13.10.2004

Mannréttindaskrifstofan og Ögmundur

Morgunblaðið, 13. október, 2004.

Mannréttindaskrifstofa Íslands (MRSÍ) hefur undanfarin ár notið styrks úr ríkissjóði og hefur hann í fjárlögum skipst á tvö ráðuneyti, utanríkisráðuneytið og dóms- og kirkjumálaráðuneytið, 4 milljónir króna frá hvoru ráðuneyti. Hinn 7. júní sl. ritaði MRSÍ dóms- og kirkjumálaráðuneytinu bréf, þar sem farið var fram á að framlög til skrifstofunnar yrðu hækkuð á fjárlögum. Bréfi þessu svaraði ráðuneytið 11. júní og tók þá fram, að í mörg ár hefði ráðuneytið styrkt MRSÍ og Mannréttindastofnun Háskóla Íslands (MHÍ) á grundvelli samnings, sem utanríkisráðuneytið og dóms- og kirkjumálaráðuneytið beittu sér fyrir á sínum tíma. Ekki væri unnt að segja fyrir, hver yrðu framlög til MRSÍ árið 2005, en ekki væri sjálfgefið, að frjáls félagasamtök, sem nytu styrks af opinberu fé, gætu um alla framtíð gengið að þeim fjárframlögum sem vísum.

Með bréfi frá Mannréttindastofnun Háskóla Íslands (MHÍ) dagsettu 16. júní 2004 var dóms- og kirkjumálaráðuneytinu tilkynnt, að fyrrnefndur samningur, sem hafði verið í gildi frá 1. janúar 1999 og tryggði MHÍ hlutdeild í fjárframlagi til MRSÍ á fjárlögum, hefði fallið úr gildi um áramótin 2003/04. Hefði honum verið sagt upp einhliða af MRSÍ og þess vegna hefði MRSÍ hætt að greiða umsamin framlög til MHÍ, þar með missti MHÍ einu tekjur sínar. Þá segir bréfi MHÍ: "að upprunalegar forsendur fyrir opinberum fjárveitingum til MRSÍ séu breyttar og ljóst er að MRSÍ kemur ekki lengur fram fyrir hönd beggja aðila varðandi þessi mál gagnvart ráðuneytinu."

Í ljósi þessa ákvað dóms- og kirkjumálaráðuneytið að breyta orðalagi í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2005 og hætta að eyrnamerkja fjögurra milljón króna framlag til mannréttindamála Mannréttindaskrifstofu Íslands.

Í Morgunblaðinu 12. október ritar Ögmundur Jónasson, formaður þingflokks vinstri/grænna grein um þetta mál, og lætur eins og þessi ráðstöfun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins byggist ama mínum af álitum Mannréttindaskrifstofu Íslands um ýmis löggjafarmálefni. Þessi kenning þingmannsins er gjörsamlega úr lausu lofti gripin. Á bakvið ákvörðun ráðuneytisins eru skýr málefnaleg sjónarmið, auk þess sem Mannréttindaskrifstofu Íslands var ljóst að óvissa ríkti jafnan um fjárlagaliði sem þennan.

Verður að telja miður, að á störf Mannréttindaskrifstofu Íslands sé brugðið því ljósi, sem Ögmundur Jónasson gerir í grein sinni, en af henni má ráða, að afstaða skrifstofunnar til einstakra málefna kunni að ráðast af því, hvaðan hún fær fjárveitingar hverju sinni.