1.12.2004

Mannréttindi og heimildir lögreglu.

Grein í Fréttablaðinu, 1. desember, 2004.

 

 

 

Í Fréttablaðinu  hefur oftar en einu sinni komið fram undanfarna daga, að einhver tengsl kunni að vera á milli þess, að dóms- og kirkjumálaráðuneytið ákvað að breyta orðalagi í fjárlagafrumvarpi að því er varðar styrkveitingar til mannréttindamála og orða, sem ég lét falla í ræðu á fundi sýslumanna í Vestmannaeyjum hinn 8. október síðastliðinn um nauðsyn þess, að íslensk löggjöf væri jafnan þannig úr garði gerð, að hér skapaðist ekki skjól fyrir alþjóðlega glæpastarfsemi og hryðjuverkamenn.

 

Spuni er það kallað, þegar á fjölmiðlavettvangi er gengið þannig til verks, að tengd eru saman mál eða ummæli í því skyni að fegra eitthvað eða koma höggi á einhvern. Þegar ég les þessar vangaveltur í fréttum og dálkum Fréttablaðsins, þar sem menn eru annars vegar að saka mig um aðför að þeim, sem hér vilja láta að sér kveða í mannréttindamálum undir merkjum Mannréttindaskrifstofu Íslands, og hins vegar að verið sé að koma hér á fót öryggislögreglu að mínu undirlagi, sé ég skýrt dæmi um spuna í því skyni að gera mig enn tortryggilegri en höfundar þessara kenninga hafa þó talið til þessa.

 

Ef menn vilja hafa það sem sannara reynist í þessu efni, skal þeim bent á eftirfarandi:

 

Orðalaginu í fjárlagafrumfrumvarpinu var breytt vegna þess að Mannréttindaskrifstofa Íslands rifti samningi við Mannréttindastofnun Háskóla Íslands. Var þá ákveðið að hluta þessu fé út sem styrkjum til einstakra verkefna og get ég getið þess að Mannréttindaskrifstofan hefur nú þegar sent dóms- og kirkjumálaráðuneytinu umsókn um slíka styrki.

 

Í ræðu minni hjá sýslumönnum sagði ég: „Alþjóðlegt samstarf í öryggismálum mótast að sjálfsögðu af lögum þeirra ríkja, sem eiga samstarf. Oft hefur verið á það bent, að hér á landi sé ekki löggjöf um starfsemi öryggislögreglu eða leyniþjónustu. Sú spurning verður áleitnari með aukinni alþjóðavæðingu á þessu sviði, hve lengi er unnt að láta undir höfuð leggjast að ræða lagafrumvarp um þetta efni á alþingi.“

 

Úr þessari fjöður hefur nú orðið fleygur fugl, sem ýmsir virðast óttast. Það er ástæðulaus ótti.

 

Í lögreglulögum eru ákvæði um heimildir lögreglu til að gæta öryggis ríkisins. Orð mín snúast um það, hvort setja þurfi sérstök lög um þennan þátt í starfi lögreglunnar. Ég tek dæmi þessu til skýringar: Í frumvarpi til laga um fullnustu refsinga eru í fyrsta sinn sett í íslensk lög tæmandi ákvæði um heimild fangavarða til að beita fanga valdi. Enginn hefur dregið í efa, að fangaverðir hefðu slíka heimild en nú er hún skýrð með tæmandi hætti í lagatexta. Sérstök lög um skyldu og heimild lögreglu til að gæta öryggis ríkisins yrðu sett með sömu formerkjum,  löggjafinn setti þessu viðkvæma verkefni skýran ramma. Með öðrum orðum yrði með lagasetningunni komið til móts við mannréttindasjónarmið, ef litið er á málið í því ljósi.

 

Við Íslendingar komumst ekki hjá því að ræða þennan þátt öryggismálanna frekar en aðrar þjóðir. Vandinn við að stofna til slíkra umræðna hér er sá, að þær fara fljótt út um víðan völl og taka á sig þá spunamynd, sem ég hef gert hér að umtalsefni. Í sjálfu sér er það áhyggjuefni, ef ekki má nálgast viðfangsefni á þann veg, sem ég gerði í ræðu minni hinn 8. október, án þess að úr því verði einhver óskapnaður í meðferð þeirra, sem áreiðanlega hafa ekki lagt það á sig að kynna sér orð mín, en ræðuna er að finna í heild á vefsíðunni bjorn.is.