þeirra með tölvum og nettengingum. Jafnframt er útbreiðsla netsins meðal almennings meiri hér á landi en annars staðar í heiminum. Hér á Akureyri eru skólar í fremstu röð, þegar litið er til upplýsingatækninnar og skólastarfs.

Upplýsingatæknin nýtist ekki aðeins innan skólanna heldur gerir hún fólki kleift að stunda fjarnám, oftast óháð stað og stund, jafnt innanlands sem erlendis. Gera þarf átak til að efla dreifikerfi netsins um land allt, svo að allir getið notið sín sem best á upplýsingahraðbrautinni. Ísland og raunar heimurinn allur er að verða einn menntunarmarkaður

Fyrir einstaklinga er menntun æviverk, vilji þeir ekki staðna. Mikilvægt er að gefa kennurum sem flest tækifæri til endurmenntunar. Hefur verið mörkuð skýr stefna í þessu efni af hálfu menntamálaráðuneytisins og er tekið til við að framkvæma hana með nýju skipulagi og meiri fjármunum en áður.

Ráðuneytið beitti sér fyrir athugun á þörf fyrir grunnskólakennara fram til ársins 2010 og hefur nýlega verið gerð grein fyrir niðurstöðum þeirrar athugunar. Skilvirkasta úrræðið er að efla fjarnám á vegum Kennaraháskóla Íslands, gefa þeim, sem eru við störf í skólunum tækifæri að afla sér meiri menntunar. Hvetja þarf nemendur til að leita eftir kennaramenntun við Háskólann á Akureyri til að kraftar innan hans nýtist sem best. Einnig er Kennaraháskóli Íslands tilbúinn til að fjölga nýnemum. Að þessu ber að vinna.

Menntun leikskólakennara hefur verið færð á háskólastig. Fyrst við Háskólann á Akureyri og síðan með því að efla Kennaraháskóla Íslands og fella undir nafn hans þrjá framhaldsskóla, Fósturskólann, Íþróttakennaraskólann og Þroskaþjálfaskólann. Hefur kennaraháskólinn styrkst verulega.

Menntamálaráðuneytið hefur haft frumkvæði að því að koma á samstarfsnefnd um leikskólastigið með þátttöku sveitarfélaga, leikskólakennara og ófaglærðra starfsmanna leikskólanna. Á vettvangi nefndarinnar gefst tækifæri til að ræða sameiginleg málefni og skapa betri samstöðu um starf leikskólanna. Móta þarf stefnu um það, hvernig best er að efla menntun þeirra, sem í leikskólum starfa.

Við göngum ekki vanbúin inn í nýja öld, þegar litið er til innra starfs í skólum og þeirra markmiða, sem við höfum sett okkur.

Útgjöld til menntamála hafa vaxið jafnt og þétt á undanförnum árum. Þeir, sem halda fast í tölur frá árinu 1995, þegar þeir bera útgjöld Íslendinga í menntamálum saman við það, sem gerist meðal annarra þjóða, gefa ekki rétta mynd af stöðunni. Síðan 1995 hafa útgjöld á fjárlögum ríkisins til háskóla hækkað um 2,2 milljarði króna, til framhaldsskóla um 1,5 milljarð króna og um 200 milljónir króna til annarra fræðslumála eða samtals um 3,9 milljarði króna. Ef litið er til grunnskólans og útgjalda ríkisins vegna hans samkvæmt samningi við sveitarfélögin um flutning skólans er hækkunin á milli 1995 og 1999 rúmlega 2,1 milljarður króna. Samkvæmt þessu hafa útgjöld ríkisins til menntamála aukist um 6 milljarði króna á þessu kjörtímabili. Síðan er til þess að líta, að sveitarfélögin hafa varið meira fé til grunnskólans en ríkið gerði og í skýrslu um starfsemi grunnskóla frá 1995 til 1997 segir til dæmis, að á þeim árum hafi öll opinber útgjöld vegna grunnskólans aukist um 4 milljarði króna.

Með því að gera góðan skóla enn betri, er ekki aðeins verið að bæta hag allra viðskiptavina skólans, nemenda, foreldra og samfélagsins í heild, heldur einnig að tryggja, að mikil og meiri fjárfesting í skólastarfi skili betri árangri.

Árangurinn, sem hefur náðst undanfarin ár, við breytingar á öllu skólakerfinu, á ekki síst rætur að rekja til þess, að fylgt hefur verið markvissri stefnu. Það hefur ekki verið hvikað frá henni en leitað samkomulags um leiðir að markmiðinu.

Nú ber að beita samskonar aðferðum við að framkvæma stefnuna í einstökum skólum. Innan skóla er nauðsynlegt að móta stefnu um einstaka þætti í starfi þeirra. Gæðastjórnun í skólastarfi hefur verið kynnt undanfarin ár og nú hefur verið gefin út handhæg íslensk bók um hana. Þar kemur fram, að stefnuleysi stuðlar ekki að árangri í skólastarfi frekar en annars staðar. Mikilvægt er að allir vinni saman, láti starfsemi skólans vera sýnilega og stefni að lokatakmarki í mikilvægum málum.

Ég hvet til þess, að á næsta kjörtímabili verði teknar jafnmikilvægar ákvarðanir til að styrkja og efla háskólastigið og við höfum tekið undanfarin ár í þágu þriggja fyrstu skólastiganna.

Við megum aldrei missa sjónar á því, að skólar eru til vegna nemendanna. Höfuðmarkmiðið er að virkja ungt fólk til meiri árangurs innan veggja skólanna.

Menntun er auður sem aldrei verður frá neinum tekinn. Hún yfirgefur engan en gerir öllum kleift að njóta sín og lífsins. Fyrsta menntunin er veitt í fjölskyldunni. Kærleikur og góð menntun eru bestu gjafir handa hverju barni.

Skólinn tekur við barninu frá fjölskyldunni. Samstarf milli þessara máttarstólpa þjóðfélagsins er óhjákvæmilegt til að börn og unglingar komist til þroska og þjóðin öll gangi með reisn inn í nýja öld.

Ég ítreka þakkir mínar til kennara og forystumanna þeirra fyrir gott samstarf á síðustu árum 20. aldarinnar og óska okkur öllum velgengni, þegar haldið er inn í nýja öld.