12.4.1999

Stefnuþing MENNTAR

Stefnuþing MENNTAR,
12. apríl 1999Staða og framtíð grunn- og símenntunarmála fyrir atvinnulífið

Fyrsta stefnuþing MENNTAR ) samstarfsvettvangs atvinnulífs og skóla er mikilvægur viðburður í þróun íslenskra menntamála. Hefur verið ánægjulegt að fylgjast með því, hvernig hvert skrefið hefur verið stigið eftir annað á þeirri braut að efla þetta mikilvæga samstarf. Ýmsir grundvallarþættir hinnar nýju skólastefnu, sem nú er verið að hrinda í framkvæmd á öllum sviðum, verða orðin tóm, ef ekki tekst að ná þeim markmiðum, sem við höfum sett okkur um nána samvinnu atvinnulífs og skóla.

Fyrstu almennu fræðslulögin eru frá árinu 1908 og þau mörkuðu upphaf nýrra tíma í menntunarsögu þjóðarinnar. Mikill og góður árangur hefur náðst undanfarin 90 ár. Á þessum áratug hafa orðið víðtæk umskipti í menntamálum, þau miða ekki síst að því að efla áhuga á hvers kyns hagnýtu starfsnámi allt frá grunnskóla til háskóla. Við horfum til framtíðar og búum okkur undir samkeppni á tímum þegar þekking, hugvit og aðlögunarhæfni fyrirtækja, jafnt sem einstaklinga, varða veginn til framfara og hagsældar. Við náum ekki árangri nema með menntun, rannsóknum og vísindum. Á þetta við um allar greinar atvinnulífsins. Við krefjumst framfara og árangurs og höfnum metnaðarleysi og stöðnun. Í skólasögunni verður aldalokanna minnst, sem upphafs nýrrar sóknar í menntamálum.

Öllum skólastigum hefur nú verið skapaður traustur starfsgrundvöllur með lögum. Fjárframlög til skólastarfs hafa aukist verulega að raungildi á síðustu fjórum árum.

Sprottin er fram ný skólastefna undir kjörorðinu Enn betri skóli. Aldrei fyrr í sögu okkar hafa stjórnvöld mótað stefnu með þessum hætti og ekki hefur heldur fyrr tekist að ná svo víðækri sátt um slíka stefnu. Umræður um skólamál eru með allt öðrum brag en við höfum kynnst í marga áratugi. Það eitt lofar góðu um framhaldið.

Gerð nýrra aðalnámskráa fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla er nær fulllokið en þær taka gildi frá og með næsta skólaári. Samtals tók verkið um 33 mannár eða drjúgan hluta af starfsævi eins manns. Í fyrsta sinn eru námskrár fyrir öll skólastigin þrjú unnar samhliða og má því ætla að þetta fyrirkomulag leiði til meiri samfellu og stígandi í námi barna og unglinga.

Með nýrri aðalnámskrá framhaldsskóla fjölgar námsleiðum auk þess sem áhersla er lögð á styttra starfsnám. Samkvæmt framhaldsskólalögum, sem námskráin byggist á, skiptast námsbrautir framhaldsskóla í starfsnámsbrautir, bóknámsbrautir og listnámsbrautir.

Bóknámsbrautir veita undirbúning til náms í skólum á háskólastigi og eru þær þrjár, þ.e. tungumálabraut, félagsfræðabraut og náttúrufræðabraut. Brautirnar skiptast í kjarna, kjörsvið og frjálst val. Nám á kjörsviði veitir frekari sérhæfingu á viðkomandi braut. Það er skipulagt sem heild, ýmist með samröðun áfanga, sem nemandinn ákveður sjálfur, eða í stórum heildstæðum áföngum með áherslu á fræðileg viðfangsefni. Starfsnám og viðurkennt listnám má meta til kjörsviðs á bóknámsbrautum að uppfylltum skilyrðum, sem skilgreind eru í almennum hluta aðalnámskrár framhaldsskóla. Frjálst val námsgreina gefur nemendum kost á að kynnast list- og fræðasviðum að eigin vali. Þetta fyrirkomulag veitir umtalsverðan sveigjanleika í vali náms á framhaldsskólastigi þar eð það gefur nemendum möguleika á að skipuleggja nám sitt í samræmi við eigin hæfileika, áhugamál og framtíðaráform.

Á starfsnámsbrautum er nám í löggiltum iðngreinum og annað starfsnám. Lögð er áhersla á að auka framboð á starfstengdu námi, hvort sem það veitir lögvernduð réttindi eða ekki, og er sérstaklega hugað að stuttu starfsnámi í tengslum við þarfir vinnumarkaðarins. Til þess að vinna að þessum þætti málsins hafa verið skipuð fjórtán starfsgreinaráð fyrir skilgreinda starfsgreinaflokka. Verksvið starfsgreinaráðanna er mjög víðtækt. Þau þurfa meðal annars að setja fram tillögur sem eru í samræmi við stefnu menntamálaráðuneytisins, auk þess sem þær þurfa að vera í samræmi við óskir og þarfir vinnumarkaðarins á viðkomandi starfssviði.

Menntamálaráðuneytið hefur samið um starfsramma og hvernig staðið skuli að fjárhagslegum stuðningi við öll starfsgreinaráðin, Ráðin eru öll komin vel af stað og er ástæða til að vænta mikils af starfi þeirra. Rétt er að minna á, að í sjö manna starfsgreinaráðum situr aðeins einn fulltrúi frá menntamálaráðuneytinu, sex koma frá atvinnulífinu. Fullyrði ég, að aldrei fyrr hafi verið lögð jafnmikil áhersla á að virkja atvinnulífið til samstarfs um framhaldsskólanám og aldrei fyrr hafi því verið veitt jafnmikil áhrif á mótun innra starfs í skólum. Framlag atvinnulífisins skiptir þannig sköpum. Markmiðið er, að starfsnám í skóla sé í samræmi við þarfir atvinnulífsins fyrir menntað vinnuafl.

Þessi nýbreytni skilar ekki þeim árangri, sem að er stefnt, nema tekið sé mið af áhuga unga fólksins. Til lítils er að leggja á ráðin um nám, sem enginn hefur áhuga á að stunda. Besta leiðin til að laða fólk til starfsnáms er bjóða því laun í samræmi við menntunina. Tryggja verður að menntunin skili sér í launaumslagið. Próf af starfsnámsbrautum verða að njóta viðurkenningar á vinnumarkaði.

Hitt er einnig mikilvægt, að starfsnám jafngildi því ekki að farð sé inn á blindgötu í menntakerfinu. Í nýrri aðalnámskrá fyrir framhaldsskóla er meðal annars snúist gegn þeirri hættu með því að fólk geti í ríkari mæli en hingað til fengið kunnáttu sína metna með stöðuprófum. Í gildandi námskrá er rétturinn til þess að þreyta stöðupróf bundinn all þröngum skilyrðum. Með nýrri námskrá verður rétturinn nánast almennur en nemendur þurfa þó að greiða sannanlegan kostnað vegna prófanna.

Tilgangur hinna nýju stöðuprófa er að gefa viðkomandi færi á að sanna þekkingu sína í tiltekinni grein eða á tilteknu sviði óháð sértækum skilyrðum. Ef nemandinn telur sig búa yfir tiltekinni þekkingu, á hann rétt á að sanna það í stöðuprófi. Með þessum hætti geta nemendur fengið viðurkennda þekkingu og reynslu sem þeir búa yfir og ekki hefur verið aflað með hefðbundnum hætti í skóla og stytt þannig námstíma sinn til lokaprófs. Menntamálaráðuneytið felur framhaldsskólum framkvæmd stöðuprófa.

Ef vel tekst til ættu stöðuprófin að geta auðveldað ýmsum, sem hafa starfað lengi á ákveðnu sviði eða á annan hátt aflað sér þekkingar og færni, að ná sér í formleg réttindi á framhaldsskólastigi á styttri tíma en annars.

Fyrir einstaklinga er menntun æviverk, vilji þeir ekki staðna. Hið sama á við um fyrirtæki. Vilji þau þróast og dafna í samræmi við nýjar og síbreytilegar kröfur, þurfa þau að stuðla að símenntun starfsmanna sinna. Um leið og þetta er sagt skal hitt jafnframt áréttað, að þeir, sem hafa góða almenna menntun, sækjast frekar eftir endurmenntun en hinir.

Í framhaldsskólalögunum eru ákvæði um fullorðinsfræðslumiðstöðvar. Þar er gert ráð fyrir samstarfi skólanna við sveitarfélög, fyrirtæki og launþegafélög um menntamál. Nokkrar slíkar símenntunarmiðstöðvar hafa þegar verið settar á laggirnar eða eru að koma til sögunnar. Er ánægjulegt að sjá, hve mikill áhugi er á því að tengja skóla og byggðarlög þeirra með þessum hætti. Alþingi samþykkti að leggja fé til miðstöðvanna í fyrsta sinn á fjárlögum þessa árs. Er von mín sú, að unnt verði að sýna fram á, að fjármunirnir hafi verið vel nýttir, svo að þessi nýja vídd í skólastarfi festist í sessi. Stefna ráðuneytisins er, að hér sé um samningsbundin verkefni að ræða og unnt sé að meta árangur af hlut skóla í starfi miðstöðvanna.

Ný lög um háskóla eru komin til framkvæmda. Þau hafa nú þegar skapað forsendur fyrir því, að tveir nýir einkareknir háskólar eru komnir til sögunnar, Viðskiptaháskólinn í Reykjavík og Listaháskóli Íslands. en Samvinnuháskólinn í Bifröst var fyrir sem einkaháskóli. Viðskiptaháskólinn býður hagnýtt nám í þágu atvinnulífs. Ég er einnig þeirrar skoðunar, að Listaháskóli Íslands geti orðið góður starfsmenntaskóli, þegar litið er til mikils áhuga ungra Íslendinga á hönnun og hvers kyns skapandi viðfangsefnum, sem auka verðmæti í öllum greinum. Ríkisháskólar geta með auðveldari hætti en áður stofnað til samstarfs við atvinnulífið. Hvarvetna sjá þess merki, að stjórnendur háskóla vilji efla þetta samstarf og skjóta rótum víða um land. Ný háskólalög mæla í fyrsta sinn fyrir um að menn utan háskólanna skuli sitja í háskólaráðum.

Ráðuneyti og skólar eru ekki einungis að fara inn á nýjar samstarfsbrautir til að efla símenntun og endurmenntun. Ný tækni boðar einnig nýja tíma á þessu sviði. Upplýsingatæknin er sífellt að opna nýjar og betri leiðir fyrir fólk til að stunda símenntun. Á UT99, ráðstefnu um upplýsingatækni í skólastarfi, sem menntamálaráðuneytið hélt fyrir skömmu í samvinnu við Skýrslutæknifélag Íslands, kom fram mikill áhugi á því að nýta hina nýju tækni sem mest og best í þágu menntunar. Við Íslendingar stöndum nú þegar mjög framarlega, þegar rætt er um skóla og tæknivæðingu þeirra með tölvum og nettengingum. Jafnframt er útbreiðsla netsins meðal almennings meiri hér á landi en annars staðar í heiminum.

Upplýsingatæknin gerir fólki kleift að stunda fjarnám, oftast óháð stað og stund, jafnt innanlands sem erlendis. Það má segja að Ísland og jafnvel heimurinn allur sé að verða einn menntunarmarkaður. Íslenskt atvinnulíf getur án efa nýtt sér þetta og stuðlað að því að starfsmennirnir stundi fjarnám sem hluta af starfsskyldu sinni. Rannsóknir sýna, að eitt af einkennum íslenska vinnumarkaðarins sé hversu viljugir vinnveitendur eru að fjárfesta í þjálfun og endurmenntun starfsmanna sinna.

Með skýrslu nefndar um símenntun &Símenntun ) afl á nýrri öld 8 hefur verið lagður grunnur að stefnumörkun stjórnvalda á sviði símenntunar. Í stefnunni kemur fram að allir beri ábyrgð á efla símenntun ) stjórnvöld, aðilar vinnumarkaðarins, stofnanir, fyrirtæki en ekki síst einstaklingarnir sjálfir. Í framhaldi af skýrslunni tók ríkisstjórnin ákvörðun um, að símenntun félli undir verksvið og forræði menntamálaráðuneytisins. Skiptir máli, að tekin hefur verið ákvörðun um þetta, því að á stundum hafa skilin verið óljós, þegar rætt er um það, hvort símenntun sé félagslegt eða menntunarlegt úrræði.

Menntamálaráðuneytið hefur sett á laggirnar sérstaka verkefnisstjórn til að hrinda tillögum í símenntunarskýrslunni í framkvæmd. Verkefnisstjórninni hefur meðal annars verið falið að kanna leiðir til að auka upplýsingagjöf um símenntun til almennings og um það hvernig efla eigi náms- og starfsráðgjöf fyrir fullorðna, standa fyrir kynningarfundum og ráðstefnum um símenntunarmál, ræða við fulltrúa háskóla um sveigjanlegra háskólanám fyrir fullorðna, leiða viðræður milli aðila vinnumarkaðarins um aukið samstarf þeirra á milli á sviði símenntunar og leita leiða til að auka samráð og samstarf skóla og atvinnulífs um símenntun.

Að tillögu verkefnisstjórnarinnar hef ég ákveðið að dagur símenntunar verði laugardaginn 28. ágúst nk. Markmiðið með deginum er að vekja athygli á gildi símenntunar. Á einum degi á að leitast við að kynna allt það góða nám, sem er í boði. Jafnframt verður leitast við að hvetja fólk til að taka þátt í námi eða námskeiðum til að efla þekkingu sína og færni í atvinnulífinu eða til að auka persónulegan þroska og lífshamingju. Hliðstæður dagur var haldinn 24. febrúar 1996, á evrópsku ári símenntunar. Sá dagur tókst vel og vona ég að svo verði einnig í ár.

Verkefnisstjórnin leggur til að leitað verði samninga við MENNT um að standa fyrir deginum í umboði menntamálaráðuneytisins. Hef ég fullan hug á að gengið verði til slíkra samninga sé vilji til þess af hálfu forráðamanna MENNTAR. Þá tel ég einnig skynsamlegt, að MENNT taki að sér að sinna CEDEFOP, evrópsku samstarfsverkefni um starfsnám og komi beint að framkvæmd Leonardo-áætlunar Evrópusambandsins.

Góðir áheyrendur!

Við höfum lagt grunn að enn betra skólakerfi. Atvinnulífið hefur ekki brugðist því trausti, sem á það var lagt með nýjum framhaldsskólalögum. Starfsgreinaráðin eru að vinna brautryðjendastarf og skólakerfið býður eftir góðum tillögum þeirra. Af alúð og vandvirkni verður að framkvæma þessar tillögur og höfða til nemenda. Án áhuga unga fólksins næst ekki sá árangur, sem að er stefnt.

Setjum okkur einnig háleit markmið til að efla símenntun og endurmenntun. Með þeim erum við að skipa Íslandi áfram í fremstu röð í samkeppni þjóða, þar sem menntun, rannsóknir og vísindi ráða æ meiru um árangur.

Ég óska MENNT velgengni í mikilvægum störfum.