19.8.2005

Um velgengni í utanríkismálum.

Sendiherrastefna, 19. ágúst, 2005.

 

 

 

Utanríkisstefna þjóðar mótast af gæslu hagsmuna hennar. Að sjálfsögðu byggist stefnan á hugsjón eða hugmynd um, hvað þjóðinni sé fyrir bestu, en að lokum er spurt, hver séu rök  stjórnvalda fyrir fjárveitingum til utanríkisþjónustu eða annarra athafna á alþjóðavettvangi. Skapist óhæfilegt eða óskýranlegt bil  milli slíkra athafna og hagsmuna skattgreiðenda er voðinn vís fyrir stjórnmálamenn, að minnsta kosti í lýðræðisríkjum. Þess vegna er mikilvægt, að ávallt sé staðið þannig að framkvæmd utanríkisstefnu, að auðvelt sé að rökstyðja útgjöld á skýran hátt og ekki sé skorast undan þeirri skyldu.

 

Vefjist rökstuðningur fyrir mönnum, fá efasemdaraddir fljótt hljómgrunn, eins og nú má heyra, þegar rætt er um framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og hvort réttmætt sé að verja hundruð milljóna í kosningabaráttu og síðan áfram stórfé og mannafla til að sinna skyldum innan ráðsins, náist markmiðið. Ég hef fært rök fyrir framboðinu og  meðal annars sagt, að tilraunin ein sé mikils virði og jafnist á við það takmark íþróttamanna, að komast í ólympíuliðið. – Menn og þjóðir verða að setja sér  skýr og háleit markmið og stefna að þeim til að ná árangri.

 

Fullyrða má, að Íslendingar hafi búið við velgengni í utanríkismálum, frá því að þeir öðluðust sjálfstæði og hófu gæslu eigin hagsmuna á alþjóðavettvangi. Það tókst að móta og ná víðtækri samstöðu um stefnu í öryggismálum, sem tryggði þjóðinni bestu varnir án fjárhagslegra byrða. Í utanríkisviðskiptum nutum við góðs af spennunni milli austurs og vesturs á tímum kalda stríðsins með því að tengjast viðskiptaböndum í báðar áttir, áður en frelsi varð leiðarljós í alþjóðaviðskiptum undir merkjum hnattvæðingarinnar. Með erlendri fjárfestingu í stóriðju hafa fallvötn verið virkjuð. Þjóðarbúið bar ekki af því óbætanlegan skaða, þótt drægist að skapa nægilegan pólitískan stuðning við aðild að Fríverslunasamtökum Evrópu, EFTA, allt til ársins 1970.

 

Skýr stefna og öflugur pólitískur stuðningur er lykillinn að því, að utanríkisþjónusta og starfsmenn hennar nái þeim árangri, sem að er stefnt. Hið sama á við um framkvæmd utanríkisstefnu og önnur mannanna verk. Sé ekki er um skýra og ótvíræða leiðsögn að ræða, er lítils árangurs að vænta.

 

 

Ef einhver vafi hefði ríkt um stöðu Íslands á tímum kalda stríðsins, hefði það stríð hæglega getað tekið aðra stefnu hér á Norður-Atlantshafi, þar sem spenna í samskiptum austurs og vesturs hélt áfram að vaxa og magnast, allt þar til Sovétríkin og áform þeirra til heimsyfirráða urðu sagnfræðilegt rannsóknarefni.

 

Ekkert fær haggað þeirri sannfæringu minni, að án festu í viðbrögðum Vesturlanda gagnvart útþenslu kommúnismans væri ástandið í Evrópu og veröldinni allri annað nú á tímum en við þekkjum. Til að einfalda hlutina má segja, að það réð að lokum úrslitum, að Ronald Reagan sagði við Mikhail Gorbatsjov við bílinn fyrir utan Höfða, að hann myndi aldrei hætta við geimvarnaráætlunina, hvað sem liði öllum kjarnorkuvopnum.

 

Í kalda stríðinu reyndi allt öðru vísi á íslensku utanríkisþjónustuna en gerir nú á tímum. Þá var ágreiningur milli austurs og vesturs þungamiðja alþjóðamála og íslensk stjórnvöld voru í öðru liðinu, þótt þau vildu stundum leika sóló og vera á gráu svæði. Öllum verulega umdeildum tilraunum til þess lauk um haustið 1978, eftir að fullnaðarsigur hafði náðst í landhelgisdeilunum og til varð vinstri stjórn, sem vildi ekki, að herinn færi heldur yrði þátttaka okkar í vestrænu varnar- og öryggissamstarfi sett í nefnd, Öryggismálanefnd. Benedikt Gröndal, þingmaður, ráðherra og síðar sendiherra, var að mínu viti höfundur að þeirri lausn en ekki Ólafur Ragnar Grímsson eins og haldið var fram í leiðara Morgunblaðsins fyrir nokkru.

 

Hið sérkennilega fyrir Ísland á tímum kalda stríðsins voru hin miklu viðskiptatengsl Íslands og Sovétríkjanna. Sovétmenn sáu okkur fyrir allri olíu og bensíni. Fyrir þetta seldum við þeim fisk og iðnaðarvörur og það var sama á hverju gekk í illindum milli risaveldanna, alltaf hélst þessi viðskiptaþráður okkar yfir til Sovétríkjanna. Hann átti sér mjög öfluga málsvara hér á landi og væri vikið gagnrýnisorðum að þessum viðskiptum töldu sumir áhrifamenn það jaðra við landráð.

 

Ég var í hópi þeirra, sem gagnrýndu viðskiptin. Skoðun mín var, að í skjóli þeirra kæmi Sovétstjórnin ár sinni þannig fyrir borð hér á landi, að hún hefði óeðlilega mikil pólitísk áhrif.  Vegna viðskiptanna væri sendiráð hennar stærra en góðu hófi gegndi og vitað væri, að stór hluti sendiráðsmanna gengi erinda KGB. Auk þess væri Sovétmarkaðurinn svo kröfulítill, að engin fyrirtæki, hvorki í fiskvinnslu  né iðnaði hefðu í raun hag af viðskiptum þar. Þá væri alls ekki lífsnauðsynlegt fyrir Íslendinga að fá olíuvörur frá Sovétríkjunum, þær mætti kaupa af mörgum öðrum þjóðum, til dæmis nágrönnum okkar Norðmönnum eða Bretum, eftir að olía fannst í Norðursjó.

 

Skrif af þessu tagi voru talin af hinu illa. Látið var í veðri vaka, að með þeim væri vegið að þjóðarhagsmunum. Viðmælendur samningamanna Íslands í Moskvu héldu að sér höndum til að mótmæla skrifunum eða heimtuðu lægra verð en ella vegna þeirra. Þegar ég starfaði við ritstjórn Morgunblaðsins, gengu sendinefndir síldarseljenda eða annarra hagsmunaaðila á fund ritstjóra blaðsins, til að hvetja þá til að halda aftur af þessum þjóðhættulegu sjónarmiðum á síðum þess. Eigendur blaðsins létu sig jafnvel málið varða.

 

Líklega er ekki unnt að lýsa andrúmslofti þessara ára og hvernig samskiptum við önnur ríki, einkum kommúnistaríkin, var háttað nema í skáldsögu. Og það hefur einmitt verið gert. Fyrir jól kom út sagan Kleifarvatn eftir Arnald Indriðason og vegna hennar urðu blaðaskrif, þar sem einhverjir fyrrverandi námsmenn í Austur-Þýskalandi báru það af sér, að þeir gætu verið persónur í sögunni!

 

Hin miklu átök um grundvallarþætti íslenskra utanríkismála eru úr sögunni. Við getum þó ekki frekar en aðrar þjóðir gengið að neinu vísu á alþjóðavettvangi og þurfum að ræða stöðu okkar í heiminum af mikilli ábyrgð og leggja hart að okkur til að ná árangri. Enginn skapar þjóð orðspor önnur en hún sjálf og virðingin ræðst af þeirri rækt, sem lögð er við hana.

 

Í dag eru mér ofarlega í huga góð kynni af mörgum forverum ykkar og merku framlagi þeirra í þágu íslenskra hagsmuna.

 

Fyrir rúmum 40 árum hitti ég Thor Thors sendiherra í Washington, þegar ég var í fylgd með föður mínum á ferð hans um Kanada og Bandaríkin, en henni lauk með heimsókn til Lyndons B. Johnsons í Hvíta húsið. Thor lagði með brautryðjendastarfi sínu grunn að góðum samskiptum Íslands og Bandaríkjanna. Hann þekkti allt og alla í Washington. Áhrif hans á mótun og framkvæmd utanríkisstefnunnar voru mikil auk þess sem tengsl hans á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og í Washington voru einstök.

 

Ég las í Morgunblaðinu 15. ágúst, að sagnfræðingurinn heimskunni Niall Ferguson teldi, að Íslendingar ættu frekar að halla sér að Evrópu en Bandaríkjunum, ef við þyrftum að gera að upp á milli Evrópusambandsins og NAFTA. Við ættum annars á hættu að Bandaríkjamenn myndu troða okkur um tær.  Mér þykir ljóst af þessum orðum, að sagnfræðingurinn veit ekki mikið um góða reynslu okkar af samvinnu við Bandaríkjamenn, þótt fróður sé.

 

Fyrstu kynni mín af þeim Agnari Kl. Jónssyni og Pétri Thorsteinssyni tengi ég við allt annað hlutverk utanríkisþjónustunnar en nú á tímum, þegar alþjóðaviðskipti byggjast á fjölþjóðlegum samningum og lögbundnum leikreglum undir ströngu alþjóðlegu eftirliti.

 

Á sjöunda áratugnum háðu Loftleiðir mikla baráttu fyrir réttindum sínum til að bjóða lág fargjöld yfir Norður-Atlantshaf og fljúga frá fleiri áfangastöðum en Lúxemborg til New York. Íslandsvinir í Ósló, þeir Tönnes Andenæs og Kristian Ottosen, sem stjórnuðu Studentsamskipnaden þar og Íslandsvinafélagi, vildu kynna sjónarmið Loftleiða í Ósló og báðu mig sem forystumann í Stúdentaráði Háskóla Íslands að flytja um þau erindi á fundi í Íslandsvinafélaginu, sem haldinn var í háskólanum að viðstöddum samsgönguráðherra Noregs.

 

Ég minnist þess enn með þakklæti, hve mér þótti mikils virði að geta undirbúið mig með því að ræða við Agnar Kl. Jónsson sendiherra í Ósló í skrifstofu hans og hve mikla alúð og vinsemd hann lagði í að leiðbeina mér um alla hluti. Ég dreg ekki í efa, að hann hafi veitt starfsmönnum utanríkisráðuneytisins sambærilega leiðsögn og þar með haft heillavænleg mótandi áhrif á alla starfsemi þjónustunnar.

 

Á námsárum mínum í háskólanum gerðist það einnig, að við Rut vorum í Bonn og heimsóttum þau Magnús Víglund Magnússon sendiherra og Guðrúnu konu hans í Bad Godesberg. Sátum við þar á hlýjum sumardegi í góðu yfirlæti úti á garðsvölum og drukkum kælda hvítvínsbollu með jarðarberjum, þegar Pétur Thorsteinsson, sendiherra í Washington, bar að garði. Hann var á hraðferð til Genfar, þar sem hann átti erindi við Rauða krossinn til að ganga frá skreiðargjöf Íslendinga til samtakanna til bjargar hungruðum í Biafra, en um það hafði tekist samkomulag við Bandaríkjastjórn á 20 ára afmælisfundi NATO í Washington þá um vorið, að hún greiddi fyrir þessa skreið í því skyni að hjálpa Íslendingum í efnahagsþrengingum vegna síldarbrests og verðhruns á mörkuðum.

 

Pétur sat þarna með okkur í nokkra klukkutíma og er mér sú kennslustund þeirra Magnúsar í sögu utanríkisþjónustunnar og starfsháttum hennar ógleymanleg.

 

Það hefði kannski verið nærtækt fyrir mig eftir kynni af þessum ágætu mönnum á námsárum mínum að huga að starfi í utanríkisþjónustunni eftir lagapróf. Úr því varð ekki og verður ekki úr þessu.

 

Á hinn bóginn hef ég síðan átt mikil og góð samskipti við sendiherra, ekki síst þá, sem unnu á vettvangi Atlantshafsbandalagsins á tímum kalda stríðsins.  Þeirra á meðal var Henrik Sv. Björnsson. Í samtali við hann hélt ég fram þeim sjónarmiðum, að við ættum að taka sæti í hermálanefnd bandalagsins, stofna til heræfinga á Íslandi og verða aðilar að mannvirkjasjóði NATO. Hinum varfærna diplómat þótti þetta allt of róttækt, af því að í umræðum heima fyrir mundi þetta grafa undan almennum stuðningi við NATO.

 

Þegar barist var fyrir útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 200 sjómílur og gengið lengra en nokkru sinni fyrr í því að beita diplómatískum aðferðum við að knýja fram hagstæða lausn með því að slíta stjórnmálasambandi við Breta, sá ég, hve mikils virði var fyrir ríkisstjórnina, að geta treyst á yfirburða þekkingu og reynslu Hans G. Andersens sendiherra, sem hafði unnið að útfærslu landhelginnar  allt frá setningu landsgrunnslaganna 1948. Hann var hinn fræðilegi ráðunautur við smíði laganna um leið og hann samdi trúnaðarskýrslu fyrir ríkisstjórnina um það, hvernig staðið skyldi að útfærslunni og lausn deilna vegna hennar.

 

Hörður Helgason var skrifstofustjóri í utanríkisráðuneytinu, þegar ég gegndi því starfi í forsætisráðuneytinu, og minnist ég samskipta okkar sérstaklega vegna baráttu íslenskra og bandarískra stjórnvalda við síendurteknar fullyrðingar um, að Bandaríkjamenn hefðu sett niður kjarnorkuvopn á Íslandi. Á meðan ég starfaði í forsætisráðuneytinu og endranær tókst ég oft á við þennan draug og öðlaðist endanlega fullvissu um, að hann væri ekki til, eftir að við Hörður gengum saman í að afla upplýsinga um málið.

 

Loks minnist ég þess sendiherra, sem er nýlátinn fyrir aldur fram, Hannesar Hafstein, en hann reyndist einstaklega farsæll samningamaður vegna aðildar Íslands að evrópska efnahagssvæðinu og átti ég góð samskipti við hann sem formaður utanríkismálanefndar alþingis á þeim tíma.

 

Allir tengjast þessir ágætu menn í mínum huga atvikum eða málefnum, sem snerta stöðu Íslands og samskipti við aðrar þjóðir. Eins og aðrir sendiherrar þurftu þeir að takast á við úrlausn mála í samræmi við hagsmuni þjóðarinnar á líðandi stundu og innan þeirra marka, sem stjórnmálaleg staða og stefna leyfði á hverjum tíma.

 

Í krafti strategískrar legu landsins gátu íslensk stjórnvöld á þessum tíma knúið á um úrlausn brýnna hagsmunamála af annars konar þunga en eftir að kalda stríðinu lauk. Lyktir þess leystu hins vegar úr læðingi krafta bæði innan lands og utan, sem hafa aukið efnalega hagsæld Íslendinga meira en nokkurn gat grunað og breytt viðhorfi okkar til alþjóðlegs samstarfs á svo róttækan hátt, að kalla má byltingu.

 

Þótt margt hafi breyst er skylda ríkisvaldsins enn hin sama og áður, að tryggja öryggi borgara sinna og skapa þeim svigrúm til orða og athafna í því skyni að auðvelda þeim að auka hagsæld sína.

 

Hvernig tryggjum við öryggið best?

 

Ég er enn sama sinnis og áður, að við gerum það með aðild að NATO og varnarsamningi við Bandaríkin.

 

Inntak NATO-aðildarinnar hefur breyst, bandalagið er í raun óþekkjanlegt frá því sem var á tímum kalda stríðsins. Ég hitti nýlega háttsettan herforingja í aðildarríki NATO, sem spurði beint að því, hvort ég teldi ekki, að bandalagið væri komið að fótum fram vegna þessara breytinga.

 

Ég held raunar að svo sé ekki, en víst er, að hinar pólitísku umræður á vettvangi þess hafa gjörbreyst og skyldur aðildarlandanna einnig, eins og við sjáum best á því, að þau senda herafla til annarra heimsálfa í nafni NATO, sem hefði verið algjörlega óhugsandi áður. Íslendingar hafa gengist undir þessar nýju skyldur með þátttöku í friðargæslu á þann veg, að eftir því er tekið og af mikilli velvild. Ég efast um, að almenningur á Íslandi átti sig á hinu pólitíska gildi þátttöku okkar í friðargæslu meðal þeirra þjóða, sem leggja þar mest af mörkum.

 

Snemma á tíunda áratunum var með störfum sérstakrar nefndar á vegum ríkisstjórnarinnar gengið úr skugga um, hvort hrun Sovétríkjanna kallaði á breytingar á varnarsamningnum við Bandaríkin. Niðurstaðan var skýr, að svo væri ekki og er það enn samdóma álit íslenskra og bandarískra stjórnvalda.

 

Að mínu mati voru mistök að setja tímamörk í samkomulagið við Bandaríkin, sem gert var 1994 um breytt fyrirkomulag í varnarstöðinni á Keflavíkurflugvelli. Þessi tímamörk voru á skjön við hefðir í varnarsamstarfinu og hafa kallað á óþarfa spennu í samskiptunum. Það var ástæðulaust að hverfa frá því að haga fyrirkomulagi varnanna í samræmi við sameiginlegt mat samningsaðila á hverjum tíma.

 

Á tímum kalda stríðsins knúðu Bandaríkjamenn á um endurnýjun og eflingu varnarviðbúnaðar í landinu, við samþykktum sumt en höfnuðum öðru, eins og til dæmis varaflugvelli á norð-austurlandi. Nú viljum við setja ákveðið lágmark varðandi inntak varnarviðbúnaðarins. Viðræðum um málið er ekki lokið, en niðurstaðan í þeim ræðst ekki síst af pólitísku viðhorfi og persónulegu sambandi George W. Bush og Davíðs Oddssonar.

 

Ég árétta hiklaust þá skoðun, að Íslendingum beri að leggja meira af mörkum til að tryggja eigið öryggi og við höfum burði til þess. Loftvernd verður ekki tryggð nema með tilstyrk Bandaríkjanna en við eigum sjálfir að gera meiri ráðstafanir en til þessa í því skyni að efla öryggi á landi og á sjó. Skref hafa verið stigin til þessarar áttar, til dæmis með því að efla sérsveit lögreglunnar.

 

Unnið er að því að endurnýja tækjakost landhelgisgæslunnar og breyta lögum um hana til að laga starfsemi hennar að nýjum kröfum. Danir hafa mikinn áhuga á samstarfi við okkur um gæslu á Norður-Atlantshafi og er sjálfsagt að sameina krafta með þeim eins og frekast er kostur. Landhelgisgæslumenn hafa látið að sér kveða við friðargæslu og haga ber ákvörðunum um tækjakost gæslunnar á þann veg, að hann geti einnig nýst í því skyni og almennt til öryggisgæslu á hafi úti, ef nauðsyn krefur.

 

Alþjóðleg glæpa- og hryðjuverkastarfsemi krefst þess af íslenskum stjórnvöldum, að þau geri ráðstafanir til að tryggja öryggi borgara sinna gegn hættu, sem hefur magnast undanfarin ár og er hin neikvæða hlið alþjóðavæðingarinnar. Samstarf ríkisstjórna í baráttu gegn þessum ófögnuði eykst jafnt og þétt og þar eiga lögregla og leyniþjónustur hlut að máli. Í sendiráðum margra landa starfa nú lögreglumenn til að treysta samstarf við starfsbræður í gistilandinu.

 

Nauðsynlegt er að leggja mat á, hvaða leiðir séu bestar fyrir okkur til að verða sem virkastir í þessu alþjóðlega lögreglusamstarfi. Þar skipta stofnanir á borð við Interpol og Europol vissulega miklu en einnig tvíhliða samskipti við lögregluyfirvöld einstakra ríkja.

 

Með aðild Íslands að Schengen-samstarfinu varð breyting á landamæravörslu okkar auk þess sem stjórnvöld urðu aðilar að sameiginlegu eftirlitskerfi, sem stöðugt er verið að efla. Nú er unnið að því að setja upp gagnagrunn Schengen-ríkjanna um vegabréfsáritanir og áritanaumsóknir og er stefnt að því, að hann verði starfhæfur árið 2007. Í grunninn verða skráð svonefnd lífkenni eða það, sem á ensku er kallað biometrics, það er myndir og fingraför. Á vettvangi Schengen-samstarfsins er einnig unnið að ýmsum hugmyndum um aukið samstarf sendiráða við útgáfu áritana.

 

Meðal Schengen-ríkja hefur tekist samstarf um útgáfu áritana og þannig er

fyrirsvar fyrir Ísland í áritunarmálum nú í um 120 erlendum sendiráðum. Mest reynir á þetta í samstarfi við dönsku utanríkisþjónustuna í Moskvu og Peking. Ég veit, að áhugi er á því, að útgáfa áritana þar verði flutt til íslenskra sendiráða í borgunum. Skynsamlegt fyrsta skref í þá átt er að starfsmenn íslensku utanríkisþjónustunnar fái starfsaðstöðu í dönsku sendiráðunum á viðkomandi stöðum til að öðlast þjálfun og kynnast Schengen-vinnubrögðunum við afgreiðslu einstakra mála. Róttækari breytingar verði hins vegar látnar bíða, þar til eftir lok almennu Schengen- breytinganna árið 2007.

 

Eftirlit með útgáfu vegabréfa er meira en nokkru sinni og gerð þeirra mun breytast á næsta ári. Verið er að hrinda í framkvæmd kröfum um lífkenni  í öllum vegabréfum.

 

Frá því að kalda stríðinu lauk og menn hættu að rökræða um öryggis- og varnarmál á alþingi hafa orðið mestar deilur um aðildina að evrópska efnahagssvæðinu, þegar litið er til utanríkismála.

 

Hlutlausu ríkin í EFTA notuðu tækifærið til að skjótast inn í Evrópusambandið við hrun Sovétríkjanna og hverfa frá samningsferlinu um evrópska efnahagssvæðið sem EFTA-ríki.  Á þeim tíma stóð aðild að sambandinu okkur Íslendingum að sjálfsögðu einnig til boða. Ríkisstjórnin tók hins vegar ákvörðun um að halda sér við evrópska efnahagssvæðið og reyna ekki við bandalagsaðild.  Þetta var hárrétt og farsæl ákvörðun.

 

Tilraun til aðildar að Evrópusambandinu í upphafi síðasta áratugar hefði  misheppnast og við hefðum líklega setið eftir í sömu sporum og Svisslendingar,  það er að segja í EFTA en án samninga við Evrópusambandið. Okkur hefði hins vegar örugglega ekki tekist að ná tvíhliða samningnum við sambandið eins og Svisslendingar hafa gert. Samningsaðstaða okkar er mun verri en þeirra vegna mikilla hagsmuna sambandsins af því að geta flutt varning hindrunarlaust í gegnum Sviss.

 

Nú er ekki lengur deilt um aðild að evrópska efnahagssvæðinu á íslenskum stjórnmálavettvangi. Ef til vill má segja, að stóra ágreiningsmálið í íslenskum utanríkismálum um þessar mundir snúist um það, hvort við eigum að sækja um aðild að Evrópusambandinu eða ekki. Ég segi ef til vill, vegna þess að enginn stjórnmálaflokkur hefur aðild á stefnuskrá sinni. Þá er erfitt er ræða þetta mál á grundvelli skiptingar manna í stjórnmálaflokka, því að innan allra flokka, nema helst meðal vinstri/grænna, eru einhverjir, sem telja aðild skynsamlegan kost, og aðrir, sem eru á móti henni.

 

Allir flokksformenn tóku því fagnandi þegar Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, hreyfði því á sínum tíma, að Evrópumálið yrði sett í nefnd og fyrir rúmu ári var hún skipuð undir formennsku minni.  Nefndin hefur allt kjörtímabilið til ráðstöfunar, en mér finnst líklegt, að hún skili skýrslu um áramótin 2006/07.

 

Nefndin hittist reglulega allan síðastliðinn vetur og fyrir sumarleyfi fór hún í gagnlega ferð til Brussel til viðræðna og öflunar upplýsinga.

 

Til að gera langa sögu stutta og án þess ég segi nokkuð um það, hver verður niðurstaða í störfum nefndarinnar, liggur það jafnskýrt fyrir núna og fyrir áratug, að Íslendingar geta orðið aðilar að Evrópusambandinu, þegar þeir sjálfir kjósa. Ef ósk kæmi héðan um aðild, myndu tímasetningar ráðast af önnum embættismanna innan sambandsins en við hefur bæst síðan fyrir rúmum 10 árum, að Frakkar hafa ákveðið, að þar í landi skuli fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um nýja aðila, hvort sú regla myndi gilda jafnt um Íslendinga og Tyrki, veit ég ekki.

 

Ferillinn er einfaldur og ekki mjög langur, ef Ísland óskar eftir aðild. Hann er sá, að Evrópusambandið leggur fyrir okkur einskonar krossapróf til að kanna, hvort við stöndumst allar kröfur þess. Gerum við það ekki, fáum við einhvern tíma til að fullnægja þessum kröfum. Samningaviðræður snúast einfaldlega um fresti til að fullnægja kröfum Evrópusambandsins. Þær snúast ekki um að breyta neinu, sem sambandið hefur ákveðið hjá sér.

 

Að mínu mati er ekki nauðsynlegt fyrir Íslendinga eða stjórnvöld að þreyta þetta próf til að sanna sig heima fyrir eða í samfélagi þjóðanna. Ég sé einfaldlega ekkert, sem knýr á um, að við göngumst undir þetta próf og tökum síðan á okkur þær skyldur, sem því fylgja, að hafa staðist það,  þær munu einfaldlega draga úr því svigrúmi á alþjóðavettvangi, sem nýst hefur þjóðinni til mikillar hagsældar undanfarin ár.

 

Mér sýnist, að það sé sama hvaða kvarði er notaður, alls staðar stöndum við betur að vígi en meðaltalstölur Evrópusambandsins sýna og raunar betur en flestar aðildarþjóðirnar.

 

Þau rök duga mér ekki, að með aðild að sambandinu séum við að leggja okkar af mörkum til að tryggja frið í Evrópu og binda um sár vegna síðari heimsstyrjaldarinnar. Innan sambandsins ríkir ágreiningur um leiðir til að tryggja heimsfrið um þessar mundir, eins og best sést í ólíkum viðhorfum til Íraksstríðsins. Við höfum eðlilega skipað okkur í sveit með Atlantshafsríkjunum en ekki Frökkum og fylgiríkjum þeirra. Ef við hefðum elt Frakka vegna Íraksátakanna, hefði verið ástæða til að tala um kollsteypu í íslenskum utanríkis- og öryggismálum en ekki vegna þeirrar afstöðu, sem mótuð var í mars 2003.

 

Þau rök duga mér ekki heldur, að Íslendingar verði að ganga í Evrópusambandið vegna þess að utan þess séu íslensk stjórnvöld knúin án nokkurra áhrifa til að kyngja 80% af allri löggjöf sambandsins. Tölur sýna, að hér er aðeins um að ræða um 6,5% af löggjöf sambandsins.  Mér sýnist einnig, að við nýtum alls ekki nægilega vel þau tækifæri, sem samningurinn um evrópska efnahagssvæðið veitir til að hafa áhrif á löggjöf Evrópusambandsins. Þá er langur vegur frá því, að allir innan sambandsins séu sáttir við lýðræðisleg áhrif sín þar. Neikvæð afstaða til sáttmálans um nýja stjórnarskrá Evrópusambandsins endurspeglar öðrum þræði ótta almennings við þróunina til miðstýringar og ákvarðana án skýrs lögmæts umboðs.

 

Það er einfaldlega rangt, að samningurinn um evrópska efnahagssvæðið hafi veikst og ekki sé lengur unnt að treysta á hann í samskiptum okkar við Evrópusambandið. Samningurinn stendur fyllilega fyrir sínu og er traustur grundvöllur fyrir okkur í þessum samskiptum, sem hafa reynst farsæl.

 

Ég geri ekki lítið úr hugsjónum þeirra, sem telja, að með vísan til hugmyndafræðinnar á bakvið Evrópusambandið og vegna sögulegra og menningarlegra tengsla eigi Íslendingar að líta til samstarfs við aðrar þjóðir í gegnum glugga Evrópusambandsins og þess vegna setjast inn í sali þess og njóta þar samvista við aðra.

 

Ég tel hins vegar, að það þurfi meira en hollustu við slíkar hugsjónir, til að réttlæta hin óhjákvæmilegu og hörðu pólitísku átök hér heima fyrir, ef hafin yrði markviss barátta fyrir Evrópusambandsaðild. Átökin yrðu ekki aðeins milli flokka heldur einnig innan þeirra. Engum dettur líklega í hug að efna til slíkra átaka aðeins átakanna vegna – en hvers vegna þá? Ég spyr einfaldlega: Hvaða skýru og brýnu hagsmunir krefjast þess, að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu?

 

Sagði einhver: En Norðmenn kunna að gera það. Gott og vel, vissulega geta Norðmenn gert þriðju atrennu að aðild. Margot Wahlström, varaforseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði hins vegar á vefsíðu sinni eftir heimsókn til Noregs síðastliðinn vetur, að hún sæi enga breytingu á afstöðu Norðmanna, nema Íslendingar tækju ákvörðun um aðild. Þetta minnir helst á svikamyllu, þar sem peðið er einfaldlega fært á milli til að tryggja sér sigur. Gleymum því ekki heldur, að samingurinn um evrópska efnahagssvæðið var gerður, þótt norsk stjórnvöld ætluðu þá, að Noregur yrði aðili að sambandinu – þjóðin hafnaði því hins vegar.

 

 

Góðir áheyrendur!

 

 

Ímynd þjóðar eða ríkis skiptir miklu og orðspor þess með vísan til alþjóðlegs samanburðar um allt milli himins og jarðar. Við Íslendingar þurfum ekki að kvarta undan slíkum samanburði, þar sem við mælumst alls staðar í fremstu röð.

 

Sem menntamálaráðherra kynntist ég því, hve mikils virði og ánægjulegt er að taka þátt í kynningu á íslenskri menningu erlendis með þátttöku frábærra listamanna. Ég tel, að þar sé enn óplægður akur í mörgu tilliti og vil nota þetta tækifæri til að hvetja sendiherra til að nýta sér íslenska listamenn og  menningu eins og frekast er kostur til að auka hróður lands og þjóðar. Þá er framganga góðra íþróttamanna einnig til þess fallin að efla veg þjóðarinnar í huga margra.

 

Við Íslendingar getum með góðum rökum fagnað velgengni við mótun og framkvæmd utanríkisstefnu þjóðarinnar.

 

Við eigum hiklaust að efla utanríkisþjónustu, sem starfar í takt við tímann. Viðskiptaleg umsvif Íslendinga á alþjóðavettvangi eru allt önnur nú en þegar Íslandsvinafélög efndu til funda til stuðnings Loftleiðum eða Bandaríkjamenn keyptu af okkur skreið til að við gæfum Rauða krossinum. Virk þátttaka og hagsmunagæsla á vettvangi alþjóðasamtaka, þjónusta við einstaklega og fyrirtæki þeirra og náin samskipti við Íslendinga, þar sem þeir búa erlendis eða þurfa á aðstoð að halda, eru bestu leiðirnar til að treysta skilning á nauðsyn sendiráða og útgjalda í þeirra þágu.  Á þann veg eru færð sannfærandi og lifandi rök fyrir því, að með öflugri utanríkisþjónustu sé verið að gæta þjóðarhagsmuna í góðri sátt við skattgreiðendur.