20.12.2004

Enn um opinbert fé og mannréttindi

Grein í Morgunblaðinu, 20. desember, 2004.

 

Grein mín í Morgunblaðinu hinn 11. desember, Fjárlög, mannréttindi, sannsögli hefur kallað á tvenn viðbrögð á síðum blaðsins, frá Lúðvík Bergvinssyni alþingismanni hinn 17. desmember og Margréti Heinreksdóttur, fv. stjórnarformanni og framkvæmdastjóra Mannréttindaskrifstofu Íslands, hinn 18. desember.

 

Hvorugur greinarhöfundur hnekkir neinu af því, sem fram kom í grein minni, Ég þakka Margréti fyrir að lýsa málavöxtum frá sinni hlið. Hún staðfestir, að aldrei var samið við Mannréttindaskrifstofuna á þann veg, sem fram kom í minnisblaði frá vorinu 1998, einkennt með stöfunum H. Á., það er fangamarki Helga Ágústssonar, þáverandi ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins.

 

Margréti kemur á óvart, að okkur ráðuneytisstjóra dóms- og kirkjumálaráðuneytisins hafi þótt þetta minnisblað vera eins og óskalisti frá Mannréttindaskrifstofunni, þegar okkur var sýnt það fyrir fáeinum vikum. Hvað sem undrun hennar líður, voru viðbrögð okkar á þennan veg.

 

Í grein sinni segir Margrét, að misskilningur um, að Halldór Ásgrímsson hafi áritað þetta minnisblað,  sé frá henni kominn.

 

Samskipti Margrétar við embættismenn utanríkisráðuneytisins þekki ég ekki, og ekki heldur, hvernig samstarfi Mannréttindaskrifstofu við Mannréttindastofnun Háskóla Íslands var háttað.

 

Undir lok greinar sinnar segir Margrét:

 

„Dómsmálaráðherra hefur skýrt skerðingu framlags ráðuneytisins með hinni einhliða uppsögn MRSÍ [Mannréttindaskrifstofu] á samningnum [við Mannréttindastofnun Háskóla Íslands]. Það er óneitanlega athyglisvert, að hann skyldi ekki einu sinni gefa forystu skrifstofunnar færi á því að segja sína hlið á málinu og reyna að fá stofnanirnar til samstarfs á ný. Vissulega hafði MRSÍ borist viðvörun um að hún gæti ekki endalaust treyst á framlög frá ráðuneytinu - bréf þar um var afmælisgjöf dómsmálaráðherra í júní sl. þegar MRSÍ varð 10 ára.“

 

Margrét kýs að hafa það gildishlaðið, að dóms- og kirkjumálaráðuneytið hafi 11. júní 2004 svarað bréfi, sem það fékk frá Mannréttindaskrifstofu og dagsett var 7. júní 2004. Ráðuneytisbréfið var ekki hugsað sem afmælisgjöf heldur svar við erindi. Ef forysta skrifstofunnar hefði viljað, strax að fengnu svarinu, skýra mál sitt fyrir mér, hefði henni verið það í lófa lagið. Skrifstofan óskaði ekki eftir fundi fyrr en í haust, eftir að fjárlagafrumvarp hafði verið lagt fyrir alþingi, og brást ég fljótt við óskinni og efndi til fundarins.

 

Á fundinum var þeirri skoðun lýst af hálfu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, að rangt væri hjá Brynhildi Flóvenz, stjórnarfomanni Mannréttindaskrifstofu, í Morgunblaðinu 19. október 2004, að skrifstofan hefði árið 1998 gert munnlegt samkomulag við utanríkisráðuneytið með fulltingi þáverandi dómsmálaráðherra, að ráðuneyti þeirra myndu veita skrifstofunni fastan rekstrarstyrk. Fyrsta árið skyldi styrkurinn vera sex milljónir króna og síðan hækka jafnt og þétt upp í a.m.k. 12 milljónir. Staðfestir Margrét Heinriksdóttir einmitt í grein sinni, að slíkt samkomulag var aldrei gert.

 

Lúðvík Bergvinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, kýs að færa svar sitt við grein minni í þann búning, að hann sé að verja stjórnmálin fyrir óvönduðum stjórnmálamönnum. Batnandi mönnum er best að lifa en um kjarna málsins bregst þingmanninum bogalistin, þegar hann segir, að ég hafi ekki rökstutt þá fullyrðingu mína, að Lúðvík hafi farið með rangt mál, þegar hann sagði, að fyrir nokkrum árum (1998) hefði Halldór Ásgrímsson ritað minnisblað til ríkisstjórnarinnar, þar sem hann hefði talið, að til þess að tryggja sjálfstæði Mannréttindaskrifstofu Íslands yrðu framlög til hennar að koma beint frá Alþingi.

 

Þetta er rangt hjá Lúðvík af þeirri einföldu ástæðu, að Halldór Ásgrímsson lagði ekkert slíkt minnisblað fyrir ríkisstjórnina, hvorki 1998 né síðar. Telur Lúðvík, að Margrét Heinriksdóttir segi líka rangt frá? Hún staðfestir í grein sinni, að minnisblað um þetta efni fór aldrei fyrir ríkisstjórn og það hafi verið misskilningur hennar, að fangamark Haldórs Ásgrímssonar hafi staðið á blaði, sem gekk á milli hennar og embættismanna í utanríkisráðuneytinu.

 

Ástæðan fyrir því að hætta að eyrnamerkja Mannréttindaskrifstofu framlög á fjárlögum til mannréttinamála er skýr og ótvíræð. Málið komst einfaldlega á byrjunarreit, þegar Mannréttindaskrifstofa rifti einhliða samningi við Mannréttindastofnun og stjórnvöld stóðu frammi fyrir því, að tveir sjálfstæðir aðilar myndu sækjast eftir opinberu fé til að sinna mannréttindamálum.

 

Undir lok greinar sinnar líkir Margrét Heinriksdóttir umræðum um þetta mál við Íraksstríðið, hvorki meira né minna, og í umræðum um það stríð eigi frekar að líta til framtíðar en fortíðar. Ég er innilega sammála henni í því efni, eins og fram kom í grein eftir mig í Morgunblaðinu við hlið greinar Margrétar sl. laugardag.

 

Margrét segir óskandi, að ríkisstjórnin gæti grafið stríðsöxina og hafið viðræður við stjórnir Mannréttindaskrifstofu Íslands og Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands um það, hvernig efla megi starf þeirra hvorrar fyrir sig og samvinnu þeirra í þágu þess málstaðar, sem aðstandendur þeirra hafa ávallt borið fyrir brjósti; það er að efla mannréttindi á þeim grundvelli sem lagt var upp með við stofnun MRSÍ í Almannagjá hinn 17. júní 1994.

 

Að líkja því, sem hér hefur verið lýst, við, að ríkisstjórnin hafi lyft stríðsöxi er ósanngjarnt, svo að vægt sé til orða tekið. Eðli málsins samkvæmt er það ekki hlutverk ríkisstjórnar að leggja á ráðin um störf sjálfstæðra aðila eins og Mannréttindaskrifstofu og Mannréttindastofnunar. Stjórnir þeirra ákveða þar stefnu og starfshætti og einnig, hvort þær óska eftir viðræðum um samstarf við ráðherra eða ráðuneyti.

 

Ég lýk þessari grein á sömu orðum og grein minni 11. desember:

 

Ég vil að lokum lýsa þeirri von minni, að sú fjárveiting til mannréttindamála, sem alþingi hefur með fjárlögum falið dóms- og kirkjumálaráðuneytinu að úthluta, nýtist vel til að efla mannréttindi og skilning á gildi þeirra.