28.8.2004

Þingvellir á heimsminjaskrá

Athöfn á Þingvöllum,28. ágúst, 2004.

 

 

 

 

Um aldir höfum við Íslendingar komið saman hér á Þingvöllum til að ráða ráðum okkar og taka mikilvægar ákvarðanir um eigin hag og framtíð.  Nú erum við hér til heiðurs staðnum sjálfum, til að fagna hinni alþjóðlegu viðurkenningu, sem Þingvellir hafa fengið, sem einstakur staður á jörðinni.  Því til staðfestingar verður merki heimsminjaskrár Sameinuðu þjóðanna afhjúpað hér við þessa athöfn.  Er mér sérstök ánægja að bjóða Francesco Bandarin, yfirmann heimsminjaskrifstofu UNESCO,  velkominn hingað auk allra annarra og vona, að við eigum hér ánægjulega stund saman.

 

Með þátttöku ykkar vill Þingvallanefnd staðfesta formlega og endanlega, að Þingvellir hafa verið samþykktir á Heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þÞjóðanna (UNESCO).  Heimsminjanefnd stofnunarinnar kom saman fyrr á þessu sumri í kínversku borginni Suzhou  og ræddi þar tillögur um nýja staði á heimsminjaskrána. Verður okkur Íslendingum, sem sátum fundinn, ógleymanleg hádegisstundin hinn 2. júlí, þegar röðin kom að Þingvöllum og skráning þeirra var rædd af mikilli vinsemd og virðingu.

 

Í huga okkar Íslendinga hefur aldrei verið neinn efi um rættmæti þess, að Þingvellir eigi heima á skrá um þá staði á jörðinni, sem hafa einstakt gildi fyrir allt mannkyn. Okkur er virðing fyrir Þingvöllum svo í blóð borin. Hitt lá hins vegar ekki í augum uppi, að þannig hefði verið staðið að varðveislu Þingvalla í aldanna rás, að þeir hlytu einróma samþykkt þeirra, sem ákvörðunarvaldið hafa á vettvangi UNESCO.

 

Við skráningu á heimsminjalistann er ekkert sjálfgefið eins og heyra mátti á umræðunum í Suzhou í sumar. Eitt er, að þjóð telji einhvern stað þess verðan að hljóta skráningu, og annað,  að hann komist í gegnum nálaraugað, og aðdragandi  þessarar stundar okkar hér í dag hefur verið langur.

 

Í fyrsta lagi þurfti Ísland að fullgilda og staðfesta aðild að sáttmálanum um heimsminjaskrána, sem er frá árinu 1972, en það var ekki fyrr en árið 1995, sem Ísland gerðist aðili að sáttmálanum.

 

Í öðru lagi þurfti að skapa samstarfs- og samráðsvettvang innan íslenska stjórnkerfisins fyrir sérfræðinga á sviði menningarsögu og náttúruverndar og tóku menntamálaráðuneyti og umhverfisráðuneyti höndum saman um það.

 

Í þriðja lagi samþykkti ríkisstjórnin hinn 4. desember 2001 að senda UNESCO tillögu um tíu staði hér landi, sem hún teldi eiga heima á listanum, sérstaklega var mælt með Þingvöllum og Skaftafelli. Síðan var ákveðið, að í upphafi skyldi áhersla lögð á umsókn fyrir Þingvelli.

 

Þingvallanefnd fól Sigurði K. Oddssyni þjóðgarðsverði og samstarfsfólki hans að vinna að framkvæmd málsins fyrir sína hönd. Menntamálaráðherra skipaði nefnd undir formennsku Margrétar Hallgrímsdóttur þjóðminjavarðar til að undirbúa umsóknina. Ráðgjafafyrirtækið Alta var fengið til sérfræðistarfa með nefndinni og óháðir sérfræðingar lögðu fyrir hönd UNESCO mat á gildi staðarins og hvernig staðið hefði að verndun hans.

 

Umsóknin um Þingvelli var lögð fram í febrúar 2003. Í samræmi við hana var samin stefna fyrir þjóðgarðinn til næstu 20 ára og staðfesti Þingvallanefnd hana hinn 2. júní síðastliðinn.

 

Fyrir hönd Þingvallanefndar vil ég þakka öllu þessu góða fólki einstaklega vel unnið starf, en það hlaut einnig sérstakt hrós á fundi heimsminjanefndarinnar í Suzhou. Jafnframt vil ég þakka öllum öðrum, sem fyrr og síðar hafa lagt þeim málstað lið, að Þingvellir nytu friðunar og verndar.

 

Hér við fræðslumiðstöðina verður nú afhjúpaður skjöldur, þar sem á er ritað á íslensku :

 

„Þingvellir eru á heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) á grundvelli sáttmála um verndun og varðveislu sérstæðra menningar- og náttúruverðmæta heimsins. Með skráningunni er staðfest einstakt menningarlegt gildi Þingvalla sem ber að varðveita fyrir gjörvalla heimsbyggðina.

 

Þingvellir eru friðlýstur helgistaður allra Íslendinga sem þjóðgarður. Þingvellir hafa hlotið viðurkenningu sem heimsminjar fyrir sögulegt menningargildi, sérstæða náttúru og einstaka jarðfræði á flekaskilum Evrópu og Norður-Ameríku. Alþingi á Þingvöllum geymir aldalanga sögu um þinghald. Sagan varpar ljósi á hugmyndir manna á víkingaöld um þjóðfélagsskipan, lög og vald en á Íslandi fylgdist þá að mótun nýs þjóðfélags og blómleg ritmenning. Þingvellir móta sjálfsvitund íslensku þjóðarinnar.“

 

Og á ensku:

 

„Þingvellir has been inscribed upon the World Heritage List of the Convention concerning the Protection of the World Cultural and Natural Heritage. Inscription on this List confirms the exceptional universal value of Þingvellir which deserves protection for the benefit of all humanity.

 

Þingvellir is a protected national park, regarded by Icelanders as the shrine of their nationhood. It has been inscribed on the World Heritage List for its cultural and historical significance, its unique natural environment and its remarkable geology on the boundary of the Eurasian and North American tectonic plates. As the site of Iceland’;s ancient legal and judicial assembly, the Alþing, Þingvellir embodies Viking age concepts of social structure, law and authority. On these values the early settlers of Iceland shaped a new society, accompanied by a remarkable flowering of literary culture. Þingvellir contributes to, and symbolizes, the Icelandic national identity.“

 

Góðir áheyrendur!

 

Ég býð ykkur að nýju velkomin til þessarar athafnar og segi hana setta.