Gegn kynferðislegu ofbeldi.
Ráðstefnan: Norden - amnesti for voldsmenn? om handlinger og handlingsrammer overfor seksualisert vold. Grandhóteli, 2. september, 2005.
Mér er ánægja að fá tækifæri til að ávarpa ykkur í upphafi ráðstefnu um aðgerðir gegn kynferðislegu ofbeldi. Spurningin, sem þið spyrjið er alvarleg: Norden - amnesti for voldsmenn? Ekkert okkar vill búa í þjóðfélagi, sem veitir slíkt amnesti eða skjól og þess vegna er markmið okkar sameiginlegt.
Þegar tekist er á við verkefni af þessum toga er mikilvægt að það takist að sameina kraftana í þágu þess, sem að er stefnt. Hér á Íslandi gerðist það síðastliðið vor, að Íslandsdeild Amnesty International, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Samtök um kvennaathvarf, Stígamót og UNIFEM á Íslandi lögðu sameiginlega fram aðgerðaáætlun gegn kynbundnu ofbeldi.
Þegar fulltrúar þessara samtaka kynntu áform sín fyrir mér, sagðist ég fús til að leggja mitt af mörkum til að markmið áætlunarinnar næðu fram að ganga. Ef til vill yrðum við ekki sammála um leiðir að markmiðinu, en við skyldum hins vegar taka höndum saman um að ná því.
Ég vil ekki, að Ísland sé skjól fyrir ofbeldismenn hvorki á þessu sviði né öðrum og ef þörf er á sérstökum aðgerðum til að uppræta kynbundið ofbeldi er ekki um annað að ræða en grípa til þeirra og tryggja til þess lögheimildir.
Áður en ég tók við mínu núverandi embætti, hafði ég verið menntamálaráðherra um nokkurt skeið. Þegar ég er spurður um muninn á þessum tveimur störfum, svara ég gjarnan á þann hátt, að í þeim hafi ég kynnst mannlífinu á tvo ólíka vegu. Í hinu fyrra starfi komu menn gjarnan til að ræða áform sín um að gera góða hluti í mennta- eða menningarmálum enn betur, fullir bjartsýni og með trú á framtíðina. Nú fæ ég frekar að kynnast skuggahlið mannlegrar breytni, þegar fokið virðist í flest skjól og þörf er á opinberri íhlutun til að bjarga því, sem bjargað verður.
Mig langar að vitna í tölvubréf frá konu, sem ég fékk í sumar. Hún var ný gengin úr sambandi, þar sem hún sagðist hafa búið við andlegt og líkamlegt ofbeldi, en hún hefði verið dugleg við að sækja sér hjálp hjá Kvennaathvarfi og félagsráðgjöfum sveitarfélags síns. Hún hefði aldrei verið í óreglu en hið sama væri ekki unnt að segja um fyrrverandi sambýlismann sinn. Síðan segir hún:
„Ég stend ráðþrota þar sem þessi maður sem ég bjó með er virkilega siðlaus, og það sem ég afrekaði í þessu sambandi var litli sonur minn, sem ég elska af öllu mínu hjarta. Þannig er nú samt staðan að er ég leita mér hjálpar þá virðist þetta allt snúast um hvaða rétt minn fyrrverandi á, ekki hvað ég og sonur minn eigum rétt á. Mér er sagt að þar sem ég hef aldrei kært hann né að hann hafi látið á mér sjá þegar hann réðst til atlögu að þá sé þetta í raun orð á móti orði, og þó svo að lögreglan hafi fjarlægt hann út af heimilinu oftar en einu sinni þá sé það ekki nóg þar sem ég kærði hann ekki á þeim tíma.“
Eftir að hafa lýst óreglu mannsins og grimmd hans lýkur konan bréfinu með bón um, að „réttur okkar kvenna sem höfum þurft að sæta ofbeldi verði virtur og lagfræður til að ég og allar þær sem úti eru getum fengið frið til að lifa lífinu, í þokkalegri sátt við guð og menn og getum fengið frið í hjarta.“
Er það ekki einmitt í þessum tilgangi, sem við komum hér saman í dag, að huga að bestu og árangursríkustu leiðunum að þessu markmiði? Að gefa öllum, sem órétti eru beittir, frið í hjarta og frið til að njóta lífsins án ótta við ofbeldi. Hver vill að land sitt sé skjól fyrir þá, sem níðast á rétti annarra?
Nýlega kom til mín kona og skildi eftir hjá mér skjöl, þar sem reynslu hennar er lýst. Hún segir sambýlismann sinn til 13 ára hafa beitt sig andlegu og líkamlegu ofbeldi, eins og sjá megi á fjölmörgum læknaskýrslum. Hann hafi stjórnað fjármálum þeirra og notað kennitölu hennar að vild. Síðan segir orðrétt:
„Ég var nokkurnveginn viljalaust verkfæri í höndum hans og stofnaði til þeirra skulda sem hann bauð, enda hefði ég annars hlotið enn meiri líkamlega áverka. Notkun á kennitölu minni gat orðið til þess að ég slippi við barsmíðar. Að sjálfsögðu kostaði þetta gjaldþrot.“
Í þessum gögnum sem mér voru afhent, er spurningunni: Hvers vegna lætur hún fara svona með sig? svarað á þennan hátt:
„Hugsar nokkur um sálina sem er særð og niðurbrotin? Hugsar nokkur um líkamann sem er svo marinn að það er erfitt að hreyfa sig? Hugsar nokkur um sorg hennar vegna glæpa mannsins sem hún treysti? Hugsar nokkur um sjálfsálit konu sem orðin er þræll ofbeldis? Og gleymum ekki að konan er yfirkomin af þreytu.“
Þessi kona kom til mín til að ræða leiðir út úr fjárhagslegum vandræðum, sem hún glímir við eftir slit sambúðarinnar. Hún situr uppi með skuldabagga vegna fjármálaóreiðu sambýlismannsins fyrir utan hin andlegu sár, sem kannski ná aldrei að gróa.
Ég veit, að þið þekkið öll sögur af þessum toga, en ég leyfi mér að nefna þessi tvö dæmi til að láta ykkur vita, að þær eru einnig sagðar mér í tölvunni minni eða skrifstofu.
Ég ítreka að ekkert okkar vill, að þjóðfélög okkar séu skjól fyrir þá, sem fara svona með annað fólk.
En það er ekki nóg að vilja og vona það besta. Ég hef sannfærst um að nauðsynlegt sé að bregðast við og gera það sem í okkar valdi stendur og heilbrigð skynsemi býður til að taka á vandamálum af þeim toga sem ég hef lýst og ég veit að þið þekkið vel. En þó verkefnið sé mikilvægt og persónulegir hagsmunir einstaklinganna brýnir, þá er auðvitað nauðsynlegt að vanda þau skref sem stigin eru. Þannig verður best tryggt að þau komi að því gagni sem við stefnum að, sem og að ekki raskist þær grundvallarreglur sem við búum við, meðal annars í refsirétti og réttarfari.
Á síðasta ári fól ég refsiréttarnefnd að gefa mér álit á þeim sjónarmiðum sem fram höfðu komið, þess efnis að setja skyldi í hegningarlög sérstakt ákvæði sem tæki á því sem við nefnum heimilisofbeldi, í stað þess að styðjast þar við hin hefðbundnu líkamsárásarákvæði hegningarlaganna.
Vitaskuld er það ekki svo að heimilisofbeldi sé refsilaust í dag, það er vitanlega refsivert að beita annan mann ofbeldi, hvort sem menn eru tengdir eða hvor öðrum ókunnugir. En hin hefðbundnu líkamsárásarákvæði hegningarlaga taka hins vegar ekki sérstaklega á því ef brotamaðurinn er nákominn þeim sem hann brýtur á. Varla þarf að hafa mörg orð um það að það er flestum meira áfall að verða fyrir árás einstaklings sem hann þekkir og treystir heldur en að lenda í klónum á ókunnugum. Mér þykir því mega færa góð rök að því að við refsiákvörðun sé sérstaklega tekið á tengslum aðilanna að þessu leyti.
Refsiréttarnefnd hefur nú skilað mér áliti sínu og þar leggur nefndin til að við almenn hegningarlög verði bætt sérstakri refsiþyngingarástæðu, þar sem náin tengsl geranda og brotaþola þykja hafa gert árásina grófari.
Þá leggur nefndin til, að ákvæði 191. greinar hegningarlaganna verði gerð skýrari, meðal annars vegna ákvæða stjórnarskrár sem krefjast þess að refsiákvæði séu skýr svo að þeim verði beitt.
Í þessari 191. grein hegningarlaganna segir að ef maður misbýður með stórfelldri vanrækslu eða móðgunum eiginkonu sinni eða eiginmanni, barni sínu eða öðru barni eða ungling undir 18 ára aldri, sem hann hefur til umsjónar eða fósturs, eða manni, sem er skyldur honum eða tengdur í beinan legg upp á við, þá varði það fangelsi allt að 2 árum, en fangelsi allt að einu ári ef hann vanrækir framfærsluskyldu eða greiðslu meðlags til slíkra aðila sem af þeim sökum verða bjargþrota.
Ég hef ákveðið að gera báðar þessar tillögur að mínum og mun fela nefndinni að fara yfir þessa grein hegningarlaganna í því skyni, að skýra hana betur í ljósi refsiheimilda. Mér þykir, eins og áður er sagt, eðlilegt að litið verði sérstaklega til náinna tengsla geranda og brotaþola, og þannig sýni löggjafinn, og væntanlega dómstólar í framhaldinu, að hann líti það sérstaklega alvarlegum augum ef maður, karl eða kona, vinnur sínum nánustu mein. Með því er ekki aðeins unnið hið hefðbundna mein sem hlýst af ofbeldinu, heldur einnig brugðist því trausti sem hver maður vill geta borið til sinna nánustu.
En það er ekki nóg að hafa refsiákvæði. Mál þurfa að upplýsast svo í þeim megi ákæra, dæma og koma fram refsingu ef þannig ber undir.
Rannsókn mála er ákaflega mikilvæg og nauðsynleg. Mikilvægt er, að hvorki sá sem kærir alvarleg brot, né sá sem slík kæra beinist að, hafi ástæðu til þess að ætla að litið sé á brotin sem léttvæg aukaatriði og kvabb sem varla þurfi að sinna.
Ég tel alveg víst, að lögregla og aðrir sem að þessum málum koma, geri það af fullri alvöru og einlægni. Hitt er annað mál, að sjálfsagt er að leggja jafnan áherslu á að vinnubrögð og verklag á þessu mikilvæga sviði séu eins vönduð og öflug og við ætlumst til. Fyrir nokkru fól ég embætti ríkislögreglustjóra að semja drög að verklagsreglum um meðferð mála er varða heimilisofbeldi, með það að markmiði að rannsókn verði skýr og markviss og í samræmi við það hversu alvarlegum augum við lítum þessi brot. Drög þessi hafa verið til meðferðar í ráðuneytinu og í refsiréttarnefnd og hef ég nú sent þau til ríkislögreglustjóra til fullnaðarafgreiðslu. Ég geri mér góðar vonir um, að væntanlegar reglur skili góðum árangri og markvissum rannsóknum.
En þegar rannsókn er lokið, þá tekur oft ákærumeðferð við. Miklu skiptir að þau lagaákvæði sem þar reynir á, séu skynsamleg, bæði til að brot upplýsist og refsingu verði fram komið, en einnig til þess að réttaröryggis sé gætt gagnvart þeim sem ákæru sætir. Við megum vitaskuld ekki gleyma hinum ákærða einstaklingi, hann á rétt á að færa fram sínar varnir fyrir hlutlausum dómara og réttarkerfið verður að líta af sanngirni og hlutleysi á málavöxtu.
Eins og þið vitið hafa ákvæði kynferðisbrotakafla hegningarlaga oft komið til umræðu og ýmsum þótt þar þörf á endurskoðun og endurbótum. Ég tel nauðsynlegt að farið sé yfir þessi lagaákvæði og að við þá yfirferð verði ný refsiréttarleg sjónarmið höfð að leiðarljósi og tekið mið af alþjóðlegri þróun á þessu sviði auk íslenskrar lagahefðar. Ég ákvað síðastliðið vor að beita mér fyrir slíkri endurskoðun nánar tiltekið er varðar eftirtalin brot:
1. Nauðgun og önnur tengd brot.
2. Kynferðisbrot gegn börnum.
3. Vændi.
Ragnheiður Bragadóttur, prófessor, vinnur nú að málinu í umboði mínu og hugsa ég gott til væntanlegra tillagna hennar.
Góðir áheyrendur.
Ég vona að þið skynjið af orðum mínum að í dómsmálaráðuneytinu er bæði áhugi og vilji til þess að löggjöf og annað það sem að stjórnvöldum snýr í þessum málum sé eins vel úr garði gert og vera má. Hitt er svo annað mál, eins og þið skiljið auðvitað, að ekki verður allur vandi leystur með löggjöf eða öðrum opinberum aðgerðum. En það sem í mínu valdi stendur, og skynsamlegt er að gera; ég er meira en fús til að vinna að því. Ég fagna öllum skynsamlegum tillögum frá ykkur og öðrum þeim sem áhuga hafa á þessum málum og vona að í sameiningu getum við náð góðum árangri.
Ég fagna því að þið komið saman hér á Íslandi til norrænnar ráðstefnu um þessi mál og þakka Stígamótum frumkvæðið að ráðstefnunni um leið og ég óska ykkur góðs gengis í mikilvægum störfum ykkar.