16.12.2004

Hærri skattar og skuldir

Fjárhagsáætlun Reykjavíkur, 2005. Borgarstjórn, 16. desember, 2004. 

Í upphafi máls míns vil ég árétta þá höfuðgagnrýni okkar sjálfstæðismanna á þessa fjárhagsáætlun, að skattahækkunarstefna hennar stangast á við meginmarkmiðin, sem við teljum, að hafa skuli í heiðri í opinberum rekstri.

 

Undanfarin ár hefur verið safnað miklum skuldum í nafni okkar Reykvíkinga af svo miklu ábyrgðarleysi, að með ólíkindum er. Þetta hefur R-listinn gert sigri hrósandi og Dagur B. Eggertsson hefur kallað skuldirnar eftirsóknarverðar. Ég held, að hann hljóti að geta fengið sess í heimsmetabókinni fyrir þá yfirlýsingu. Hún gengur þvert á allt, sem er skynsamlegt – skuldir opinbers aðila í dag jafngilda sköttum á morgun. Þessi morgundagur er runninn upp hér í Reykjavík – R-listinn kemst í Íslandsmetabókina fyrir skattahækkanir sínar!

 

Já, og nýr borgarstjóri, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, gengur fram fyrir skjöldu og segist vera stolt af því að hækka skatta. Í orðunum liggur, að fólkið sé ekkert of gott til að borga meira og meira, af því að R-listinn sé að framkvæma svo stórbrotna hluti fyrir það.

 

Kannski væru umræður um skattahækkanirnar og skuldasöfnunina meiri, ef Reykvíkingar sæju þess einhvers staðar stað til hverra hluta fjármunirnir rynnu.

 

Nú þegar skuldahalinn er alltaf að lengjast á sama tíma og álögur aukast, er ekki unnt að benda á nein afrek R-listans og segja, sjáið, til þessara hluta hafa fjármunir ykkar runnið, hið sorglega er, að erfitt er að átta sig á því, hvert þessir peningar hafa allir farið. Þegar um það er spurt verður fátt um svör.

 

 

Borgarstjóri hefur sagt, að hækka verði útsvarið og fasteignaskattana núna, þar sem ríkið hafi verið að fela sveitarfélögunum ný verkefni. Mér er spurn, hvaða verkefni eru það? Hvaða ný verkefni hefur ríkið falið Reykjavíkurborg núna, sem kalla á þessa hækkun?

 

Ég sé ekki betur en tillaga sé gerð um að lækka fjárveitingu til Félagsþjónustunnar

um rúmar 120 milljónir króna vegna þess að alþingi samþykkti að frumkvæði ríkisstjórnarinnar breytingar á húsnæðismálalögum og felldi niður viðbótarlán, sem hafa valdið hér miklum heilabrotum.

 

Til hvers er borgarstjóri að vísa, þegar hún segir í ræðu sinni um fjárhagsáætlunina á síðasta fundi borgarstjórnar: „Hins vegar hefur Reykjavíkurborg, eins og önnur sveitarfélög verið að taka við nýjum verkefnum og taka á sig auknar skyldur án þess að tekjur hafi komið á móti.“

 

Borgarstjóri mælti þessi orð, þegar hún var að verja hina „borðleggjandi“ ákvörðun R-listann að slá Íslandsmetið í skattahækkunum. Þá sagði hún einnig þessa setningu: „Menn sem af hugmyndafræðilegum ástæðum leggjast gegn útsvarshækkun verða auðvitað að gera grein fyrir því hvaða aðrar leiðir þeir kjósa til að brúa bil milli tekna og gjalda.“

 

Þarna áréttar borgarstjóri, að það sé hugmyndafræðilegur ágreiningur, sem búi að baki ánægju hennar yfir því að geta hækkað álögur á borgarbúa, og andófi okkar andstæðinga þess, að sífellt sé seilst dýpra í vasa skattgreiðenda. Þessi ágreiningur snýst ekki aðeins um skattheimtu heldur ekki síður um það, hvernig haldið er á stjórn opinberra mála. Þetta snýst um annað og í raun miklu meira en viðleitni til að brúa bil milli tekna og gjalda.

 

Borgarstjóri og R-listinn stjórna samkvæmt þeirri vinstri hugsjón, að stjórnmálamenn skuli hafa frjálsar hendur til að ákveða, hvað fólki sé fyrir bestu og síðan skuli fólk bara borga fyrir það.

 

Þegar ég las gögnin að baki fjárhagsáætlunina, leiðarljósin og skorkortin og allt, sem þessu fylgir, var ég að velta því fyrir mér, að það vantaði greinilega eitthvað. Tónninn væri falskur og svo áttaði ég mig á því hvers vegna þetta hljómaði allt frekar illa: Það er engin áhersla lögð á samvinnu við einstaklinga og fyrirtæki þeirra. Hvergi er brugðið upp þeirri mynd, að unnt sé að efla þjónustu við borgarbúa með því að virkja framtak einstaklinganna.

 

Stefnumörkunin á bakvið fjárhagsáætlunina er öll menguð af þeirri hugmyndafræði R-listans, að allt sé best gert undir hatti opinberra aðila. Það eigi sem minnst að treysta á framtak einstaklinganna og helst að kæfa það.

 

Við sjáum merki um þetta í baráttu einkareknu grunnskólanna í Reykjavík fyrir lífi sínu, ég orðaði það einu sinni svo hér í þessum ræðustól, að það væri verið að murka úr einkaskólunum lífið undir forystu R-listans. Ég hef ekki horfið frá þeirri skoðun. Fréttir voru um það á dögunum, að katólska kirkjan væri orðin svo fjárvana vegna reksturs Landakotsskóla, að hún velti því fyrir sér að selja hluta af Landakotstúni til að bjarga fjárhag skólans - og Ísaksskóli berst í bökkum, eins og kunnugt er.

 

Við sjáum merki um óvild í garð einkaframtaksins í framgöngunni gagnvart einkareknu tónlistarskólunum. Þeir eru hornrekur í augum R-listans.

 

Af 95 leikskólum í borginni eru aðeins 18 einkareknir og við vitum, að margir í R-listanum sjá ofsjónum yfir því og vilja einnig brjóta einkaframtakið þar á bak aftur.

 

Háskólastigið, þar sem R-listinn hefur sem betur fer engin ítök, vegna þess að hann skoraðist undan því að koma að rekstri Listaháskóla Íslands, hefur blómstrað og kallað til sín fleiri nemendur en nokkru sinni fyrr, eftir að einkaframtakið var virkjað til samstarfs um rekstur háskóla.

 

Afturhaldssemi R-listans er viðbrugðið í þessu efni, meira að segja bæjarstjórn Húsavíkur, þar sem vinstri/grænir eru í meirihluta, er frjálslyndari í afstöðu sinni til þess, hvaða aðferðum skuli beitt við opinberan rekstur og stjórn en R-listinn. Þannig liggur nú fyrir alþingi nýtt frumvarp frá iðnaðarráðherra þess efnis, að Húsavíkurbæ sé heimilt að stofna einkahlutafélag um rekstur Orkuveitu Húsavíkur er nefnist Orkuveita Húsavíkur ehf.

 

Hér í borgarstjórn Reykjavíkur þótti það voðaverk af hálfu R-listans, þegar á það var minnst, að skynsamlegra væri að reka Orkuveitu Reykjavíkur sem einkahlutafélag en sameignarfélag. Sérstök nefnd á vegum R-listans um orkustefnu Reykjavíkurborgar lagði til að Orkuveitu Reykjavíkur yrði breytt í hlutafélag – en listinn hefur enga burði til þess.

 

Orkuveitu Reykjavíkur er að vísu ekki stjórnað sem sameignarfélagi á ábyrgð kjörinnar stjórnar heldur sem einskonar leyniklúbbi, þar sem stjórnarmenn neyðast til að fara á opinberan vettvang í baráttu fyrir því, að fá eðlilegan aðgang að gögnum, sem varða ábyrgð þeirra á stjórn fyrirtækisins.

 

Afturhaldssemi R-listans, þegar að því kemur að endurbæta opinberan rekstur, birtist hér í auknum útgjöldum vegna meira skrifræðis í nafni þjónustumiðstöðva, sviða og hvað það nú allt heitir, sem verið er enn og aftur að boða við breytingar á stjórnkerfi borgarinnar. Hvers vegna er aldrei minnst á það í neinum af þessum tillögum, að kannski kynnu einhver verkefnanna að vera betur komin í höndum borgaranna sjálfra?

 

Þegar ég kom hingað í borgarstjórnina, var mér meðal annars sýndur sá trúnaður að vera kjörinn í stjórn Aflvaka hf. Ég hugsaði gott til glóðarinnar, þarna væri þó starfað að því með einkaframtakinu að vinna að framfaramálum í þágu borgaranna. Nafnið Aflvaki og formið benti til þess. Ég var þó fljótur að sannfærast um, að Aflvaki ætti enga framtíð fyrir sér og nú hefur hann verið þurrkaður úr bókum Reykjavíkurborgar. Ástæðan fyrir því, að Aflvaki er horfin, er einföld: Þeir, sem starfa samkvæmt hugmyndafræði sífellt hærri skatta og opinberrar íhlutunar, geta einfaldlega ekki rekið jafnlítið fyrirtæki og Aflvaka, hvað þá heldur eitthvað sem stærra er.

 

Fyrir nokkru tókumst við á um það hér í borgarstjórn, hvort eðlilegt væri, að Vélamiðstöðin ehf. væri í bullandi samkeppni við einkarekin fyrirtæki í borginni, þótt hún hefði forskot vegna öruggra viðskipta sem fyrirtæki í eigu borgarinnar. Við afgreiðslu fjárhagsáætlunarinnar er ástæða til að spyrja, hvað líði undirbúningi að sölu Vélamiðstöðvarinnar ehf. Skjót ákvörðun um hana er eina leiðin til að fyrirtækið þrífist áfram, því að undir hugmyndafræðilegri stjórn R-listans heldur það aðeins áfram að rata í ógöngur.

 

Góðir borgarfulltrúar!

 

R-listanum er þó ekki alveg alls varnað í samstarfi við einkaaðila – hann hefur nú einakvætt landnámsbæinn sjálfan, selt hann til að eiga fyrir sýningarumgjörð um hann, eins og sagt er frá í Morgunblaðinu í dag.

 

Fasteignafélagið Stoðir hf. kaupir af Reykjavíkurborg landnámsbæinn í kjallara Aðalstrætis 16, þar sem félagið er að byggja hótel, á 160 milljónir króna. Borgin mun síðan leigja bæinn til 25 ára, þannig að segja má, að Stoðir séu að veita Reykjavíkurborg 25 ára lán í fjárhagsvanda hennar, svo að hún geti sýnt sjálfan landnámsbæinn.. Borgarstjóri telur, að með þessu hafi Reykjavíkurborg  þann mikla ávinning að þurfa ekki að hafa áhyggjur af viðhaldi, eins og hún orðar það í Morgunblaðinu.

 

Með því að slá lán út á landsnámsbæinn er verið að bregðast við vanda, sem við hefur blasað lengi, að kostnaðurinn við þá leið, sem valinn var við þessar framkvæmdir er mikill og R-listinn vildi aldrei viðurkenna hann í raun. En nú er sem sagt búið að tryggja peningana með því að einkavæða landnámsbæinn og slá síðan úr á hann lán.

 

Af þessu tilefni vil ég rifja upp það, sem ég sagði um þetta mál fyrir ári, þegar fjárhagsáætlun þessa árs var til umræðu:

 

„Ég ætla enn og aftur að ítreka andstöðu mína við það, að landnámsbærinn við Aðalstræti sé falinn í hótelkjallara og tel að hundruðum milljóna króna úr borgarsjóði sé illa varið í því skyni. Er það aðeins enn til marks um menningarlegt metnaðarleysi R-listans að verða vitni að framgöngu hans í þessu máli. Með því að loka þessar minjar niður í kjallara er útilokað, að þær komist á heimsminjalista UNESCO. Er líklega einsdæmi á heimsmælikvarða, að borgaryfirvöld ákveði að verja stófé til að útiloka svo merkar minjar frá þessum lista.“

 

 

 

Forseti.

 

Borgarstjóri kaus að einfalda hugmyndafræðilega ágreiningin með því að tengja hann brúarsmíði milli tekna og gjalda – hann snýst um miklu meira en það og því er ekki unnt að draga þá ályktun, að Reykjavíkurborg væri í þeirri skulda- og skattasúpu, sem einkennir þessa fjárhagsáætlun, ef við sjálfstæðismenn hefðum stýrt fjármálum hennar undanfarin ár. Þá er líklegt að staðan væri svipuð og hjá ríkissjóði, þar sem skuldir hafa lækkað svo mjög í góðærinu undanfarið, að vaxtagreiðslur hafa minnkað um 11 milljarði króna – það munar um minna og í ríkisstjórn og alþingi eru menn  að afnema eignaskatta og lækka tekjuskatt á sama tíma og R-listinn hækkar fasteignaskatta og útsvar á Reykvíkinga.

 

Ágreiningurinn hér í borgarstjórn snýst almennt um viðhorfið til þess, hvaða aðferðum skuli beitt við úrlausn mála á opinberum vettvangi – hvort meira tillit sé tekið til þarfa hins opinbera en óska borgarans, hvort meiri áhersla sé lögð á fjárhagslegt svigrúm hins opinbera en borgarans.

 

Tilvísanir borgarstjóra í álit ríkisendurskoðunar á reikningsfærlsu hjá ríkissjóði fegra á engan hátt fjárhagslega stöðu Reykjavíkurborgar, þær tilvísanir breyta því miður engu um það, að hér eru skattar og skuldir að hækka á sama tíma og hið gagnstæða gerist hjá ríkissjóði. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarfulltrúi vakti réttilega máls á því, að hér á þessum vettvangi skyldum við líta á niðurstöðu ársreikninga frekar en frávik frá útkomuspá.

 

Ræða borgarstjóra við fyrri umræðu fjárhagsáætlunarinnar sýnir, að hún boðar stefnubreytingu í tveimur stórverkefnum á sviði skipulagsmála, sem hafa verið ágreiningsefni hér á vettvangi borgarstjórnar og í báðum tilvikum, er niðurstaðan í anda þeirrar stefnu, sem við sjálfstæðismenn höfum boðað.

 

Í fyrsta lagi er greint frá því, að fallið sé frá hugmyndum um höfn á Geldinganesi. Þetta er stórsigur fyrir málstað okkar, sem höfum verið andvíg hafnarmannvirkjum á þessum stað. Skarðið, sem R-listinn hefur látið sprengja í nesið, verður á hinn bóginn ævarandi minnisvarði um virðingarleysi hans fyrir nátttúru- og umhverfisvernd á Geldinganesi.

 

Í öðru lagi er lagt á ráðin um, að hætt verði við að smíða hábrú yfir Kleppsvíkina vegna Sundabrautar. Það er boðað, að í ljósi niðurstöðu Skipulagsstofnunar hafi R-listinn loks séð, að skynsamlegt kunni að vera að velja ódýrari og öruggari leiðina fyrir Sundabraut.

 

Þessar vangaveltur í ræðu borgarstjóra stangast á við heitstrengingar flokksbróður hennar í Samfylkingunni, Stefáns Jóns Hafsteins borgarfulltrúa, um að hábrúin skuli rísa. Er ástæða til að spyrja hann, hvort hann sé sammála því viðhorfi, sem fram kemur um þetta efni í ræðu borgarstjóra.

 

Um leið og ég fagna því, að R-listinn sé að fikra sig inn á skoðanir okkar sjálfstæðismanna varðandi þessi tvö stóru verkefni í skipulagsmálum borgarinnar, harma ég enn og aftur, að hann skuli nálgast þriðja stóra viðfangsefnið, framtíð Reykjavíkurflugvallar á þann veg, sem gert er í ábyrgðarlitlum yfirlýsingum um gildi flugvallarins fyrir Reykjavík og Reykvíkinga.

 

Í því máli finnst engin lausn til frambúðar nema fram fari viðræður um framtíð innanlandsflugs og hlut Reykjavíkur í mun stærra samhengi en R-listinn hefur treyst sér til síðastliðinn 10 ár. Hann hefur í raun siglt flugvallarmálinu í strand með sýndartali og blekkingartillögum auk atkvæðagreiðslunnar frægu, sem reyndist markleysa.

 

Góðir borgarfulltrúar!

 

Borgarstjórinn, sem sat hér við fjárhagsumræður fyrir ári, boðaði stjórn sína á fjármálum borgarinnar undir kjörorðinu ný Reykjavík. Með nýju Reykjavík yrði borgin leiðandi í að skipuleggja þjónustu svo borgarbúar vissu rétt sinn og hvert þeir sæktu hann. Borgarstjóri líkti þjónustu Reykjavíkurborgar við íbúa við þjónustu fyrirtækja við viðskiptavini og sagði orðrétt með leyfi forseta: „Reykjavíkurborg á að reka þjónustuver með símaþjónustu og verður það undirbúið á næsta ári.“ Þá ætti að nota vefinn og loks samhæfðar hverfamiðstöðvar til að stuðla að því að hægt væri

 

Símaverið á að opna í febrúar næstkomandi og þá væntanlega einnig hina nýju Reykjavík.

 

Núverandi borgarstjóri nefndi hina nýju Reykjavík að vísu ekki í ræðu sinni, en var þess í stað með næsta gamaldags málflutning, til dæmis þegar hún kaus enn einu sinni að sækja ap Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni borgarfulltrúa vegna þess trúnaðar, sem honum hefur verið sýndu á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga.

 

Mér finnst dæmalaust og rauna fyrir neðan allar hellur, að borgarstjóri þurfi að grípa til málflutnings af þessum toga og einungis til marks um að hana skorti rök til málefnalegrar umræðum, þegar hún reynir að verja álögur og skuldi Reykjavíkurborgar.

 

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarfulltrúi hefur verið óþreytandi við það undanfarin ár að gæta almennra hagsmuna sveitarfélaganna í landinu og hefur notið til þess óskoraðs stuðnings manna úr öllum flokkum. Það er hins vegar fyrir neðan allar hellur, að vera hér á fundi í borgarstjórn nú og áður, þar sem borgarstjóri og borgarfulltrúar R-listans eru að ráðast á Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson fyrir störf hans fyrir hönd svietarfélaganna. Ég skil hreinlega ekki þetta geðslag, ef menn una því ekki, að borgarfulltrúinn sinni þessu starfi fyrir sveitarfélögin á að ræða það á öðrum vettvangi en hér.

 

Ég tek undir það með Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni borgarfulltrúa, að það er með ólíkindum, að við skulum standa hér og ræða fjárhagsáætlun næsta árs, án þess að í hana hafi verið settir fjármunir vegna nýgerðra kjarasamninga við grunnskólakennara. Áætlunin er lögð hér fram ófullbúin að þessu leyti og er raunar á brauðfótum vegna þessa ágalla. Ég hef áður gagnrýnt hér hvernig að því er staðið að leggja mál fyrir okkur í borgarstjórn við afgreiðslu fjárhagsáætlunar.

 

 Að lokum vil ég minnast á þá staðreynd, að enn erstaðan sú, að Reykvíkingum fjölgar minna en íbúum nágrannasveitarfélaganna.

 

Í greinargerð með frumvarpi því, sem hér er til umræðu segir réttilega, að við hlið launa og annarra útvsarskyldna tekna sé fólksfjölgun önnur meginforsenda spár um skatttekjur borgarsjóðs. Þá segir í greinargerðinni, að Reykvíkingum hafi aðeins fjölgað um 0, 13% 2002 og 0,65% árið 2003, en árin 1997 til 2001 hafi árleg fjölgun verið 1,3%.

 

Þetta er áhyggjuefni þegar  fjárhagslega staðan er jafnveik í skuldugu sveitarfélagi – til að vel takist er nauðsynlegt að fjölga íbúum í Reykjavík í stað þess að standa þannig að málum, að þeim fækkar í samanburði við nágrannabyggðir og þróun í landinu öllu.