7.8.2005

Bréf til Bláskógabyggðar.

Björn Bjarnason,

Háuhlíð 14,

105 Reykjavík.

21. júlí, 2005.

Hr. Sveinn A. Sæland,

oddviti Bláskógabyggðar,

Aratungu,

801 Selfoss.

 

 

Vísað er til bréfs yðar dags. 13. júlí 2005 til Þingvallanefndar. Bréfið hefur ekki verið borið upp í nefndinni og get ég því ekki svarað fyrir hennar hönd, en hins vegar kýs ég að rita yður þetta bréf í mínu nafni í því skyni að bregða ljósi á gang málsins og afstöðu Þingvallanefndar. Viðfangsefnið er ekki þess eðlis, að það leysist á farsælan hátt með því að bera samstarfsaðila röngum sökum og gagnrýna hann á ómálefnalegan hátt. Þetta er því miður gert í greinargerð, sem fylgir bréfi yðar, og sagt er, að samþykkt hafi verið samhljóða í sveitarstjórn Bláskógabyggðar.

 

Sveitarstjórnin semur þessa greinargerð og samþykkir vegna vonbrigða sinna yfir úrskurði umhverfisráðherra um umhverfismat vegna Gjábakkavegar. Úrskurðurinn byggist á skyldu ráðherrans til að bregðast við, ef kært er vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar, sem í því tilviki, sem hér um ræðir er vegur milli Laugardals og Þingvallasveitar, svonefndur Gjábakkavegur.

 

Þingvallanefnd óskaði ekki eftir þessu umhverfismati og nefndin hefur af sinni hálfu tekið af skarið um það, að svonefndur Gjábakkavegur skuli lagður utan þjóðgarðsins og tilkynnt Vegagerð ríkisins það í bréfi 19. apríl 2004. Sú ákvörðun nefndarinnar stendur óhögguð.

 

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar er kunnugt um aðdraganda bréfs nefndarinnar frá 19. apríl 2004.

 

Hinn 17. desember 2002 efndi Þingvallanefnd og þjóðgarðsvörður til fundar með Sveini A. Sæland, oddvita Bláskógabyggðar, og Ragnari Sæ Ragnarssyni sveitarstjóra. Á þeim fundi var rætt um væntanlega endurbyggingu Gjábakkavegar, þótt ekki lægju þá fyrir endanlegar tillögur um veglínu frá vegargerðinni. Í fundargerð segir meðal annars:

 

„Ljóst virðist þó að þær hugmyndir sem uppi hafa verið um legu vegarins gera ráð fyrir honum mun sunnar en núverandi vegur er, en hugmyndir Þingvallanefndar hafa verið á þá leið, að hann fylgi sem mest núverandi vegstæði [þ.e. hinn gamla Gjábakkaveg].“

 

Á fundi Þingvallanefndar 24. febrúar 2004 var lagt fram bréf vegargerðarinnar um lagningu nýs Gjábakkavegar og óskað eftir viðræðum við nefndina um legu vegarins. Í fundargerð segir:

 

„Lögð var fram yfirlitsmynd, sem sýnir tvær tillögur að tengingu vegarins við veg 36, Þingvallaveg, annars vegar línu L-7, á móts við norðurenda Miðfells en hins vegar línu L6 við Gjábakka.

 

Þingvallanefnd telur veglínu L6 gefa betri yfirsýn yfir Þingvallasvæðið en bendir á að endurskoða þurfi tengingu þeirrar veglínu við gamla veginn. Sá vegur er hannaður fyrir 50 km hraða og er hlykkjóttur og mishæðóttur, en sá nýi er hins vegar hannaður fyrir 90 km hraða.

 

Þess skal einnig gætt að nýi vegurinn valdi sem minnstum náttúruspjöllum og raski ekki fornminjum á staðnum svo sem gamla konungsveginum sem er í vegstæði nýja vegarins norðan Gjábakka.

 

Þjóðgarðsverði falið að hafa samband við vegagerðina og skýra frá sjónarmiðum og athugasemdum Þingvallanefndar.“

 

Hinn 29. janúar 2004 efndi Þingvallanefnd til fundar með fulltrúum Bláskógabyggðar þeim Sveini Sæland oddvita, Arinbirni Vilhjálmssyni skipulagsfulltrúa og Margeiri Ingólfssyni ásamt Jóni Helgasyni verkfræðingi frá vegagerðinni. Í fundargerð segir meðal annars   

 

 

„Oddviti Báskógarbyggðar lagði fram bréf til Þingvallanefndar varðandi „Þingvallaþjóðgarð og legu Gjábakkavegar.“

Í því er m.a. nefnd umsókn um að Þingvellir verði samþykktir á heimsminjaskrá UNESCO. Einnig eru tilgreind drög að frumvarpi til laga um verndun Þingvallavatns og vatnasvið þess, sem umhverfisráðherra hefur kynnt sveitarstjórn Bláskógarbyggðar, og drög að frumvarpi til laga um þjóðgarðinn á Þingvöllum sem til stendur að leggja fyrir Alþingi á þessu þingi.

Sveitarstjórn tekur heilshugar undir efni þessara lagasetninga sem innihalda markmið um verndun lífríkis Þingvallavatns, friðun Þingvalla og að viðhalda þar upprunalegu náttúrufari, og lýsir sig reiðbúna til samstarfs um mótun lagasetningarinnar.

 

Í bréfinu er rætt um fyrirhugaða legu Gjábakkavegar og mikilvægi þess að valin verði veglína 12, sem liggur í gegn um Gjábakkaland á 6-7 km kafla. Sú leið er um 3 km styttri en leið 7 sem liggur í landi Gjábakka á 1 km kafla og rúmum 3 km styttri en leið 8 sem liggur utan landamarka Gjábakka.

Sveitarstjórn lýsir sig reiðubúna til að taka höndum saman við Þingvallanefnd um stækkun þjóðgarðsins til austurs og norðurs frá núverandi mörkum, sem hljóti að vera umsókn til UNESCO á heimsminjaskrá til framdráttar.

 

Að lokum er tilgreind nauðsyn þess að ræða vatnsverndarfrumvarpið með tilliti til valdsviðs sveitarfélagsins, Þingvallanefndar og umhverfisráðherra.

 

Formaður Þingvallanefndar sagði nefndina hafa þá skyldu að gæta hagsmuna þjóðgarðsins í samræmi við lög um hann. Þessa skyldu rækti nefndin með ákvörðunum sínum um framkvæmdir innan marka þjóðgarðsins, þar á meðal Gjábakkalands. Nefndin hefði kynnt hugmyndir sínar um stærð þjóðgarðsins og hefðu þær komið fram í frumvarpi forsætisráðherra á alþingi. Umræður um það mál væru annars eðlis en um vegarstæðið. Ef Þingvallanefnd teldi, að hagsmunir þjóðgarðsins krefðust vegar utan Gjábakkalands mundi sú ákvörðun ráða vegarstæðinu. Samkv. lögum um þjóðgarðinn á Þingvöllum frá 1928 væri allt jarðrask og vegalagning og aðrar framkvæmdir í landi Gjábakka háðar samþykki Þingvallanefndar og ætti það við um línu 12 og línu 7. Fulltrúi vegagerðarinnar Jón Helgason var því sammála en upplýsti að upphaflega hefði þeim þó ekki verið það ljóst.

 

Þingvallanefndarmenn lýstu áhyggjum sínum vegna tengingar leiðar 12 við núverandi veg milli Gjábakka og þjónustumiðstöðvarinnar en hann er hlykkjóttur og hannaður fyrir 50 km hraða og getur því orðið slysagildra. Veglínur 7 og 8 koma inn á veginn meðfram austanverðu Þingvallavatni á móts við Miðfell þannig að núverandi aðkoma að þjóðgarðinum að austanverðu helst óbreytt.

 

Rætt var um línu 1 sem er á sama stað og núverandi vegur, og um 6 km styttri en aðrar veglínur. Frá þeirri línu er einstakt útsýni yfir Þingvallasvæðið og því ákjósanlegasta leiðin með tilliti til ferðamennsku. Jón Helgason sagði þá veglínu ekki í myndinni af hálfu vegagerðarinnar þar eð hún uppfyllti ekki þær forsendur sem gefnar eru, að leggja hraðbraut með 90 km hámarkshraða milli Gjábakka og Laugarvatns, en á þeim stað væri einungis hægt að leggja veg fyrir 70 km hámarkshraða. Hann taldi að sá vegur gæti lokast oftar vegna snjóa en vegir sem lægju neðar en fram kom, að um það væru menn sem þekkja svæðið ekki sammála.

 

Formaður greindi frá bréfi sem borist hefur frá UNESCO (ICOMOS) en í því kemur fram ósk um lagningu nýs vegar um Gjábakkaland verði frestað þar til umsókn Þingvalla á heimsminjaskrá hefur verði samþykkt.

 

Töluverðar umræður urðu um veglagninguna og önnur mál er varða samskipti sveitarstjórnar og Þingvallanefndar.

 

Af hálfu Þingvallanefndar var tekið fram, að hér væri um kynningarfund að ræða. Nefndin mundi kanna allar hliðar málsins og lagalega skyldu sína og skýra sveitarstjórn og vegagerð frá niðurstöðu sinni svo fljótt sem verða mætti.“

 

Þingvallanefnd kom saman til fundar 25. mars 2004 og þar var lögð fram greinargerð frá sveitarstjórn Bláskógabyggðar dags. 15. mars 2004, þar sem skorað er á nefndina að taka afstöðu til vegstæðis um Gjábakka. Mælir sveitarstjórn með leið 12, hún sé hagkvæmust og öruggust. Þá segir í fundargerðinni:

 

„Í greinargerðinni kemur fram að lína 7 ( í nýjustu gögnum vegagerðarinnar nefnd lína 8) sem liggur sunnan Gjábakkalands er mun verri og 1,8 km lengri en leið 12 og að leið 12 hafi mestan hljómgrunn meðal heimamanna og vegagerðarinnar.

 

Á almennum fundi sem haldinn var á Laugarvatni 13. nóvember 2003 kom fram að meirihluti íbúa Bláskógabyggðar er fylgjandi veglínu 12 en íbúar í Þingvallasveit voru fylgjandi því að fara leið 8. Á fundi þjóðgarðsvarðar með vegagerðinni fyrir skömmu kom fram að vegagerðin gerir ekki greinarmun á þessum veglínum.

 

Vegagerðin telur það ekki raunhæfan kost að byggja upp núverandi veg og er afstaða Þingvallanefndar því sú að velja skuli veglínu 8.“

 

Hinn 18. apríl 2004 birtist þessi frétt í Morgunblaðinu:

 

„ÞINGVALLANEFND kom saman til fundar á laugardag til að ræða stefnumótun til næstu 20 ára fyrir þjóðgarðinn. Nefndin ræddi einnig um legu nýs Gjábakkavegar milli Laugarvatns og Þingvalla. Það var samhljóða niðurstaða nefndarinnar að vegurinn skyldi vera utan þjóðgarðsins.

 

Sveitarfélögin Bláskógabyggð og Grímsnes- og Grafningshreppur hafa viljað fara svonefnda leið 12 í matsáætlun Vegagerðarinnar, með tengingu við núverandi Þingvallaveg við Gjábakka. Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra og formaður Þingvallanefndar, segir við Morgunblaðið að leið 12 skeri Gjábakkalandið og þar með þjóðgarðinn. Nefndin samþykki ekki þessa leið og því sé líklegt að farin verði leið 7 í tillögum Vegagerðarinnar að matsáætlun. Er hún um 2 km lengri en leið 12 og kemur að Þingvallavegi við Miðfell.

 

Björn segir að Þingvallanefnd sé einhuga í afstöðu sinni og byggist hún á því að ekkert sé gert sem spilli fyrir því að Þingvellir komist inn á heimsminjaskrá. Umræður um það mál séu á viðkvæmu stigi á vettvangi UNESCO og hafi nefndin ráðgast við Margréti Hallgrímsdóttur, þjóðminjavörð og formann þeirrar nefndar, sem stýrir umsóknarferlinu af Íslands hálfu, auk þess sem alþjóðlegir ráðgjafar hafi komið að málinu.

 

Viðunandi fyrir alla aðila

 

Björn segir að leið 7 ætti að vera vel viðunandi fyrir alla aðila. Raunar megi líta á hana sem málamiðlun miðað við þær umræður sem hafi staðið undanfarnar vikur um málið.

 

„Við höfum ekki viljað stofna þessari umsókn hjá UNESCO í hættu og teljum enga ástæðu til þess fyrir tvo kílómetra af vegi sem er greiðfærari og fljótfærari en ef hann færi um þjóðgarðinn,“ segir Björn en Vegagerðinni verður tilkynnt þessi niðurstaða nefndarinnar formlega í dag.

 

„Með þessari niðurstöðu teljum við okkur hafa gengið eins langt til móts við sjónarmið heimamanna og við getum. Við vonum svo sannarlega að deilum um þetta mál sé lokið, það er ekki síður mikið í húfi fyrir heimamenn en aðra að þetta sé allt gert á réttum og skynsamlegum forsendum,“ segir Björn ennfremur.

 

Að sögn Björns tók nefndin enga afstöðu til boðs Bláskógabyggðar og Grímsnes- og Grafningshrepps til ríkisins um makaskipti á Skjaldbreið og Kaldárhöfða. Það mál væri allt annars eðlis og nefndin teldi það ekki tengjast legu Gjábakkavegar.“

 

Hinn 19. apríl 2004 tilkynnti ég Vegagerð ríkisins, eins og áður er sagt, að svonefndur Gjábakkavegur skyldi lagður utan Gjábakkalands. Í bréfinu er ekki nefnt neitt númer á veglínu, enda voru þau orðin mörg og ruglingsleg. Niðurstaða Þingvallanefndar var skýr og ótvríræð: Nýr Gjábakkavegur skyldi lagður utan þjóðgarðsins. Niðurstaðan var kynnt UNESCO og fylgdi Þingvölllum inn á heimsminjaskrána.

 

Í stefnumörkun Þingvallanefndar fyrir árin 2004 til 2024 segir um nýtingu Gjábakkalands:

 

„Þessu svæði verði ekki raskað frekar en orðið er.“

 

*

 

Skipulagsstofnun gekk eftir afstöðu Þingvallanefndar vegna mats á umhverfisáhrifum vegna Gjábakkavegar og hinn 14. september 2004 sendi Sigurður K. Oddsson þjóðgarðsvörður bréf til Þórodds F. Þóroddssonar hjá Skipulagsstofnun, þar sem sagði meðal annars:

 

„Þingvallanefnd hefur frá upphafi talið að uppbygging núverandi vegar (leið 1) falli best að umhverfinu og þeim veglínum sem kynntar hafa verið. Vegurinn er jafnframt söguleg leið og hluti af þjóðgarðsmyndinni frá upphafi.

 

Leið 1 býður einnig upp á tengingar við einstaka útsýnisstaði yfir jarðmyndanir svæðisins, svo sem legu Atlantshafshryggjarins um Þingvelli, hreyfingu jarðskorpufleka heimsálfanna og tugi eldstöðva sem mótað hafa svæðið frá Heklu um Lyngdalsheiði og Hengil, til Skjaldbreiðar og Kálfstinda.

 

Vegagerðin telur uppbyggingu núverandi Gjábakkavegar ekki raunhæfan kost og hefur því ekki tekið hann til umfjöllunar í matsskýrslunni, m.a. af þeirri ástæðu að hann muni ekki uppfylla hönnunarkröfur um 90 km hámarkshraða. Þingvallanefnd fellst því á lagningu vegarins samkv. leið 7.“

 

Í bréfi mínu frá 15. júní 2005 til umhverfisráðuneytis í tilefni af stjórnsýslukærum vegna úrskurðar skipulagsstofnunar á umhverfisáhrifum Gjábakkavegar segir meðal annars:

 

„Þingvallanefnd hefur frá upphafi talið að uppbygging núverandi vegar (leið 1) falli best að umhverfinu og þeim veglínum sem kynntar hafa verið. Vegurinn er jafnframt söguleg leið og hluti af þjóðgarðsmyndinni frá upphafi.

 

Leið 1 býður einnig upp á tengingar við einstaka útsýnisstaði yfir jarðmyndanir svæðisins, svo sem legu Atlantshafshryggjarins um Þingvelli, hreyfingu jarðskorpufleka heimsálfanna og tugi eldstöðva sem mótað hafa svæðið frá Heklu um Lyngdalsheiði og Hengil, til Skjaldbreiðar og Kálfstinda.

 

Um afstöðu nefndarinnar vísast nánar í bréf framkvæmdastjóra Þingvallanefndar til skipulagsstofnunar sem dagsett er 14. september 2004.“

 

*

 

Ég hef hér rakið á eins nákvæman hátt og mér er unnt miðað við þau gögn, sem eru í fórum mínum, afstöðu Þingvallanefndar til nýs Gjábakkavegar. Hún er skýr: Eftir að vegagerðin sagði, að hinn gamli Gjábakkavegur gæti með endurbótum ekki fullnægt kröfum um 90 km hámarkshraða ákvað nefndin, að nýr Gjábakkavegur yrði utan þjóðgarðsins. Síðan hefur nefndin tvisvar brugðist við óskum um afstöðu hennar vegna umhverfismats og í bæði skiptin svarað á sama veg, það er 14. september 2004 og 15. júní 2005. Fyrir utan það sjónarmið, sem fram kemur í þessum bréfum, er nauðsynlegt að árétta þá skoðun, að gamli vegurinn er áfram innan þjóðgarðsins, þótt hann verði ekki gerður að 90 km vegi. Þingvallanefnd hefur lagst gegn því, að nýr vegur verði lagður innan þjóðgarðsins. Með bréfinu 19. apríl var vegagerðinni tilkynnt sú ákvörðun Þingvallanefndar, að nýr vegur yrði utan þjóðgarðsins. Má segja, að með þeirri ákvörðun hafi afskiptum Þingvallanefndar af hinum nýja vegi lokið.

 

*

 

Ég tel nauðsynlegt að rekja framangreint á þennan hátt vegna þess, sem fram kemur í greinargerð sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 13. júlí 2005. Mun ég nú svara einstökum atriðum í greinargerðinni.

 

Sveitarstjórn fullyrðir, að afstaða Þingvallanefndar og Péturs M. Jónassonar hafi haft „úrslitaþýðingu um niðurstöðu“ úrskurðar umhverfisráðherra. Efnislega og orðrétt var afstaða Þingvallanefndar hin sama, þegar hún svaraði umhverfisráðuneytinu og skipulagsstofnun.

 

Þegar framangreind fullyrðing sveitarstjórnar var borin undir Sigríði Önnu Þórðardóttur umhverfisráðherra í hádegisfréttum hljóðvarps ríkisins 15. júlí 2005 svaraði ráðherrann: „Ég tel að það sé bara algjör rangtúlkun og ég vil bara segja út af því að þó að í Þingvallanefnd sitji mætir menn þá hafði umsögn hennar ekki nein úrslitaáhrif í úrskurði umhverfisráðherra. Úrskurðurinn byggir fyrst og fremst á lögum um mat á umhverfisáhrifum og náttúruverndarlögum.“

 

Sveitarstjórn segist gera „alvarlegar athugasemdir við framgöngu“ Þingvallanefndar í þessu máli. Þegar leitað er raka fyrir þessum athugasemdum í greinargerð sveitarstjórnar, sést, að sveitarstjórnin lætur eins og hún hafi ekki vitað um áhuga Þingvallanefndar á því, að gamli Gjábakkavegurinn yrði endurgerður. Nefndin kynnti þann áhuga sinn þó á fundi með oddvita og sveitarstjóra á fundi 17. desember 2002 eins og segir í ofangreindri bókun frá þeim fundi:

 

„Ljóst virðist þó að þær hugmyndir sem uppi hafa verið um legu vegarins gera ráð fyrir honum mun sunnar en núverandi vegur er, en hugmyndir Þingvallanefndar hafa verið á þá leið, að hann fylgi sem mest núverandi vegstæði.“

 

Nefndin kom sjónarmiði sínu um endurbættan núverandi veg einnig á framfæri á fundi með sveitarstjórnarmönnum og fulltrúa vegagerðarinnar á fundi 29. janúar 2004 eins og ofangreind fundargerð frá þeim tíma sýnir.

 

Í ljósi þessa er eftirfarandi athugasemd í greinargerð sveitarstjórnar röng: „Þá hefði nefndinni verið í lófa lagið að koma á framfæri sjónarmiðum sínum um endurbættan núverandi veg.“ Þetta var gert oftar en einu sinni en að fenginni þeirri skoðun vegagerðarinnar, að hann gæti ekki annað 90 km umferð féll nefndin frá óskum sínum um endurbætur á þessum vegi og sagði nýjan Gjábakkaveg eiga að vera utan þjóðgarðsins.

 

Þá er einnig rangt, að fyrst hafi komið fram í umsókn um skráningu Þingvalla á heimsminjaskrá UESCO árið 2003, „vísbendingar um stefnubreytingu nefndarinnar“ gagnvart endurgerð gamla Gjábakkavegarins. Nefndin hafði rætt þetta við sveitarstjórnarmenn 17. desember 2002. Kvörtun sveitarstjórnar um, að hún hafi ekki komið að umsókn um skráningu Þingvalla á heimsminjaskrána er ekki ný á nálinni og fjallaði Þingvallanefnd um hana á fundi sínum 25. mars 2004 eins og skráð er í fundargerð:

 

„Sveitarstjórn hefur verið það opið í öllu umsóknarferlinu að óska eftir viðræðum um málið [þ. e. umsóknina um skráningu], það hefur síður en svo verið unnið fyrir luktum dyrum. Þingvallanefnd hefur ekki stýrt þeirri vinnu en lagt til efni og vinnu eins og aðrir.“

 

Umsóknarferlið allt var í höndum nefndar á vegum menntamálaráðuneytisins undir formennsku Margrétar Hallgrímsdóttur þjóðminjavarðar.

 

Í greinargerð sveitarstjórnar segir: „En sveitarstjórn leit þó ekki svo á að Þingvallanefnd hefði lagst gegn hugmyndum um heilsársveg milli Þingvalla og Laugarvatns.“

 

Í ljósi þess, sem ákveðið hefur verið í Þingvallanefnd um þetta mál og kynnt hefur verið fyrir sveitarstjórn og öðrum, er þessi setning í greinargerðinni markleysa.

 

Sveitarstjórn kvartar undan því og segir „með öllu óþolandi“, að Þingvallanefnd hafi ekki svarað tilmælum umhverfisráðuneytisins um umsögn fyrr en 15. júní 2005. Rétt er að bréf nefndarinnar er dagsett þennan dag en afstaða nefndarinnar lá þegar fyrir hjá skipulagsyfirvöldum hinn 14. september 2004 og var hún einfaldlega áréttuð á formlegan hátt í bréfinu 15. júní 2005, eins og að ofan greinir. Ástæðulaust er að gera því skóna, að tafir á formlegu bréfi Þingvallanefndar hafi ráðið dagsetningu á úrskurði umhverfisráðuneytisins, enda lá það fyrir bréflega af hálfu ráðuneytisins, að það myndi taka sína ákvörðun, hvort sem umsögn Þingvallanefndar bærist eða ekki.  

 

Sveitarstjórn segir um umsögn nefndarinnar: „... þegar hún berst loksins 15. júní er eingöngu um einnar blaðsíðu yfirlýsingu að ræða sem fram kemur að nefndin hafi allan tíman talið að leið 1 myndi falla best að umhverfi sínu auk þess sem formaður nefndarinnar eyðir nokkrum orðum í að tíunda sjálfsögð atriði um mikilfengleika svæðisins.

Framganga nefndarinnar í málinu frá upphafi hefur verið mótsagnakennd og skilaboðin misvísandi. Þessi framganga er að mati sveitarstjórnar með öllu ólíðandi og setur fyrirhugað samkomulag Þingvallanefndar og sveitarfélagsins í uppnám. Eyða verður óvissu um afstöðu nefndarinnar til heilsársvegar á þessum stað og hvort nefndin sé í raun mótfallinn gegnumakstri um Þingvallasigdældina eins og skilja má á viðtölum við Pétur M. Jónasson sem hefur haft mikil áhrif á skoðanir nefndarinnar.“

 

Í hinum tilvitnuðu orðum kemur fram hrapallegur misskilningur í öllu því, sem þar er sagt. 1) Ekki skiptir máli hvort umsögn er ein síða, tvær eða fleiri. Aðalatriði er efni umsagnarinnar. 2) Hvernig getur það verið mótsagnakennt og misvísandi að segja hið sama í bréfi 15. júní 2005 og sagt var í bréfi um sama mál 14. september 2004? 3) Hvaða tilgangi þjónar að nefna fyrirhugað samkomulag sveitarstjórnar og Þingvallanefndar í þessu samhengi? Ekki eru nein rök færð fyrir því. Vill hún ekki að samskiptaleiðir hennar og Þingvallanefndar séu skýrar og ótvíræðar? 4) Pétur M. Jónasson er ekki málsvari Þingvallanefndar. Nefndin er ekki mótfallin akstri um sigdældina, en vegur þar er ekki 90 km vegur heldur 50 km og ekki til þungaflutninga eða flutnings á olíu eða öðrum spilliefnum, sem geta verið hættuleg í þjóðgarði og vegna nálægðar við Þingvallavatn. 5) Þingvallanefnd hefur ákveðið, að nýr Gjábakkavegur verði utan þjóðgarðsins. 6) Þingvallanefnd hefur ekki gert athugasemd við aðalskipulag, þar sem gert er ráð fyrir nýjum Gjábakkavegi utan þjóðgarðsins og hefur sveitarstjórn vitneskju um þá afstöðu nefndarinnar.

 

Í greinargerð sveitarstjórnar segir: „Með nýjustu yfirlýsingum Þingvallanefndar um að hún telji heppilegast að Gjábakkavegur liggi innan þjóðgarðsmarka frá Dímon að Gjábakka lítur sveitarstjórn svo á að yfirlýsing nefndarinnar frá 19. apríl 2004 um að vegurinn skuli liggja utan þjóðgarðsmarka sé fallin úr gildi. Til þessa hefur nefndin ekki lýst sig andvíga heilsársvegi milli Laugarvatns og Þingvalla og því hlýtur heilsársvegur á þessum stað að uppfylla kröfur vegagerðarinnar um uppbyggðan heilsársveg sem hefur einhverja röskun í för með sér.“

 

Sveitarstjórn gefur sér hér ranga forsendu og dregur síðan af henni ályktun, sem er alls ekki í samræmi við ákvörðun Þingvallanefndar. Bréfið frá 15. júní 2005 er ítrekun á fyrri afstöðu Þingvallanefndar, sem leiddi til þeirrar niðurstöðu, að nýr Gjábakkavegur yrði utan þjóðgarðsins.

 

Undir lok greinargerðar sinnar kýs sveitarstjórn Bláskógabyggðar síðan að vekja að nýju upp óskir sínar um svonefnda leið 12 um land Gjábakka og segir: „Sveitarstjórn ákvað að samþykkja ekki þá leið, til að koma til móts við óskir Þingvallanefndar um að vegurinn skyldi vera utan þjóðgarðsmarka. Nú hefur komið fram að Þingvallanefnd gerir ekki athugasemd við, að vegurinn sé uppbyggður innan þjóðgarðsins.

 

Í ljósi þessa vill sveitarstjórn beina þeirri ósk til Þingvallanefndar að leið sú sem kölluð er númer 12 í frumhönnun vegagerðarinnar og liggur að óverulegum hluta innan þjóðgarðsmarka verði hluti að nýrri matsskýrslu.“

 

Enn gefur sveitarstjórn sér ranga forsendu og kemst að niðurstöðu í samræmi við það. Vilji sveitarstjórn á þessum grunni setja þetta mál á byrjunarreit, er það hennar ákvörðun. Ég mun ekki gera að tillögu minni í Þingvallanefnd, að nefndin breyti fyrri ákvörðun sinni í þessu máli. Ég tel niðurstöðu nefndarinnar um vegarstæði í apríl 2004 skynsamlega og málefnalega og í samræmi við þær skyldur nefndarinnar að verja þjóðgarðinn á Þingvöllum. Þar að auki var það eitt af lokaatriðum, sem um var rætt við þá, sem mæltu með því við heimsminjanefnd UNESCO að Þingvellir yrðu á heimsminjaskrá, að ekki yrði lagður nýr vegur um þjóðgarðinn. Þingvallanefnd hét því, að það yrði ekki gert.

 

Eins og ég sagði í upphafi rita ég þetta bréf í eigin nafni en ekki Þingvallanefndar, enda hef ég ekki borið efni þess undir nefndina. Ég mun hins vegar senda afrit af því til meðnefndarmanna minna, svo að þeim sé ljóst, hvaða skoðun ég hef á þessu álitaefni og að hún er óbreytt frá því, að nefndin komst að samhljóða niðurstöðu um málið. Ég sendi umhverfisráðherra og samgönguráðherra einnig afrit af þessu bréfi. Ég kann síðar að birta bréfið á vefsíðu minni, bjorn.is.

 

 

Í þann mund, sem ég er að leggja lokahönd á þetta bréf, berst mér bréf dags. 18. júlí 2005 frá sveitarstjórn Bláskógabyggðar, þar sem hafnað er „alfarið“ drögum að samstarfssamkomulagi milli Þingvallanefndar og sveitarstjórnar, sem ég sendi sveitarstjórninni með bréfi 14. júní 2005 eftir umræður á vettvangi Þingvallanefndar.  Hafi sveitarstjórn ekki áhuga á neinu samkomulagi við Þingvallanefnd eða viðræðum um það efni, er málinu þar með lokið.

 

Ég hef hins vegar talið, að það væri ósk sveitarstjórnar ekki síður en Þingvallanefndar, að settur yrði skriflegur rammi um samstarf þessara aðila og hef ég umboð Þingvallanefndar til viðræðna um slíkt samkomulag, sé eftir þeim óskað. Leit ég á þau drög, sem sveitarstjórn voru send sem fyrsta skrefið í átt til samkomulags en að sjálfsögðu ekki neina úrslitakosti.

 

Ég sé á bréfinu frá 18. júlí 2005, að sveitarstjórn telur drögin að samkomulagi að mörgu leyti stangast á við gildandi lög og reglur, sem sveitarfélögum er falið að starfa eftir. Hvað sem líður vilja sveitarstjórnar til að gera slíkt samkomulag, yrði það til að auðvelda samstarf Þingvallanefndar og hennar, að upplýst yrði um þær tilraunir til lögbrots, sem taldar eru fólgnar í drögunum frá nefndinni.

 Með góðri kveðju,

 Björn Bjarnason

 (sign.)