15.10.2004

Lögreglu- og björgunarstöð á Akureyri

15. október, 2004.

Það er mér mikil ánægja að taka þátt í opnun þessarar glæsilegu stöðvar hér í dag. Ég er sannfærður um, að við stígum í dag mikilvægt skref til aukins öryggis fyrir landsmenn, þó ég voni vissulega, eins og við öll, að ekki muni koma til þess að reyni á stöðina í sínu raunverulega meginhlutverki; að grípa inn í ef eldri systir hennar í Reykjavík verður óstarfhæf. Gert er ráð fyrir þessi stöð hér á Akureyri verði eins konar speglun á vinnuaðstöðu í björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð, vaktstöð Neyðarlínunnar og stjórnstöðvar lögreglu þar.

Tilkoma Neyðarlínunnar, fjarskiptamiðstöðvar lögreglu og síðar björgunarmiðstöðvar í Skógarhlíð hefur aukið öryggi landsmanna. Felst það einkum í því að samhæfing og samvinna öryggis- og björgunaraðila hefur vaxið og styrkst, viðbragðstími hefur styst og viðbragðsáætlanir gerðar og endurskoðaðar og svo mætti lengi áfram telja.

Frekari uppbygging á þessu sviði, svo sem tilkoma þessarar nýju stöðvar, bætir þar enn um betur. En þó við vonum jafnan að ekki reyni á þær ráðstafanir sem við gerum vegna öryggis okkar, þá er jafn mikilvægt eftir sem áður að þær ráðstafanir séu þess eðlis, að þær dugi ef til kastanna kemur. Það er afar brýnt fyrir landsmenn alla, að stöð eins og þessi, búin fullkomnum tækjum og þjálfuðum mönnum, sé til taks ef á þarf að halda. Tækin eru fyrir hendi og við gerum ráð fyrir því, að reglulega verði unnið í stöðinni svo starfsmenn skorti hvorki reynslu né þekkingu. Ég ber fullt traust til þessarar stöðvar og starfsmanna hennar og vænti góðs af þeim mikilvægu störfum sem hér verða unnin.

Góðir áheyrendur.

Ég tel engan vafa á því, að skynsamlega var ráðið þegar ákveðið var að stöð þessi yrði hér á Akureyri. Það er skynsamlegt af landfræðilegum ástæðum, þegar horft er til hugsanlegra náttúruhamfara og veðuraðstæðna, en auk þess er mikilvægt að grunnveitukerfin eru með öllu óháð höfuðborgarsvæðinu.

Þá þykir mér skipta máli, að með starfrækslu stöðvarinnar hér má segja að jafnvægi aukist milli höfuðborgar og landsbyggðar, því að nú verður þekking og reynsla til hér á Akureyri og fullkominn tækjabúnaður stöðvarinnar getur nýst mönnum hér á svæðinu með beinum hætti, svo sem við gerð viðbragðsáætlana. Aðstaða hér og tækjabúnaður skapar að auki tækifæri til að efla og auka samvinnu og samhæfingu milli landssvæða á sviði öryggis- og björgunarmála. Þar fyrir utan nýtist þessi búnaður sem hér er og þjálfun starfsmanna vel fyrir stjórnun og skipulagningu stærri viðburða á Norðurlandi öllu.

Ég færi þakkir öllum þeim sem komið hafa hér að málum; stofnunum, hönnuðum og iðnaðarmönnum, og vona að lengi sjái merki hugvits þeirra og góðs handbragðs. Ég lýsi stöðina opnaða og bið þeim blessunar sem hér munu starfa.