20.5.2005

Samstarf í þágu almannaheilla.

Landsþing Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Akureyri, 20. maí 2005.

Ég fagna því, að fá tækifæri til að vera með ykkur hér í dag. Hið glæsilega landsþing ykkar og sá viðbúnaður, sem þið hafið hér á Akureyri í tilefni af því er enn einn vitnisburður um hinn mikla kraft, sem býr í Slysavarnafélaginu Landsbjörgu.

Þegar ég stend hér og ávarpa ykkur, fulltrúa hinna mörg þúsund félagsmanna, sem mynda hundrud félagseininga, er þakklæti mér ofarlega í huga – þakklæti fyrir hið mikla og óeigingjarna starf, sem björgunarsveitir vinna um land allt, oft við hinar erfiðustu aðstæður. Þið starfið innan stærstu sjálfboðlaliðasamtaka á Íslandi og getið svo sannarlega verið stolt af því.

Með starfi ykkar aukið þið öryggiskennd allra Íslendinga. Fyrir þetta ómetanlega starf ber að þakka og mér er heiður að fá tækifæri til þess hér í dag við upphaf landsþings ykkar.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið varð ráðuneyti björgunarmála hinn 1. janúar 2004. Við samgönguráðherra rituðum undir samkomulag um flutning verkefna milli ráðuneyta okkar og taldi ég miklu skipta, að björgunarmálin yrðu undir hatti dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til að auðvelda samhæfingu krafta allra, sem að öryggismálum koma. Í þessari nýskipan felast mikil og góð tækifæri og þau eigum við að nýta eins og frekast er kostur.

Segja má, að með breytingunni á verkaskiptingu milli ráðuneyta hafi ríkisvaldið dregið lærdóm af ákvörðun ykkar frá 1999 um að sameina krafta ykkar í einum félagsskap. Reynslan sýnir og sannar, að á sviði leitar og björgunar eins og öðrum vinna margar hendur létt verk.

Mér finnst hafa gengið ótrúlega vel undanfarin misseri að vinna að því að sameina krafta allra höfuðþátttakenda leitar og björgunar undir einu þaki í orðsins fyllstu merkingu.

Ég vísa þar til samstarfsins í Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð. Þar eru nú höfuðstöðvar félags ykkar, Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu, Neyðarlínunnar, fjarskiptamiðstöðvar ríkislögreglustjóra auk vaktstöðvar siglinga og stjórnstöðvar landhelgisgæslunnar.

Ég tel mikils virði að tekið sé mið af þessari samvinnu og starfinu í Skógarhlíð við smíði nýrra laga um leit og björgun. Í umræðum um löggjöf af þeim toga er hætta á því að mínu mati, að við séum of bundin af almannavarnalöggfjöfinni frá upphafi sjöunda áratugarins. Við gerð nýrra laga er nauðsynlegt að taka mið af núverandi aðstæðum og virkja björgunarsveitir sem best til starfa á hættutímum.

Fyrir 40 árum voru stjórnvöld að bregðast við vá vegna hættu af kjarnorkuátökum.  Nú eru allt önnur viðhorf ráðandi við hættumat. Þá var talið best að tryggja öryggi almennings með því að semja áætlanir um kjarnorkuheld byrgi og flutning fólks í þau. Nú erum við að fjárfesta í vörnum gegn snjóflóðum og áætlunum um rýmingu fólks af hættusvæðum vegna eldsumbrota undir jöklum.

Ný lög um almannavarnir, leit og björgun verða að endurspegla mikilvægi samstarfsins í Skógarhlíð. Lögin eiga í senn að vera rammi utan um hin góðu áform, sem þar hafa ræst, og að ýta undir virka þátttöku skipulagðra sjálfboðaliðasveita í öllum aðgerðum.

Samstarfið í Skógarhlíð teygir anga sína um land allt og miðin umhverfis landið. Erlendum gestum, sem í björgunarmiðstöðina koma, finnst mikið  til um samhæfinguna og hvernig hún tengist neyðarnúmerinu 112.  Ég tel einsýnt, að löggjöf um neyðarsímsvörun haldist í hendur við löggjöf um almannavarnir, leit og björgun.

Ábyrgð á sviði almannavarna, leitar og björgunar þarf að vera skýr,  og einnig hvernig skrefið er stigið inn í almannavarnaástand með nauðsynlegum viðvörunum til almennings og útkalli á björgunarsveitum og hjúkrunarliði. Markmiðið með nýjum lögum á að vera, að allir þræðir liggi saman í einn punkt, svo að unnt sé að bregðast við á skjótan og markvissan hátt til bjargar mannslífum.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið efndi fyrir skömmu til málþings til að kynnast viðhorfum þeirra, sem hafa mesta reynslu og þekkingu af leit og björgun. Eftir að hafa hlustað á framsöguerindi og umræður þar, verður mér hugsað til öfugs pýramída.

Þannig dreg ég upp mynd af viðbragðskerfi, sem á að geta sinnt verkefni, hvert svo sem atvikið er, án þess að hoppað sé úr einu stjórn- eða samhæfingarkerfi í annað. Með öðrum orðum, hvort sem maður fótbrotnar á skíðum eða rúta full af farþegum fer á hvolf,  skal brugðist við á sama hátt. Umfang viðbragðanna ræðst af mati á hættunni, án þess að stjórnkerfið breytist.

Slysið er neðsti punktur hins öfuga pýramída en viðbrögðin verða sífellt víðtækari eftir því sem umfang slyssins eða atviksins er meira.

Öflug samhæfingarstöð á borð við þá, sem við eigum nú í Skógarhlíð er lykillinn að stigvaxandi viðbrögðum. Ný löggjöf þarf að taka mið af henni, án þess að fórna þeim styrk, sem felst í staðarþekkingu þeirra, sem láta að sér kveða heima í héraði eða búa sig undir að bregðast við á réttan hátt, ef hætta skapast.

Samhæfingar- eða stjórnkerfi í þessum anda er lítils virði án góðra og öruggra fjarskipta. Að undanförnu hefur markvisst verið unnið að því að auka hlut fjarskiptamiðstöðvar lögreglunnar sem miðstöðvar á sínu sviði og nær hún nú til meira en 90% af íbúum landsins. Þessi fjöldi segir hins vegar ekki alla söguna um landsvæði hins öfluga tetra-kerfis fjarskiptamiðstöðvarinnar.

Ég tel mikilvægt, að gott og náið samstarf sé um þróun gagnkvæmra fjarskipta milli lögreglu og björgunarsveita. Hvor aðili á að nýta þá tækni, sem best fellur að störfum hans, en smíða þarf brýr á milli kerfanna. Ég efast ekki um, að við Íslendingar höfum tæknilega burði til þess.

Vil ég nota þetta tækifæri til að skora á ykkur til samstarfs á þessu sviði. Ég veit, að allir virkir félagar í björgunarsveitum gera sér grein fyrir miklu gildi þess, að fjarskipti séu eins og best verður á kosið.

Ég vil stuðla að nánu samstarfi félags ykkar og stofnana á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Eftir að ríkislögreglustjórinn tók við yfirstjórn almannavarna, hefur embætti hans átt virkara samstarf við ykkur en áður og hér í dag verður ritað undir samkomulag Landshelgisgæslu Íslands og Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

Ég tel að með slíku samstarfi sé stigið heillaskref fyrir sjófarendur og stuðlað að auknu öryggi við strendur landsins. Í því sambandi vil ég minna á, að stórauknum ferðum skemmtiferðaskipa til Íslands og umhverfis landið fylgja auknar skyldur þeirra, sem bera ábyrgð á öryggi á hafinu. Það er óhjákvæmilegt að huga að þessum þætti meira en gert hefur verið, þegar rætt er um íslensk björgunarmál.

Góðir áheyrendur!

Í tilefni af landsþinginu mun ég með undirskrift minni framlengja samning ríkisins og Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Í honum felst, að ríkið leggur fram fjármuni í því skyni að gera félaginu kleift að reka þjálfunar- og fræðslumiðstöð á Gufuskálum, að reka björgunarbáta hringinn í kringum landið og standa að öðru leyti að fjölbreyttu starfi með rekstri björgunarsveita, tækja og skýla.

Með glöðu geði legg ég góðum málstað ykkar lið en að sjálfsögðu er undirskrift mín háð venjulegum fyrirvara um samþykki alþingis við fjárveitingum. 

Fjárhagslegur grundvöllur Slysavarnafélagsins Landsbjargar sækir ekki aðeins styrk sinn til framlaga af fjárlögum. Hann mótast einnig af tekjuöflun með spilakössum. Ég hef nýlega sett reglugerð um spilakassana  og heimilað með henni fjölgun þeirra. Við setningu reglugerðarinnar lagði ég jafnframt áherslu á, að ekki gleymdist að aðstoða þá, sem láta glepjast af spilafíkn

Slysavarnaþátturinn í starfi félags ykkar er ekki síður merkur en leitar- og björgunarþátturinn. Markmið ykkar þar er að koma í veg fyrir hvers konar slys með öllum tiltækum ráðum. Þið viljið í þeim málum eiga samvinnu við alla, sem láta sig slysavarnir varða. Þið fagnið hverjum samherja í baráttunni, því að þið vitið að sigur næst ekki nema allir leggist á eitt.

Þessi góði hugur á að ráða  í öllum okkar störfum og ég vona, að hann muni setja mark sitt á þing ykkar. Ég árna ykkur góðs árangurs hér á Akureyri og hvarvetna, þar sem þið látið að ykkur kveða til að efla öryggiskennd fólks með góðum störfum ykkar.