28.6.2004

Vaktstöð siglinga

Ávarp við undirritun samnings í Skógarhlíð 28. júní 2004.

Það er mér fagnaðarefni að vera hér í dag, með þeim góða hópi sem nú fagnar ánægjulegum áfanga.

Ég er þeirrar skoðunar, að fá verkefni geti verið ríkisvaldinu meira aðkallandi en það að gæta öryggis borgara sinna.

Gæta öryggis borgarans, eins og hægt er að gera af skynsamlegu viti, hvort sem það er nú gert gagnvart borgurunum sjálfum - að reyna að hindra að menn vinni öðrum tjón eða fari sjálfum sér að voða - eða þá gagnvart náttúruöflunum sjálfum.

Þó hinar og þessar framfarir geti freistað okkar til að álykta sem svo, að náttúruöflin geri okkur ekki frekari skráveifur, þá væri okkur hollara að minnast þess fremur að náttúran mun lengi telja sig eiga eitt og annað ósagt við okkur, og það því frekar sem við teljum okkur vaxnari upp úr því að líta til hennar.

Í dag fögnum við áfanga sem við höfum náð og gerum okkur vonir um að verði til þess að auka öryggi margra þeirra landa okkar sem heyja lífsbaráttu sína í návígi við náttúruöflin. Í dag fögnum við því samkomulagi sem náðst hefur um starfrækslu vaktstöðvar siglinga.

En góðir áheyrendur, við komum hér saman vegna undirritunar samnings milli Landhelgisgæslunnar, Neyðarlínunnar og Slysavarnafélagsins Landsbjargar annars vegar og Siglingarstofnunnar hins vegar um rekstur og fyrirkomulag vaktstöðvar siglinga, en samningurinn verður einnig staðfestur af mér og samgönguráðherra.

Þá verða hér einnig undirritaðir tveir samningar milli Neyðarlínunnar hf. og Flugfjarskipta ehf. um kaup á fjarskiptabúnaði og rekstrarþjónustu.

Með þessum samningi og framkvæmd þeirra lýkur þeim breytingum á skipulagi vaktþjónustu og fyrirkomulagi leitar- og björgunarmála á sjó, landi og í lofti, sem hófust með uppsetningu vaktstöðvar Neyðarlínunnar hf., stjórnstöðvar lögreglunnar og samræmingastöðvar Almannavarna um leit- og björgun í þessu húsi. Nú bætist hér við vaktstöð siglinga, sem starfslið Landhelgisgæslu og Neyðarlínu munu reka sameiginlega og um leið mun vaktþjónusta sjálfvirku tilkynningarskyldunnar sem rekin hefur verið af Slysavarnafélaginu Landsbjörg frá fjarskiptamiðstöðinni í Gufunesi, Skipafjarskipti sem Landssími Íslands hefur rekið og vaktþjónusta Landhelgisgæslunnar, sem rekin hefur verið frá höfuðstöðvum gæslunnar við Seljaveg flytjast hingað.

Áfram er rekin loftskeytastöð í Vestmannaeyjum í tengslum við miðstöðina hér.

Á því er enginn vafi í mínum huga, að þessar ráðstafnir allar munu auka öryggi og viðbragðshraða og bæta allar aðstæður til björgunar mannslífa í íslenskri efnahagslögsögu.

Við samgönguráðherra urðum ásáttir um það á síðasta ári að vinna að þessari breytingu og í samræmi við það hefur nú verið gerður sá samningur sem við munum í dag staðfesta með undirskrift okkar.

Siglingastofnun mun hafa með höndum eftirlit með rekstri vaktstöðvarinnar og sinna samskiptum við erlend stjórnvöld og alþjóðastofnanir sem láta sig öryggi sæfarenda varða.

Fyrirtæki á vegum Flugmálastjórnar, Flugfjarskipti ehf., mun annast þjónustu á sviði fjarskipta fyrir vaktstöðvarreksturinn, en vaktstöðin verður einnig tengd þeirri fjarskiptaþjónustu sem þegar hefur verið komið á fót fyrir Neyðarlínuna og Fjarskiptamiðstöð lögreglunnar.

Í stuttu máli er því fyrirkomulagið hér í húsinu á þann veg að hér munu starfa þrjár miðstöðvar þ.e. Fjarskiptamiðstöð lögreglu, Neyðarlínan og Vaktstöð siglinga og hér í næsta nágrenni er einnig flugstjórnarmiðstöð Flugmálastjórnar. Þegar vaktstöðvarnar verða varar við atvik sem kallar á samræmdar leitar- og björgunaraðgerðir, verður samræmingarstöð Almannavarna um leit- og björgun virkjuð og mönnuð skv. fyrirfram gerðri áætlun og tekur hún þá við málinu, en vaktstöðvarnar halda áfram sinni reglulegu starfsemi.


Góðir áheyrendur.

Vænn alþingismaður sagði einu sinni um flokksbróður sinn, sem hafist hafði til ráðherratignar, við kannski misjafnan orðstír, að ráðherrann væri seinn til allra ákvarðana, nema þeirra röngu. Slíkt verklag geta starfsmenn vaktstöðvarinnar ekki leyft sér. Þar geta rétt viðbrögð, skjót en þó fumlaus, skilið milli lífs og dauða sjófarandans sem treystir á vaktstöðina.

Ég veit, að allir þeir sem að vaktstöðinni koma, vita vel af ábyrgð sinni og eru ráðnir í því að rísa undir henni.

Það er okkur fagnaðar- og þakkarefni hversu vel hefur tekist til með alla skipulagningu vaktstöðvarinnar og það samkomulag sem náðst hefur.

Ólíkir aðilar, hver um sig þrautreyndur á sínu sviði, Landhelgisgæslan, Neyðarlínan, og björgunarsveitirnar leggja hver um sig reynslu sína og færni til þessa starfs, og allir hafa kostað kapps um að útkoman verði þannig að sem bestur árangur geti náðst í hinu mikilvæga öryggisstarfi. Fyrir það færi ég þeim öllum þakkir mínar.

Þegar svo mætir aðilar, sem svo vel hafa starfað, hver á sínu sviði, efna nú til samstarfs, af jafnræði og fullum heilindum, höfum öll fulla ástæðu til að gera okkur hinar bestu vonir. Ég óska ykkur öllum heilla í ykkar mikilvægu störfum og bið því blessunar.